miðvikudagur, 30. apríl 2008

Draugabanar hjá Heklu


Stjórnendur bílaumboðsins Heklu hafa lagt til atlögu við verðbólgudrauginn að hætti fornra íslenskra galdramanna.


Hekla tilkynnti í dag allt að 17% lækkun á verði nýrra bíla.

Við sóttum fast að okkar framleiðendum um að fá betra verð í ljósi aðstæðna og erum í dag að lækka verðskrá okkar umtalsvert,“ segir Knútur G. Hauksson, forstjóri HEKLU.  „Verðbólgan er okkar helsti óvinur og atvinnulífið hefur  mikið um það að segja hvernig þau mál þróast,“ segir hann.

Niðurstaðan er sú að Volkswagen, Audi, Skoda, Mitsubishi og Kia, samþykktu að leggja sitt að mörkum til að taka þátt í þessu átaki.

Þessar bílategundir fá því heiðurstitilinn "draugabanar".

Hjúkkurnar settar á til næsta vors

Skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar á LSH munu draga uppsagnir sínar til baka og yfirstjórn sjúkrahússins hefur fallist á að fyrirhugaðar breytingar á vaktafyrirkomulaginu taki ekki gildi og að núverandi fyrirkomulag gildi til 1. maí 2009.


Það ber vitanlega að fagna því að stjórn Landsspítalans og heilbrigðisráðherra skuli ekki þurfa að fara í heilauppskurð til að skilja að hjúkkur eru nauðsynlegar til 1. maí að ári, jafnvel þótt þær séu sérmenntaðar.

Eftir að hafa frestað þessari athyglisverðu skipulagsbreytingu ætti stjórn Lansans hugsanlega að skella sér á námskeið í stjórnun og mannlegum samskiptum.

Forsætisráðherra hengir bakara fyrir smið

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það hafi verið mistök hjá fyrri ríkisstjórn að heimila Íbúðalánasjóði að veita allt að 90 prósenta lán til íbúðarkaupa. Íslendingar væru að súpa seyðið af þeim mistökum um þessar mundir.


Með fyllstu virðingu fyrir Geir Haarde þá fer um mann hrollur við að heyra að maður sem var fjármálaráðherra árum saman og er núna forsætisráðherra heldur að Íbúðalánasjóður sé valdur að erfiðu efnahagsástandi hjá fjölda fólks í dag.

Það er alrangt. Það er það óseðjanlegri græðgi bankanna að kenna að húsnæðislán fóru úr böndunum og 100% lánatilboðum í öllum heimsins gjaldmiðlum.

Það er Íbúðalánasjóði að þakka að fleiri Íslendingar en raun ber vitni skuli ekki þurfa að súpa seyðið af mistökum bankanna.

Það sem Geir Haarde ætti að gera núna væri að stofna Ríkisbanka sem keypti "húsnæðislánin" af gráðugu bönkunum. Það væri svo hægt að einkavæða bankann þegar hann væri búinn að þjóna tilgangi sínum - jafnvel væri hægt að einkavæða hann með heiðarlegum hætti.

Neyðaráætlun í stað hjúkrunarfræðinga


Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra segir að “samræmd neyðaráætlun sjúkrahúsanna” sé tilbúin, enda ekki seinna vænna þegar menn hafa losað sig um 80 skurðhjúkrunarfræðinga.

Neyðaráætlun í stað hjúkrunarfræðinga í hinni opinberu heilbrigðisþjónustu er sennilega sparnaðaraðgerð ætluð til þess að auðvelda einkavinavæðingu skurðaðgerða úti í bæ. Þar sem frjálshuga læknar setja upp litlar og heimilislegar skurðstofur og hafa aðgang að uppsögðum hjúkrunarfræðingi og eiga gaskút til svæfinga.

 

Ný stjórnmál - þau gömlu duga ekki lengur


Stjórnmálaflokkarnir sem ættu að vera umræðu- og greiningarmiðstöðvar fyrir pólitískar hugmyndir og þróun hafa brugðist hlutverki sínu. Þeir eru orðnir að útungunarmaskínum fyrir einslitan hóp fólks sem þyrstir í völd, valdanna vegna, og sækist eftir stöðutáknum og sérstökum fríðindum til að aðgreina sig frá almenningi í landinu.

Þetta skynjar viðskiptaráðherra sem nú hefur nú af hreinleik hjartans opnað rifu á huga sinn og sagt að það verði að frelsa Evrópusambandsumræðuna út úr flokkunum sem óttast átök og klofning. Þjóðin muni ráða þessu sjálf að lokum og eigi að gera það.

Evrópusambandið hefur “ekki verið á dagskrá” síðan yfirgangssamur foringi 40% Flokksins lýsti því yfir f “að Evrópusambandsaðild væri ekki á dagskrá.”

Íslenskir stjórnmálaflokkar eru eignarhaldsfélög um atkvæðakvóta í þingkosningnum. Kannski að það komi að því að atkvæðin þreytist á að lenda allt í sömu hugsanamöskvunum kosningar eftir kosningar.

Kannski að það bóli á nýjum pólitískum skilningi í varfærnum athugasemdum hins unga viðskiptaráðherra. Kannski er það að renna upp fyrir honum að kjósendur vilja að Samfylkingin sé sé sósíaldemókratískur flokkur þeirrar tegundar sem við þekkjum frá löndum í kringum okkur – en ekki hallelúja samkoma fyrir “sterkan leiðtoga”, matríarka í þessu tilviki.

Þjóðin verðskuldar betri stjórnmálamenn. Það þýðir að stjórnmálaflokkarnir hafa brugðist hlutverki sínu sem skólar og uppeldismiðstöðvar. Persónudýrkun og foringjahollusta þyrfti ekki að vera á námsskrá hinna nýju stjórnmálaflokka.

