laugardagur, 31. janúar 2009

Engan asa

Það skiptir ekki máli hvort ríkisstjórn Jóhönnu tekur til starfa í dag eða á morgun ellegar ekki fyrr en hinn daginn.


Aðalatriði er samstaða flokkanna um aðgerðaáætlun og fullur trúnaður við Framsóknarflokkinn sem verndar ríkisstjórnina.

Það sem skiptir máli er að þessi skammtímastjórn standi undir væntingum.

föstudagur, 30. janúar 2009

Brúarsmíð Jóhönnu


Skammtímastjórninni sem nú er að fara að taka við völdum bíða tveir möguleikar:

A) Annaðhvort tekst henni að öðlast tiltrú fólks. 

B) Eða henni mislukkast.


Vinnuaðstaðan, það er tímaskortur og miklar væntingar, minnir helst á verkefni kamikaze-flugmanns. Tíminn er naumur. Verkefnið erfitt. Og sáralitlar vonir á því að snúa aftur sem hetja lýðsins.


Hins vegar er ekki útilokað að verkefnið takist. Stjórnin öðlist traust almennings, fyrir kjark, hreinskilni og góðan vilja. Engin ætlast nefnilega til þess að skammtímastjórnin vinni fullnaðarsigur á kreppunni innan þriggja mánaða.


Það sem fólk vill sjá er aðgerðaáætlun sem fylgt er út í æsar, Það vill sjá þá rassa fjúka sem sitja nú í mjúkum hægindum en eiga sök á því hvernig komið er fyrir okkur. 


Þessi stjórn markar líka brú milli gamla spillta lýðveldis eigingirni, hroka, stéttaskiptingar og vensla- og vinatengsla og hins nýja lýðveldis sem við sjáum fyrir okkur í hillingum á hinum bakkanum. Vinalegt þorp þar sem hver hjálpar öðrum, dugmikið og metnaðarfullt samfélag samvinnu og samstöðu án fátæklinga og stórmennskubrjálaðra ofurtökusjúklinga,


Þarna hinum megin stendur myndarlegt lýðveldi, samfélag fólks sem skortir ekkert. Lýðræði ríkir í sinni fegurstu mynd. Og Sjálfgræðis-frjálshyggju-græðum-á-daginn-og-grillum-á-kvöldin-fokkurinn hefur verið í vonlausri stjórnarandstöðu lengur en elstu menn muna, alveg frá því að hann setti Fyrsta íslenska lýðveldið á hausinn.

fimmtudagur, 29. janúar 2009

Seðlabankinn hittir ömmu sína

Það kemur að hin hörðustu hjörtu mýkjast. 


Nú við síðustu vaxtaákvörðun vildi Seðlabankaþrenningin snúa frá villu síns vegar og lækka vexti. En þar hitti Seðlabankinn ömmu sína í mynd AGS sem tók aungva lækkun í mál fyrr en einhver glóra væri komið í pólitískt ástand á landinu (les: búið að sparka Seðlabankaþrenningunni).


Seðlabankinn er nú ekki samt ekki mjög langt frá því verðbólgumarkmiði sem hann hefur reynt að nálgast árum saman. Markmiðið er 2,5-3,5% verðbólga en verðbólgan núna er um 20% svo að aðeins skeikar fáeinum prósentum eftir margra ára þrotlaust og fórnfúst starf.


Á afrekaskrá Seðlabankans má einnig nefna að raungengi krónunnar er mjög lágt - og langt undir sögulegu meðaltali. Um eignastöðu bankans er ekki ástæða til að fjölyrða.


Enginn seðlabanki í heiminum mun hafa náð þeim árangri að fara á hausinn, en íslenski bankinn er talinn eiga góða möguleika á að slá það heimsmet fyrstur allra, ef núverandi stjórn bankans fær tóm til að ráða ráðum sínum og græða á daginn og grilla á kvöldin.

Hvar er þýfið niðurkomið?

Margt er torskilið í þeim fréttum berast sífellt frá blönkunum okkar sálugu að góðvinir og velunnara blankanna hafi sýknt og heilagt verið að kaupa í þeim hlutabréf. Sem blankinn lánaði þeim fyrir og jarðaði í skattaparadís - án þess að nokkur hagnaðist á þessum flóknu viðskiptum. Hafi þetta verið alvörupappírar en ekki bara I.O.U. á servíettur i hlýtur að vera hægt að nálgast þessa pappíra.


Sama gildir um fé sem var lánað að veði úr blönkunum, það hlýtur að vera hægt að hafa upp á hvernig þau veð eru til heilsunnar núna á uppgjörsdegi, rjóð og sælleg eða með uppdráttarsýki.


Í sparnaðarskyni hlýtur að vera að hægt að yfirfara þessa gjörninga með ódýrara starfsliði en endurskoðunarskrifstofum sem taka tíu milljónir fyrir að fletta gögnum í þrjá mánuði og finna aukinheldur ekki þá gjörninga sem sumum þeirra var víst uppálagt að fela á fyrri tíð.


Skilvirkari leið til að komast til botns í sukkinu væri að hneppa sukkarana í gæsluvarðhald og láta þá leiðbeina rannsóknarmönnum í svo sem átta tíma á dag og útskýra hver er von til að finna verðmæti og hvar blöff í blankasamsærinu mikla.


Í gæsluvarðhaldinu þyrftu blankablækurnar ekki annað sér til lífsviðurværis en venjulegan heimilismat, því að minnið gæti tvíelfst af kampavíns- og kavíar-bindindi, þegar einkaþotuflugþreytan er liðin úr skrokknum á þeim.


