miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Með lýðræði gegn klíkum

Á aukakjördæmisþingi Framsóknarfélaganna í Reykjavík sl. laugardag milli 10 og 12 virtist flokkurinn ætla að taka sér pasu frá þeim nýju og lýðræðislegu vindum sem blása um samfélagið.


Ákveðið var á fundinum að hafa "uppstillingu" á Reykjavíkurlistum, þó með þeim tilbrigðum að kjördæmisþing mætti kjósa milli frambjóðenda þeirra sem þar væru í boði "uppstillingarnefndar".

Framfaravilji og þróun í lýðræðisátt sá helst stað í því snjallræði að samþykkja orðfegrunarbreytingu frá Sigríði Magnúsdóttur, hinni ástsælu stjórnmálakonu og förstöðumanns Sædýrasafnsins. Tillagan var samþykkt í einu hljóði og héðan af skulu "uppstillingarnefndar" Framsóknarflokksins heita því hljóðþýða nafni "forvalsnefndir."

Þessi fortíðardýrkun kom okkur nokkuð á óvart sem höfðum hugsað að bjóða okkur fram í lokuðu prófkjöri allra framsóknarmanna í kjördæmunum, ekki síst þar sem við erum komin með ungan og nýtískulegan formann og hugðum undir hans forystu losna við klíkustjórnmálin sem sett hafa ýmsan svartan blett á sögu okkar góða flokks á undanförnum árum.

Nú er um tvennt að ræða fyrir framsóknarmenn: a) halda áfram að afsala sér kosningarétti í flokknum í hendur örfarra fulltrúa sem þeir þekkja engin deili á og fela engin fyrirmæli, b) eða halda sínu striki og gera Framsóknarflokkinn aftur að raunverulegu og trúverðugu stjórnmálafli sem byggist á innra lýðræði.

Þegar ég gaf kost á mér í annað af tveimur efstu sætum Reykjavíkurkjördæma hvarflaði ekki að mér annað en prókjör yfir meðal allra skráðra félaga. Uppstillingarnefnd (nú forvalsnefnd) kom eins og köld vatnsgusa á þann hugsjónaeld að hefjast handa um að sameina Framsóknarflokkinn og afla honum nýrra kjósenda.

En að athuguðu máli máli hyggst ég ekki láta gömlu klíkurnar og íhaldssemina buga mig. Ég stend við framboð mitt og mun reyna fram á síðasta dag að sannfæra "uppstillingar-forvalsnefndina" um að í nafnlyftingunni felist krafa um að velja á lista þá frambjóðendur sem ekki einvörðungu eiga einhverja skírskotun í innstu klíkum Framsóknarflokksins heldur einnig í djúpi þjóðlífsins, en þaðan þurfum við Framsóknarmenn liðsinni sem aldrei fyrr í komandi kosningum, nýtt fólk, nýja félaga sem kenna okkur að endurnýja styrk flokksins með nútímalegum vinnubrögðum og með því að leggja af klækjastjórnmál og forsjárhyggju.

Þá sem vilja veit þessu framboði mínu brautargengi við ég að ganga við eða hringja á skrifstofu Framsóknarflokksins fyrr en síðar og koma á framfæri stuðningsyfirlýsingu við framboðstilkynningu mína með góðri kveðju til forvalsnefndar - fyrrum uppstillingarnefndar.

Með vinsemd og virðingu Þráinn Bertelsson

P.S. Kl. 18.30.
Þauð tíðindi hafa borist mér til eyrna að aldrei hafi komið til greina í alvöru að stjórn Kjördæmissambands Reykjavíkur í samvinnu við formann Framsóknarflokksins sýndi flokksfélögum það traust að mæla með prófkjöri meðal allra flokksmanna í Reykjavík til að setja saman framboðslista í komandi kosningum.
Ég aðhyllist ekki pólitík reykfylltra bakherbergja og dreg hér með framboð mitt til baka.
Úrsögn úr flokknum fylgir.

21 comments:

Bragi Jóhannsson sagði...

Þér fer að blæða ef þú hættir ekki að berja höfðinu við steininn. Nýtt líf í Framsóknarflokkinn? Nei. Nú er það Dalalíf sem tekur við. Sveitamafían sér um sinn flokk.

bmarkadur sagði...

Það er það sama og Geir vildi gera og hvort það lýsandi fyrir flokka per se, eða að fólk sé hrætt um stöður sínar skal ósagt látið.
En það hlýtur að skjóta skökku við að eftir að hafa klappað og stappað efir kosningu Sigmundar og talað um endurnýjun.
Var kosning hans þá bara eitthvða Faux Pas?

Glumur sagði...

Enginn ætti að vera kjörgengur sem áður hefur setið á þingi í stjórnaraÐstöðu.
Þeir eru samsekir, óhæfir og fæla frá - á hvaða lista sem þeir eru.

