sunnudagur, 1. mars 2009

Um stjórnmálaflokka

19. aldar lýðræði á 21. öld!

Stjórnmálaflokkar eru gömul og gamaldags fyrirbæri. Þeir hafa nú frá stofnun lýðveldis (og lengur) boðið Íslendingum upp á hugmyndafræðilegar pakkaferðir sem taka fjögur ár. Fyrir mína parta tel ég þetta vera úreltan ferðamáta og úrelta viðskiptahætti. 

Kíkjum aðeins á þetta. Á fjögurra ára fresti bjóða stjórnmálaflokkar okkur upp á að slást í för með sér í pakkaferð þar sem þeir bjóðast til að hugsa fyrir öllum þörfum okkar næstu fjögur ár. Þessir aðilar sem kalla sig stjórnmálaflokka eru í rauninni ferðaskrifstofur inn í framtíðina. Þeir bjóða fram hugmyndafræðilega pakka og reyna að bregða upp myndum af framtíð sem gæti fallið þér í geð að sem flestu leyti.

Fyrir utan hversu fáránlegt og áhættusamt það er að fela einhverjum aðila forsjá sína næstu fjögur ár og afsala sér um leið rétti til breytinga þá ríkir fákeppni á hinum pólitíska ferðamarkaði, fyrir utan krosstengsl, sameiginleg hagsmunatengsl, ætta- og fjölskyldutengsl og önnur vensl milli þessara úrkynjuðu og innræktuðu stjórnmálaflokka.

Tilboðið hljóðar upp á allt eða ekkert: Þú ferðast með okkur og aðeins okkur næstu fjögur ár án tillits til hvernig þér líst á blikuna eftir að ferðin er hafin. Þú getur ekki skipt um skoðun fyrr en eftir fjögur ár og þaðan af síður getur þú gert hlé á ferðalaginu. Á þessum tíma er farið með þig í þá átt sem ferðaskrifstofan hefur lofað - að svo miklu leyti sem hún hefur tök á að standa við auglýsinguna. Efndirnar byggjast á því að ferðaskrifstofan-stjórnmálaflokkurinn nái stólum í svonefndri ríkisstjórn sem endanlega úthlutar ferðafrelsinu og þar með einhverjum réttindum til að standa við loforð sín þrátt fyrir að þurfa að stytta ferðina og gera hana ódýrari til að kaupa sér stóla í ríkisstjórn.

Á markaðstorgi atvinnunnar þekkist ekki fjögurra ára uppsagnarfrestur. Maður ræður ekki starfskraft í fjögur ár samfleytt. Maður ræður fólk til reynslu og síðan hafa starfsmenn nokkurra mánaða uppsagnarfrest.  

Stjórnmálaflokkarnir hins vegar vilja helst gera þig að lífstíðaráskrifanda að pakkaferðalagi á vegum flokksins frá vöggu til grafar.

Í nútímanum eru stjórnmálaflokkar samtímans álíka úreltir og grútarlampar eða sauðskinnsskór. Ég vil fá að neyta lýðræðislegs réttar míns til að hafa skoðun á fleiri málum en skrúðmælginni í stefnuskrám stjórnmálaflokka og oftar en á fjögurra ára fresti. Ég vil geta ráðið mannskap til starfa til að byggja upp þjóðfélagið okkar og valið úr stærra úrvali en því sem kemur úr þjálfunarbúðum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka. Ég vil ekki vera eingöngu neyddur til að velja milli sjálfstæðismanna, samfylkingarmanna og framsóknarmanna o.s.frv. Það sem skiptir mig máli er að geta valið milli HÆFRA manna.

Þetta fornaldarfyrirkomulag á lýðræðinu okkar er grafalvarlegt mál. Gífurlegur atgervisbrestur herjar á stjórnmálaflokkana. Það eru ekki margir þingmenn sem ég mundi treysta fyrir barni yfir læk. Og þar fyrir utan er sú hugsun beinlínis ógnvekjandi að menn geri það að ævistarfi sínu að fara með “völd” sem þeir fá fólk til að framsala sér með loforðum sem þeir hafa takmarkaða getu til að standa við.

Sá tími er liðinn að atkvæðagreiðslur um mál séu stórkostlegt vandamál. Það þarf ekki lengur að ferja atkvæðakassa á hestum yfir jökulár. 

Forneskjulegast af öllu í sambandi við stjórnmálaflokka eru hinir “hugmyndafræðilegu pakkar” sem þeir standa fyrir og sú hugmynd að vitlausasti félaginn í mínum flokki hljóti að hafa heilbrigðari skoðanir en skynsamasti félaginn í þínum flokki. 