Ég veit ekki um “frystingar” á eignum, en hitt veit ég að leyfilegt er að yfirheyra fólk um hvar þýfi sé niðurkomið. Og loka það inni ef hætta er á að það spilli rannsóknarhagsmunum.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Jóhönnu-dagar

Minn dagur mun koma, sagði hún. Og nú er sá dagur upp runninn.


Þeir sem standa höllum fæti í samfélaginu hafa örugglega ástæðu til að fagna og treysta góðum vilja Jóhönnu Sigurðardóttur. En nú er verkefni hennar stærra en að fylgjast með og verja hag þess fjölda sem stendur tæpum fótum í samfélagi okkar.


Samfélagið riðar til falls. Atvinnuleysi. Skuldir. Gjaldþrot. Ringulreið. Nú er þörf á skarpri sýn. Snöggri forgangsröðun. Og umfram allt að vinna traust þjóðarinnar með því að byrja á að taka í taumana í seðlabanka og gefa innherjaráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis selbita.


Ríkisstjórn sem ætlar sér af á von um að geta komið í verk því sem mest er áríðandi.

Ríkisstjórn sem ætlar að leysa öll mál í einu á innan við 100 dögum er einskisnýt.


Ríkisstjórn sem sýnir mýkt og mannlegan skilning á fórnarlömbum þessa ástands mun finna hljómgrun með þjóðinni, ef hún sýnir að sama skapi hörku og ýtrustu lagaheimildir gegn sökudólgum.


Dagur Jóhönnu er runninn upp. Dag skyldi að kveldi lofa en mey að morgni.

Hendur og ermar á 100 dögum

Ef þessi ríkisstjórn sem nú er verið að skipuleggja á að lifa í sögu og ljóði er eins gott að hún átti sig á því að hún hefur lítinn tíman til stefnu til að hrinda í framkvæmd miklum breytingum. Seðlabankaúthreinsun, innherjabullan í forsætisráðuneytinu. Allt eru þetta ljúffengir forréttir að því sem í vændum er. 


Snú eru um 100 dagar til stefnu. Sé stjórnin með skynsamlegar hugmyndir er örugglega ekki frágangssök að að hagræða samningum við AGS.


Sé stjórnin með langa lista yfir skuldir bankanna er á móti hægt að sjá hvernig til skuldanna var stofnað og hvar féð er niðurkomið. Ef lagaheimild skortir til að njósna um og hundelta þjófa og frysta eignir þeirra er slík lagasetning forgangsatriði.


Á sama tíma þarf að sitja yfir sparnaðarráðgerðum og skera niður óþarfa bruðl og snobb og mannfjölda í Utanríkisráðuneyti með sérstaka áherslu á óþörf sendiráð og varnarmálastofnun. Setja má upp nefnd fyrrverandi heilbrigðisráðherra og samræma hugmyndir þeirra um sparnað í heilsukerfinu. Fækka þarf ráðuneytum til frambúðar.


Stórefla þarf efnahagsbrotadeild lögreglu og draga að sama skapi úr fjármögnun á óeirðasveitum Björns Björnsson.


Ef það tekst að koma skikk á ringlulreiðina á næstu 100 dögum þá er það all nokkur árangur. 


Til hliðar þarf að undirbúa kosningu stjórnlagaþings og jafnframt atkvæðagreiðslu um hvort sækja skulu um Evrópusambandsaðild. Lifi lýðræðiðl

Sjávarútvegsráðherra í valdavímu


Hið sérkennilega láðs og lagar spendýr fráfarandi sjávarútvegsráðherra notaði síðustu mínútur valdavímu sinnar til að uppáskrifa leyfi fyrir hvalveiðum í mikilli óþökk hvalaskoðunariðnaðarins, grænfriðunga og náttúrverndarsinna almennt. 


Ráðherrann var óvenju hátt uppi í sinni síðustu reglugerð og leyfði hvalveiðar til 2013, sem sagt fram í kjörtímabil amk. næstu tveggja eftirmanna sinna.


Eina leiðin til að græða á hvalveiðum nútildags væri að leyfa efnuðum einstaklingum að veiða þessar stóru skepnur og hengja þær síðan upp á sporðinum fyrir myndatöku. 


Skynsamlegra er þó að afnema þessa óreglugerð þegar einhver með fullu viti kemur í sjávarútvegsráðuneytið og tekur við lyklunum, hvalaskutlunum og myndinni af Ahab af Bolvíkingnum sem gjarna mætti hengja upp á sporðinum fyrir myndatökuna.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Betlibréf Gunnars Páls

Um heilindi út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja:


Gunnar Páll Pálsson gerir nú örvæntingar fullar tilraunir til að hanga í formannsstarfi áfram eftir fjármálafimleika sína hjá Kaupþingi. Nú fara í hönd kosningar hjá VR og í því tilefni hefur Gunnar Páll skrifað trúnaðarmönnum félagsins bréf sem gerir lítið úr yfirsjónum hans en mikið úr meintri yfirbót.


Gunnar Páll segir m.a. í betlibréfi sínu: “Að undanförnu hefur verið mikið fjallað um mig og störf mín fyrir Kaupþing í fjölmiðlum. Sumt af því er hreinlega ósatt og annað slitið úr samhengi. Þær ákvarðanir sem ég stóð að í september sl. í stjórn Kaupþings voru teknar miðað við fyrirliggjandi gögn um að bankinn væri fjármagnaður næsta árið. Það hvarflaði aldrei að mér, frekar en öðrum, að bankakerfið myndi hrynja. Ég starfaði að fullum heilindum út frá þeim upplýsingum sem fyrir lágu.”


