föstudagur, 27. júní 2008

Skrapp frá

Biðst afsökunar á að hafa skotist á bloggið úr sumarfríinu. Sá að það var ekki tímabært. Guðmundur Gunnarsson er ekki orðinn forseti A.S.Í. svo að það er ekki um annað að ræða en skreppa frá aftur.

Óviðkunnanleg orðnotkun: "okur" og "spilling"

Það hefur viljað bera við á Eyjunni að undanförnu að íslensk málhefð sé rofin og fólk slái um sig með erlendum nýyrðum eða nýyrðum af erlendum uppruna sem gefa kolranga ímynd af stöðugu og stöðnuðu þjóðfélagi okkar.

Dæmi:
Á Eyjunni er nú farið að fjalla um svonefnda "spillingu" með dæmum og skýringarmyndum.
Fyrir utan hversu særandi þetta er fyrir þá sem málinu tengjast er óþarfi að nota orðið "spilling" yfir gamlar íslenskar siðvenjur sem löngum hafa verið stundaðar með góðum árangri hér á landi undir öðrum nöfnum, svo sem "tengslanet", "fjölskyldufyrirtæki", "samvinna" o.s.frv.
Annað dæmi:
Hið gildishlaðna orð "okur" virðist vera farið að ryðja sér rúms í máli okkar og getur svo óvarleg orðnotkun vakið misklíð og deilur sem helst ætti að varast til að viðhalda stöðugleika þjóðfélagsins. Hingað til hefur orðið "verðlag" og orð eins og "eðlileg verðmyndum" verið notuð til að lýsa þeim mikla kostnaði sem kaupmenn þurfa að standa skil á til að geta falboðið vörur sínar á íslenskum markaði.
Hin nýja orðnotkun hefur vakið óró og ugg í samfélaginu um að ekki sé allt með felldu alstaðar og meira að segja hafa verið send út dreifibréf til þjóðarinnar og skorað á hana að neyða gömul og gróin olíufélög út í verðsamkeppni - sem á endanum hlýtur að leiða til þess að neytendur verði látnir bera kostnaðinn af tiltækinu.
Í þjóðfélagi þar sem allir eru vinir og jafnvel einkavinir hefur mikið að segja að landslýður og þá fyrst og fremst blaðamenn vandi orðnotkun sína hér eftir sem hingað til.
Annars kynni eitthvað að breytast.

laugardagur, 14. júní 2008

Fjarri daglegu bloggi

Ágætu lesendur. 


Nú er ég að fara í nokkurs konar sumarfrí. Ferðinni er heitið inn í sjálfan mig á stað sem er all langt fjarri daglegu bloggi.

Ég veit ekki hvað ég verð lengi í burt en ég vona að Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins verði orðinn forseti A.S.Í. þegar ég kem aftur.

Svo vona ég að bankarnir hafi tekið 500 milljarða lán erlendis og stofnað varasjóð til að geta hjálpað viðskiptavinum sínum til að borga af hærri lánum en bankarnir hefðu átt að plata þá til að taka. Einnig að ríkisstjórnin fari jafnsparlega með peningana mína og ég ætlaði að gera sjálfur áður en hún tók þá af mér.

Birtan gæti ykkar.

föstudagur, 13. júní 2008

Ruglast á dóna, söngvara, forsætisráðherra og fréttamanni

"Geir segir fréttamann dóna, vill ekki veita dónum óundirbúin viðtöl"


Þegar ég sá þessa fyrirsögn datt mér ekki annað í hug en að blaðamenn væru að fara offari við Geir Ólafsson Sinatra-söngvara sem þeir hafa stundum leikið grátt að undanförnu. Við lestur greinarinnar kom þó í ljós að það var Geir Haarde forsætisráðherra sem var að væla undan "dónum" í hópi fréttamanna sem vilja að hann svari óundirbúnum spurningum - um efnahagsmál þjóðarinnar - ekki sitt eigið einkalíf.

Stjórnmálamenn sem skeyta skapi sínu á fréttamönnum þegar þeir hafa ekkert til málanna að leggja ættu að hugleiða að skipta um starf til að geta forðast dóna af því tagi sem venjulegt fólk kallar fréttamenn. 

Geir geðstirði þyrfti ekki að hafa áhyggjur af ásókn fréttamanna ef hann hefði ekki álpast til þess að klifra hæst upp í sleipa staurinn.

Back to basics

Öllu fer fram. Stundum með því að fara  oufrlítið aftur.  Nú eru heljarmenni úr ofbeldis- og átakagreinum sest við sjúkrabeð geðsjúklinga og þurrka þeim um þvalt ennið og reka vatnsrör inn í munnvik þeirra geðveiku svo að þeir ofþorni ekki.

Þetta er gaman að heyra. Sérsveitin fer þá væntanlega drepa tímann með því að fara í reiðtúra með fötluð börn, færa öldruðum matarbox og svo framvegis í stað þess að sprauta gasi á fólk.