Ég er einstaklingur. Ég hugsa oftar en á fjögurra ára fresti. Og mig langar til að upplifa veröldina frjáls ferða minna - ekki í hugmyndafræðilegri pakkaferð undir stjórn valdasjúkra atvinnumanna. Frelsi og lýðræði eru lifandi orð og hugtök - ekki safngripir á fornminjagröfum stjórnmálaflokka. Tími krambúða er liðinn, kjörbúðir og stórmarkaðir með óendanlegu úrvali hafa tekið við. 

Á 21. öld eigum við ekki að sætta okkur við 19. aldar lýðræði. Við höfum frelsi til að hugsa sjálf. Notum það!

(Þessi grein er endurbirt í tilefni af grein Gunnars Karlssonar um stjórnmálaflokka).

6 ummæli:

Teitur Atlason sagði...

Ég er almennt ekki þeirrar skoðunar að fólk þurfi að benda á lausnir á einhverjum vandamálum sem það gagnrýnir.

Íbúi við Hringbraut getur t.d alveg kvartar undan umferðarhávaða án þess að benda á leiðir til að minnka hávaðann. Það er verkefni verfræðinga og hávaðameistara.

Þessi krafa um að fá lausn finnst mér þó eiga við í tilfelli þessarar hugleiðinar. Löngum hefur verið vitað að lýðræði er gallað (og sértaklega íslenska útfærslan) en samhliða hefur verið sagt að það sé skársti kosturinn.

Ert þú að tala um fjölgun þjóðaratkvæðagreiðslna, lýðræði eins og í UK eð USA? Einmenningskjördæmi?

Mér finnst meini við íslenska lýðræði hanga saman við nauðsynlegar endurbætur á stjórnarskrá. Það ætti að banna þingmönnum að sitja lengur en 1 eða 2 kjörtímabil og banna þeim ennfremur að vera ráðherrar. Þaulsetu-þingmenn verða afætur og hætta að hafa annan tilgang en að vihalda sjálfum sér í embætti. Nýleg ákvörðun ISG er prýðisdæmi um þetta.

Mér þykir súrt að Framsókn vill þig ekki með því að velja uppstillingu fremur en prófkjör. Þú hefur rúllað því upp en er sennilga of óþægur til þess að eiga séns í uppstillingu. Með uppstillingu eru völdin heldur betur hjá þeim sem völdin hafa og alls ekki hjá kjósendum flokksns. Þannig er trygð lágmarks endurnýjun og svo "hönnuð" endurnýjun þar sem sama klíkan hyglar sér bak og fram.

Gaman væri að heyra hvað þú sérð fyrir þér sem heppilegt fyrirkomulag lýðræðisins á Íslandi

Þráinn sagði...

Sæll, Teitur, takk fyrir athugasemd. Ég sé fyrir mér að hluta til að flokkakerfið verði lýðræðislegra með tiltektum í eigin garði, að hluta til með því að kjósendur velji fulltrúa á þing með persónukjöri - og auk þess held ég að það væri mjög mikið framfaraskref að velja einhvern hluta þingmanna með hlutkesti.

Unknown sagði...

Ég veit ekki betur en þú hafir ætlað að taka þátt í þessu Þráinn. Og meðan ég man. Ætlaðir þú ekki að taka þér frí fram yfir að minnsta kosti næstu kosningar og loka þig úti frá heimsins glaumi og gaspri?

Heilavottun sagði...

Sæll Þráinn þetta er mjög góður pistill. Þú segir :
"Ég vil geta ráðið mannskap til starfa til að byggja upp þjóðfélagið okkar og valið úr stærra úrvali en því sem kemur úr þjálfunarbúðum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka."

Þarna er ég þér algerlega sammála. Ég kem úr atvinnulífinu, ég kem úr sprotastarfinu, ég er sproti má kannski segja. Þess vegna ákvað ég að bjóða mig fram til þjónustu. Ég þurfti að taka stórt skref, ég þurfti til að geta gert þetta, skrá mig í flokk. Ég hugsaði mig um vel og lengi, lét svo vaða og skráði mig í flokk í fyrsta sinn. Ég valdi VG þar sem þeirra fínu stefnumál koma til móts við mínar skoðanir. En ég er sammála þér, flokkar lofa öllu fögru á 4. ára fresti.
Ég býð mig fram til að mótmæla sitjandi Alþingi. Ég býð mig fram til að rödd tæknimenntaðra fái að heyrast. Ég býð mig fram til að hafa áhrif á fumkvöðla og sprotastarf í þessu landi. Það er mitt megin mál. Ég get líka farið með klysjurnar til að fá fólki til að líka betur við mig og mun eflaust gera það á eftir. Það er framboðsfundur og kaffispjall á Tryggvagötu 11 í dag kl. 14 - 18.