Full heilindi Gunnars Páls “út frá þeim upplýsingum sem fyrir lágu” hafa allar götur síðan verið mörgum mönnum áhyggjuefni. En - sem sagt - hann segist ennþá vera stútfullur af heilindum - að minnsta kosti út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja hverju sinni.


Hinn formannskandídatinn Lúðvík Lúðvíksson hefur ekki skrifað samskonar betlibréf, enda má reikna með að hann sé fullur af heilindum burtséð frá hvaða upplýsingar liggja fyrir hverju sinni.

Kosningatilhlökkun!

Sá snilldarleikur hjá hinum svörnu óvinum Samfylkingu og VG að ganga í minnihlutastjórnarfóstbræðralag veldur því að Flokkurinn fær vatn í munninn þegar hann hugsar til þess að undirbúa næstu kosningar í stjórnarandstöðu. 


Í kosningunum verður Flokkurinn saklaus eins og ungabarn af kreppu, niðurskurði, okurvöxtum, verðbólgu, atvinnuleysi - og umfram allt eins og nýhreinsaður hundur með utanstjórnarsyndaflausn fyrir 17 ára óstjórn og spillingu.


Í þriggja mánaða stjórnarandstöðu mun Flokkurinn endurfæðast og taka á sig ímynd visku og sakleysis. Öllum syndum hans verður sturtað niður um vélinda Geirs Haarde og Geir sjálfur fær sinn sess í sögunni sem maðurinn sem var of mikil gunga til að vera forsætisráðherra og ekki nógu harðsnúinn til að vera formaður Flokksins - en gleypti allar syndir hans þegar hann hvarf af stóli.


Að þessu sögðu er Geir Haarde að sjálfsögðu óskað skjóts bata og sem allra lengstra lífdaga utan allra stjórna.

Stjórnlagaþing - forgangsmál!

Ný ríkisstjórn hvernig svo sem hún verður í laginu þarf að leggja grundvöll að starfi stjórnlagaþings til að semja nýja stjórnskipan handa Íslenska lýðveldinu nr. 2 eftir hrun þess fyrsta.


Í fyrsta lagi þarf ný ríkisstjórn að boðað nýjan kjördag í vor og starfa síðan sem starfsstjórn til þeirra kosninga. Í annan stað þarf hún að hafa frumkvæði að því að boða til kosninga um Almannaþing sem hefur þann tilgang að annast stjórnlagavinnuna.


Við bankahrunið kom í ljós að stjórnkerfi okkar er ekki þess umkomið að takast á við eðlilega og heilbrigða stjórnsýslu. Fyrsta íslenska lýðveldið riðaði til falls. Afsögn Geirs Haarde og skipan nýrrar starfsstjórnar, utan þings eða innan, boðaði jafnframt að fyrstu skrefin verði stigin til að endurreisa lýðræði hér á landi og byggja upp nýtt lýðveldi án áþjánar spilltra stjórnmálaflokka.


Ef núverandi flokkar ætla sér að gleyma stjórnlagaþinginu verða þau mótmæli sem stjórn Geirs Haarde mátti þola eins og englasöngur í samanburði við þau sem í vændum eru.


Úthreinsun úr Seðlabanka og Fjármálaeftirliti er þegar hafin. Það tekur ekki langa stund að losna við innherjaráðuneytisstjórann í fjármálaráðuneytinu, svo að það er ekki eftir neinu að bíða.

mánudagur, 26. janúar 2009

Kvöldbæn 26. jan. 2009

Í náttmyrkri þeirrar sögulegu nætur sem nú grúfir yfir Bessastaði glóir á stjörnurnar eins og demanta langt úti í geimnum.


Hnipna þjóð í vanda yfir kæruleysi og uppivöðslusemi stjórnmálamanna sinna dreymir um að útrásarforinginn á Bessastöðum vaki í nótt og horfi til stjarnanna.


Og í fyrramálið leggi hann á borð með sér að hætti útrásarvíkinga nýja ríkisstjórn eins og demantsfesti til að skipuleggja líkvöku fyrsta íslenska lýðveldisins og gulltryggja stofnun þess næsta í samræmi við vilja þjóðarinnar - sem er langþreytt á pólitísku hrossabraski stjórnmálaflokkanna, spillingu, sjálftöku, ofurvaldi ríkisstjórna og samkrulli framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Og langþreytt á hroka í stað verka, valdníðslu í stað þjónustu. Kannski rætist líka óskin um náungakærleika - án nepotisma?


Guð blessi þjóðinni nýjan músajeffsdemantsskreyttan dag að loknum þessum þrengingum.

Geir langefstur miðað við fólksfjölda

Samkvæmt visir.is er Geir H. Haarde forsætisráðherra Íslands á lista yfir 25 menn sem breska blaðið Guardian birtir í dag og segir að beri ábyrgð á efnahagshruni heimsins.


Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna er efstur á listanum, næstur kemur Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og þar á eftir Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.

Sé miðað við fólksfjölda á bakvið hvern og einn á þessum heiðurslista kemur enginn annar en Geir H. Haarde til greina í fyrsta sætið með góðri aðstoð besta vinar síns í Seðlabankanum.

