þriðjudagur, 7. júlí 2009

Icesave moldviðrið

Moldviðrið, maður ætti eiginlega að segja gjörningaveðrið kringum ICESAVE heldur áfram.

Stjórnin vill meina að öll kurl séu komin til grafar og sá samningur sem nú liggur fyrir við Hollendinga og Breta sé sá skásti sem hægt sé að ná með samningavirðræðum.
Gagnrýni um að samninganefnd Íslands hafi ekki búið að mikilli sérþekkingu á samningaviðræðum er illa tekið og talin móðgandi fyrir Svavar Gestsson sendiherra sem var formaður samninganefndar þeirrar sem Steingrímur setti saman og bað að ljúka samningum fljótt og vel. Hugmyndir um að hafna samningum og taka aftur upp samninga sem tryggi Íslendingum greiðsluhámark sem þeir þurfi að standa undir á hverju ári vekur ekki hrifningu meðal þeirra sem kjósa að standa við að samninganefn okkar við hinn fyrri samning hafi í raun landað "frábærum samningi" þegar allt er tekið með í reikninginn.
Dómstólaleiðin er einnig gagnrýnd, því að viðsemjundar okkar hafi ekki áhuga á að leggja málið í dóm. Auk þess gætum við tapað málinu og fengið vondan skell. Sá skellur yfir þó aldrei verri en svo að leiða í ljós að við værum gjaldþrota og gætum ekki borgað vegna yfirstandandi þjóðargjaldþrots.
Að þessu sögðu er vandséð að okkar bíði eitthvað verra en hinn nýi Icesavesamningur ef við höfnuðum honum á þessu stigi málsins. Málið fer einfaldlega aftur á reit eitt. Við byrjum aftur að semja. Ekkert liggur á. Jú, AGS vill að þessi samningur verði leiddur til lykja. Þá íhlutun í íslensk samningamál er ekki sjálfsagt að samþykkja, jafnvel þótt AGS eigi í hlut. En þá kemur annar þrýstingur: Til að EBS-umsókn njóti velvildar þyrftum við að vera búin að leiða til lykta Icesave-deiluna. En er það nauðsynlegt. Er ekki nóg að vera í samningaferli sem miðar að því að finna málamiðlun og lausn.
Það er engum í hag að gera Íslendinga gjaldþrota. Það er ekki Icesave í hag að krefjast greiðslna sem við getum ekki garanterað að við getum staðið undir þeim. Best er að semja up hófsama g skynsamlega lausn.
Gerum það: með samninganefndum, lögfræðiályktunum, skírskotunum til dómstóla og skírskotunum til greiðsluþaks til að treysta greiðsluþol.
Þetta mál á ekki að vera prófsteinn á leið okkar til að nálgast ESB að öðru leyti en því að við viljum komast að sanngjarni og ábyrgri niðurstöðu. Eftir nokkrar vikur.

