þriðjudagur, 31. mars 2009

Sjálfstæðismenn og Sjálfstæðisflokksmenn

Eitt þeirra ljóna sem stendur í vegi nýrra stjórnmálahreyfinga er “5% reglan” sem svo er nefnd því að hún kveður á um að til að fá sæti á Alþingi þurfi viðkomandi listi að ná að minnsta kosti 5% atkvæða.

 

Þessi regla er sjálfsagt upphaflega rökstudd með því að einhvern þröskuld þurfi til að skillítið fólk og hreinir vitleysingar geti ekki komist fyrirhafnarlítið á þing til að halda fram sérvisku sinni. Raunverulega ástæðan fyrir reglunni er hins vegar sú að fjórflokkurinn lítur utanaðkomandi samkeppni óhýru auga og gerir allt sem í hans valdi stendur til að minnka samkeppni um að bjóða upp á lýðræði í landinu.


Það hefur lengi verið samráð meðal fjórflokksins um að halda lýðræðismarkaðnum í fjórþættum fjötrum fjórflokksins og innbyrðis skilningur milli flokkanna á því að leyfa svonefndu lausafylgi, kannski um 20% af heildarfjölda kjósenda, að rása milli flokka í kosningum.


Ósiðlegt og sennilega líka ólöglegt markaðssamráð hefur líka verið meðal fjórflokksins um að skammta sér skotsilfur úr ríkissjóði, nú á fjórða hundrað milljónir á ári samtals.


Eftirlaunalögin sællar minningar voru enn einn vitnisburðurinn um nána samvinnu flokkanna og samráð í þágu eigin hagsmuna og flokksgæðinga.


Við í Borgarahreyfingunni erum orðinn langþreytt á því flokksræði sem fylgir þessu flokkakerfi.


Við erum valkostur fyrir þá sem hugsa sjálfstætt og vita að stjórnmálaflokkar svíkja, vanrækja, aftúlka og snúa út úr kosningaloforðum strax að kosningum loknum, og hver þeirra um sig tekur eiginn hag framyfir hag þjóðarheildarinnar.


Þessu ætlum við að breyta. Til þess að það megi takast þarf fólk að vita af þessari tilraun okkar, því að nóg er um kjósendur sem þreyst hafa á að hafa sama stjórnmálaflokkinn fyrir áskrifanda að atkvæði sínu ár eftir ár.


Við teljum að þrátt fyrir að við höfum ekki fjármagn til að auglýsa stefnumál okkar muni það spyrjast út að við erum nýr og ferskur valkostur; framhald Búsáhaldabyltingarinnar og þeirra hugsjóna sem þar fengu útrás.


Við álítum að um leið og fólki verður ljóst að við munum komast yfir 5% múrinn muni fylgisstraumurinn til okkar margfaldast. 


Kosningastefnuskrá okkar er á netinu, www.xo.is, kosningaskrifstofa er á Laugavegi 40 - og félagar í hreyfingunni skipta orðið þúsundum svo að vel gengur að setja saman framboðslista í öllum kjördæmum landsins. Allt þetta fyrir enga peninga, sem sýnir að hugsjónir eru ennþá til á Íslandi.


Við heitum á alla sjálfstæða menn og konur á Íslandi að kjósa okkur. Sjálfstæðir eru þeir sem hugsa sjálfstætt og eru ekki í sauðahjörð einhvers fjórflokksins.


Við vonum að allir sjálfstæðismenn, konur og karlar, kjósi okkur og lýðræðið - og reyndar vonum við að Sjálfstæðisflokksmenn sjái að sér í vaxandi mæli og gerist sjálfstæðismenn og greiði okkur atkvæði.


Borgarahreyfingin. X-O. Við eigum okkur sjálf! Stjórnmálaflokkarnir geta átt sig! Hvílum þá um stund! Þjóðin á þing!

Leiðtogar á brókinni

Það er dáldið óhugnanleg tilfinning að tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins skuli hafa smalað saman á þriðja þúsund manns um helgina og látið allan þennan fjölda klappa, stappa, hlæja, æpa og góla í takt við murrið í flokksmaskínunni.


Meira að segja hin gallbeiska vanstillingar- og hatursræða Davíðs Kr. Oddssonar fékk jafndásamlegar undirtektir og ef Milton Friedman hefði mætt á fundinn og breytt fimm dollurum í fimm milljónir dollara og mettað alla fundarmann á staðnum. 


Og Samfylkingarhópurinn upplifði greinilega sjálfan sig í fylkingarbrjósti sósjaldemókratískrar byltingar undir rauðum fánum róttækni og réttlætis og hefði að sögn Ingibjargar Sólrúnar bægt allri vá frá Íslandsströndum ef ekki hefði verið fyrir sinnuleysi íhaldsins um hina stritandi alþýðu.


Landsfundur Vinstri-grænna viku áður einkenndist af gríðarlegri samstöðu um kyrrstöðu og hugmyndaleysi og óbilandi trausti í garð leiðtoga flokksins til tíu ára, Steingríms J. Sigfússonar.


Samnefnari allra þessara funda var leiðtogadýrkun og flokkshollusta. Fyrir utankomandi var eins og þessar samkomur væru til að votta leiðtogum þakkir og tryggð fyrir að leiða þjóðina öllum háska frá til öryggis, réttlætis og stöðugleika sem ekki ætti sér líka á byggðu bóli. Það var ekki eins og þessar skrautsýningar og væmnu ástarjátningar í garð flokkanna og guðdómslegra forystumanna þeirra kæmu fram á tímum þegar íslenska þjóðin berst örvæntingarfull fyrir efnahagslífi sínu og afkomu heimilanna. Það var ekki að merkja að átján þúsund Íslendingar eru án atvinnu á stund þessarar miklu þakkargjörðarhátíðar í þágu flokka og foringja.


Toppurinn og samnefnarinn fyrir sjálfsánægju og sjálfsupphafningu hinna hugmyndasnauðu flokksþinga var svo ræða fyrrnefnds Davíðs Kr. Oddssonar um að hyski og illþýði negli ennþá mannkynslausnara á krossa og muni iðrast þess, enda sé í rauninni allt öðrum að kenna en þeim sem er um að kenna eins og hægt sé að sjá ef maður gúglar nöfnum þeirra!


Þessi hópgeðveiki lagði fjölmiðla undir sig alla helgina og eins og til stóð sáu fjölmiðlar aðeins leiktjöldin, tildrið og prjálið og heyrðu aðeins hin innantómu slagorð. Enginn hafði orð á því að keisararnir væru í hæsta máta fáklæddir og þeir berorðustu augljóslega bullandi manískir ofan í kaupið og ófúsir að taka lyfin sín.


Gegn þessum hópdáleiðslu- og ógeðfelldu ímyndarsmíðaverksmiðjum beinir Borgarahreyfingin spjótum sínum. Við erum hreyfing hugsandi fólks en ekki dáleidd hjarðdýr. Við viljum lýðræði en ekki flokksræði. Við viljum sannleika og heiðarleika. Ekki lúðrablástur, skrum og beiskar pillur. X-O!


mánudagur, 30. mars 2009

Hugrakkir frambjóðendur!

Það verður óborganlega skemmtilegt að bjóða sig fram í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir Borgarahreyfinguna. 

Þar hittir maður á fleti fyrir ýmsa athyglisverða og reynda stjórnmálamenn úr öðrum stjórnmálasamtökum. 

Tökum Flokkinn fyrst. 

Þar fer fyrir listanum Illugi Gunnarsson, alþingismaður, “Sjóður 9” sællar minningar og fyrrum aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar. 

Í öðru sæti kemur svo hinn féglöggi Pétur Blöndal, alþingismaður, “fé án hirðis” sem tók snúninginn á sparisjóðunum.

Í þriðja sæti er baráttumaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, sem aldrei lætur neinn bilbug á sér finna í því hugsjónamáli sínu “að koma brennivíni í búðirnar”.

Og númer fjögur er svar Flokksins við Florence Nightingale sjálf Ásta Möller, alþingismaður, “einkavæðum sjúkdóma og elli”.

Mér finnst það á vissan hátt aðdáunarvert hugrekki hjá þessu fólki að gefa kost á sér til þingsetu á nýjan leik eftir það sem á undan er gengið - og öll þjóðin þekkir og finnur fyrir undir byrðum sínum. Það er mikil bjartsýni að halda að þjóðin sé strax búin að gleyma þeim hörmungum sem Flokkurinn hefur leitt yfir hana.

Kosturinn við þetta framboð er að nú er tækifæri fyrir kjósendur að þakka þessu fólki leiðsögn og liðveislu og beina atkvæðum sínum til Borgarahreyfingarinnar sem hefur hvorki svikið né féflett, einn né neinn og hafði engin afskipti af “Sjóði 9” og hvað þá heldur því “fé án hirðis” sem Pétur Blöndal hafði áhyggjur af að yrði úti í blindhríð frjálshyggjubrjálseminnar.

“Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá,” sögðu Silli & Valdi í gamla daga en það mun koma á daginn að töluvert er farið að slá í þessa ávexti Flokksins. 

Þeir ávextir sem eitt sinn voru lokkandi eru ekki lystugir lengur! Sjóður 9, fé án hirðis, brennivín í búðirnar!