Mökkurkálfur með ráðherraveiki

Ef Samfylking og VG í ráðherrastólamaníu sinni gleypa við því eitraða peði sem Framsókn hefur boðið þeim og smíða minnihlutastjórnina Mökkurkálf - mun Sjálfstæðisflokkur ekki þurfa að kvíða úrslitum í næstu alþingiskosningum.


Starfsstjórn utanþings er eina glóran í stöðunni; það sjá allir sem ekki eru með ráðherraveikina.

Mökkurkálfur í burðarliðnum

Nú er funda þingflokkar í sölum Alþingis. Vandamálið er að koma svo að lítið beri á hræinu af eymdarstjórn Geirs og Ingibjargar út úr Alþingishúsinu og helst stjórnmálasögunni.

 

Stólaskipti parsins þannig að Ingibjörg tæki að sér forsætisráðuneytið en eftirléti Geiri utanríkisráðuneytið yrði ekki til annars en hræið risi nú upp tvíhöfða og helmingi ringlaðra en í fyrra lífi. 


Einn möguleikinn er sá Mökkurkálfur gæti fæðst með minnihlutastjórn Ingibjargar og VG sem ætti griðastað á hlöðugólfi framsóknar. Hjartað í Mökkurkálfi gæti verið fengið úr Samfylkingunni.


Það árar ekki sérlega vel í íslenskum stjórnmálum. Og fátt um fína drætti.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Tiltekt eftir dauflegt samkvæmi

Geir Haarde hefur tímasett burtreið sína úr stjórnmálum við kosningar 9. maí og afsögn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þá er það vandamál leyst. 


Ingibjörg Sólrún hyggst spyrna gegn broddunum og sækjast áfram eftir forystu í Samfylkingunni. Sem sé óleyst og dapurlegt vandamál.


Björgvin G. Sigurðsson hefur sagt af sér embætti viðskiptaráðherra og tekið til í fjármálaeftirlitinu. Þá er það vandamál leyst.


Óleyst er vandamálið með stjórn Seðlabankans og súperstjórans Davíðs, sömuleiðis með innherjabrask Baldurs ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. 


Óleyst er líka vandamálið með hvernig taka beri á hinum dularfullu fjárflutningum og samningum sem gerðir voru þegar bankahrunið var yfirvofandi. Óleyst er vandamálið sem snýr að íslenskum bankamönnum og auðmönnum sem rökuðu að sér fé og settu þjóðina og bankana á hausinn.


Óleyst er vandamálið með Árna Matthísen fjármálaráðherra og settan dómsmálaráðherra til að skipa lítinn pilt í lítið embætti úti á landi, og afskipti hans af sparisjóðum og bróðursölu Keflavíkurflugvallar.


Óleyst er vandamálið um það hvers konar framgöngu óeirðasveitir Björns Bjarnasonar sýndu gagnvart friðsömum mótmælendum. Afsökunarbeiðni færi langa leið með að leysa þetta auk þess yfirlýsing um að spara efnavopin og minnast ekki framar á teiser.


Það er að mörgu að hyggja á stóru heimili. En þessi vandamál gæti stjórnin leyst áður en hún hundskast frá ef henni er annt um eftirmæli sín. Og þetta tæki ekki nema klukkutíma. Það er bara kurteisi að reyna að taka til eftir jafnvel hin dauflegustu samkvæmi.

"I'll be back"


Hinir skynsamari í hópi yngri stjórnmálamanna í Samfylkingunni virðast hafa áttað sig á því að ríkisstjórnin nýtur ekki trausts almennings. Þannig að vandséð er um framhaldslíf stjórnarliða í stjórnmálum eftir að þessari stjórn hefur verið slitið.


Sá skynsamasti í hópi yngri stjórnmálamanna í Samfylkingunni, Björgvin G. Sigurðsson, mun hafa sent Geir Haarde lausnarbréf sitt í morgun. Á þennan hátt eykur Björgvin mjög líkur sínar á framhaldslífi í stjórnmálum.


Aðeins eina stutta setningu vantaði í lausnarbréf hans: “I’ll be back!”

laugardagur, 24. janúar 2009

Hroki og valdafýsn

Með hroka sínum og valdafýsn hefur Ingibjörgu Sólrúnu tekist að reka fleyg milli um 80% þjóðarinnar og Samfylkingarinnar. 


“Þið eruð ekki þjóðin,” hefur hún ítrekað sagt við fólkið í landinu og neitað að ljá máls á því að hætta að halda lydduríkisstjórn Geirs Haarde við völd.


Til þess arna hefur hún haft stuðning ráðherraliðs Samfylkingarinnar sem límt hefur sig við ráðherrastólana, en nú er vaxandi kurr í þingliði án ráðherrastóla og stuðningsmenn utanþings taka mótmælum gegn ríkisstjórninni með fagnaðarópum og lófataki.


Hroki og valdafýsn leiðir til ógæfu. Nú má hver maður kjósa sér örlög og sömuleiðis hver stjórnmálaflokkur. Verra er þegar hroki og valdafýsn kalla vandræði yfir heila þjóð. Þá er tími til kominn af taka valdið frá hinum valdasjúka og eftirláta honum hrokann að verjast með.


Burt með ríkisstjórn hroka og vanhæfni! Núna!

Líka staurblindur?

"Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekki rétt að mynda þrátt fyrir veikindi sín og formanns Samfylkingarinnar.

Geir sagði í þættinum Vikulokin í morgun engan annan kost betri en núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingar. Hvort sem um væri að ræða minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með hlutleysi Framsóknarflokks, utanþingsstjórn eða þjóðstjórn."