Það sem viðskiptaráðherrann okkar ungi, Björgvin G. Sigurðsson, er að gera í heiðarleik sínum er meira en að óska eftir því að almenningur taki kaleikinn frá stjórnmálaflokkunum og ræði um aðild að Evrópusambandinu. Hann segir okkur að flokkakerfi okkar sé ekki vandanum vaxið.

Þá umræðu hefur almenningur þegar gengið í gegnum, hafandi aðgang að interneti og upplýsingum frá öðrum löndum. Þar sem stjórnmálaforingjar leggja ekki metnað sinn í að fara á bakvið almenning, eins og stjórnmálaforinginn okkar sem hefur ferðast vítt og breitt um veröldina að undanförnu til að ræða ALLS EKKI Evrópusambandið við helstu talsmenn þess og hugmyndafræðinga.

Frelsa þarf stjórnmálin úr gíslingu hjá stjórnmálaflokkunum. Burt með héraðshöfðingja og atkvæðasmala.

Búum okkur til alvöru stjórnmálaflokka í stað þeirra sem eru nú þegar steinrunnir andlega og endurhæfum hina sem enn eru með lífsmarki – ef okkur langar upp á næsta stig lýðræðis sem tekur við af einkavinavæðingu, sjálftöku launa og nepotisma.

 

 

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Ráðherra rannsakar tilganginn með hjúkrunarfræðingum


Stundum hef ég heyrt þeirri skoðun haldið fram að tilgangurinn með því að hafa hjúkrunarfræðinga í vinnu á sjúkrahúsum sé fyrst og fremst sá að feimnir læknar komist á nauðsynlegan sjens og geti jafnvel náð sér í maka sem líka hefur brennandi áhuga á alls konar sjúkdómum.
 
Þetta hef ég alltaf haldið að væri grín. En nú er komið í ljós að stjórn Landsspítalans (væntanlega með blessun) heilbrigðisráðherra hefur þá skoðun að skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar séu óþarfir og hefur losað sig við um 80 stykki.
 
Hið rétta kemur svo í ljós þegar farið verður að skera og svæfa án hjúkrunarfræðinga.
 
Mun dauðsföllum fjölga meðal sjúklinga eða mun einhleypum læknum fjölga? Eða hvorttveggja?

Jafnoki Breshnévs



Hinn glöggi Jónas Kristjánsson segir á bloggi sínu: 


"Sjálfstæðisflokkinn vantar sinn Franco eða Mussolini. Er foringjaflokkur, ekki málefnaflokkur." 

Ég er sammála Jónasi um að Flokkurinn er foringjaflokkur en ekki málefnaflokkur og sem slíkur minnir hann mig meira á Kommúnistaflokkinn í Ráðstjórnarríkjunum en hina litskrúðugu fasistaflokka í Suður-Evrópu.

Mér fannst Davíð Oddsson alltaf vera íslensk vasaútgáfa af Stalín og Geir Haarde minnir mig meira og meira á Breshnév sáluga með hverjum deginum sem líður.

Öxar við ána - UPPFÆRT!




Öxar við ána árdags í ljóma
upp rísi þjóðlið og skipist í sveit.
Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma,
skundum til Brussel og treystum vor heit.
Fram, fram, aldrei að víkja,
fram, fram bæði menn og fljóð.
Í Evrópusambandi,
allir saman standi,
stríðum, vinnum, vorri þjóð.

Ungur maður á hraða snigilsins


Frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar um breytingar á eftirlaunalögum er enn á borði allsherjarnefndar.

Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, segir ekki enn ljóst hvort málið verði afgreitt á þessu þingi. 
 
Samt virðist þessi Birgir vera mikill dugnaðarforkur, samanber verulega impónerandi æviágrip hans á heimasíðu Alþingis, og ætti að geta skilið að öll þjóðin er að bíða eftir honum. Hann ætti að geta fengið allsherjarnefnd til að slá við hraða snigilsins í formúlu-keppni Alþingis.


Dauðarefsing í forvarnaskyni




Veggjakrotari gómaður í Reykjavík

Veggjakrotari var gómaður við iðju sína Reykjavík í nótt. Lögregla grunar hann um stófelld skemmdarverk.

"Öxin og jörðin geyma þá best!"

mánudagur, 28. apríl 2008

4 milljóna starfslokasamningur við verðbólgudraug


Nú hefur ríkisstjórnin samþykkt að setja fjórar milljónir króna í aðgerðir til þess að vinna gegn verðhækkunum.

Þetta er lofsvert framtak og sýnir vel umhyggju stjórnarinnar fyrir hag almennings.

Samt er ég smeykur um að reikningurinn sem almenningur þarf að greiða fyrir þá sem spiluðu rassinn úr buxunum komi til með að nema hærri upphæð en þremur mánaðarlaunum seðlabankastjóra.

Í landi þar sem það kostar 500 milljónir að gera starfslokasamning við ónýtan bankastjóra hlýtur að kosta umtalsverða peninga að gera starfslokasamning við verðbólgudraug.


Vorútsölur fyrir sérsveitarmenn







Eins og ástandið er í landinu, 28% verðbólga og svona, þá er kannski rétt að fara að huga að vorútsölunum fyrir sérsveitina okkar.

Góðar fréttir og vondar fréttir


Vondar fréttir:

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4% sem jafngildir 28% verðbólgu á ári.

Góðar fréttir.

En það er ekki alveg útilokað að við náum kosningu í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. 



Íslenska utanríkisráðuneytið á vini í háum stöðum



Kínverjar gera það ekki endasleppt við okkur Íslendinga og nú hafa þeir trúað utanríkisráðherra fyrir því að þeir ætli að styðja framboð íslenska utanríkisráðuneytisins til Öryggisráðs Sameinuðu þjóða. 