Landsfundir á Klapplandi

Halda mætti að stuðningsmenn tveggja stærstu stjórnmálaflokka okkar væru fæddir og uppaldir á Klapplandi. Drjúgur hluti nýafstaðinna landsfunda þessara flokka fór í að fundarmenn klöppuðu saman lófunum, fast og innilega og lengi, þegar gamlir og nýir leiðtogar ávörpuðu óbreytta fundarmenn.

Gott klapplið hefur notið mikils álits í stjórnmálum og má nefna að á dögum Rómarveldis var sérþjálfað klapplið flutt inn frá Alexandríu, en þar á bæ þótti sem menn hefðu náð hámarki í þeirri list að klappa saman lófunum.

Stjórnmál í hinni fornu Rómaborg þóttu frumstæð á margan hátt og var til þess tekið þegar frægur leiðtogi greip til þess ráðs á leika á strengleik sinn meðan borgin stóð í ljósum logum.

Minni sögum en af taumlausri leiðtogadýrkun og lófaklappi fer þó af endurskoðun þeirrar stefnu eða stefnuleysis sem olli hruni efnahagslífs á Íslandi, og afsökunarbeiðnir fyrir að hafa sofið á vaktinni eða siglt ranga stefnu beindust ekki til þjóðarinnar sem sýpur seyðið af mistökum flokkanna heldur báðu fráfarandi formenn flokka sína fyrst og fremst afsökunar á að hafa komið þeim í bobba.

Blind flokkshollusta, gagnrýnislaus fagnaðarlæti og sannfæring um að hópurinn skipti meira máli en aðrir hlutar heildarinnar flokkast undir hjarðhegðun, eins og hún er dapurlegust í ofsatrúarsöfnuðum, íþróttafélögum eða pólitískum öfgahópum.

Miðað við lófatak og ofsafenginn fögnuð félaga á landsfundum Flokksins og Samfylkingarinnar verður ekki annað séð en klappliðið sé hæstánægt með bæði stefnuna og flokkinn sinn - án nokkurrar tengingar við þá sorglegu arfleið sem flokkar þessir skildu eftir sig þegar þeir hrökkluðust úr síðustu ríkisstjórn.

Gefum þeim sem ekki geta lært af mistökum sínum gott klapp!!

Klapp, klapp, klapp, klapp, klapp og húrra!

Það gerir ekkert til. Borgarahreyfingin, www.xo.is, er komin á vettvang og ætlar að nota hendurnar til að taka til eftir þessa veruleikafirrtu söfnuði - ekki til að klappa þeim né klappa fyrir þeim.

sunnudagur, 29. mars 2009

X-O! Stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar - þjóðin á þing!


Hér á eftir fylgir stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar. 

Ekki löng lesning en hvetjandi og vekur bjartsýni um að því fari fjarri að allir sem nú bjóða fram til þings séu samdauna og gjörspilltir:


“Réttlæti  —  siðferði — jafnrétti

GRIPIÐ VERÐI ÞEGAR Í STAÐ TIL NEYÐARRÁÐSTAFANA Í ÞÁGU HEIMILA OG FYRIRTÆKJA

1. Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2–3% og afborgunum af húsnæðislánum megi fresta um tvö ár með lengingu lána. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði afnumin.

2. Leitað verði leiða út úr myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða, ef þess þarf, einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

3. Boðin verði víðtæk aðstoð við atvinnulausa um allt land með það að markmiði að aðstoða þá í að nýta atvinnuleysið sem tækifæri.

4. Skuldsett fyrirtæki verði boðin til sölu og tilboðum aðeins tekið ef ásættanlegt verð fæst. Annars verði starfsfólkinu leyft að taka yfir fyrirtæki. Skuldir eigenda verði ekki felldar niður sjálfkrafa en veita má hagstæð lán eða breyta skuldum lífvænlegra fyrirtækja í hlutafé í eigu ríkisins frekar en að afskrifa skuldir.

5. Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fái ekki að taka yfir stjórn á  landinu.

6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar.  Samhliða því verði gefið loforð um að 2% af VLF Íslands renni til þróunaraðstoðar á ári í tíu ár til að sýna góðan vilja Íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.

LANDSMENN SEMJI SJÁLFIR SÍNA EIGIN STJÓRNARSKRÁ

1. Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess. Sama skal gilda um þingrof.

2. Bera skal alla samninga sem framselja vald undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

3. Rofin verði öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims.

4. Viðurkenna skal þau sjálfsögðu mannréttindi að vægi atkvæða í alþingiskosningum verði jafnt, sbr. 1. gr. Mannréttindayfirlýsingar S. Þ., enda sé það í samræmi við hugmyndir um aukið vægi þjóðaratkvæðisgreiðslu um einstök mál. Það er augljóst að ekki gengur að láta suma landsmenn hafa meira vægi en aðra í þjóðaratkvæðagreiðslu.