Þessi frétt er fengin að láni af visir.is.

Er maðurinn staurblindur líka?

föstudagur, 23. janúar 2009

Við vitum og við þurfum

Það sem við vitum í augnablikinu er að báðir leiðtogar stjórnarinnar eru hættulega veikir og verða meira en minna frá störfum á næstu vikum, auk þess sem veikindin hljóta að hafa forgang í lífi þeirra.


Það sem við vitum er að Flokkurinn hefur sett fram hugmynd um kosningar 9. maí og að núverandi drusluríkisstjórn, væntanlega með varamönnum í stað leiðtoga sitji fram að kosningum.


Það sem við vitum er að Geir Haarde ætlar ekki að leiða flokk sinn í næstu kosningum, en það langar Ingibjörgu Sólrúnu gera. Því miður.


Það sem við þurfum ekki seinna en nú þegar er ný stjórn án Flokksins sem óbuguð af heilsufari sínu eða öðrum hlutum tekur til hendinni fram að kosningum sem gætu orðið í apríl. 


Það sem við þurfum er að losna við þá ráðherra sem hafa brugðist í störfum sínum frá því í október.


Það sem við þurfum er snörp starfsstjórn sem hreinsar þegar út í seðlabanka, fjármálaeftirlit, rekur ráðuneytisstjóra innherjann í fjármálaráðuneytinu og lætur rannsaka framgöngu lögreglu í mótmælum undanfarandi mánaða.


Núverandi ríkisstjórn er vanhæf. Burt með hana. Mótmælin halda áfram uns hún gefst upp. Notum síðan tímann til að verja heimilin í landinu, undirbúa nýjar kosningar og nýtt lýðveldi án útbrunninna og óhæfra stjórnmálamanna.

Olli álagið sjúkdómi og sjúkdómurinn getuleysinu?

Ég veit ekki hvort kom fyrst álagið í starfinu og olli sjúkdómnum.

Eða sjúkdómur sem olli getuleysi í starfi.


Ég óska þeim báðum Ingibjörgu Sólrúnu skjóts og góðs bata, en fer jafnframt fram á að þau stígi þegar í stað til hliðar og hugsi sér ekki til endurkomu í stjórnmál fyrr en fullum bata er náð.


Næstu vikur í íslenskum stjórnmálum krefast fullrar einbeitingar og óskertra starfskrafta. Það kemur maður í manns stað og enginn er ómissandi.


Bið ykkur svo lengstra orða að fá ekki stórmennskubrjálæði á sjúkrahúsum ykkar og heimta byggingar á hátæknisjúkrahúsum ef þið eigið afturkvæmt til vinnu.

Lýðræði frestað

Viðbrögð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks við brennandi áhuga fólks á stjórnmálum dagsins er að reyna að þagga umræðuna niður, draga úr henni, fresta henni. 


Samfylkingin hefur frestað framtíðarþingi sínu og Sjálfstæðisflokkurinn er að bræða með sér að fresta landsfundi.


Með þessu telja flokkshestarnir að hægt sé að slá á frest kröfunni um að stjórnin víki, en frestur er á illu bestur.


Ástandið er nú engu að síður þannig að tveir þriðju kjósenda í lýðveldinu styðja mótmælendur sem standa fyrir utan Alþingishúsið en einn þriðji styður umboðslausu blækurnar sem híma í þingsætum inni í húsinu eða sitja sem límdir við ráðherrastóla. Það hefur nefnilega komið á daginn að skríllinn háværi fyrir utan Alþingishúsið er einmitt sá lýður sem er nauðsynlegur í lýð-veldi og lýð-ræði. 


Kosningar 9. maí í síðasta lagi.


Nýja ríkisstjórn 9. febrúar - í síðasta lagi.


Það er ekki góð hugmynd að ætla að fresta lýðræðinu.

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Saur og hland dómsmálaráðherrans


“Bæði á Austurvelli og við Lækjartorg var grjóti og götusteinum kastað í lögreglu, saur og hlandi í plastpokum, sem endurspeglar innræti þeirra, sem töldu þetta hæfa skoðunum sínum á framvindu þjóðmála, en undir þeim formerkjum var til mótmæla stofnað, sem þróuðust á þennan sorglega hátt.”

Þessi dauðadjúpa málsgrein er af bloggsíðu Björns Bjarnasonar. 

Blogg þessa dómsmálaráðherra okkur verður mér endalaus uppspretta spurninga um hugarástand ráðherrans sérstaklega og mannlega náttúru eða ónáttúru yfirleitt.

Í sambandi við þessa málsgrein sýnist mér ráðherrann vera að bölsótast út í þau “formerki” undir hverjum stofnað var til mótmælanna og vilja meina að formerki mótmælanna séu "saur og hland" sem endurspegli innræti þeirra sem tóku þátt í mótmælunum.

Mér finnst makalaust að maður af þessum "saur og hland-" kalíber skuli hafa geta tranað sér fram í ráðherraembætti.

Einnig finnst mér undarleg sú meðaumkun sem hann hefur með sinni harðsnúnu óeirðadeild, en Björn segir:

“Í dag hefði verið réttmætt, að fréttamenn vektu rækilega athygli á hinni hörmulegu framgöngu of margra gegn lögreglunni. Sjö lögreglumenn voru fluttir slasaðir af vettvangi í nótt, einn með höfuðáverka.”

