sunnudagur, 19. apríl 2009

Nýir dómstólar

Tillaga mín um fjölgun dómstiga úr tveim í þrjú er ekkert sérstaklega frumleg; meira að segja hafa lögfræðingar áður lagt til slíka fjölgun, einkum til að tryggja, að einungis mikilvægustu mál lendi á efsta dómstiginu, það er að segja í Hæstarétti.  Millidómsstiginu er ætlað að létta þrýstingi af Hæstarétti sem fellir iðulega óvandaða dóma í tímahraki. 


Ég tel það væri mikil framför að koma hér upp dómskerfi sem væri þrjú stig í stað tveggja. Sérstakur aukaávinningur væri líka að með þeirri uppstokkun yrði að ráða alla dómara “upp á nýtt” sem til þess væru hæfir, án þess að flokksskírteini, ættar- eða vináttutengsl kæmu við sögu - og er ekki vanþörf á eftir margra ára markvissa misnotkun á nýliðun í dómskerfi okkar.


Sumir munu sjálfsagt segja, að varla sé hægt að fara eins með Hæstarétt og Seðlabankann, þar sem bankastjórarnir hafi nánast verið taldir brjóta af sér með afglöpum í starfi, og það hafi réttlætt lagabreytinguna, sem var notuð til að leggja niður störf þeirra auk annarra skipulagsbreytinga.


Þá er því til að svara að:


(a) innan við þriðjungur þjóðarinnar treystir dómskerfinu samkvæmt ítrekuðum mælingum Capacents mörg ár aftur í tímann. Sú niðurstaða getur talist lýsa þeirri skoðun fólksins í landinu, að afglöp hafi verið framin í dómskerfinu, þ.e. rangir dómar felldir. (Jón Steinar Gunnlaugsson skrifaði bók á sínum tíma um ranga dóma Hæstaréttar). Almenningur er tortrygginn gagnvart dómskerfi þar sem starfa m.a. “briddsfélagi, náfrændi og einkasonur”.


(b) lögmannafélagið hefur árum saman óskað eftir vandaðri ráðningum í dómarastörf, en stjórnvöld hafa daufheyrst við þessum óskum.


(c) nýlega voru tveir dómarar skipaðir í Hæstarétt, “náfrændinn og vinurinn”, þótt margir aðrir umsækjendur væru mun hæfari að dómi Hæstaréttar sem leggur samkvæmt lögum mat á umsækjendur um dómarastörf. Betra væri að erlendir menn væru einnig hafðir með í ráðum svo sem tíðkast um mikilvægar ráðningar víða á háskólastiginu skv. lögum og einnig í Seðlabankanum skv. nýju lögunum.


(d) nú þegar mikil málaferli eru í uppsiglingu í kjölfar bankahrunsins er brýnt að Hæstiréttur njóti óskoraðs trausts. Ef velsmíðaðar ákærur Evu Joly og annarra á hendur þeim sem keyrðu bankana og landið í kaf stranda í óbreyttum Hæstarétti mun það skaða álit landsins heima og erlendis.


Fleiri rök eru sjálfsagt til bæði með og móti í þessu máli en mikilvægast af öllu er að undinn verði að því bráður bugur að endurheimta traust dómstólanna í landinu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman hvernig þú virðist ekki tengja neitt saman bókina Deilt á dómarana eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, sem þú minnist á í a-liðnum, og hæfnismat þessa sama Jóns, sbr. c-lið. Eða helduru að Jón Steinar hafi verið í sérstöku uppáhaldi hjá Hæstaréttardómurum sem gáfu umsögnina um hann eftir að hafa gefið bókina út?

Í bókinni rekur afskaplega góð rök fyrir því að Hæstiréttur hafi áður fyr gengið erinda ríkisvaldsins, þ.e. dæmt ríkinu í vil. Samt virðist þú telja að það sé hann en ekki hinir sem eitthvað er athugavert við, en hefur reyndar ekki séð ástæðu til að rökstyðja það svo heitið geti. Finnst þér þetta ekki pínu furðulegt hjá þér Þráinn?

Annars er það rétt að þriðja dómstig hefur verið lagt til, t.d. hér http://www.domsmalaraduneyti.is/media/frettir/Skyrsla_17.10.08.pdf þar sem það helgast einkum af því að menn vilja virða meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu einnig á áfrýjunarstigi.

Unknown sagði...

Ég hef líka verið fylgjandi því að setja upp þriðja stjórnsýslustigið á milli sveitarstjórna og landsstjórnar. Mörg sveitarfélög eru of lítil til að sinna þeim verkefnum sem til stendur að færa til þeirra og hafa því þurft að sameinast eða verið þvinguð til þess. Millistjórnsýslustig gæti tekið yfir stóran hluta af þessum verkefnum, s.s. skóla og heilsugæslu o.fl. Með því ynnist að skólar stæðu jafnfætis óháð stærð sveitarfélaga, lítil sveitarfélög yrðu ekki útundan vegna þess að bolmagn skorti til að reka ákv. þjónustu sem sveitarfélög eiga að sinna og sameiningarþrýstingi yrði létt af þeim.

Sævar Guðmundsson sagði...

Mér finnst sérkennilegt að þú skulir gera Jón Steinar að skotspæni þínum, sérstaklega í því samhengi að dómar vegna hneykslismála efnamanna muni ekki njóta trausts, ef hann er í réttinum. Jón Steinar er eini dómarinn, auk Ólafs Barkar (hinn dómarinn sem þú ræðst á) sem hefur hefur hvergi komið nærri afgreiðslu Baugsmálsins, sem var mjög vafasöm og getur ekki vakið traust í þeim málaferlum sem eru framundan.

Allt það sem þú segir er svo án rökstuðnings. Jón Steinar er þekktur fyrir einstaklega vandaða dóma eins og hefur komið fram hjá Mána og eru reyndar margir sem telja hann bera höfuð og herðar yfir aðra dómara réttarins. Þú fjallar ekkert um það, enda veistu ekkert um það. Þú nefnir umsögn dómara Hæstaréttar þegar hann var skipaður. Það vita það allir sem eitthvað fylgjast með í samfélagi lögfræðinnar á Íslandi að sú umsögn gekk í berhögg við mælikvarða sem dómararnir höfðu sjálfir sett í fyrri umsögnum, augljóslega til að koma í veg fyrir að Jón Steinar, mikill gagnrýnandi réttarins og yfirburðamaður miðað við dómarana sem þar sátu, kæmi í réttinn. Þetta mál sýndi í raun hversu hættulegt það er að dómarar hafi sjálfir umsagnarrétt um meðdómendur sína. Það var orðið löngu tímabært að Jón Steinar tæki sæti í réttinum og blessunarlega, eins og sést á atkvæðum hans og lagarökum, er hann nú dómari.

Svo langar mig að spyrja hvort þetta séu ritstörfin sem þú færð heiðurslaun fyrir, að rægja nafngreinda menn rakalaust. Mér finnst að þú ættir að setja þér hærri standard, fyrst launin þín eru borguð af skattgreiðendum eins og mér og öðrum sem kunna að vera þér ósammála. Finnst þér það siðlegt, að taka við peningum fólks sem eru innheimtir með valdi og nota til svona skrifa?