Setjum saman samninganefnd sem samanstendur af sérfræðingum um samninga sem þessa. Menn sem þekkja allar hliðar á þessum málum, lagalegar, framkvæmdarlega og vita að eftirlit með þessum reikningum brást ekki aðeins frá Íslands hálfu heldur einnig í Hollandi og Bretlandi. Við Íslendingar berum vissulega ábyrð, en ekki alla ábyrgðina. Við erum reiðubúin að greiða það sem við getum með eignum bankanna sem eðlilegast er að mótaðilar taki í sínar hendur og við erum einnig reiðubúin að miðla upp upplýsingum til Serious Fraud Office í Englandi um hvar Isave-krimmarnir halda sig, hvar þeir búa og hafa bækistöðvar, svo að Serious Fraud Office gæti nálgast eignir þeirra og notað til að greiða hinar horfnu innistæður.
Leiðum þetta mál til lykta í samningnum og verum svo reiðubúin að greiða þjóðaratkvæði um niðurstöðuna þegar hún liggur fyrir.
Ruglið um að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms sé fallin ef gallaður Icesavesamningur nær ekki fram að ganga á sér enga stoð í veruleikanum. Það að eitt stjórnarfrumvarp stjórnarinnar nái ekki fram að ganga nema með breytingum, hefur ekkert með líf stjórnarinnar að gera.
Þeir þingmenn sem vilja fá stjórnina frá ef Icesave verður fellt, verða að sætta sig við að málinu er aftur vísað til hennar og vilji þeir leggja fram vandtrauststillögu gegn stjórninni mun Borgarhreyfingin verja stjórnina falli. Það eru engir nema sjálfstæðisþingmenn sem dreymir um að hrekja stjórnina frá og það getur orðið torsótt iðja fyrir fyrir sjálfstæðismenn sem eiga skuldlaust heiðurinn af því klúðri sem málin snúast nú um að bjarga og koma til betri vegar. En það hefur vakið verðskuldaða athygli í umræðum um málið að ábyrgðar og sektar tilfinning Sjálfstæðismanna gagnvart þróun vandamálsins virðist þeim vera gleymd með öllu. Það breytir þó ekki öllu því að minnisbetri menn sitja í öðrum flokkum.
Nú er næst að hafa þessum Icesavesamningi og hefja þegar aðra samningalotu og má hugsa sér að leita til dómstóla með ákveðin atriði til að fá úr því skorið hvort mistök allra málsaðila hafi ekki skaðað þá alla.
Það liggur á að leysa þessa deilu. En það liggur ekki á að hraða henni svo mjög að lagarök, sögulegt rök nái ekki í gegn og eftir sitji samningur upp á gífurlega óvissu fyrir Íslendina næstu 15 ár. Við viljum samning sem tryggt er að sé ekki ofviða gjaldþoli Ísland - og slíkan samning ætlum við að fá, enda er skynsamlegra fyrir samningsaðila okkar að fá það sem við getum borgað eða alls ekki neitt eða í versta falli greiðslur sem sprengja okkur og verða okkur ofvitað á leiðinni.
Í prinsípunni á samningurinn að ganga út á að Bretar geti fengið innistæður Landsbankans í Bretlandi - og svo með lögreglurannsókn að einkaeigum þeirra glæpamanna sem settu þessa fjárglæfra af stað. Með fullkominni fyrirlitningu á stöðu Íslands í málinu og þann einlæga brotavilja að komast ekki undir hollenska og breska lögsögn sér til aðhalds og bjargar.
Þetta er ekki skemmtilegt mál, en það er hægt að lenda því svo að allir geti við lifað á eftir.


þriðjudagur, 28. apríl 2009

Beiskur ertu, Drottinn minn!

Ýmsir, þar á meðal Kúlulánadrottning Íslands og fyrrum menntamálaráðherra, hafa orðið til þess að hneykslast á því að að maður sem Alþingi samþykkti einum rómi að sæma heiðurslaunum listamanna skuli síðan hafa gerst svo ósvífinn að berjast fyrir og vinna þingsæti í stað þess að sitja steinþegjandi og sjúga dúsuna sína til dauðadags.

Að mati þessara aðila er vítavert að maðurinn skuli ekki segja sig frá þeirri viðurkenningu sem hann hefur hlotið fyrir list sína nú þegar fyrirsjáanlegt er að hann muni fá greitt þingfararkaup fyrir væntanlegt starf sitt sem alþingismaður.

Í nafni jafnræðis er þar til máls að taka að löng hefð er fyrir því að þingmenn þiggi fleiri greiðslur en þingfararkaup eitt saman, jafnvel frá hinu opinbera - þótt kúlulán séu nýmæli og undantekning sem betur fer. 

Fyrsta og gleggsta dæmið eru ráðherrar sem þiggja ráðherralaun ofan á óskert þingfararkaup þótt öllum megi ljóst vera að ráðherra vinnur ekki þingmannsstarfið af sömu natni og sá sem ekki þarf að gegna ráðherraembætti. 

Annað dæmi eru sveitarstjórnarmenn sem sitja á þingi og þiggja laun eða skert laun úr heimasveit.

Löng reynsla er fyrir því að þingmenn sem tengjast atvinnulífinu haldi áfram að þiggja tekjur fyrir stjórnarsetur í stofnunum og fyrirtækjum eða bændur á þingi tekjur af búum sínum enda eru engar reglur sem banna þingmönnum að þiggja aðrar greiðslur en þingfararkaup fyrir unnin eða óunnin störf.