Þú talar einnig um kosningar og hestaferðir með atkvæði yfir jökulsár. Þar sem ég er tæknimaður, þá hef ég ákveðið að brydda upp á nýjung. Ég vil færa þá ábyrgð sem á mig er lögð, fái ég til þess stuðning, yfir til ykkar sem mig völduð. Ég mun halda úti upplýsingavef þar sem ég mun eftir því sem tími leyfir, vinna helstu mál sem að mér snúa þannig að ég mun gefa 3-5 hugmyndir að leiðum að lausnum, einnig mun ég óska lausna frá ykkur. Með atkvæðum og spjalli, munum við saman velja þá réttu leið til að fara hafi fólk áhuga á því.

Gangi þér vel Þráinn.

kveðja,
Árni Haraldsson
2 - 4 sæti í forvali VG í Reykjavík

villiey sagði...

Þráinn minn! Mér sýnist að þú hljótir að vera að ganga í barndóm og ert þó ekki nema rúmum hálfum mánuði eldri en ég. Þú hafðir skynsamlegri skoðanir þegar þú dröslaðir mér upp í gömlu Valhöll og skráðir mig í Heimdall fyrir hundrað árum, þegar við vorum í landsprófi.
Þú hefur þessa barnalegu ofurtrú á almenningi, Jóni Jónssyni í Breiðholtinu, en Jón hefur sára- sáralítinn áhuga á því að stjórna landinu. Hann hefur meiri áhuga á klámi, ofbeldi og boltaíþróttum við undirleik ærandi blikksmiðju-mannætu- síbylju.
En hvað er þá lýðræði? Aristóteles segir það vera "stjórn hinna mörgu heimsku á hinum fáu vitru". “Lýðræði” er hugtak, sem hefur verið afbakað, teygt og togað meira en flest önnur í seinni tíð ekki síst af alræðissinnum, en bæði Lenin sjálfur og erlendir, þar á meðal íslenskir, áhangendur hans (vinir þínir) voru farnir að beita þessu orði í tíma og ótíma um sjálfa sig strax snemma á 20. öld. . Það er gömul bábilja, sem enn heyrist, að Forn- Grikkir hafi fundið upp lýðræðið, en í Aþenu ríkti einhver allra vitlausasta úfærsla á lýðræði sem um getur, en þar voru menn valdir til ábyrgðar- og stjórnunarstarfa með hlutkesti.
Lýðræði hentar vel frumstæðum þjóðfélögum, þar sem verkaskipting er lítil, en þegar þörf verður á samstarfi og sameiginlegu átaki hentar einræði best. Þetta skildu Grikkir og Rómverjar og afnámu því lýðræðið og tóku sér einvalda um stundarsakir, þegar ógn steðjaði að ríkinu. Ekki er hægt að stjórna her með lýðræðislegum aðferðum, fremur en skipi eða skólastofu. Það er gömul saga og ný, að “margir kokkar eyðileggja sósuna”. Stundum verður að taka af skarið og í rauninni er einræði miklu betra stjórnarform en lýðræði, þ.e. ef einvaldurinn er starfi sínu vaxinn. Því miður er slíkt allt of sjaldgæft. Auk þess eru valdaskiptin miklum erfiðleikum bundin. Mjög oft er vitnað til Acton lávarðar, sem benti á að “vald spillir, og algert vald spillir algerlega”. Því hafa menn á Vesturlöndum þróað fram þá blöndu af einræði og lýðræði, sem nefnist fulltrúalýðræði.
Þar eru tilteknum mönnum falin völdin um stundarsakir, með vissum takmökunum þó, en umboð þeirra er síðan endurnýjað í almennum kosningum á nokkurra ára fresti. Með þessu móti fá valdhafar einræðisvöld að mestu í nokkur ár í senn, sem er nauðsynlegt. Til dæmis mundi enginn fjármálaráðherra í nokkru landi fá starfsfrið, ef allar ákvarðanir yrði að bera undir almenning jafnóðum. Í fulltrúalýðræði gegnir almenningur hlutverki ráðningarstjórans. Hann ræður tiltekinn mann, eða (oftast) flokk manna til að annast stjórn ríkisins í vissan tíma, að mestu án frekari afskipta kjósenda.

Jón Jónsson er hópsál og vill vera í flokki með öðrum hópsálum og kjósa á nokkurra ára fresti. Annars vill hann bara rækta garðinn sinn. Hann hefur engan áhuga á málum eins "tekjustofnum sveitarfélaganna" eða öðru slíku. Hann ræður menn til að fást við slík mál og þannig á það að vera.

Þinn gamli drykkju- g skólafélagi, Villi Eyþórs

Þráinn sagði...

Sæll, Sigtryggur. Já, ég ætlaði sjálfur að taka þátt í framboði flokks - ef farið væri eftir þeim grundvallarreglum lýðræðis að leyfa flokksmönnum sjálfum (og öllum) að velja á framboðslista.
Takk fyrir athugasemdir, Árni og Villi Ey. Við Villi verðum víst seint sammála um ágæti lýðræðis, en ég held að með öllum sínum mörgu göllum sé það skásta leið til að stjórna samfélögum sem enn hefur verið fundin upp.