Kínverjar eru mjög öflugt þjóð eins og Tíbetar vita manna best og svo þeir sem muna rösklega framgöngu kínverskra sérsveitarmanna gegn soraöflum þjóðfélagsins á Tiananmen-torgi sællar minningar.

Með Kínverja að vinum sparast það ómak að útskýra afstöðu okkar til mannréttindamála, en framganga Kínverja í þeim málaflokki er öllum kunn - og framganga Íslendinga á því sviði er einnig farin að vekja töluverða athygli. 



Þess vegna má búast við að samherjar okkar í Jemen og Eþíópíu sem líka vilja fara hægt í sakirnar greiði okkur einnig atkvæði ásamt fleiri þjóðum í Asíu og Afríku sem eru sama sinnis.

sunnudagur, 27. apríl 2008

Máttarstólpar þjóðfélaga


Björgólfur Thor Björgólfsson er í 29. sæti á lista yfir ríkustu menn Bretlands sem Sunday Times birtir í dag.
 
Ég er hins vegar númer eitt á listanum yfir ríkustu íbúa við Fischerssund í Reykjavík og borga skattana mína glaður.

Sör Sigurður og Soraöflin í þjóðfélaginu


Soraöflin í þjóðfélaginu senda lögspekingnum Sör Sigurði Líndal kveðju Guðs og sína og spyrja nákvæmlega hvaða grein í stjórnarskránni er það sem bannar alþingismönnum að styðja soraöflin úr því að soraöflin hafa kosningarétt og mega styðja alþingismenn?

Við búum í þjóðfélagi sem gerist æ flóknara. Fyrir aðeins örfáum árum var hægt að þekkja soraöflin á því að þau voru ekki áskrifendur Moggans. Þá komu fríblöðin til sögunnar.

Frá því að kosningaréttur varð almennur hafa soraöflin alltaf átt nokkra fulltrúa á Alþingi en það hefur ekki komið að sök vegna þess að þessir þingmenn hafa jafnan lagt sig í líma við að gleyma uppruna sínum ef þeir (þær) hafa komist í ríkisstjórn.

laugardagur, 26. apríl 2008

Magnyl, vatnsglas og ohf á línuna


Er til of mikils mælst að ríkisstjórnin í heild sjái til þess að heilbrigðisstarfsfólk (svipað því sem myndin er af) sé ekki flæmt úr vinnu í stórum hópum?

Ég spyr vegna þess að heilbrigðisráðherrann virðist vera ófær um að leysa vandann, þótt hann hljóti að vita að sjúkrahús án starfsfólks hafa lítinn lækningamátt.

Að reka sjúkrahús samkvæmt neyðaráætlun væri snilldarlegt - ef hér geisaði styrjöld, pest og kólera og þjóðin væri í andarslitrunum – en spítalarekstur samkvæmt neyðaráætlun er ekki boðlegur á fögru og friðsömu vori árið 2008 meðan ríkisstjórnin svífur yfir þjóðinni í einkaþotum til að spara tíma og nóg er til af peningum.

Magnyl, vatnsglas og ohf á línuna dugir því miður ekki.

föstudagur, 25. apríl 2008

Jón Sig. mótmælir í Himnaríkismogganum


Í Celestial Observer & Guardian sem er eitt víðlesnasta fríblað Himnaríkis birtist í dag lesendabréf undirritað af aðila sem kveðst í jarðlífinu hafa gengið undir nafninu Jón forseti.
 
Fyrirsögn lesendabréfsins er "I protest" (ég mótmæli). Þar mótmælir bréfritari því harðlega að þriðja flokks pólitíkusar á Íslandi skuli halda því fram að Jón forseti væri andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu væri hann enn á dögum. Bréfritari segir að málið sé sér skylt. Hann sé sjálfur Jón forseti og ein þeirra margvísulegu forréttinda sem menn njóti í Himnaríki sé að fá að vera í algerum friði fyrir Sturlum Böðvarssonum þessa heims.
 
Vegna meiðyrðalaga á okkar tilverustigi er alls ekki hægt að vitna orðrétt í þau orð sem Forsetinn notar um Sturlu þingforseta en í lok bréfsins kemur í ljós að Jón forseti telur litlar líkur á því að vegir þeirra Sturlu eigi eftir að liggja saman á allranæstu árþúsundum eða "untill Hell freezes over", eins og Forsetinn kemst að orði í bréfi sínu.

Örvæntingarfullt ákall á hjálp?

Vondir íslenskumenn senda dómsmálaráðherra torskilinn haturspóst

 
Það er leitt til þess að vita að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem hefur engan lífvörð skuli vera lagður í einelti af dónalegum bloggurum.
 
Dæmi um skeyti birtir hann á bloggsíðu sinni:

 

"Í því fyrsta segir meðal annars:

"Ég vona af ollu minu hjarta að þú fáir banvænan og sársaukafullann sjúkdóm og lifir sem lengst í þjáningum, kannski gerir þér grein fyrir hversu mikil mannfýla þú ert undir þeim kringumstæðum, valdasjúkur ofbeldisseggur og geðsjúklingur".

Undir skrifar Snorri.

 

Hilmar Bjarnason er ekki jafn harðorður en segir

"sjáðu sóma þinn i því að reka þessa lögreglumenn sem gáfu skipun um þessar aðgerðir. EINIG SKALT ÞÚ SEGJA AF ÞÉR EMBÆTTI NÚ ÞEGAR!!!"

 

Þriðja bréfið er frá Arnóri Jónssyni,sem segir

„Góðan dagin björn gerðu þjóðini greiða og skjótu þig svo við hin getum lifað lifinu þu ert ein stæðst hálfiti Islands".