Jafnframt er það regla fremur en undantekning að heiðurslaunaþegar þiggi laun eða eftirlaun fyrir önnur störf, enda væru heiðurslaun ekki annað fátæktargildra ef ekki væri heimilt að afla tekna umfram þau.

Það er illt til þess að vita að heiðurslaun mín sem nema eitthundrað og fimmtíu þúsund krónum á mánuði fyrir skatta - og hafa ekkert með starfslaun listamanna að gera - skuli hafa valdið svona mikilli fjölmiðlaathygli og vandlætingu. 

Góðviljaðir aðilar hafa ráðlagt mér að kaupa mig undan þessari athygli með því að gefa andvirði heiðurslauna til einhvers líknarfélags en þeirri lausn hafna ég, enda þarf ég ekki að kaupa mér siðferðilega aflausn hafandi ekkert af mér brotið - annað en þiggja án umsóknar æðstu viðurkenningu sem íslenska þjóðin kann að veita listamönnum sínum. 

Það sem miður góðviljaðir aðilar hafa rætt og ritað um þetta sýnir aðeins þeirra innræti en ekki mitt og er þar af leiðandi þeirra vandamál en ekki mitt.

Ég saup á því sem að mér var rétt og vissi ekki að svona mikið gall væri í kaleik þjóðarinnar og segi því eins og kerlingin forðum: 

Beiskur ertu, Drottinn minn.

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Góð tilfinning!

X-O! Aaaalveeeg frááábææær tilfinning!

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Svartur listi

Einkunnarorð rógbera eru “Let the Bastard Deny It” (“látum bastarðinn bera á móti því”). 


Með því að ata einhvern auri er rógberinn viss um að viðkomandi muni aldrei aftur eignast tandurhreinan skjöld þrátt fyrir að hann/hún reyni að hreinsa mannorð sitt með sjálfum sannleikanum; kannski vegna þess að vondu og óheiðarlegu fólki þykir lygin skemmtilegri lífsförunautur en sannleikurinn.


Í augnablikinu er ég skotmark rógberanna. Ástæðan fyrir því að jafn hversdagsleg persóna og ég skuli yfirleitt verða fyrir rógi er sú að einhverjum vex í augum það mikla fylgi sem Borgarahreyfingin virðist ætla að uppskera í kosningunum - það vill svo til að ég er í efsta sæti Borgarahreyfingarinnar í Reykjavík-norður, því kjördæmi þar sem fylgið er einna mest. Þess vegna þarf að koma á mig höggi og þar með Borgarahreyfinguna. Klámhöggi.


Með aurinn í andlitinu er ég ekki frýnilegur; ég lít ekki lengur út fyrir að vera venjuleg manneskja heldur spillt ófreskja sem einskis svífst. 


Að sögn rógberanna tókst mér með tilstyrk Framsóknarflokksins að sölsa undir mig heiðurslaun Alþingis sem aukabónus fyrir að hafa gert kosninga-auglýsingar fyrir Framsóknarflokkinn - sem ég fékk reyndar borgaðar skilvíslega samkvæmt taxta og hef aldrei talið til skuldar hjá Framsóknarflokknum síðan.


Þessi saga dregur upp þá mynd af mér að ég sé fégírugur og samviskulaus skratti, svo valdamikill og óprúttinn að ég geti látið heilan stjórnmálaflokk ganga erinda minna að vild í eiginhagsmunaskyni. Sannleikurinn (og vonandi ég líka) lítur öðruvísi út:


Um aldamótin samþykkti fundur í Félagi kvikmyndaleikstjóra að fela formanni sínum, Friðriki Þór Friðrikssyni, að skrifa bréf til menntamálanefndar Alþingis. Efni bréfsins var vekja athygli menntamálanefndar og Alþingis á því að engin listgrein á Íslandi hefði staðið með meiri blóma en kvikmyndagerð á ofanverðri tuttugustu öld. Meðal annars þótt þess væri ekki getið í bréfinu höfðu tvær íslenskar kvikmyndir verið tilnefndar til helstu kvikmyndaverðlauna heimsins. “Börn náttúrunnar” til Oscars-verðlauna “Besta erlenda myndin” og “Magnús” til tveggja Evrópuverðlauna “Besta kvikmynd” og “Besta handrit”. 


