föstudagur, 27. febrúar 2009

Fjarri "Führerbunker" og fréttum

Ágætu bloggarar.

Fréttir af fíflaganginum á Alþingi vegna frumvarps um að breyta aftur í seðlabanka stofnun sem veruleikafirrtur maður með stórmennskuhugmyndir hafði breytt í "Fuhrerbunker" ásamt þeirri síbylju "að það þurfi að gera eitthvað fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin til að forða þeim frá grandi" - án þess að nokkur maður hreyfi legg né lið í þá veru - hafa haft þau áhrif á mig að ég er þurfandi fyrir kyrrðardaga án nets og fjölmiðla og úrfelli einskis nýtra upplýsinga.
Ég ætla að draga mig í hlé frá heimsins bloggi, fjölmiðlum og fésbókum í fáeina sólarhringa og reyna að hreinsa burt það svartsýnissót sem hefur sest í áruna mína. Svo sný ég aftur með frið í hjarta og ofurlitla vonartýru um að í stað þess að græða á daginn höfum við lært að hegða okkur eins og siðaðar manneskjur hvert við annað áður en við kveikjum upp í grillinu á kvöldin, nema vitanlega þeir sem Andskotinn og árar hans hafa sigtað út til að leggja á eilífðargrillið og klípa með glóandi töngum allt til efsta dags og kannski lengur.
Þreyttar hlustirnar á mér ætla ég að hvíla með fagurri tónlist og hvíla augun á ljótleika og ringulreið með lestri á sígildum textum. Og svo ætla ég oft í sund til að samhæfa heilbrigða sál og hraustan líkama.
Kem síðan aftur þegar jarmandi frambjóðendahjörðin hefur hætt að reyna að hjúfra sig að okkur eins og fráfærulömb að mæðrum sínum.
Verið öll kært kvödd á meðan.

Engin ummæli: