laugardagur, 5. júlí 2008

Skuggi Skuggason í Skuggasundi. Opið bréf til ríkisstjórnar Íslands

Ég hélt að sá tími myndi aldrei koma að ég þyrfti að fara á mótmælafund til að biðja íslensk stjórnvöld að stilla sig um að ata hendur sínar saklausu blóði. En það átti fyrir mér að liggja að fara í mótmælastöðu upp í Skuggasund, þar sem dómsmálaráðherra hefur skrifstofu. Ég er ekki að spauga. Dómsmálaráðuneyti Íslands stendur við Skuggasund!


Sá úrskurður að flytja úr landi - frá eiginkonu og nýfæddu barni - saklausan mann sem á yfir höfði sér að verða drepinn í heimalandi sínu er ógnvænlegur. Ekki síst vegna þess að huggun mín og margra annarra síðustu hálfa öld hefur verið sú, að þótt Flokkurinn sem mótað hefur íslenskt þjóðfélag víli ekki fyrir sér að tortryggja, uppnefna, njósna um, hefta eða eyðileggja starfsframa þeirra sem þora að andmæla vilja hans séu menn samt ekki í beinni lífshættu. Með orðinu "uppnefna" á ég við það meiðyrði að kalla andstæðinga sína "kommúnista". Aðferð sem reyndist árangursrík í skammvinnu galdrafári McCarthys í Bandaríkjunum.

Nú er svo komið að Flokkurinn virðist ekki lengur víla fyrir sér að senda saklaust fólk í böðulshendur. Úr því að "Lebensraum" er orðið svona takmarkað á Íslandi vil ég gera stjórnvöldum það tilboð að flytja mig til Ítalíu og bjóða mig fram sem gísl í staðinn fyrir Paul Ramses; að hann geti fengið að sjá litla barnið sitt aftur, en ég víki í staðinn úr skugga hinnar helbláu handar.

Nýjasta hugsjón Flokksins er að leynileg lögregla fái "framvirkar rannsóknarheimildir". Sem sé heimildir til að rannsaka manneskjur eftir geðþótta - án þess að grunur liggi fyrir um að þær hafi gerst brotlegar við lög eða hafi lögbrot í hyggju! Ég veit ekki af hverju fólk kaus Flokkinn, en það var ekki til þess arna sem þjóðin veitti Samfylkingunni það tímabundna umboð sem hún hefur.

Ég mótmæli mannhatri og miskunnarleysi í nafni þeirra kynslóða sem að mér standa. Kynslóða sem hafa lifað og dáið frá landnámstíð í trú á frelsi og framtíð þessa lands og allra heimsins barna. Allar komu þær kynslóðir naktar í heiminn og enginn krafði þær um vegabréf til að fá að lifa. Farðu burt, Skuggi Skuggason í Skuggasundi. Farðu burt, helbláa hönd!

Virðingarfyllst,
Þráinn Bertelsson

Þetta bréf verður einnig birt sem bakþanki á baksíðu Fréttablaðsins mánudaginn 7. júlí.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Að hika er sama og tapa

Nú eru daprir dagar hjá Samfylkingunni. Allir sjá að eina glóran upp á framtíðina að gera væri að slíta stjórnarsamstarfinu við Flokkinn - áður en vinstri sinnaðir stuðningsmenn og Evrópusinnar missa þolinmæðina endanlega.


En þar sem formaður Samfylkingarinnar baðar sig í sólinni í Sjarm-el-Sjeik er sú hugsun ógeðfelld að hrekjast af fyrsta farrými utanríkisráðuneytisins aftur í almenning stjórnarandstöðu. Því mun þessi stjórn lafa þar til sósíaldemókratar í Fylkingunni hafa náð völdunum af þessum formanni - sem getur ekki hugsað sér að slíta notalegu stjórnarsamstarfi við Flokkinn og áhugaverðum samtölum við Al-Assad bara til að Steingrímur verði utanríkisráðherra - eða jafnvel Guðni.

Stjórnarslit þýða ekki endilega að boðað verði til nýrra kosninga, heldur aðeins að Flokkurinn myndi nýja ríkisstjórn með lysthafendum og það er nóg framboð á mannskap í ráðherraembætti.

Flokkapólitík snýst ekki um hvað sé þjóðinni fyrir bestu. Í næstu kosningum gæti Samfylkingin unnið stærsta kosningasigur Íslandssögunnar. En kjarkinn vantar til að bíða færis. 

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Einn smokkur á mann!

Í lækningaskyni við fársjúkan fasteignamarkað fá kaupendur niðurfelld stimpilgjöld af sinni fyrstu íbúð frá og með í dag.


Þetta er jafn gáfuleg og árangursrík aðferð og að ráðast gegn útbreiðslu kynsjúkdóma með því að afhenda öllum einn smokk ókeypis.

Sem sagt táknræn aðgerð.