Í þessu sambandi var minnt á þá staðreynd að engum kvikmyndagerðarmanni hefðu hlotnast heiðurslaun Alþingis og sömuleiðis var minnst á nafn mitt í bréfinu ef vera kynni að það hlyti náð fyrir augum nefndarinnar.


Þetta er hinn einfaldi sannleikur - en svo heldur sannleikurinn áfram og gerist nú hálfkindarlegur á svipinn:


Á því hausti (man ekki ártalið) sem til stóð að úthluta heiðursverðlaunum spurðist það úr nefndinni að þar kæmi nafn mitt til greina. Það vakti, merkilegt nokk, athygli og vanþóknan manns sem var “nægilega valdamikill og óprúttinn til að geta látið heilan stjórnmálaflokk ganga erinda sinna”. Þetta var formaður FLokksins og þáverandi forsætisráðherra Íslands. Hann brást illa við þessari hugmynd og sagðist víst ekki kæra sig um að mér væri sómi sýndur og allrasíst af Alþingi Íslendinga.


Nú brá svo við að Sjálfstæðisflokkurinn aftók með öllu að mér yrðu veitt heiðurslaun Alþingis. Mörgum þótti merkilegt að formaður flokksins skyldi skipta sér af þessu máli sem seint verður talið til stórmála varðandi afkomu og öryggi þjóðarinnar. Einkum þótti kyndugt að ráðherrann skyldi leggja svo mikla fæð á einn listamann að þola  ekki að heyra minnst á nafn hans. 


Ýmsir spurðu hvað ég hefði gert manninum fyrir utan að vera ósammála honum í stjórnmálum og skrifa um hann nokkrar hortugar greinar meðan aðrir þorðu varla að anda á hann. Því gat ég ekki svarað enda var það á flestra vitorði að ekki þyrfti mikið til að vekja andúð forsætisráðherrans og hefnigirni.


Nú víkur sögunni aftur að menntamálanefnd Alþingis. Á þessum tíma átti sæti í henni Ólafur Haraldsson þingmaður Framsóknarflokksins. Ólafi blöskraði að forsætisráðherra Íslands skyldi ganga svona fram að tjaldabaki í krafti embættis síns að leggja einn listamann í einelti. Til að hamla gegn ranglætinu og ná fram einhvers konar réttlæti fékk Ólafur því framgengt að engum heiðurslaunum yrði þá úthlutað svo lengi sem einhver eða einhverjir tilteknir aðilar væru á leynilegum svörtum lista og kæmu því ekki til álita. Það skal tekið fram að þetta gerði Ólafur af sinni eigin réttlætiskennd án þess að ég bæði hann né nokkurn annan mann ásjár.


Liðu svo nokkur ár án þess að heiðurslaunum Alþingis væri úthlutað. Ástæðan fyrir þessari meltingarstíflu í kerfinu var feimnismál, því að ekki mátti tala opinberlega um geðsmuni forsætisráðherrans og þaðan af síður um að hann kynni að hafa yndi af því að nota embætti sitt til að klekkja á andstæðingum sínum. Þarna var komin upp pattstaða sem hélst óbreytt árum saman og breyttist ekki þótt skipt væri um nefndarmenn í menntamálanefnd. Kristinn H. Gunnarsson tók við af Ólafi Haraldssyni í nefndinni og reyndist vera jafnmikið á móti einelti eins og Ólafur hafði áður verið.


Út á við þótti þessi pattstaða hvorki auka virðingu forsætisráðherra né Alþingis og svo fór að lokum að skynsemin sigraði heiftina. Samkomulag varð um að veita nokkrum listamönnum heiðurslaun, þar á meðal undirrituðum, jafnvel þótt forsætisráðherranum væri það þvert um geð.


Þetta ógeðfellda þrátefli í pólitíkinni út af minni hversdagslegu persónu var að sjálfsögðu á vitorði þeirra sem gerst þekkja til í stjórnmálum en í leynum fyrir öllum þorra alþýðu enda eru önnur og viðameiri stjórnmál en þetta venjulega í brennidepli umræðunnar. Ég komst að sjálfsögðu ekki hjá því að fylgjast með þeirri snerru sem átti sér stað þarna að tjaldabaki. Þessi heift og ófyrirleitni hins freka og fordekraða forsætisráðherra kom mér ekki á óvart. Árum saman hafði ég séð afskifti hans og fingraför á öðrum stöðum, ekki síst í mínu fagi, kvikmyndagerðinni þar sem Kvikmyndasjóður hafði tekið að sér sérstaklega æskuvin forsætisráðherrans með feitum úthlutunum flest ár - til að tryggja að eitthvert fjármagn fengist yfirleitt í sjóðinn á fjárlögum og forðast vanþóknun forsætisráðherrans sem var þá valdameiri en margir sem kallaðir eru einræðisherrar í þriðja heiminum.