 

Á þessari stundu er ekki ljós hverjir skrifuðu þessi bréf en öll eiga þau sameiginlegt að stafsetningarkunnátta bréfritara er fyrir neðan allar hellur, þannig að hugsanlega telja bréfritarar að þeir telji sig eiga harma að hefna á Bíbí sem var lengi menntamálaráðherra og bar ábyrgð á stafsetningarkennslu, áður en hann sneri sér að öryggismálum.

 

Það getur verið erfitt að ráða í meiningu bréfritara vegna fákunnáttu þeirra í stafsetningu. Tökum til dæmis síðustu fullyrðingu Arnórs Jónssonar "þu ert ein stæðst halfiti Islands" og gæti hugsanlega þýtt "þú ert einn stærsti hálfviti Íslands."

 

Blogg af þessu tagi eru yfirleitt nefnd "sjálfsmorðsblogg" því að í þeim kemur yfirleitt fram IP tala sendandans, svo að margir sálfræðingar líta á blogg af þessu tagi sem örvæntingarfulla beiðni um hjálp.

Miðilsfundir á Alþingi - lýðræðislegt með tilliti til að fleiri eru dánir en lifandi.

Almenn ánægja ríkir nú á Alþingi er Sturla Böðvarsson hefur loksins fundið fjölina sína sem miðill.
 
Til marks um dásamlega miðilshæfileika hins mislukkaða þingforseta gær talaði Jón Sigurðsson gegnum Sturlu og sagðist vera á móti Evrópusambandinu.
 
Nú er búist við að þingforsetinn geti auðgað þingstörfin með skilaboðum að handa frá frægum hugsuðum og köppum Íslandssögunnar. Enda ekki vanþörf á að hefja umræðuna á hærra plan.
 
Það er á margan hátt eðlilegt að framliðnir velji sér gamlan og lítið notaðan samgönguráðherra sem talsmann sinn á Alþingi.
 
Greifinn af Monte Cristo hefur þegar verið í sambandi við Kristján Möller og frætt hann um gildi góðrar jarðgangnagerðar.

Mislukkuð mannfjöldastjórnun í Chicago - til þess eru vítin að varast þau

Á Netinu eru margar upplýsingar um "mannfjöldastjórnun" lögreglu.
Líka um mislukkaða mannfjöldastjórnun. Til dæmis er þessi grein sígild:
 
How Not to Control a Riot:
Mayor Daley and the Chicago Gestapo
 
The 1968 Democratic Convention in Chicago, Illinois, was the site of some of the most brutal acts committed by U.S. police against their own citizens. More than 10,000 anti-war protesters showed up for the convention, angered by the Democrats' planned nomination of a pro-war candidate, Hubert Humphrey. Mayor Richard Daley was very vocal in his hatred of the protestors. He had the Chicago police put up massive barricades around the convention and denied the protestors permits for demonstrations and parades.

Although some of the protestors planned to protest violently, the demonstrations probably would not have reached the level of full-scale riots if not for the police. The Chicago police, perhaps because of their own political views, saw the protesters as the enemy. Protestors, reporters, by-standers and anyone who voiced opposition to their tactics were beaten, gassed and then dragged off to be arrested. Even Red Cross medics who were trying to aid the wounded were beaten by the police.

Ísing - ný leið til að verjast verðbólgu

Kínverjinn Wang Jintu, 43 ára gamall, hefur sett nýtt heimsmet. Hann lá grafinn í ís í 90 mínútur og sló þar með fyrra met um 17 mínútur.
 
Með góðri þjálfun og stórri frystikistu er talið að hægt sé að stórbæta þennan árangur Kínverjans, þó vilja læknar benda Íslendingum á að gera ekki tilraunir með þetta heima hjá sér og mæla með öðrum aðferðum til að standa af sér kreppu og óðaverðbólgu.
 
Hins vegar hefur komið til tals að Háskóli Íslands geri þessa tilraun við vísindalegar aðstæður á þeim sem fara með stjórn efnahagsmála - til að hægja á þróuninni.

Tími Jóhönnu loksins kominn!

Greining Glitnis hefur hækkað fyrri verðbólguspá sína og gerir nú ráð fyrir að hækkun vísitölunnar milli mánaða verði 2% sem er þá mesta hækkun milli mánaða frá árinu 1989.

Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 10,2%.

"You ain't seen nothin' yet," sagði ágætur maður í upphafi tímabils talmynda or reyndist sannspár.

Verðbólgan er rétt að byrja. 10,2% eru fyrstu tölur!

Það er ekki skrýtið að ríkisstjórnin skuli vera meira og minna landflótta á mikilvægum fundum um vandamál annarra landa.

Eini ráðherrann sem heldur sig heima og man að hún er í Samfylkingunni og starfar hjá almenningi er Jóhanna Sigurðardóttir. Hennar tími virðist vera upprunninn. Hún ætti að gerast foringi Samfylkingarinnar í þessari ríkisstjórn.

Landflótta ráðherrar gætu ábyggilega fengið létta innivinnu í einhverju af okkar fjölmörgu sendiráðum.

Aukið valfrelsi í fréttum

Breska forsætisráðuneytið er nú að rannsaka leiðir til að stjórnmálamenn geti gert öllum til hæfis.
 
Aðferðin felst í því að senda út tvenns konar fréttir af öllu sem fer fram eða fer ekki fram í ráðuneytinu. Ef þessi tilraun heppnast vel má búast við að valkostum fjölgi verulega á næstunni og bráðlega verði boðið upp á þrenns konar fréttir, og ekki síðan en í júlí verði boðið upp á nægilega marga fréttavalkosti til að gera öllum til hæfis.
 
Fyrsta tilraunaútsendingin var í gær þegar forsætisráðherra lítils lands kom í heimsókn til Gordons Browns.
 