Það er fautaleg framganga ófriðardeildar lögreglunnar, eiturefnahernaður og kylfubarsmíð sem hefur kallað fram ofbeldi í þeim mótmælum sem hér hafa farið fram. 

Mér er persónulega kunnugt um fleiri en sjö saklausar persónur sem lögreglan hefur barið með kylfum og misþyrmt með piparúða. Ég geri ekki ráð fyrir að það fólk kæri sig um meðaumkun dómsmálaráðherrans - enda er hún greinilega bundin við aðra og ofbeldishneigðari manntegund sem hann telur til meiri skyldleika við.

Áframhaldandi dauðadans

Samfylkingin sem ævinlega virðist taka versta kostinn þegar fleiri eru í boði er líkleg til að reyna að hanga áfram í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum fram að vorkosningum sem óhjákvæmilegt er að boða til. Með þessu móti samfylkir Samfylkingin enn með Sjálfstæðisflokknum og undirbýr sig að axla ábyrgðina á hruni samfélagsins og því stjórnleysi og sluddmennsku sem við tók.


VG og Framsókn munu að sama skapi eflast við þetta óvænta forskot inn í komandi kosningabaráttu.


Líklegt er þó að einhverjir Samfylkingarmenn muni una illa við þá sjálfseyðingarhvöt sem birtist í áframhaldandi dauðadansi með Sjálfstæðisflokknum.

Ekki mótmæli - bylting!

Þegar eldar brenna getur orðið þrautin þyngri að hefta útbreiðslu þeirra. Sama máli gegnir um mótmæli.


Mótmæli undanfarinna daga hafa nú þróast þannig að þau standa fram á nótt og reiði mótmælenda magnast eftir því sem á líður. Ofbeldi brýst út. Upphaf ofbeldis má rekja til hervæddrar ófriðardeildar lögreglunnar sem mætir dulbúin með ógnandi fasi og beitir eiturvopnum og bareflum agalaust eftir geðþótta einstakra villidýra í þessum hópi.


Vonandi bera mótmælendur gæfu til þess að láta ekki storka sér til að slasa andstæðinga sína, þrátt fyrir að hafa þurft að þola harðræði af hálfu ófriðardeildarinnar. Vonandi tekst þeim lögregluliðum sem eru með fullu viti og hafa sýnt skynsamlega og hófstillta framkomu að hafa hemil á ofbeldishneigðum félögum sínum.


Full ástæða er til að vara bæði lögreglu og mótmælendur við því að kveikja stærri elda en þessir aðilar ráða við að slökkva. 


Ástandið er alvarlegt. Það eru ekki mótmæli sem liggja í loftinu heldur stjórnarbylting.

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Skynsemi eða vitfirring?

Skyldi Samfylkingin þekkja sinn vitjunartíma á flokksfundinum í kvöld? 


Ef þessi flokkur ætlar að halda áfram í pólitík er hver síðastur að slíta stjórnarsamstarfinu og boða til nýrra kosninga. Sá kostur er í boði fyrir Samfylkinguna í augnablikinu að mynda stjórn með VG sem Framsókn mundi verja vantrausti - og hefði fyrir sitt fyrsta verk að hreinsa út úr Seðlabanka og fjármálaeftirliti.


Ennfremur verður athyglisvert að sjá hvort Samfylkingarfólkið skilur að fáir eða enginn af núverandi þingmönnum flokksins njóta trausts til að vera aftur í framboði - og örugglega enginn úr ráðherraliðinu. 


Hinn valkosturinn er sá að velja óbreytt ástand og treysta á þá gæfulegu hugmynd Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra að stórefla lögregluna af mannskap og tækjum til að takast á við áframhaldandi mótmæli - til eilífðar.


Heilbrigð skynsemi - eða vitfirring?

Vér mótmælum öll!

Á skrifandi stundu veit ég ekki hvort framhald verður á mótmælum þegar þingmenn eiga að mæta til vinnu í dag kl. 13.30. 


Hitt veit ég að mótmæli eiga eftir að harðna og ofbeldi og eignaspjöll að aukast sem og hættan á tjóni á lífi og limum fólks. Stigmögnun ofbeldis er algjörlega á ábyrgð “óeirðasveitar” lögreglunnar sem allt frá mótmælum vöruflutningabílstjóra í haust hefur gengið fram sem versti skríll.


Ábyrgðina á fasista framgöngu skrílmenna í lögreglunni ber að sjálfsögðu ríkisstjórn sem streitist við að sitja án umboðs og tengsla við þjóðina.


Það er með þungum huga sem ég skrifa þessar línur. Það er óskemmtilegt að sjá fyrsta íslenska lýðveldið liggja í fjörbrotunum. Stjórn mannleysunnar Geir Haarde hvílir eins og mara á þjóðinni. Þeirri martröð verður að linna. Vér mótmælum öll!

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Lögregluskríll og mótmælendur

Í dag var ég þátttakandi í mótmælum sem fóru svo prúðmannlega fram að minnti helst á hátíðasamkomu í Kardímommubænum. Engum bílum var velt, engar sprengjur sprengdar, engin spellvirki unnin. Eina undantekningin frá prúðmannlegri hegðun var svonefnd "óeirðadeild" lögreglunnar sem reyndi hvað hún gat til að æsa til óeirða með ofbeldisfullri og skrílslegri hegðun, einkum við börn og unglinga sem allt kapp var lagt á að leggja í járn og hnoðast á.