Þegar mér var loksins tilkynnt að menntamálanefnd og Alþingi hefði hrist af sér óttann við að ganga á móti vilja forsætisráðherrans og til stæði að veita mér þessa viðurkenningu varð ég harla glaður. Hvorttveggja var að mér þótti vænt um heiðurinn fyrir ævistarf sem stundum var býsna erfitt og að mér þótti sem í þessu tiltekna máli hefði réttlætið unnið sigur þrátt fyrir eineltistilburði formanns FLokksins. Mér fannst satt að segja að sanngirnin hefði sigrað óbilgirnina og það þýddi að skynsemin hlyti að sigra heift og illvilja. Þetta er aðalástæðan fyrir því að mér er þessi viðurkenning Alþingis á ævistarfi mínu svo kær sem raun ber vitni.


Adam - eða undirritaður - var þó ekki lengi í Paradís með heiðurslaunin sín, því að nú fór Skrímsladeild FLokksins í líki Hannesar H. Gissurarsonar á kreik til að hefna þess í héraði sem hallast hafði á Alþingi. Hannes sem af eigin reynslu þekkir pólitíska spillingu út í æsar tók sig til og fór að skrifa blaðagreinar sem lýstu mikilli vandlætingu á þeirri spillingu að með tilstyrk Framsóknarflokksins hefði mér, gjörspilltum manni, “tekist að sölsa undir mig heiðurslaun Alþingis sem aukabónus fyrir að hafa gert kosninga-auglýsingar fyrir Framsóknarflokkinn”.


Og þá er sagan komin aftur að upphafi sínu. Þannig og þarna byrjaði rógur Skrímsladeildar FLokksins og tilraun til mannorðsmorðs. 


Með þessum fátæklegu orðum ætla ég mér ekki þá dul að koma í veg fyrir að einhver trúi lyginni og róginum. Það gera þeir sem það vilja og það verða alltaf einhverjir til þess að trúa hinu versta upp á náungann. Það sem mér gengur til er að gera tilraun til að hreinsa mig af þeim óhreinindum sem Skrímsladeildin telur FLokkinn hafa hagsmuni af að dælt sé yfir mig samkvæmt kjörorðinu “Let the Bastard Deny It”, “látum bastarðinn bera á móti því”.


Rétt skal nefnilega vera rétt og hér er sannleikanum til haga haldið, hvort sem ég er bastarður eða ekki. Einhverjum kann að þykja þetta ótrúleg saga, en þá er því til að svara að “Október-hrunið mikla” og “FL-Group-mútumálið” eru ekki einu ólíkindasögurnar sem gerðust í langri og dapurlegri stjórnartíð FLokksins, sem í mínum huga verður ávallt birtingarmynd siðspillingar og mannfyrirlitningar.


Allavega bið ég alla sanngjarna lesendur að leyfa mér að njóta vafans ef einhver vafi virðist leika á þeirri atburðarás sem var á bakvið þau heiðurslaun sem Alþingi veitti mér með samhljóða atkvæðum allra þingmanna úr öllum flokkum (ekki bara Framsókn!) - og umfram allt bið ég fólk að láta ekki Skrímsladeildina fæla frómar sálir frá stuðningi við Borgarahreyfinguna. 


Þessi saga öll er dæmisaga um hvers vegna fólk snýr sér núna í stríðum straumi frá spillingarFLokknum og er velkomið til samstarfs með okkur í Borgarahreyfingunni. 


Þjóðin á þing! 

5% múrinn klifinn! X-O!

Fylgi Borgarahreyfingarinnar er sjö prósent og tala þingmanna verður fjórir segir nýjasta Capacent Gallup skoðanakönnunin um úrslit kosninganna.


