föstudagur, 27. febrúar 2009

Fjarri "Führerbunker" og fréttum

Ágætu bloggarar.

Fréttir af fíflaganginum á Alþingi vegna frumvarps um að breyta aftur í seðlabanka stofnun sem veruleikafirrtur maður með stórmennskuhugmyndir hafði breytt í "Fuhrerbunker" ásamt þeirri síbylju "að það þurfi að gera eitthvað fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin til að forða þeim frá grandi" - án þess að nokkur maður hreyfi legg né lið í þá veru - hafa haft þau áhrif á mig að ég er þurfandi fyrir kyrrðardaga án nets og fjölmiðla og úrfelli einskis nýtra upplýsinga.
Ég ætla að draga mig í hlé frá heimsins bloggi, fjölmiðlum og fésbókum í fáeina sólarhringa og reyna að hreinsa burt það svartsýnissót sem hefur sest í áruna mína. Svo sný ég aftur með frið í hjarta og ofurlitla vonartýru um að í stað þess að græða á daginn höfum við lært að hegða okkur eins og siðaðar manneskjur hvert við annað áður en við kveikjum upp í grillinu á kvöldin, nema vitanlega þeir sem Andskotinn og árar hans hafa sigtað út til að leggja á eilífðargrillið og klípa með glóandi töngum allt til efsta dags og kannski lengur.
Þreyttar hlustirnar á mér ætla ég að hvíla með fagurri tónlist og hvíla augun á ljótleika og ringulreið með lestri á sígildum textum. Og svo ætla ég oft í sund til að samhæfa heilbrigða sál og hraustan líkama.
Kem síðan aftur þegar jarmandi frambjóðendahjörðin hefur hætt að reyna að hjúfra sig að okkur eins og fráfærulömb að mæðrum sínum.
Verið öll kært kvödd á meðan.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Með lýðræði gegn klíkum

Á aukakjördæmisþingi Framsóknarfélaganna í Reykjavík sl. laugardag milli 10 og 12 virtist flokkurinn ætla að taka sér pasu frá þeim nýju og lýðræðislegu vindum sem blása um samfélagið.


Ákveðið var á fundinum að hafa "uppstillingu" á Reykjavíkurlistum, þó með þeim tilbrigðum að kjördæmisþing mætti kjósa milli frambjóðenda þeirra sem þar væru í boði "uppstillingarnefndar".

Framfaravilji og þróun í lýðræðisátt sá helst stað í því snjallræði að samþykkja orðfegrunarbreytingu frá Sigríði Magnúsdóttur, hinni ástsælu stjórnmálakonu og förstöðumanns Sædýrasafnsins. Tillagan var samþykkt í einu hljóði og héðan af skulu "uppstillingarnefndar" Framsóknarflokksins heita því hljóðþýða nafni "forvalsnefndir."

Þessi fortíðardýrkun kom okkur nokkuð á óvart sem höfðum hugsað að bjóða okkur fram í lokuðu prófkjöri allra framsóknarmanna í kjördæmunum, ekki síst þar sem við erum komin með ungan og nýtískulegan formann og hugðum undir hans forystu losna við klíkustjórnmálin sem sett hafa ýmsan svartan blett á sögu okkar góða flokks á undanförnum árum.

Nú er um tvennt að ræða fyrir framsóknarmenn: a) halda áfram að afsala sér kosningarétti í flokknum í hendur örfarra fulltrúa sem þeir þekkja engin deili á og fela engin fyrirmæli, b) eða halda sínu striki og gera Framsóknarflokkinn aftur að raunverulegu og trúverðugu stjórnmálafli sem byggist á innra lýðræði.

Þegar ég gaf kost á mér í annað af tveimur efstu sætum Reykjavíkurkjördæma hvarflaði ekki að mér annað en prókjör yfir meðal allra skráðra félaga. Uppstillingarnefnd (nú forvalsnefnd) kom eins og köld vatnsgusa á þann hugsjónaeld að hefjast handa um að sameina Framsóknarflokkinn og afla honum nýrra kjósenda.

En að athuguðu máli máli hyggst ég ekki láta gömlu klíkurnar og íhaldssemina buga mig. Ég stend við framboð mitt og mun reyna fram á síðasta dag að sannfæra "uppstillingar-forvalsnefndina" um að í nafnlyftingunni felist krafa um að velja á lista þá frambjóðendur sem ekki einvörðungu eiga einhverja skírskotun í innstu klíkum Framsóknarflokksins heldur einnig í djúpi þjóðlífsins, en þaðan þurfum við Framsóknarmenn liðsinni sem aldrei fyrr í komandi kosningum, nýtt fólk, nýja félaga sem kenna okkur að endurnýja styrk flokksins með nútímalegum vinnubrögðum og með því að leggja af klækjastjórnmál og forsjárhyggju.

Þá sem vilja veit þessu framboði mínu brautargengi við ég að ganga við eða hringja á skrifstofu Framsóknarflokksins fyrr en síðar og koma á framfæri stuðningsyfirlýsingu við framboðstilkynningu mína með góðri kveðju til forvalsnefndar - fyrrum uppstillingarnefndar.

Með vinsemd og virðingu Þráinn Bertelsson

P.S. Kl. 18.30.
Þauð tíðindi hafa borist mér til eyrna að aldrei hafi komið til greina í alvöru að stjórn Kjördæmissambands Reykjavíkur í samvinnu við formann Framsóknarflokksins sýndi flokksfélögum það traust að mæla með prófkjöri meðal allra flokksmanna í Reykjavík til að setja saman framboðslista í komandi kosningum.
Ég aðhyllist ekki pólitík reykfylltra bakherbergja og dreg hér með framboð mitt til baka.
Úrsögn úr flokknum fylgir.

föstudagur, 6. febrúar 2009

Peningar - nei takk!