5. Fjöldi þingmanna miðist við fjölda á kjörskrá og verði hlutfallið 1/4000. Það er í samræmi við algengt hlutfall hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við. Þetta myndi þýða örlitla fækkun þingmanna frá því sem nú er en hægfara fjölgun í framtíðinni með vaxandi fólksfjölda.

6. Kjördæmaskipan verði endurskoðuð og kjördæmum á suðvesturhorninu fækkað úr þremur í eitt.

7. Tryggð verði skipting valdsins milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi.

8. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins gegni embætti í mesta lagi í átta ár eða tvö kjörtímabil samfellt.

9. Fyrstu málsgrein 76. greinar stjórnarskrárinnar verði breytt til samræmis við   Mannréttindayfirlýsingu S. Þ. um réttinn til lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan. 76. gr. verði á þessa leið eftir breytingu: „Öllum skal tryggður réttur til grunnlífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Grunnlífskjör teljast vera nauðsynleg næring, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.“ Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

10. Allar náttúruauðlindir verði í þjóðareigu og óheimilt að framselja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt.

TRÚVERÐUG RANNSÓKN Á ÍSLENSKA EFNAHAGSHRUNINU FARI AF STAÐ UNDIR STJÓRN ÓHÁÐRA ERLENDRA SÉRFRÆÐINGA OG FARI FRAM FYRIR OPNUM TJÖLDUM. FRYSTA SKAL EIGNIR GRUNAÐRA AUÐMANNA STRAX MEÐAN Á RANNSÓKN STENDUR

1. Tafarlaust verði sett í gang opinber rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga á hruni íslenska efnahagskerfisins.  Samhliða því verði sett lög sem leyfa ógildingu allra fjármálagerninga undanfarinna tveggja ára, þ.m.t. gerninga skilanefnda bankanna, og í undantekningartilfellum lengra aftur í tímann ef sýnt þykir að um óeðlilega gjörninga hafi verið að ræða.

LÖGFEST VERÐI FAGLEG, GEGNSÆ OG RÉTTLÁT STJÓRNSÝSLA

1. Ráðningar og skipanir í embætti og þ.a.l. uppsagnarfrestur allra embættismanna sé í samræmi við það sem almennt gerist hjá stjórnendum á vinnumarkaði. Nánari útfærsla verður gerð í samráði við Kjararáð.

2. Tiltekinn minnihluti þingmanna geti boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.

3. Hæfi umsækjenda um störf hæstaréttar- og héraðsdómara verði metið af hlutlausri fagnefnd skipaðri af Alþingi eftir tilnefningu Hæstaréttar.  Ráðherra beri að velja dómara úr hópi þeirra sem fagnefndin telur hæfasta.

4. Ráðið verði í stöður innan stjórnsýslunnar á faglegum forsendum.

5. Fastanefndir þingsins verði efldar. Nefndarfundir verði almennt haldnir í heyranda hljóði. Gerð verði krafa um að fastanefndir afgreiði öll mál og skili niðurstöðu innan ákveðins tíma.

6. Settar verði siðarreglur fyrir alþingismenn, ráðherra og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins og til þess ætlast að þeir m.a. geri grein fyrir öllum eignum og skuldum, stjórnarsetu í fyrirtækjum og upplýsi jafnharðan um allar breytingar á þessu sviði. Þingmenn, ráðherrar og embættismenn beri ábyrgð á gjörðum sínum.

LÝÐRÆÐISUMBÆTUR STRAX

1. Stjórnlagaþing fólksins í haust

2. Persónukjör í alþingiskosningum

3. Afnema 5% þröskuldinn

4. Þjóðaratkvæðagreiðslur

5. Ný framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og sama stuðning og aðrir stjórnmálaflokkar

BORGARAHREYFINGIN LEGGUR SIG NIÐUR OG HÆTTIR STÖRFUM ÞEGAR ÞESSUM MARKMIÐUM HEFUR VERIÐ NÁÐ EÐA AUGLJÓST ER AÐ ÞEIM VERÐUR EKKI NÁÐ.”

Og þá munu aðrir taka við keflinu...

laugardagur, 28. mars 2009

Ekki kyssa á vöndinn! X-O!

Fjórflokkarnir sem ýmist bera ábyrgð á hruninu hérna með beinum stuðningi við það eða aðgerðaleysi og andvaraleysi falast nú eftir atkvæðum okkar til að halda áfram tilraunum sínum með íslenskt þjóðfélag.

