föstudagur, 6. febrúar 2009

Peningar - nei takk!


Vegna þess að ég hef ákveðið að gefa kost á mér í fyrsta til annað sæti á öðrum hvorum framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík vil ég taka fram að ég afþakka allravinsamlegast allan fjárhagslegan stuðning frá fyrirtækjum og einstaklingum við þetta framboð mitt. 


Þá einstaklinga sem hefðu viljað styrkja mig með fjárframlögum bið ég að skilja að ég vil engum vera háður um stórt né smátt. Ef menn eru alveg friðlausir að sýna mér stuðning í verki mega þeir hins vegar tala hlýlega um mig í eyru þeirra sem minna  þekkja til mín.


Fjármagn - kr. hundrað og áttatíu þúsund - til að kynna framboð mitt verður tekið út úr heimilisrekstri mínum og fjölskyldu minnar - að afstöðnum nokkuð snörpum samningaviðræðum. Áætlað er að kosningasjóðurinn þurfi að standa undir pappír, ljósritun og póstburðargjöldum til að senda ósk um stuðning til hvers einasta félaga í Framsóknarflokknum í Reykjavík.


Með vinsemd og virðingu,


Þráinn Bertelsson


2 ummæli:

Unknown sagði...

Sæll Þráinn! sparaðu þér póstburðargjaldið til mín, ég skal með ánægju styðja þig í prófkjörinu og tala vel um þig þar sem ég hitti framsóknarmenn.

Þórarinn Ívarsson

disa sagði...

Þarftu ekki smá aur fyrir lýtalækningu sbr. lýtalækninguna á síðasta landsfundi flokksins.
kv. Þórdís Þórðardóttir