Unknown sagði...

Þú ættir samt að fara í framboð!! Hvar í flokk sem þú ert

Henrý sagði...

Gott hjá þér. Þessi uppstillingarnefnd er lágkúra.

Kveðja,
Henrý Þór.

pjotr sagði...

Takk :)

Unknown sagði...

Það sannast sem við hin sögðum. Sigmundur Davíð er gamall grautur á nýjum belg.

Skynsemin sagði...

Framsókn er eins og fuglinn FÖNIX, en nú er búið að skjóta hann niður, með hnitmiðu skoti! Þá er bara eftir RÁNFUGLINN og 30% af þjóðinni sækist í þær klær, sorgleg staðreynd. Frekar augljóst að Ísland er bara fábjána land þar sem stjórnmálin eru ekkert annað en "Svínabær" (The Animal Farm). Yfirgrísin í landinu heitir "Óli GRÍS". Í kjörklefanum er bara einn möguleiki, maður skrifar bara á seðilinn: "Helvítis fokking fokk!"

Unknown sagði...

Það er í raun mjög jákvætt að það hafi komið í ljós strax hversu lítinn baráttuvilja og þrautseigju þú hefur. Það hefði orðið stórslys að kjósa þig í trúnaðarstörf fyrir flokkinn. það er nefnilega þannig að menn verða að geta staðið í hlandinu í skónum þar til það kólnar.

steini píari

Henrý sagði...

Thorsteinn: Hægan hægan.. Baráttuvilja? Það þarf semsagt að berjast við Framsóknarflokkinn áður en maður getur verið borinn undir dóm kjósenda?

Eru þetta stjórnmál, eða Mortal Kombat? Gamlar klíkur verða að sætta sig við að stjórnmál eiga ekki að snúast um hver heldur flottasta gratís snittuboðið, heldur hver hefur traust kjósenda.

THH sagði...

Ég býst við að þú eigir við Sigrúnu Magnúsdóttur fyrrv. borgarfulltrúa og fyrrv. forstöðukonu Sjóminjasafns Reykjavíkur? Annars hef ég engar áhyggjur af framsókn, flokk þar sem hinn nýi grasrótarformaður er með 1000 milljónir í fjármagnstekjur á ári. Ef restin af grasrótinni er á svipuðu róli er ljóst að flokkurinn mun ekki þurfa að spara í auglýsingum fyrir komandi kosningar.

Kalli Hr. sagði...

Þráinn, hvað formaðurinn ásamt stjórn Kjördæmissambandsins hugsuðu fyrir þennan fund skiptir einfaldlega engu máli. Það er fundurinn sem tekur ákvörðunina og þó þín skoðun hafi orðið undir á fundinum var hann samt lýðræðislegur og reglum samkvæmt.

Hvað einhver meint klíka ræddi um í reykfylltum bakherbergjum fyrir flokksþingið í janúar skipti heldur engu máli. Vafalaust bárust mörgum sögur til eyrna fyrir þingið, að einhver klíka vildi annan formann en Sigmund. En þingið kaus samt á annan veg, þar er ákvörðunin tekin hvað sem einhverjir kunna að hafa talið koma til greina.

Uppstilling er ekki gallalaus og getur boðið uppá að klíkur haldi völdum, en kjördæmisþing mun síðan kjósa um listann. Ef þú eða aðrir hafið betri tillögu, berðu hana undir þingið, þar eru fulltrúar félaganna! Ég veit að það er ekki vinsælt að segja það upphátt í núverandi stemmingu en prófkjör eru því miður oftast skrumskæling á lýðræði og snúast frekar um að kunna að spila leik en pólitíska umræðu. Vonandi fáum við frekar þá leið að raunverulegir kjósendur lista geti raðað frambjóðendunum á kjördag en ekki þeir sem smalað var og kusu skv. pöntun.

Þráinn sagði...

Ágæti KH.
Á kjördæmisþingi eru fulltrúar. Það er kallað óbeint lýðræði þegar fulltrúar fara með umboð annarra. Og mjög óbeint lýðræði þegar fulltrúarnir þekkja ekki það fólk sem þeir eru fulltrúar fyrir og gefa ekki krónu fyrir hvaða skoðanir það kann að hafa.
Ef framsóknarmenn í Reykjavík væru þrjár milljónir sæi ég einhverja þörf fyrir fulltrúalýðræði í einhverjum tilvikum, en þar sem þeir eru ekki nema þrjú þúsund held ég að þeim og lýðræðinu væri best þjónað með því að leyfa hverjum og einum að kjósa.

Smali sagði...

Er þetta ekki öllum fyrir bestu? Mér fannst persónulega að góður biti færi í hundskjaft með þig á B-lista. Þú átt heima í betri sveit.

Hér verður safnað saman sögum um Sjálfstæðisflokkinn. sagði...