Um þann fund sagði breska forsætisráðuneytið:
 
a) Litli forsætisráðherrann spurði hvort hann fengi ekki gott veður þegar hann kæmi innan tíðar aftur norðan úr Íshafinu með umsóknaraðild um Evrópusambandsaðild upp á vasann.
 
b) Litli forsætisráðherrann harmaði að Bretar skyldu ekki hafa náð að vinna sér sæti í Evrópumeistarakeppni knattspyrnuliða í sumar og sagðist halda með breskum knattspyrnuliðum. Aldrei var minnst á Evrópusambandið eftir að þessi orð féllu.

Lausmælgi Breta veldur vandræðum

Í dag höfðu Bretar það eftir Geir H. Haarde að hann hafi trúað Gordon Brown fyrir því að sig blóðlangi til að ganga í Evrópusambandið.
 
Þetta var að vísu fúslega dregið til baka af breska forsætisráðuneytinu, þegar óskað var eftir því, enda eru fá fordæmi fyrir því að skýra almenningi satt frá umræðum ráðamanna um framtíð þjóða.
 
 

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Fjölmiðlaæsingur

Ummæli sjónvarpskonunnar frá í gær munu lifa áfram í sögu og ljóði:


„Ég gæti fengið einhvern til að kasta eggjum á meðan við erum læv ...“

Þetta rifjar upp spurningu blaðamannsins sem var að mynda rútufarm af belgískum nunnum sem stríðsmenn í Kongó höfðu hitt á förnum vegi:

"Anybody here who's been raped an speeks English?"
(Nokkur hér sem hefur verið nauðgað og kann ensku?)

Friðarboðskapur fyrir daga trukkabílstjóra sérsveita og Bíbís

Upplagðir textar að lesa eftir atburði gærdagsins:


Í Matthíasar-guðspjalli, 26:52, segir frá aðila sem hafði mjög eindregna skoðun á ofbeldi.

"...allir þeir sem grípa til sverðs munu farast fyrir sverði..."

Annar ágætur maður, Búddha, hafði áður sagt:

"Að því sem við hugsum verðum við. 

Ofbeldi - með og móti

The very first essential for success is a perpetually constant and regular employment of violence. 
Adolf Hitler 

 

Who overcomes by force hath overcome but half his foe. 

~John Milton, Paradise Lost, 1667

 

Nonviolence means avoiding not only external physical violence but also internal violence of spirit.  You not only refuse to shoot a man, but you refuse to hate him. 

~Martin Luther King, Jr.

 

Nonviolence doesn't always work - but violence never does. 

~Madge Micheels-Cyrus

 

Victory attained by violence is tantamount to a defeat, for it is momentary.  ~Gandhi


I object to violence because when it appears to do good, the good is only temporary; the evil it does is permanent.
 Mahatma Gandhi

 

He who fights with monsters should be careful lest he thereby become a monster. 

 ~Friedrich Nietzsche, Beyond Good and Evil

 

Violence is the last refuge of the incompetent.
Isaac Asimov

 

Keep violence in the mind 
Where it belongs (Barefoot in the Head)
Brian Aldiss

 

Violence is unnecessary and costly. Peace is the only way. 
Julius K Nyerere

 

There is a violence that liberates, and a violence that enslaves; there is a violence that is moral and a violence that is immoral. 
Benito Mussolini

 

Humanitarianism is the expression of stupidity and cowardice. 
Adolf Hitler 

Vetraríþrótt eða alhliða heilsurækt?


Gleðilegt sumar!
 
Nú kemur í ljós hvort bloggið festir sig í sessi sem alhliða andleg heilsurækt sem hægt er að stunda af sömu heiðríkju hugans vetur, sumar, vor og haust; svar Vesturlanda við jógaiðkun austrænna spekinga.
 
Eða hvort blogg er einkum stundað af súrum og súrefnissnauðum innisetuverum sér til hugsvölunar í vetrarmyrkri þegar óveðursskýin hrannast upp í huganum.
 
Trukkabílstjórum, lögreglustjórum, ofbeldissjúkum sérsveitarmönnum og dómsmálaráðherra óska ég heilbrigðrar skynsemi og friðar og þeim síðastnefnda góðra eftirlauna.
 
Ríkisstjórninni óska ég þess að það vaxi á hana eyru nógu næm til að hlusta á fólkið í landinu og að stund gefist til þess á lesbjörtu sumri að renna augunum yfir óuppfyllt kosningaloforð. Stjórnin á vonandi eftir að þroskast, því að í vetur hefur hún minnt á erfiðan ungling sem hefur sig lítið í frammi við heimilishaldið en stundar félags- og næturlíf af þeim mun meira kappi, lítur aldrei í bók og telur sig vita alla hluti betur en allir aðrir.
 
Þjóðinni óska ég gleðilegs sumars og áhyggjuleysis.
 

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Ég mótmæli ofbeldi lögreglunnar og ofsafengnum viðbrögðum við friðsamlegum mótmælaaðgerðum

Mig langar ekki til að búa í landi þar sem sérþjálfuð herlögregla beitir fólk ofbeldi.
 
Ég var að horfa á viðtal í sjónvarpinu við stúlku sem sagði frá því að fimm sérsveitarmenn hefðu handtekið vopnlausan mann sem enga tilraun gerði til að verjast handtökunni - lögreglumennirnir hefðu svalað afbrigðilegum hvötum sínum með því að þrykkja manninum í götuna og misþyrma honum með barsmíðum.
 
Ábyrgðina á þessum vopnaða skríl ber dómsmálaráðherra Íslands. Það er kominn tími til að Alþingi skipi sérstaka rannsóknarnefnd sem rannsakar hin geðveikislegu viðbrögð við mótmælaaðgerðum trukkabílstjóra.
 