Fimm-prósenta-múrinn sem Flokkaveldið hefur reist í kringum Alþingi er ekki auðvelt að klífa, enda er fjölmiðlaumhverfi á Íslandi heldur fjandsamlegt nýrri hugsun, nýjum hugmyndum, nýrri stjórnmálahreyfingu. Þrátt fyrir þetta hefur Borgarahreyfingunni tekist að ná eyrum þjóðarinnar með þann nauðsynlega boðskap að lýðræði sé eftirsóknarverðara en flokksræði, að við þurfum stjórnlagaþing án tafar, að bregðast þurfi af alvöru við vanda heimilanna, að rétt sé að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið og láta síðan þjóðina skera úr um þetta gamla deilumál.


Manneskjuleg rödd Borgarahreyfingarinnar er farin að heyrast gegnum klisjuþrugl, slagorð, yfirboð og besservisser-frasa hinnar hefðbundnu stjórnmálaumræðu. Þar sem rödd lýðræðisins fær að hljóma er ekkert ómögulegt!


X-O! Þjóðin á þing!

mánudagur, 20. apríl 2009

Skel og kjaftur

Það má kannski flokka það undir gikkshátt að nenna ekki að lesa blað sem er svo merkilegt að það var niðurgreitt af þjóðinni um þrjá milljarða til að Óskar Magnússon og félagar hans hefðu efni á að gera blaðið að sínu málgagni. Já, ég á við Morgunblaðið sem mér finnst ævin vera of stutt til að lesa, ekki síst vegna þess að svo margt sem er bæði satt og skynsamlegt fer framhjá manni ólesið á hverjum degi.


Nú er það svo að þegar hamast er við að hræra saman óhreinindum berast sletturnar víða: Ég hef sannspurt að Agnes Bragadóttir sem því miður hefur starfsheitið blaðakona muni hafa skrifað grein í Morgunblaðið, 18.-19. ap., til þess að gera lítið úr Ástþóri Magnússyni og síra Karli Matthíassyni og haft vesaling minn undir í leiðinni. Ekki ætla ég að móðga þá Ástþór og síra Karl með því að mótmæla Agnesi Bragadóttur fyrir þeirra hönd né sannleikans, því að allir eru þessir aðilar fullkomlega færir um svara fyrir sig sjálfir, líka sannleikurinn.


Í fljótu bragði skilst mér að tilgangur Agnesar með skrifum sínum hafi verið sá að gera lítið úr Frjálslynda flokknum, Lýðræðishreyfingunni og Borgarahreyfingunni með því að herma ávirðingar sannar eða lognar og aulahátt upp á okkur þrjá fyrrnefnda talsmenn þessara hreyfinga og afskræma málflutning okkar til að gera okkur og þær hugsjónir eða skoðanir sem við höfum í senn fráhrindandi og bjánalegar.


Agnesi kann að þykja það góð latína að láta tilganginn helga meðalið þegar hún lætur dæluna ganga yfir andstæðinga FLokksins og Blaðsins. Sérlega virðist henni vera lagið að komast hjá því að sannleiksmolar stífli flæðið. Til að mynda hefur hún þetta eftir mér: “Þráinn... sagði að ef fólki liði ekki óbærilega, þá myndi atvinnuástandið á Íslandi lagast af sjálfu sér!”.


Ég get verið sammála blaðakonunni um að hvað ég sagði í raun og veru kemur málinu lítið við. Allrasíst í umfjöllun sem hefur fyrst og fremst þann tilgang að sýna fram á að ég þekki ekki mun á réttu og röngu. 


Í sannleikans nafni er þó rétt að það fái að koma fram að mitt tal gekk út á að til þess að heilbrigt atvinnulíf geti blómstrað þurfi heilbrigðar ytri aðstæður og í heilbrigðum þjóðfélögum þurfi ríkisstjórnir/einræðisherrar ekki að grípa til atvinnuskapandi örþrifaráða. Ég viðurkenni að þetta er torskildari hugmyndafræði en “álver er sama sem áttaþúsund störf” sem er sú mantra sem Illugi Gunnarsson fulltrúi Flokksins þuldi í þessu samhengi, enda fórst það fyrir hjá Agnesi að benda á að sú fullyrðing er hvorttveggja í senn, ósönn og óskammfeilin. 