Það er með hreinum ólíkindum að áhangendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem voru höfundar og framkvæmdaaðilar að hruninu skuli mælast tæp 37% í skoðanakönnunum. 37% fyrir að hafa selt bankana í hendur flokksbundinna fjárglæframanna, einkavinavætt þá og horft síðan á þá rústa samfélaginu og sjálfsvirðingu þjóðarinnar. Að kjósa kvalara sína virðist ætla að verða ný þjóðaríþrótt hjá rúmlega þriðjungi kjósenda. Maður spyr sig, hvaða stuðning þessir flokkar væru að fá ef þeim hefði tekst að gera alla atvinnulausa og setja öll fyrirtæki á hausinn í staðinn fyrir flesta atvinnulausa og flest fyrirtæki á hausinn. Hefðu Flokkurinn og Framsókn þá fengið yfir 50% í skoðanakönnunum hjá þeim sem trúa á þessa flokka í blindni eins og aðrir gera á trúfélög eða íþróttafélög?

Það eina jákvæða við þessa skoðanakönnun er að Borgarahreyfingin heldur stöðugt áfram að fikra sig upp skalann eftir því sem stofnun flokksins og hugsjónir spyrjast víðar út. 

Skilaboð Borgarahreyfingarinnar til fjórflokksins og trúarhópanna að baki þeim: Á sama hátt og þið lögðuð landið í rúst og niðurlægingu ætlum við að hefja það til vegs og virðingar á ný. Í stað spillingar og einkavinavæðingar kemur siðferðileg réttsýni og samfélagslegt réttlæti.

X-O! Kjósið Borgarahreyfinguna, uppbyggingaröflin. Kastið ekki atkvæði ykkar á glæ með því að kjósa yfir ykkur niðurrifsöflin á nýjan leik.

X-O! Hástökkvari skoðanakannana!

Sígandi lukka er best. 

Í undanförnum skoðanakönnunum hefur Borgarahreyfingin byrjað á að skjóta upp kollinum og síðan ákveðið en hæversklega aukið fylgi sitt og mælist nú síðast með 3,6%.

Meðal okkar sem að framboðinu stöndum ríkir mikil bjartsýni, enda væru Íslendingar vitlausari en þeir eru ef allur þorri fólks ætlaði áfram að binda trúss sitt við gömlu fjórflokkana sem eiga sök á því hvernig komið er fyrir okkur nú um stundir.

Framboð Borgarahreyfingarinnar stendur til boða þeim sem ekki telja að gamli fjórflokkurinn eigi atkvæði þeirra skilið í næstu kosningum. Borgarahreyfingin vill tafarlausar aðgerðir til bjargar heimilunum, sömuleiðis ráðstafanir til hjálpar þeim fyrirtækjum sem enn er unnt að bjarga. Við viljum virkt lýðræði, breytt kjördæmaskipulag, burt með 5% regluna og við krefjumst þess að barist verði af krafti gegn pólitískri og efnahagslegri spillingu.

Hrun fjármálastofnana viljum við tafarlaust að verði rannsakað sem sakamál og þeirri rannsókn  stjórni erlendir sérfræðingar með innlenda starfsmenn. Eigur þeirra sem grunaðir eru um undanskot og ólöglegt athæfi verði tafarlaust frystar.

Við viljum byggja sem hraðast upp nýtt og betra Ísland, óspillt land lýðræðis, jafnræðis og góðs siðferðis. Við forðumst öfgar til hægri og vinstri og höfum tröllatrú á heilbrigðri skynsemi. X-O! Við stefnum að því að Borgarahreyfingin nái tveggja stafa prósentutölu í kosningunum!

föstudagur, 27. mars 2009

Framfarir - ókeypis! X-O!

Einn af fjölmörgum kostum þeirra tillagna sem Borgarahreyfingin hefur lagt fram til þess að rífa Ísland upp úr spillingu, ranglæti og eymd er sá að það kostar minni fjármuni að reka óspillt þjóðfélag heldur en gjörspillt.

Það kostar ekki neitt að takmarka embættistíma alþingismanna og ráðherra við átta ár. Það kostar heldur ekki neitt að koma í veg fyrir að æðstu embættismenn ríkisins, löngu útbrunnir, sitji ævilangt við kjötkatlana.

Ein helsta aðferð sem býðst í fámennu þjóðfélagi til að takmarka og koma í veg fyrir spillingu er að takmarka embættistíma manna, þannig að allir viti frá byrjun að um ákveðinn hámarkstíma í embætti verður að ræða, og sá eða sú næsta sem kemur mun hafa opin augun fyrir því hvort embættinu hafi verið sinnt af löghlýðni og samviskusemi.

Virkt og lifandi lýðræði er á stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar. X-O!

Það kostar ekki neitt, heldur sparar það peninga.

Stöðvum lausagöngu glæpamanna! X-O!

Ennþá hefur ekki nokkur maður verið handtekinn vegna grunsemda um glæpsamlegt atferli í bankarekstri eða viðskiptum þeim sem ollu hruni fjármálakerfisins hér á landi. Það bendir því að viðkomandi lögregluyfirvöld þjáist af verulegum valkvíða, því að af stórum hópi grunaðra sakamanna er að taka. Enginn vafi leikur á að risavöxnum upphæðum hefur  verið skotið undan til skattaparadísa eða aflandseyja. Enginn vafi leikur á því að illa fengnar eignir s.s. leikföng hinna nýríku, lúxusbílar o.s.frv. eru hér á aðgengilegum stöðum.