Það má vel vera að aðgerðir bílstjóranna sem virðast helst beinast gegn óbreyttum borgurum séu pirrandi - en þessi ofsafengnu viðbrögð lögreglu eiga aðeins heima í lögregluríki.
 
Ég mótmæli því að hafa lengur yfir mér hernaðardýrkandi dómsmálaráðherra með geðvillta ofbeldisseggi í sinni þjónustu. Aðrir en geðvillingar beita varnarlaust fólk ekki ofbeldi.

þriðjudagur, 22. apríl 2008

Efnavopn í kjörklefum?


Í könnun sem Gallup og USA Today gerðu frá því á föstudag þar til á sunnudag sögðust 28% ánægð með störf Bush en 69% sögðust óánægð.

28% ánægjan er jöfn því sem áður hefur minnst mælst í forsetatíð Bush en 69% óánægja er hærri tala en sést hefur þau 70 ár frá því mælingar hófust.

Hvernig ætli að standi á því að mannleg greind mælist hærri í skoðanakönnunum en í kjörklefanum? Er einhverjum efnum sprautað inn í þessa klefa?

mánudagur, 21. apríl 2008

Björgvin náði ekki að dáleiða Kínverja



Björgvin ekki í stuði í Kínaferðinni
Stór hluti af fundi Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, með starfsbróður sínum í Kína fór í að ræða mannréttindamál og Tíbet. Björgvin tók með sér vasaúr afa síns sem oft hefur reynst vel við dáleiðslu.

Var þess vænst að hinn kínverski starfsbróður sæi villu síns vegar og færi að skæla og lofaði bót og betrun bæði í mannréttindamálum og í Tíbet. Þess í stað var hann hinn staffírugasti og sagði að hvað sem liði "íslenskum sjónarmiðum" væri allt í stakasta lagi samkvæmt "kínverskum sjónarmiðum" bæði í Kína og Tíbet og nágrenni.

Íslensk stjórnvöld telja þó ekki fullreynt að Íslendingar geti haft vit fyrir Kínverjum með því að senda þangað nógu marga stjórnmálamenn.

Í útflutningsráði er nú verið að hanna andlitsgrímu handa íslenskum stjórnmálamönnum sem gæti auðveldað þeim að koma tauti við Kínverja.

Samfylkingin greinist með Framsóknarheilkennið

Stjórnmálafræðingar hafa nú áhyggjur af því að Samfylkingin kunni að vera orðin sýkt af hinu svonefnda Framsóknarheilkenni.

Framsóknarheilkenni er krónísk uppdráttarsýki og hlýst af stjórnarsamstarfi við Flokkinn.

Helstu sjúkdómseinkenni sem koma jafnan fyrst fram í skoðanakönnunum eru.

1. Minnkandi gengi í skoðanakönnunum og kosningum.

2. Óánægja og þverrandi lífsgleði óbreyttra flokksfélaga.

3. Vaxandi veruleikafirring ráðamanna flokksins.

4. Vaxandi dylgjur um að flokkurinn sé einvörðungu spillt samtryggingarklíka um völd.

5. Vaxandi innbyrðis deilur í flokknum sem eru svo leiðinlegar að fólk tekur að forðast samkomur hans og fundi.


Orsakir eru ókunnar, en Framsóknarheilkennið dró nafn sitt af því að öruggt var talið að 12 ára náið samstarf við Flokkinn hefði haft einhvers konar geislavirknisafleiðingar sem leiddu til þess að heilbrigt fólk forðaði sér í skjól og forðast að eiga samskipti við þá sem eftir lifa úr fyrrnefndu 12 ára samstarfi við Flokkinn.

Nýtt líf ehf. styður íslensku krónuna


Ætlar að berjast til þrautar


Þráinn Bertelsson aðaleigandi og CEO Nýs lífs ehf. hefur ákveðið að halda áfram að telja fram í krónum í stað þess að taka einhliða upp evru eða yen.


"Mér finnst þetta koma flottara út í bókhaldinu," segir Þráinn. "Hundrað krónur gefa til kynna meiri umsvif en ein evra."


"Það er ljóst að við getum ekki tekið upp evruna á Íslandi nema við göngum í Evrópusambandið og við getum ekki gengið í Evrópusambandið nema við tökum upp evruna. Hin skynsamlega umræða um Evrópumál sem farið hefur fram hér að undanförnu hefur gert mér þetta ljóst," sagði Þráinn ennfremur. "Og best er að rasa ekki um ráð fram, hafa hælana í grasinu, ana ekki að neinu og muna að flasa ekki ekki til fagnaðar."


Sú staðreynd að um 70% landsmanna vilja sækja um aðild veldur Þráni ekki áhyggjum.


"Það er Flokkurinn sem ræður," sagði hann og huldi andlit sitt fyrir öryggismyndavélum.

Oháeffun, háeffun og eháeffun!

Ríkisstofnanir á opinberri einkaframfarabraut

Hin góða reynsla yfirmanna RUV ohf. af því að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi og batnandi kjör stjórnenda fyrirtækis leiða til þess að verið er að ræða oháeffun fleiri ríkisstofnana, þar sem yfirmenn hafa hingað til sopið dauðann úr skel miðað við þotuliðið.

Vilhjálmur Egilsson formaður nefndar um Landspítalann er búinn að fatta að þetta rekstrarform getur aukið "sveigjanleika í rekstri" og fer því sennilega að líða að oháeffun sjúkrastofnana.

Aðrar ósveigjanlegar ríkisstofnanir sem augljóslega verður að skoða í sambandi við oháeffun í náinni framtíð eru t.d. Lögreglan, Tollstjóri, Skattstofan, Seðlabankinn, Tryggingastofnun og hin ýmsu ráðuneyti.

Oháeffun er ákveðið vígslustig sem ríkisfyrirtæki verða að hljóta á leið sinni til efnislegra framfara.

