mánudagur, 2. febrúar 2009

Botnlaus hamingja!

Aldrei hefði mig órað fyrir að ríkisstjórn skipuð erkióvinunum Samfylkingu og VG gæti haft svona friðsæl og róandi áhrif á mig. Ég treysti Jóhönnu fyrir lífi mínu og er ekkert hræddur við Gylfa viðskiptaráðherra né Rögnu dómsmálaráðherra. Katrín menntamálaráðherra skelfir mig ekki heldur og þá ekki Kolla í umhverfisráðuneytinu. Ásta Ragnheiður  gerir ábyggilega eitthvað skemmtilegt í félagsmálunum, því að hún kann margt fyrir sér síðan á framsóknarárum sínum.


Aðrir í ríkisstjórninni eru “þekkt andlit”, “gamlir kunningjar” og valda manni ekki ótta heldur fremur þreytu eða leiða. Samgönguráðherrann hlýtur til dæmis að vera með sogskálar á óæðri endanum úr því að honum tókst að hanga á ráðherrastólnum.


Stjórnin hefur það með sér að hún hefur lofað að snúa sér fyrst að því þjóðþrifamáli að losna við Davíð Oddsson úr Seðlabankanum jafnvel þótt það geti kostað tíu Toyotajeppa að draga hann út af kontórnum. Eftir þessu bíð ég spenntur, því að þetta verða kannski ekki “makleg málagjöld” en “málagjöld” ei að síður. 


Svo er spennó hvað þeir ætla að gera við innherjaráðuneytisstjórann í fjármálaráðuneytinu sem umpólaðist af græðgi og fór í verðbréfabrask þegar hann átti að vera í annarri vinnu.


Ég er ekki nógu bjartsýnn til að trúa því að það takist að elta uppi auðuga gróðapunga og frysta eigur þeirra og láta þá æla upp úr sér lausafénu. Þetta væri kannski hægt ef Bíbí væri gerður að sériff eða sérstökum markskálki og settur yfir greiningardeildina og sagt að gera eins og Elliott Ness í The Untouchables. Og fengi verðlaun fyrir stykkið. Það er nefnilega töggur í Bíbí sem ekki hefur fengið að njóta sín vegna alls konar mannréttindakjaftæðis sem hann hefur orðið að taka tillit til.


Mest hlakka ég til góðra daga án Davíðs, helst til æviloka, og megi hann fara sem fyrst á öll möguleg og ómöguleg eftir- og ellilaun, bara ef hann fær ekki tækifæri til að gera meira af sér. Maður sem getur sett heilan seðlabanka á hausinn í fyrsta sinn í veraldarsögunni er ekkert blávatn hvernig svo sem hendurnar á honum eru á litinn.


Varðandi afnám forréttinda þingmanna og ráðherra í lífeyris- og eftirlaunamálum vildi ég koma þeirri tillögu á framfæri við stjórnina að gera undantekningu með Davíð, og umfram allt vil ég að það sem hann vinnur sér inn með ritstörfum skerði ekki eftirlaun hans á neinn hátt. Þetta er dáldið spes maður og er vanur dáldið spes meðhöndlun. Ég hlakka til dæmis til að lesa faglega ritdóma um bækurnar sem hann gefur út eftir að búið er að taka af honum ægishjálminn sem hann bar yfir land og þjóð eins og töfralæknir með vúdú-grímu.


Þetta er bara botnlausn gleði og hamingja. Eina sem skyggir á sálarfriðinn er: Hvað verður nú um garminn hann Hannes Hólmstein Gizurarson?

7 ummæli:

pjotr sagði...

Legg til að DOddson verði tafarlaust stoppaður upp eða geymdur í formalini á náttúrugripasafninu.

Unknown sagði...

Já mikil gleði er þetta, Þórðar Breiðfjörð!

Atli sagði...

Hannes Hólmsteinn verður varla í vandræðum, hann er búinn að skrifa svo mikið.
Það eina sem hann þarf að gera er að rúlla í gegnum öll ritverk sín og stroka út stafi á nokkrum stöðum, k.....isti og bæta inn nokkrum nýjum .apital....

Að sjálfsögðu trúum við þá aftur öllu sem hann skrifar og hver veit nema hann verði mikilsvirtur fræðimaður einhverntíma seinna.

Ellisif sagði...

Sammála þér Þráinn, Davíð þarf allan þann stuðning sem hann getur fengið fjárhagslegan - það má alls ekki skerða réttindi hans. Hann hefur haft sérstaklega mikið fyrir þeim.

Unknown sagði...

Sammala að þessi nýja stjórn vekur í mér hlýjan barratu anda að okkar þjóð er aftur kominn a rettu braut. Nýfrjaslhyggju auðmenn sem halda að þeir gatu féflet og klifrað up a back almenings, og siðan falið sig í skjóls eignaretts laga eiga vonandi fótum fjör að launa með þessa nýju ríkistjörn a hælunum! Þessum 1500 milljorðum verður betur nýtt í vaðmi almenings -- við í VG viljum eigna og launaþökk svo svona eigingirni fer ekki a skarið aftur!

Guðni Gunnarsson sagði...

Hvað verður um Hr.HHG? Vandi er um slíkt að spá. Ætli hann haldi ekki bara áfram í HÍ. En óneitanlega deili ég þeirri ónotatilfinningu með þér Þráinn að vita lítt eða ekki neitt um hvað froðufellandi ofurnýfrjálshyggjumenn taka sér fyrir hendur. Þetta er eins og að hafa sótölvaðaða og ofbeldisfulla menn, sem er nýbúið að henda útaf skemmtistað, hangandi yfir sér í biðröð á bæjarins bestu.
Ekki fannst mér post-hrun tímabil Hólmsteins byrja vel með gaspri hans í Wall street journal í vikunni...vonaði hans og allra vegna að hann myndi sjá af sér viðurkenna mistökin og iðrast. Hinsvegar veit ég um nokkur meðferðarúrræði fyrir afdanka og kolstíflaða nýfrjálshyggjumenn. Til dæmis mætti nefna Yoga, notast við öndunaræfingar s.s. Pranayama sem er einkar góð til hreinsunar og upptöku prana (lífsorku). Það er undravert hversu vel þetta virkar á neikvæðar tilfinningar...nú tala ég af eigin raun. Ég vona sannarlega að HHG og Co leiti í pósítíva framtíð....þeirra vegna, okkar vegna, allra vegna.

SG sagði...

Mér líður eins og barni sem hefur búið við heimilsböl þó nokkurn tíma, en nú er amma komin. Amma Jóhanna. Ég vona að hún fari ekki strax.