Ég viðurkenni líka að minn tilgangur var ekki að gera hosur mínar grænar fyrir Agnesi, Blaðinu né öðrum pólitískum áróðursmaskínum. Minn tilgangur var að tala við fólk eins og fullþroska vitibornar verur og jafningja mína í stað þess að kaffæra það með pólitísku froðusnakki sem hugsanlega hljómar eins og ættjarðarljóð í eyrum Agnesar en hefur enga merkingu í eyrum þess sem er vanur því að heyra hanagal pólitískrar umræðu eins og hún gerist frumstæðust og dapurlegust í litlu landi.


Fleira var það nú ekki í bili nema hvað ég ætla að nota tækifærið úr því að ég er að skrifa á þessum nótum á annað borð og og óska Agnesi til hamingju með Morgunblaðið með þriggja milljarða afslætti og Morgunblaðinu til hamingju með Agnesi án afsláttar. Þar hæfir skel kjafti.



sunnudagur, 19. apríl 2009

Nýir dómstólar

Tillaga mín um fjölgun dómstiga úr tveim í þrjú er ekkert sérstaklega frumleg; meira að segja hafa lögfræðingar áður lagt til slíka fjölgun, einkum til að tryggja, að einungis mikilvægustu mál lendi á efsta dómstiginu, það er að segja í Hæstarétti.  Millidómsstiginu er ætlað að létta þrýstingi af Hæstarétti sem fellir iðulega óvandaða dóma í tímahraki. 


Ég tel það væri mikil framför að koma hér upp dómskerfi sem væri þrjú stig í stað tveggja. Sérstakur aukaávinningur væri líka að með þeirri uppstokkun yrði að ráða alla dómara “upp á nýtt” sem til þess væru hæfir, án þess að flokksskírteini, ættar- eða vináttutengsl kæmu við sögu - og er ekki vanþörf á eftir margra ára markvissa misnotkun á nýliðun í dómskerfi okkar.


Sumir munu sjálfsagt segja, að varla sé hægt að fara eins með Hæstarétt og Seðlabankann, þar sem bankastjórarnir hafi nánast verið taldir brjóta af sér með afglöpum í starfi, og það hafi réttlætt lagabreytinguna, sem var notuð til að leggja niður störf þeirra auk annarra skipulagsbreytinga.


Þá er því til að svara að:


(a) innan við þriðjungur þjóðarinnar treystir dómskerfinu samkvæmt ítrekuðum mælingum Capacents mörg ár aftur í tímann. Sú niðurstaða getur talist lýsa þeirri skoðun fólksins í landinu, að afglöp hafi verið framin í dómskerfinu, þ.e. rangir dómar felldir. (Jón Steinar Gunnlaugsson skrifaði bók á sínum tíma um ranga dóma Hæstaréttar). Almenningur er tortrygginn gagnvart dómskerfi þar sem starfa m.a. “briddsfélagi, náfrændi og einkasonur”.


(b) lögmannafélagið hefur árum saman óskað eftir vandaðri ráðningum í dómarastörf, en stjórnvöld hafa daufheyrst við þessum óskum.


(c) nýlega voru tveir dómarar skipaðir í Hæstarétt, “náfrændinn og vinurinn”, þótt margir aðrir umsækjendur væru mun hæfari að dómi Hæstaréttar sem leggur samkvæmt lögum mat á umsækjendur um dómarastörf. Betra væri að erlendir menn væru einnig hafðir með í ráðum svo sem tíðkast um mikilvægar ráðningar víða á háskólastiginu skv. lögum og einnig í Seðlabankanum skv. nýju lögunum.


(d) nú þegar mikil málaferli eru í uppsiglingu í kjölfar bankahrunsins er brýnt að Hæstiréttur njóti óskoraðs trausts. Ef velsmíðaðar ákærur Evu Joly og annarra á hendur þeim sem keyrðu bankana og landið í kaf stranda í óbreyttum Hæstarétti mun það skaða álit landsins heima og erlendis.


Fleiri rök eru sjálfsagt til bæði með og móti í þessu máli en mikilvægast af öllu er að undinn verði að því bráður bugur að endurheimta traust dómstólanna í landinu.

Afneitun og heilbrigð skynsemi

Stundum er fólk að spyrja mig hvort ég sé ekki alveg hissa á því hvað Borgarahreyfingunni gengur rosalega vel í skoðanakönnunum og er alveg við að ná inn að minnsta kosti þremur þingmönnum.  