Næsta stig heitir háeffun.

Æðsta stig sveigjanleika í rekstri heitir eháeffun.

Sem mótvægisaðgerð í efnahagslífinu ef af þessum áformum verður hefur ríkisstjórnin í athugun að draga úr lundaveiðum á næsta ári.

Óráðlegt að ákveða lundaveiði strax

Bjargveiðimenn í Vestmannaeyjum segja óráðlegt að ákveða lundaveiði sumarsins strax, þeir veiði aðeins brot af heildarstofninum.

sunnudagur, 20. apríl 2008

"Næstum" 300




"Vísir, 20. apr. 2008 18:35

Stofna varalið lögreglu á þessu ári


Stefnt er að því að tvöhundurð og fjörtíu manna varalið lögreglu verði stofnað á þessu ári. Þekktasta útkall varaliðs lögreglu var þegar NATO aðildin var samþykkt á Alþingi fyrir nærri 60 árum. Ekki hefur verið heimild til að kalla út varalögreglu síðan 1996."


240 varalögreglumenn og 48 sérsveitarmenn gera samtals 288.

Nú vantar bara að setja eina tylft (12) berserkja til viðbótar á fjárlög svo að Bíbí verði kominn með sama liðsstyrk og Leónídas Spartverjakonungur sem varðist milljón Persum í Laugaskarði. Nokkurs konar Bruce Willis fornaldar.

Útreikningar á glæpahneigð útlendinga

Spennandi útreikningar eru nú í gangi.
 
Hæfustu tölfræðingar sitja nú með sveittan skallann yfir skýrslum um afbrot á Íslandi (sem lögreglan hefur haft pata af) og reynir að reikna út hvort glæpahneigð sé meiri meðal aðfluttra útlendinga en innfæddra Íslendinga.
 
Það hefur komið í ljós að fleiri útlendingar fremja nú afbrot á Íslandi en meðan engir útlendingar voru á landinu aðrir en Balthazar Samper listmálari og Páll Pampichler Pálsson tónlistarmaður sem hvorugur var grunaður um glæpastarfsemi.
 
Hinar nýju tölur um glæpahneigð útlendinga er hægt að túlka á marga vegu, en fyrstu rannsóknir benda til þess að stórir hópar kynsveltra karlmanna á aldrinum 20 til 40 ára geti átt til að lenda í áflogum á fylleríum, einkum ef þeir eru útlendingar.
 
Fyrstu niðurstöður í útreikningum á glæpahneigð útlendinga benda til þess að
1) útlendingar séu djöflar í mannsmynd
2) útlendingar séu englar í mannsmynd
3) útlendingar séu venjulegt fólk - en flutningur fólks milli landa og tungumálasvæða hafi bæði kosti og galla.

laugardagur, 19. apríl 2008

Hafnarverkamenn ósammála Þorgerði Katrínu



Vinir Kínverja: Þorgerður Katrín og Múgabe

Það er leiðinlegt að hafnarverkamenn í Durban skuli ekki hafa jafn mikla trú á Kínverjum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra Íslands sem getur varla beðið eftir því að komast á Ólympíuleikana í Peking til að heiðra og gleðja kínverska ráðamenn með nærveru sinni.

Kínverska vopnaskipinu sem Kínverjar sendu Múgabe vini sínum í Simbabve var neitað um uppskipun af hafnarverkamönnum í Durban í Suður-Afríku. Hafnarverkamenn hafa sennilega ekki pólitískt vit á við íslenskan menntamálaráðherra, en eyrarkallarnir voru sannfærðir um að kínversku vopnin ætti að nota til að halda hræinu Múgabe og ógnarstjórn hans við völd, hvað sem líður úrslitum kosninga í landinu. Þess vegna neituðu þeir að afgreiða dallinn og sögðu Kínverjunum að sigla sinn sjó.

Núna mun vopnaskipið vera statt fyrir utan Beira í Mocambique í von um afgreiðslu svo að hríðskotarifflar og eldflaugasprengjur komist í tæka tíð til Harare í Simbabve, þannig að ekki þurfi að murka lífið úr andstæðingum Múgabes með sveðjum eða berum höndunum.

Það sækjast sér um líkir og Kínverjar eru í miklum kærleikum við Múgabe sem hefur fengið aura hjá þeim eftir þörfum fyrir aðgang að auðlindum landsins.

Ef einhverjir keppendur frá Simbabve mæta á Ólympíuleikana verða þeir ábyggilega glaðir að sjá íslenska menntamálaráðherrann þarna í Kína hjá velgjörðamönnum þeirra og Múgabes.

Haldið þið kjafti!


"Mikil opinber umræða getur verið óheppileg, skapað óraunhæfar væntingar og þar með haft neikvæð áhrif."


Þetta sagði Geir H. Haarde formaður Flokksins og forsætisráðherra Íslands á fundi með Samtökum atvinnulífsins sl. föstudag á því Herrans ári 2008 e. Kr - ekki f. Kr.


Bara svo að það sé á hreinu:


Sá hornsteinn sem öll hin sameiginlega velferð okkar byggist á heitir TJÁNINGARFRELSI. Opinber umræða getur vissulega verið óheppileg, jafnvel banvæn, fyrir óhæf stjórnvöld en hún er undirstaða velferðar almennings. Á því grundvallaratriði að það sé best fyrir heildina að allir hafi óheftan rétt til að tjá sig hvílir þjóðfélagsgerð okkar. Allt annað í stjórnarskrá okkar leiðir af þessu atriði.


föstudagur, 18. apríl 2008

Fleiri sekir en sveðjumorðinginn

visir.is

"Plank laug í Kastljósi"

Það hafa nú sosum fleiri gert - og þarf ekki erlenda sveðjumorðingja til.