Fullkomlega að ástæðulausu var fantatökum, barsmíðum og árásarúða beitt gegn mannfjölda sem stóð andspænis lögregluskrílnum með uppréttar hendur til marks um friðsemd.


Það skal tekið fram að meirihluti lögregluliðsins, sá hluti sem klæddur var venjulegum fötum en ekki herklæðum, hegðaði sér að mestu leyti skynsamlega og kurteislega, en framkoma “óeirðadeildarinnar” sýnir svo að ekki verður um villst að dulbúnir herklæðum breytast margir lögreglumenn í ófreskjur og ofbeldishneigðan skríl sem venjulegum borgurum stendur stór hætta af.


Ef Geir H. Haarde dregur ekki lærdóm af þessum mótmælum og segir af sér stefnir augljóslega í stigmögnun mótmæla sem verða sífellt harðari og verri. Ef hann og liðleskju ríkisstjórn hans streitist enn við að sitja án alls umboðs er þetta fólk bæði vitlausara og ósvífnara en jafnvel ég hélt.


Ef "óeirðadeild" lögreglunnar fær ekki rækilega áminningu hjá yfirboðurum sínum og endurhæfingu er hundrað prósent öruggt að þessi ruddaskríll á eftir að stórslasa einhvern eða drepa.

Faðirvor og þvagleggur

Nú hafa borist þau tíðindi frá Selfossi að okkar blíðlyndi dómsmálaráðherra hafi stigið ofan á frakkalafið hjá Þvagleggssýslumanninum og sagt honum að storka ekki gjaldþrota fólki að óþörfu.


Sá borðalagði hefur beðist fyrirgefningar og kveðst ætla að sýna ítrustu mildi - eftir því sem lög frekast leyfa við skuldunauta.

Ekki er þó talið að dómsmálaráðherra hafi sagt undirmanni sínum að beita ákvæðum faðirvorsins á skuldunautana heldur látið duga að banna honum að leggja þá í járn.

Þvagleggur skipuleggur ofbeldisaðgerðir

Þvagleggur sýslumaður á Selfossi hefur ákveðið að gefa út handtökuskipan á þrjúhundruð og sjötíu einstaklinga sem ekki hafa skilað sér í fjárnám hjá embættinu á Selfossi. Fólkið verður handtekið á heimilum sínum eða vinnustöðum og fært fyrir sýsla eða fulltrúa hans. 


Þvagleggur sýslumaður hefur greinilega ekki tekið eftir því að hér á landi ríkir mesta efnahagskreppa sem yfir landið hefur dunið síðan Rolling Stones tóku að leika saman á hljóðfæri og ástand efnahagsmála með vægast sagt óvenjulegu móti. 

Hinum ofbeldishneigða sýslumanni er nokkur vorkunn því að yfirmenn hans í ríkisstjórninni virðast ekki heldur gera sér grein fyrir alvöru ástandsins.

Í dag er hægt að senda Þvagleggi sýslumanni og öðrum óhæfum yfirvöldum skýr skilaboð með því að taka þátt í ALLSHERJARVERKFALLI um eitt-leytið og mæta og láta til sín heyra við ALÞINGISHÚSIÐ.


mánudagur, 19. janúar 2009

Að axla skinn

Nú hafa Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir axlað sín skinn og munu ekki gegna forystuhlutverkum við uppbyggingu eftir hrun sem að hluta til er á þeirra ábyrgð. Nú er röðin komin að parinu sem var á vaktinni þegar hrunið varð, þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Geir H. Haarde.


Þessari nauðsynlegu skinnaöxlun má koma á framfæri á fjöldafundi á Austurvelli á morgun þegar Alþingi kemur saman eftir náðuga daga í jólafríi. 

Nú er tími til kominn að þjóðin hætti að sýna sama geðleysið og hinir umboðslausu "foringjar".

föstudagur, 16. janúar 2009

Allsherjarverkfall á þriðjudag!

Allsherjarverkfall hefur verið boðað milli kl. 12 og 15 nk. þriðjudag, 20. jan. og þögul mótmælastaða á Austurvelli á sama tíma og setning Alþingis fer fram. 


Þjóðin, skríllinn, kommúnistadrullusokkar og fleiri áhyggjufullir hópar vilja með þessu sýna samstöðu í verki og vekja athygli Alþingis á því að tímabært er orðið að grípa til aðgerða gegn atvinnuleysi, gjaldþroti heimila og fleiri óhugnanlegum hlutum sem eru gerast utan veggja þinghússins.

Allsherjarverkfall þýðir að allir - ALLIR - leggi niður vinnu sína í þrjár klukkustundir.

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Venjulegur meðalmaður

Eftir þá mánuði sem liðnir eru síðan bankarnir fóru í þrot og kreppan hélt innreið sína hef ég engar upplýsingar fengið sem ég get byggt framtíðaráætlanir á. 


Ég veit ekki hver heildarskuldin er mikil. Tvö þúsund milljarðar? Þrjú þúsund milljarðar.

Ég veit ekki hvort þarna koma einhverjar seljanlegar eignir á móti. Og hvað er það á hvert mannsbarn?

Ekkert hefur verið blakað við þeim sem sváfu á verðinum. FME, Seðlabanki t.d.

Stjórn sem var kosin til að "viðhalda stöðugleikanum" húkir í ráðherrastólum og segist hafa umboð til fjögurra ára - burtséð frá því á hvaða forsendum umboð til stjórnarstarfa var fengið.