Engin skýring fæst á þessum seinagangi, nema ef vera kynni að ekki er verið að rannsaka þá atburðarás sem leiddi til smánar fyrir þjóðina sem sakamál.

Það er ekki of seint að taka af skarið. Ráða erlendan saksóknara og erlenda stjórnendur til að stýra innlendu starfsliði við sakamálarannsóknar á peninga- og eignahvarfinu. Harðsnúið lið efnahagsbrotadeildar lögreglumanna sem tilkynnir rannsóknarefnum sínum að þeir hafi “stöðu grunaðs manns” og eignir þeirra hérlendis og erlendis verði frystar uns mál þeirra hafa komið fyrir dómstóla til sýknu eða sakfellingar.

Hér duga engin vettlingatök. Allra síst duga silkihanskar sem við skulum taka af okkur og snúa okkur af alvöru í að rannsaka þjóðfélagshrunið sem risavaxið sakamál.

Vegna hagsmunatengsla, vensla, vináttu, kunningsskapar og hefðar og jafnvel samsektar einhverra stjórnmálamanna mun fjórflokkurinn ekki hafa döngun í sér til að koma upp svona alvörurannsókn.

Borgarahreyfingin á engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að hið sanna komi fram og hinir seku fái makleg málagjöld.

X-O! Kjósum Borgarahreyfinguna - þjóðin á þing - glæpamennirnir í tugthúsið.

fimmtudagur, 26. mars 2009

Borgarahreyfingin framúr Framsókn!

Verðugt takmark hjá Borgarahreyfingunni með þessu fyrsta framboði sínu væri að slá við Framsóknarflokknum sem nú mælist með 7,5% stuðning í skoðanakönnunum. Við stefnum á tveggja stafa atkvæðatölu, svo að við förum fyrst framúr Framsókn!

Saga Framsóknarflokksins á undanförnum árum einkennist af mistökum á mistök ofan, þjónkunarlund við samstarfsflokkinn, Sjálfstæðisflokk, valdagrægði og fjármálaspillingu.

Er það kannski barnaleg bjartsýni að nýtt framboð með stefnumál sem gera tilkall til lýðræðis, þjóðarvilja, góðs siðgæðis og óaðfinnanlegrar stjórnsýslu takist að komast upp fyrir eina elstu og spilltustu deild “fjórflokksins” sem hefur dregið Ísland ofan í svaðið?

Nei! Það er trú á að heilbrigð skynsemi þjóðarinnar og innri siðferðisstyrkur, krafa almennings um endurreisn nýs þjóðfélags dugi til þess að ný og óspill hreyfing fái meira brautargengi en gömul og gerspillt klíka.

Nú eru runnir upp nýir tímar. Við skulum sjálf ráða örlögum okkar og senda stjórnmálaflokkana sem sviku okkur og hugsjónir sínar í langa endurhæfingu, langt frá.

X-O. Borgarahreyfingin - þjóðin á þing. Hreyfing án öfga til hægri né vinstri;  fer fram af heilbrigðri yfirvegun og skynsemi.

X-O! Nóg komið af spillingu

Ef þú ert loksins búin(n) að fá nóg af ráðleysi og spillingu frá fjórflokknum, Framsókn, Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki (Flokknum) og Vinstri-grænum þá er kominn fram á sjónarsviðið nýr valkostur handa þeim sem ekki vilja kasta atkvæði sínu á glæ í næstu kosningum. 

Valkosturinn heitir “BORGARAHREYFINGIN” og um þessa hreyfingu má lesa nánar á heimasíðunni, www.xo.is

Borgarahreyfingin vill að stjórnmálamenn geri sér ljóst að þeir eru kosnir til að stjórna samkvæmt vilja þjóðarinnar en ekki til að stjórna þjóðinni samkvæmt sínum duttlungum eða hagsmunum.

Þjóðaratkvæðagreiðsla skal fara fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% atkvæðisbærra manna eftir því.

Kjördæmaskipun verði breytt og vægi atkvæða sömuleiðis: einn maður, eitt atkvæði.

Tryggð verði skipting milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, t.d. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi.

Eilífðarsetur aflagðar: Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn (að dómurum undanskildum) sitji í mesta lagi í átta ár eða tvö tímabil samfellt. Dómarar verði ráðnir vegna faglegra verðleika ekki vegna frændsemi eða flokksskírteina.