Einmitt, alltof góður biti. Bíddu í örfáa daga, þá verður örugglega komið fram nýtt og ferskt framboð. Þú átt erindi.

Unknown sagði...

Þráinn, hinkraðu við. Þér verður fagnandi tekið sem frambjóðanda í nýju framboði grasrótarhreyfinga.

Þar er virkileg þörf á kraftmiklu fólki með lýðræðishjarta.

Kv. Baldvin Jónsson
http://baldvinj.blog.is

Kalli Hr. sagði...

Þráinn, ég veit vel að á kjördæmisþingi eru fulltrúar. Þannig er það líka á flokksþingi. Það hindraði samt ekki flokksþingið að kjósa formann sem sjálfsagt var ekki óskabarn klíkunnar sem þú vísar til í fyrirsögninni. Mér þykir þú vera búinn að gefa þér ansi mikið um þessa fulltrúa fyrirfram með að ákveða að þeir "gefa ekki krónu fyrir hvaða skoðanir það kann að hafa".

Guðjón Jensson sagði...

Framboð Framsóknarflokksins í Reykjavík hafa oft verið kostuleg. Þó hafa verið mjög góðir þingmenn fyrir Framsókn eins og Haraldur Ólafsson lektor í Háskólanum og Ólafur Haraldsson nú forseti Ferðafélags Íslands (ekki sonur hins fyrrnefnda).
Þegar Haraldur hugðist bjóða sig til endurkjörs þá bauð Guðmundur G. Þórarinsson sig gegn honum og beitti sér óskaplega. Var vinnustaður hans nánst upptekinn vikurnar fyrir prófkjör. Sigraði Guðmundur en Haraldur snéri sér þegjandi og hljóður til kennslu í HÍ.
Þá liðu 4 ár og næst bauð sig Finnur Ingólfsson sig til þingmennsku og beitti nánast sömu aðferðum og Guðmundur gagnvart Haraldi. Auðvitað sigraði sá sem meiri áróður viðhafði og varð Guðmundi ekki skemmt og kvartaði sáran undan aðferðum Finns.
Svona hefur þetta gengið í Framsóknarflokknum og mikið varð eg feginn að þú drógst þig til baka. Góðir menn eiga ekki að koma nálægt þessum blóðuga hildarleik sem snertir framboðsmál Framsóknarflokksins. Þar er hver höndin móti hverri annarri.
Við Íslendingar teljum þig Þráinn verja frábærum hæfileikum þínum að fræða og skemmta okkur áfram með blaðagreinum, spjalli á fjölmiðlum og bókum þínum.
Gangi þér allt í haginn.
Guðjón Jensson
Mosfellsbæ

Glumur sagði...

Verður ekki persónukjör við þessar kosningar?
Er það ekki einmitt Framsókn sem leggur það til?
Ergo: Engin uppstilling

Bjarni sagði...

Ræðumaðurinn í fjósnu í Dalalífi átti meiri athygli að fagna á sínum málflutnigni en þú á fundum Framsóknar.

Þar eru gildi SÍS klíkunnar og nú S-hópsins alsráðandi og sá nýkrýndi formaður, sem ekki vildi hreyfa við ofurþjófum né frysta eitt né neitt, nema hugsanlega einn og einn blóðmörskepp í frystiborði Nettó. Karl faðir hans situr í krafti S-unga í N1

Hvernig í dauðanum datt þe´r í hug, að eitthvað hafi breystst í Finns liði???

með virðingu

Mibbó

Nafnlaus sagði...

Ég get ekki mögulega séð skyldleika með þér og Framsóknarflokknum, og langar einhvern tíma að heyra og reyna að skilja hvers vegna þér datt í hug að tengjast þeim eyðingarflokki. Allir treysta þér, þú ert heiðarlegur, hreinn og beinn, og ég vona innilega að þú gefir kost á þér í þingmennsku, þjóðin verður að fá heiðarleika í fyrsta sæti þá er von á breytingu.
Þorsteinn segir...
..það er nefnilega þannig að menn verða að geta staðið í hlandinu í skónum þar til það kólnar... þetta er nefnilega málið, Framsókn pissar og pissar og velgir sér og hellir síðan köldu hlandinu yfir þjóðina.
Enginn flokkur hefur lagt fram heilsteypta atvinnumálastefnu, en þakkar af heilu hjarta aðstoð Kanadamanna til þess að veita Íslendingum vinnu. Nú er tækifærið á Íslandi að verða forystuland í ´öðruvísi´lausnum, hráefnið þarf ekki að vera innflutt, það liggur við fótum okkar og við strandir landsins. Við erum EITT LÍTIÐ FYRIRTÆKI stýrum því eins og fullorðið þroskað fólk. Hættum að láta flokkana pissa í skóna fyrir okkur. Ég þakka framsókn fyrir að hafa komið þér til baka í raunheima, velkominn.