Nei, ég er ekki hissa á því að öfgalaus hreyfing hugsandi hugsjónafólks skuli núna loksins knýja á dyr Alþingis. Hins vegar er ég öldungis hlessa á því að milli fjórði og fimmti hver kjósandi á landinu skuli segjast ætla að kjósa SjálfstæðisFLokkinn - eftir þau 18 ár sem á undan eru gengin og miðað við þá stöðu sem við erum í núna.


Í huga mínum reyni ég að finna einhverja skýringu á því furðulega félagslega fyrirbæri að vilja fela brennuvörgunum slökkvi- og uppbyggingarstarfið - og það áður en reykinn er hætt að leggja upp af rústunum. 

Hluti af skýringunni er sennilega afneitun. "SjálfstæðisFLokkurinn er minn flokkur sem ég trúi á eins og Guð og Man Utd og hefur ævinlega á réttu að standa hvað svo sem skilningarvit mín, annað fólk og fjölmiðlar kunna að segja". Allir alkóhólistar og aðstandendur þeirra vita að afneitun getur verið svo sterk að heilbrigð skynsemi verði að gjalti. Það er að vísu nokkuð hátt afneitunarstig að horfa yfir þjóðfélagið okkar, rifja upp Útrásarvíkinginga, Elton John, West Ham, Nyhedsavisen, stórmennskubrjálæði, spillingu, vanhæfi og heimsku, Októberhrunið og Sjallastyrkina og panta blákalt annan umgang af því sama. 


Íslensk afneitun á sama stigi og þrjóska sauðkindarinnar.

Hvað sem þessu líður og hvort sem skýringin á því að SjálfstæðisFLokkurinn skuli hafa tveggjatölustafafylgi er afneitun eða umburðarlyndi hins langpínda þá skiptir það mestu máli að fólk taki afstöðu í kosningunum og kjósi í stað þess að sitja heima eða skila auðu.

Autt atkvæði eða ógreitt er atkvæði greitt hinum neikvæðu öflum tilverunnar. 


Það kann að vera að atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum sé til marks um afneitun á ástandinu eins og það er en autt atkvæði eða ógreitt er afneitun á því að samfélag okkar skipti viðkomandi nokkru einasta máli. Það er skortur á virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Fullkomin katatónísk afneitun. Þá finnst mér meira að segja mennskara að kjósa Sjallann, ef menn vilja afneita því að notfæra sér heilbrigða skynsemi.


mánudagur, 13. apríl 2009

Nýja dómstóla, nýja lögreglustjórn!

Fyrstu hundrað daga næstu ríkisstjórnar þyrfti að nota m.a. til að stokka upp skipulagið á  dómsvaldinu, til dæmis með því að hafa dómstigin þrjú  frekar en tvö. Til að koma á nýju skipulagi yrði að leggja niður störf allra dómara í Hæstarétti samkvæmt heimild í stjórnarskránni og skipa síðan í réttinn  upp á nýtt með nýrri aðferð svipaðri þeirri, sem nýju seðlabankalögin  kveða á um.


Ljóst má telja, að hvorki "vinurinn" né "frændinn" yrðu þá  endurskipaðir.


Með þessu móti væri betur tryggt, að útgefnar ákærur frá rannsóknarnefndinni og sérstökum saksóknara fengju rétta eða að minnsta kosti trúverðuga meðferð í Hæstarétti. Sams konar endurskipulagning og  endurráðningar þyrftu einnig að eiga sér stað í undirrétti.


Að þessum breytingum gerðum mætti vinda sér í að leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra og fara að huga að stofnun Lögreglumiðstöðvar Íslands.  


Markviss endurskipulagning til að losna við einkavina(frænda)væðingu í dómskerfinu myndi mælast mjög vel fyrir - og er að mínu viti réttlát hugmynd sem ég vona að sem flest ykkar geti verið mér sammála um. Spilling snýst ekki bara um að taka við skítugum peningum heldur einnig um að leiða flokkshesta til valda. Leysum þá af básnum. Gefum þeim frí.


X-O! Borgarahreyfingin - þjóðin á þing. Heiðarleiki og breytingar!