X-O! Borgarahreyfingin - þjóðin á þing. Ekki kasta atkvæði þínu á glæ enn eina ferðina með því að kjósa flokkana sem hafa skilið Ísland eftir spillt, fátækt og ærulaust. Við í Borgarahreyfingunni erum venjulegt fólk án hagsmunatengsla við klíkur og fyrirtæki. Við þurfum á þínu atkvæði að halda til að endurreisna hér gott og heiðarlegt þjóðfélag. X-O! Lifandi lýðræði!

miðvikudagur, 25. mars 2009

Skinkuþjófurinn

Núna í vikunni var maður dæmdur í mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir stuld á skinkubréfi, raksápu og rakvél. Eflaust byggist þessi dómur á velgrundaðri og ítarlegri rannsókn á þessu sakamáli. 

Segja má að það sé mikið réttaröryggi að lifa í landi þar sem horfið skinkubréf leiðir til lögreglurannsóknar og dómsniðurstöðu, ef í ljós kemur hver það var sem olli hvarfi skinkubréfsins. Það er þó galli á réttarörygginu hér á landi að þær ströngu reglur sem virðast gilda um skinkubréf og raksápu eru ekki viðhafðar þegar um er að ræða stærri stuldi, svo sem að hreinsa innan úr bönkum, fjármálastofnunum og fyrirtækjum og senda sjóðina til geymslu í suðrænum skattaparadísum. Innherjaviðskipti, kúlulánaleikfimi samstarfsmanna og vildarvina og fleiri hvítflibbaglæpir þykja ekki einu sinni rannsóknarvirði, hvað þá sakfellingar.

Undir markvissri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og nú síðast Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur þjóðfélag okkar verið gert siðspilt, fátækt og ærulaust. Stjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna sem nú situr kann engin ráð til að bjarga heimilunum í landinu, hvað þá að kalla á vettvang erlenda sérfræðinga og láta rannsaka efnahagshrunið sem eitt allsherjar sakamál.

Til þess að þjóðin geti aftur horfst í augu við sjálfa sig þarf nýja siði, nýtt siðferði og nýtt og endurreist lýðræði í landinu - eins og tókst að minna stjórnvöld svo rækilega á með Búsáhaldabyltingunni. Byltingin heldur áfram og heitir núna Borgarahreyfingin og hyggst bjóða fram í öllum kjördæmum landsins.

Til þess að rannsókn verði hafin á efnahagshruninu sem sakamáli og eigur grunaðra frystar meðan á rannsókn stendur þartu að kjósa X-O í kosningnum. 

Ef þér nægir að vita að skinkuþjófar fái makleg málagjöld skaltu hins vegar kjósa fjórflokkinn.

þriðjudagur, 24. mars 2009

X-O! Stjórnmálahugi eða blind ofsatrú?

Of langt mál væri að telja upp alla trúarsöfnuði á Íslandi sem eiga það sameiginlegt að meðlimir þeirra trúa í blindni á óskeikulleika þeirra og farsæla leiðsögn forystuhópsins allt til enda veraldar. Of langt mál væri líka að telja upp öll þau íþróttafélög sem eiga það sameiginlegt að meðlimahópar hvers þeirra um sig eru sannfærðir um ágæti eigin félags langt umfram önnur slík, án tillits til þess hvað tölulegar upplýsingar sýna um árangur á íþróttasviðinu.

Stjórnmálaflokkar á landinu sem líkjast þessum trúarsöfnuðum eða íþróttafélögum eru hins vegar aðeins fjórir að tölu: Framsóknarflokkur, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur (Flokkurinn) og Vinstri-grænir.

Allir þessir flokkar eiga það sameiginlegt að undir þeim er sami sitjandinn, það er að segja grundvöllur þeirra byggist á staðfastri trú meðlima þeirra, að hinn óskeikula pólitíska sannleika sé að finna í framgöngu flokksforystunnar. 

Þótt margir eftirláti trúfélögum að sjá fyrir andlegri velferð sinni og stjórnmálaflokkum að sjá um hina efnislegu velferð, hversu brothætt sem hvorttveggja kann að reynast, fer samt vaxandi fjöldi þeirra sem vita að ef hver manneskja hugsar ekki sjálf um hagsmuni sína munu önnur hagsmunaöfl fylla í tómarúmið.

Þeir sem hingað til hafa í mismikilli blindni trúað á að Framsóknarflokkur, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur (Flokkurinn) eða Vinstri-grænir hefðu velferð þjóðfélagsins á hreinu hljóta að verða fyrir miklum vonbrigðum með vernd og varðstöðu þessara stofnana, þegar og ef þeir opna augun fyrir því að íslenskt efnahagslíf liggur í rúst og það er kreppa í landinu; nokkurs konar nútíma Móðuharðindi - en þó af manna völdum að þessu sinni, ekki vegna náttúruhamfara.