Ég hef ekki séð neina aðgerðaáæltun fyrir þjóðfélag í kreppu, hvorki fyrirmæli til almennings eða elítu um kreppuhegðun. Alþingismenn geta sér launauppbót á þann einfalda hátt að skjótast til útlanda og fá fimmtíuþúsund kall launauppbót á dag í ferðum sem eru borgaðar af þinginu. Almenningur fær enga dagpeninga og getur ekki bætt fjárhag sinn með ferðalögum.

Engin áhersluatriði hafa verið lögð fram. Engin skýr fyrirmæli um hvernig bregðast skuli við óbærilegri skuldastöðu alls þorra almennings.

Ég er ekki að minnast á þetta viku eftir að kreppan skall á heldur nokkrum mánuðum síðar.
Það eina sem ég veit eftir þessa mánuða er að sukkið var geðveikara og skuldirnar margfaldar miðað við það sem haldið var í fyrstu.

Foringjar sem eru ráðalausir í þrjá mánuði eru ekki líklegir til þess að töfra góðar lausnir upp úr hatti eftir t.d. sex mánuði, ekki síst þar sem engin lausn á okkar vanda önnur en sú að vinna sig kerfisbundið út úr honum.

Ég kom ekki þessari kreppu af stað með ábyrgðarlausri notkun á peningum. Ég er fórnarlamb og leiksoppur. Mig langar til að lámarka þau óþægindi sem í vændum eru en engin aðgerðaáætlun er til í þá veru. Ég reyni að verða ekki þunglyndur og svartsýnn út af þessu. Ég reyni að festa ekki hugsunina við óskilgreind og óviss vandamál á næstunni.

En ég er kominn að því að missa móðinn. Forustan er engin forusta heldur froðusnakkar, óskipulagðir og ráðþrota og silalegir í hugsun, nema utanríkisráðherra sem er fjarverandi í heilaaðgerð.

Ég er kvíðinn, langþreyttur, áhyggjufullur. Ég varaði við þessum peningaleik strax í upphafi. Nú hef ég fengið nóg. Hvað á ég að gera? Fá mér lambúshettu og gerast athafnasinni? Sitja heima og finna svartsýnina vaxa hvern dag án aðgerða. ÉG ER REIÐUR OG LEIÐUR OG ÞOLI ÞETTA HEILADAUÐA ÁSTAND EKKI MIKIÐ LENGUR!

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Faglegur heiður

Ég blogga sjaldan og lítið í einu. Og aldrei um neitt sem gæti komið stjórnmálamönnum illa.


Faglegur heiður minn er í veði.

föstudagur, 9. janúar 2009

Tryggingastofnun til Tortúla

Í hagræðingarskyni hefur heilbrigðisráðherra nú ákveðið að breyta St. Jósefsspítala í einkarekna skurðstofu í Reykjanesbæ.


Næsta skref sem fyrirhugað er í hagræðingarskyni er að flytja Tryggingastofnun til Cayman-eyja með útibú á Tortúla og breyta heilbrigðisráðuneytinu í eignarhaldsfélag.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

10.056

10.056 atvinnulausir eru nú á skrá hjá Vinnumálastofnun, 6.329 karlar og 3.727 konur.

Sá sem síðastur mun bætast á atvinnuleysisskrána er rafvirkinn sem ráðinn hefur verið til að slökkva ljósin þegar síðasti Íslendingurinn flytur úr landi og skilur ríkisstjórnina eftir í svartnætti úrræða- og aðgerðaleysis.

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Hvað þarf marga hagfræðinga?

Geta 32 hagfræðingar haft á röngu að standa?

Eða geta 32 hagfræðingar ekki haft á röngu að standa?

Hvað þarf marga hagfræðinga til að hafa á röngu að standa?

þriðjudagur, 6. janúar 2009

Traustur stuðningur

Það er stórkostlegt að frétta að íslenska ríkisstjórnin skuli segjast ætla að styðja málssókn Kaupþings í Bretlandi. Það var náttúrulega ekki sjálfgefið að ríkið styddi sinn eigin banka í þessari nýju útrás.

Betri er hálfur skaði en enginn!

Millurnar 370 sem Glitnis-Bjarni segist vera búinn að skila eru væntanlega ætlaðar til að kaupa gott veður fyrir hann og familíuna á Íslandi ef einhverjum fer að leiðast í Noregi.


Gildismatið er enn óbreytt. Það skal allt vera falt fyrir peninga, líka æra og vinsældir. Og fólk hlýtur að trúa því að betri sé hálfur skaði en enginn!

Best væri nú að Bjarni ynni ekki fleiri kærleiksverk á næstunni heldur notaði aurana sína - hvernig svo sem þeir eru fengnir - til að stofna klaustur í Ódáðahrauni og settist í helgan stein. 

Bjarni gæti verið príór í klaustrinu og smámsaman laðað þangað og innmúrað þá 29 leikbræður sína sem búnir eru að setja Ísland á hausinn. Útrásarmógúlarnir hafa nú lagt einkaþotum í bili og þurfa að fá fiðraða vængstúfa í staðinn til að flögra um í snjóhvítum kyrtlum.

Trappista-klaustur í Ódáðahrauni fyrir 30 siðblinda þjófa og landráðamenn á mjóum batavegi gæti orðið alheimsundur og alþjóðlegur helgireitur og lokkað til sín ferðamenn frá öllum heimshornum og skapað þjóðinni atvinnu og gjaldeyristekjur en klausturmunkunum endurfædda sjálfsvirðingu og sálarró til dauðadags.