Vegna þess að ég hef ákveðið að gefa kost á mér í fyrsta til annað sæti á öðrum hvorum framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík vil ég taka fram að ég afþakka allravinsamlegast allan fjárhagslegan stuðning frá fyrirtækjum og einstaklingum við þetta framboð mitt. 


Þá einstaklinga sem hefðu viljað styrkja mig með fjárframlögum bið ég að skilja að ég vil engum vera háður um stórt né smátt. Ef menn eru alveg friðlausir að sýna mér stuðning í verki mega þeir hins vegar tala hlýlega um mig í eyru þeirra sem minna  þekkja til mín.


Fjármagn - kr. hundrað og áttatíu þúsund - til að kynna framboð mitt verður tekið út úr heimilisrekstri mínum og fjölskyldu minnar - að afstöðnum nokkuð snörpum samningaviðræðum. Áætlað er að kosningasjóðurinn þurfi að standa undir pappír, ljósritun og póstburðargjöldum til að senda ósk um stuðning til hvers einasta félaga í Framsóknarflokknum í Reykjavík.


Með vinsemd og virðingu,


Þráinn Bertelsson


mánudagur, 2. febrúar 2009

Botnlaus hamingja!

Aldrei hefði mig órað fyrir að ríkisstjórn skipuð erkióvinunum Samfylkingu og VG gæti haft svona friðsæl og róandi áhrif á mig. Ég treysti Jóhönnu fyrir lífi mínu og er ekkert hræddur við Gylfa viðskiptaráðherra né Rögnu dómsmálaráðherra. Katrín menntamálaráðherra skelfir mig ekki heldur og þá ekki Kolla í umhverfisráðuneytinu. Ásta Ragnheiður  gerir ábyggilega eitthvað skemmtilegt í félagsmálunum, því að hún kann margt fyrir sér síðan á framsóknarárum sínum.


Aðrir í ríkisstjórninni eru “þekkt andlit”, “gamlir kunningjar” og valda manni ekki ótta heldur fremur þreytu eða leiða. Samgönguráðherrann hlýtur til dæmis að vera með sogskálar á óæðri endanum úr því að honum tókst að hanga á ráðherrastólnum.


Stjórnin hefur það með sér að hún hefur lofað að snúa sér fyrst að því þjóðþrifamáli að losna við Davíð Oddsson úr Seðlabankanum jafnvel þótt það geti kostað tíu Toyotajeppa að draga hann út af kontórnum. Eftir þessu bíð ég spenntur, því að þetta verða kannski ekki “makleg málagjöld” en “málagjöld” ei að síður. 


Svo er spennó hvað þeir ætla að gera við innherjaráðuneytisstjórann í fjármálaráðuneytinu sem umpólaðist af græðgi og fór í verðbréfabrask þegar hann átti að vera í annarri vinnu.


Ég er ekki nógu bjartsýnn til að trúa því að það takist að elta uppi auðuga gróðapunga og frysta eigur þeirra og láta þá æla upp úr sér lausafénu. Þetta væri kannski hægt ef Bíbí væri gerður að sériff eða sérstökum markskálki og settur yfir greiningardeildina og sagt að gera eins og Elliott Ness í The Untouchables. Og fengi verðlaun fyrir stykkið. Það er nefnilega töggur í Bíbí sem ekki hefur fengið að njóta sín vegna alls konar mannréttindakjaftæðis sem hann hefur orðið að taka tillit til.


Mest hlakka ég til góðra daga án Davíðs, helst til æviloka, og megi hann fara sem fyrst á öll möguleg og ómöguleg eftir- og ellilaun, bara ef hann fær ekki tækifæri til að gera meira af sér. Maður sem getur sett heilan seðlabanka á hausinn í fyrsta sinn í veraldarsögunni er ekkert blávatn hvernig svo sem hendurnar á honum eru á litinn.


Varðandi afnám forréttinda þingmanna og ráðherra í lífeyris- og eftirlaunamálum vildi ég koma þeirri tillögu á framfæri við stjórnina að gera undantekningu með Davíð, og umfram allt vil ég að það sem hann vinnur sér inn með ritstörfum skerði ekki eftirlaun hans á neinn hátt. Þetta er dáldið spes maður og er vanur dáldið spes meðhöndlun. Ég hlakka til dæmis til að lesa faglega ritdóma um bækurnar sem hann gefur út eftir að búið er að taka af honum ægishjálminn sem hann bar yfir land og þjóð eins og töfralæknir með vúdú-grímu.


Þetta er bara botnlausn gleði og hamingja. Eina sem skyggir á sálarfriðinn er: Hvað verður nú um garminn hann Hannes Hólmstein Gizurarson?

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Höfðinglegt boð

Það er mikill léttir að fá einstöku sinnum á ævinni að ganga til náða vitandi það að ránfuglinn svífur ekki yfir landi og situr ekki á húsmæninum hjá manni. Einræðisfokkurinn ræður ekki landinu.


Nú er stjórn Jóhönnu og Steingríms tekin við völdum og ætlar að lyfta Grettistaki á áttatíu dögum. 


Við fáum stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá í fyllingu tímans. Græðgin verður sett í bann og reynt að takast á við afleiðingar hennar.  Bráðum kemur betri tíð.


Og allt þetta í boði Framsóknarflokksins - sem er nú genginn í endurnýjun lífdaganna, kátur eins og lamb á vordegi.