Mengun getur verið til prýði


Bleik og fögur mengunarský

Olíumengunarstöðin sem reisa á fyrir vestan mun hafa tvo kosti með sér.
Í fyrsta lagi verða mengunarskýin yfir Vestfjörðum bleik - að minnsta kosti til að byrja með. Bleik mengunarský smjúga auðveldlegar gegnum umhverfismat en til að mynda grængulur viðbjóður.
Í öðru lagi er það aukabúgrein í olíuiðnaðinum að láta hreinsunarstöðvar ekki einvörðungu hreinsa olíu.
Svona mannvirki eru líka notuð til að skola af illa fengnum peningum svo að bankar geti síðan tekið við þeim til að þvo og strauja og koma þeim síðan í örugga vörslu á Aruba, Cayman eða Liechtenstein.

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Múgabar allra landa

"Brown: Það þarf að stöðva Robert Mugabe

Heimurinn verður að stöðva Robert Mugabe, segir Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands."

Þessu er ég sammála.

Múgaba allra landa þarf að stöða, hvar svo sem þeir kunna að hafa grafið um sig.

Kínverjar fá mikilvægan stuðningsmann

"Þorgerður ítrekar að hún ætli til Peking

thorgerdur300×200.jpgÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, ítrekaði á Alþingi í morgun að hún stefni á að vera viðstödd bæði setningu og lokahátíð Ólympíuleikanna í Peking í Kína í haust. Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins skoraði á ráðherrann á Alþingi í morgun að láta ógert að mæta."

Þessi ákvörðun Þorgerðar flokkast undir "virka utanríkisstefnu" sem á að sýna umheiminum hvers konar þjóð Íslendingar eru inn við beinið; þjóð sem ekki ætlar að vera til leiðinda í alþjóðasamfélaginu með því að setja umdeild "mannréttindamál" á oddinn.

Ef til vill kemur Þorgerður að máli við þá forystumenn Falun-Gong-hreyfingarinnar sem ekki hefur náðst að stinga í fangelsi sér til hvíldar í Kína. Ekki er ólíklegt að þessi mannúðar- og leikfimihreyfing vilji þakka íslenskum stjórnvöldum varmar viðtökur þegar hópurinn kom til Íslands hérna um árið.

Ef Þorgerður skrópar úr Kínaferðinni er líklegt að Kínverjar dragi til baka stuðning sinn við framboð Íslands í öryggisráð SÞ.

Vonast er til að Þorgerður hafi jafnmikinn og langlífan sóma af þessari ferð og til var stofnað.

Ekkert klám en nóg af vændi

Á dv.is:

"Má selja sig en ekki bera sig

"Mér finnst mjög undarlegt hvernig lögin eru. Vændi er löglegt en klám ólöglegt," segir átján ára stúlka sem selur aðgangi að netsýningum þar sem hún leikur sér nakin með kynlífsleikföng."

Benda má á að svipaðar reglur gilda til dæmis um stjórnmálamenn sem mega selja sig en ekki klæmast með því að tala um viðskiptin. Samanber þessa frétt á eyjan.is:

"Borgarfulltrúar vita ekki eða vilja ekki skýra frá hvaða fyrirtæki styrktu þá

borgarstjorn.jpgEnginn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks segist vita hvers konar fyrirtæki styrktu prófkjörsbaráttu þeirra fyrir síðustu kosningar. Þeir segja í svörum sínum til 24 stunda í dag, að þeir hafi enda skipað nefndir til að afla sér fjár til að geta staðið í baráttunni."

 

Ekki er ólíklegt að atvinnusamtök bæði stjórnmálamanna og vændiskvenna og aðra sem lagaramminn draga úr aðstöðu til að afla sér framfæris efli til stórfundar um málið.

Eiga konur fleiri börn en karlar?

 
Í fyrra hækkuðu laun verkafólks um 9,6%, forstjóralaun hækkuðu ívið meira eða um 15,1%, eins og eðlilegt er því að forstjórar hafa meira um sín laun að segja en verkafólkið.
 
Góðærið var slíkt að meira að segja laun kvenna hækkuðu um 12,5% en laun karla aðeins um 9,5%. Þessi munur á launahækkanaprósentu er mjög óvenjulegur því að meðallaun karla eru hærri en meðallaun kvenna og hefðu samkvæmt því átt að hækka meira.
 
Meðallaun kvenna á strípuðum töxtum voru 256 þúsund á mánuði en með hæfilegri yfirvinnu 256 þúsund. Regluleg heildarmánaðarlaun karla voru 402 þúsund.
 
Líka er athyglisvert að vinnuvika kvenna var aðeins 41,8 klukkutímar á viku meðan karlmenn þurftu að puða í 46,8 stundir.
 
Engar skýringar hafa fundist á því af hverju kvenfólk vinnur minna en karlar. Þær þurfa ekki endilega að vera latari en karlmenn því að hugsanlega kemur til greina að konur eigi fleiri börn en karlar og jafnvel fleiri heimili og gefi sér meiri tíma til að skemmta sér við barnauppeldi eða heimilisstúss.
 
 

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Yfirvegaður ræningi leikur lausum hala

mbl.is skýrir frá þessu:

Ræningja enn leitað

Lögreglan leitar enn ræningja sem sem framdi vopnað rán í söluturni við Grettisgötu í gærkvöldi. Hann var vopnaður hnífi og er sagður hafa verið yfirvegaður.
 
"Yfirvegaður" er nokkuð góð mannlýsing svo að lögreglan verður sennilega ekki í vandræðum með að finna þennan mann sem var nógu yfirvegaður til að ræna söluturn vopnaður hnífi.
 
Hagfræðingar telja að afbrot af þessu tagi séu til marks um minnkandi tiltrú almennings á bönkunum í landinu.