Það sem stuðningsmenn þessara flokka hafa hugsanlega kallað stjórnmálaáhuga hlýtur að vera takmarkalaus ofsatrú ef viðbrögð þeirra við ástandinu verða ekki önnur en þau að kenna illu árferði um kreppuna. Kreppan og stórþjófnaðarfaraldurinn sem stundum var kallaður “útrás” og sópaði með sér til aflandseyja öllum verðmætum í landinu sem ekki voru amk. naglföst skrifast að sjálfsögðu á ábyrgð allmargra einstaklinga, en þó fyrst og fremst á ábyrgð “fjórflokksins”, þessara fjögurra stjórnmálaflokka sem fara með völdin í landinu.

Það er kominn tími til að vakna af þeim sæta draumi að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið með því að “fjórflokkurinn” fái ótruflaður af kjósendum að fara sínu fram sem lengst og oftast. Það er kominn tími til að þjóðin fari sjálf á þing. Það er kominn tími til að fólk axli sjálft ábyrgð á sínum hag og afturkalli það umboð sem “fjórflokkurinn” hefur haft til að byggja hér upp siðspillt, fátækt og ærulaust þjóðfélag.

  “Þjóðin á þing” er kjörorð nýs stjórnmálaafls sem heitir Borgarahreyfingin og lesa má nánar um á www.xo.is.

Við höfum látið “fjórflokkinn” draga okkur of langt og of lengi á asnaeyrunum. Nú tökum við sjálf stórnina í okkar hendur. X-O, lifandi lýðræði! Þjóðin á þing!


fimmtudagur, 19. mars 2009

TÍMI TIL AÐ TENGJA OG LOSNA VIÐ SPILLINGU, VANTRAUST, LEYNIMAKK, BANKALEYND, KLÍKUR, SKATTASKJÓL, STÓRÞJÓFA OG RÆNINGJA, AUKA LÝÐRÆÐI O.FL., O.FL.

Fjórflokkarnir: same old, same old, same old...

Ertu nógu ruglaður/heittrúaður til að kjósa aftur fjórflokkinn

sem kom þér í þessa stöðu?

Eða er kominn tími til að tengjast nýrri, frjórri hugsun - nýju stjórnmálaafli?


Heimili á heljarþröm:

Tafarlausar neyðarráðstafanir í þágu heimila. Færa vísitölu verðtryggingar handvirkt til 1. jan. 2008. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 3%. Afborgunum af húsnæðislánum verði hægt að fresta. Afnema verðtryggingu. Fella niður allt að 25% af uppsöfnuðum höfuðstól íbúðalána upp að þaki sem verður sett við 50 milljónir kr. 

Dæmi um niðurfellingu af húsnæðislánum: Íbúðalán tíu milljónir, niðurfelling tvær og hálf milljón; 50 milljón króna lán fær niðurfellingu að upphæð 12,5 milljónir; kr. 100 milljón kr. lán fær á sama hátt niðurfellingu upp á 12,5 milljónir króna eða 25% af hámarkslánsfjárhæð sem er 50 milljónir o.s.frv.

Auðvitað eru fleiri leiðir færar til að forða frá fjöldagjaldþroti heimila þótt ríkisstjórnin sjái enga leið nema fram og aftur blindgötuna.


Hvað gerðist?

Ýtarleg rannsókn undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga á efnahagshruninu verði gerð fyrir opnum tjöldum. Eignir auðmanna frystar meðan á rannsókn stendur.


Stjórnmálamenn eru spilltir. Upplýsingaleynd er ósiður frá fyrri öldum.

Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla. Engin leyndarmál.


Kosningalögin eru úrelt.

Ný kosningalög. Einn maður eitt atkvæði.


Auðlindir landsins á ekki að framselja.

Notum tækifærið, þjóðnýtum fiskikvótann.


Stjórnarskráin er úrelt.

Landsmenn semji eigin nýja og nútímalega stjórnarskrá. Köllum saman Stjórnlagaþing í haust.


Ráðherrar hafa alltof mikil völd. Alþingi er stimplunarklúbbur fyrir ráðuneytin.

*Lýðræðisumbætur strax: Persónukjör, tryggt verði að ný framboð fái stuðning til jafns við starfandi stjórnmálaflokka og að öll framboð fái sama tíma í fjölmiðlum. Ráðherrar sitji ekki á þingi. Landsmenn semji eigin stjórnarskrá. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru sjálfsagður hluti af nútímasamfélagi.


Svar: BORGARAHREYFINGIN - LIFANDI LÝÐRÆÐIVið viljum byggja upp íslenskt þjóðfélag svo að við þurfum ekki að skammast okkur gagnvart börnum okkar og komandi kynslóðum.

X-O BORGARAHREYFINGIN 


P.S. Er ekki kominn tíma til að tengja, kveðja fjórflokkinn/sértrúarsöfnuðinn og verða frjáls maður í frjálsu landi?