Dómarar kveða upp salómonsdóma um skilorðsbundið fangelsi yfir Baugsmönnum, bara til að áminna þá um að enginn sé hafinn yfir lög og rétt í landinu, og eftir sjö ára rannsókn og ofsóknir er ekki hægt annað en segja að þetta sé hófsamur dómur. Hvort hann er réttur veit ég hins vegar ekki. Dómar eru sjaldnast alveg réttir.

Þessi milda þróun aftur til þess tíma þegar hugsað var um hagsmuni fólks en ekki fyrirtækja mun sennilega halda áfram og úr því að ríkisstjórnin er úrræðalaus fara stór fyrirtæki eins og bankar að stunda súpugjafir handa almenningi sem ekki getur staðið í skilum með afborganir af húsnæðislánum.

Lág laun í Seðlabankanum virðast við því fjötur um fót að hægt verði að ráða almennilega sérfræðinga að bankanum. Þangað til væri gott að láta brjóstvitið ráða og hvíla hagfræðina.
Og lyfsalar eiga vonandi eitthvað gott í fórum sínum til að hressa upp á flóttalegan ólundarsvip ríkisstjórnarinnar.

Það tekur soldinn tíma að koma á mannúðarstefnu í þjóðfélagi sem skipti út mannúðarstefnu fyrir peninga. Það er svo skratti gaman að dansa kringum gullkálfinn.

Kreppa er verkefni sem þarf að leysa. Að fá lánaða peninga til að dansa kringum gullkálfinn er grímuball sem skilur eftir sig heilmikla timburmenn.

Dómskerfi sem þarf að endurreisa

Það vildi ég óska að ég deildi þeirri bjartsýni með Össuri Skarphéðinssyni að sjá afgreiðslu dómskerfisins á Baugsmálinu sem sönnun þess að dómskerfið virki - og að við eigum engan Henry II til að hvísla að framagjörnum riddurum sínum að mikið væri gott ef þeir hjóluðu í einhvern sem fer í taugarnar á valdinu.


Munurinn á Baugsmálinu og Beckett felst í því að Baugsmenn tóku til varna af öllum mætti, en það gerði Beckett ekki, og það kostaði hann lífið.

Hinrik II var líka nógu mikill maður til að viðurkenna að hann hefði gert rangan hlut þegar hann tautaði "Who will rid me of this turbulent priest" í fylleríi.

Það munu ekki þeir gera sem spönuðu lögregluyfirvöld á Íslandi upp í að leggja af stað í hefndarleiðangur. 

Hvað dómskerfið áhrærir þá mun ég taka það sem sönnun þess fyrir því að það langi til að þjóna réttlætinu þegar dómsmorðið sem kallað var "Geirfinns- og Guðmundarmál" verður tekið upp á nýjan leik og reynt að bæta þeim sem fengu að kenna á virðingarleysi dómskerfisins fyrir mannréttindum það sem þeir hafa orðið að líða. Helst meðan þetta fólk er enn á lífi.

Ennfremur þegar farið verður að skipa dómara eftir hæfni, ekki eftir tengslum við spillta stjórnmálamenn.

sunnudagur, 8. júní 2008

Til hamingju, Hanna Birna - ef...



Miðað við frammistöðu þeirra kvenna sem gegndu síðast embætti borgarstjóra er líklegt að Hanna Birna geti staðið sig betur.

Miðað við frammistöðu þeirra karla sem gengdu síðast embætti borgarstjóra er líklegt að Hanna Birna geti staðið sig betur.

Hanna Birna er greind og dugleg þarf bara að muna að hún er þjónn fólksins sem býr í Reykjavík, en aðeins félagi í Flokki fyrirtækjanna.


Það getur verið - og gæti jafnvelt verið líklegt að Hanna Birna verði vinsæll Borgarstjóri. 

Hitt er þó enn líklegra að Flokkurinn bíði þess seint bætur að hafa gleymt sínum eigin kosningareglum við að losna við Villa etir 28 starfsár. Villi var lýðislega kjörinn til að leiða borgarstjórnarlista íhaldsins allt þetta kjörtímabil - ekki bara þangað til tækist að losna við hann. Svoleiðis er lýðræðið nefnilega.

laugardagur, 7. júní 2008

Pollýönnu-gaspur eða alvara?

Formaður Samfylkingarinnar telur "óhjákvæmilegt að íslensk stjórnvöld dragi lærdóma af niðurstöðu Baugsmálsins. Dómur Hæstaréttar bendi til þess að umfang rannsóknarinnar og ákæranna hafi alls ekki verið í samræmi við tilefnið."


Það er fallegt af stjórnmálamanni að vera námfús og vilja læra af mistökum, ekki síst mistökum annarra, en væri ekki upplagt að slá athugun á því hver ber ábyrgð á þessum fáránlega málarekstri saman við námið í að læra af mistökum?

Á sem sagt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að svonalagað endurtaki sig? 

Eða er þetta bara almennt Pollýönnu-gaspur sem þýðir að þegar eitthvað  gerist séu allir amk. reynslunni ríkari?

föstudagur, 6. júní 2008

Baugsmálið ***** fimm stjörnur

Sú atburðarás sem hefur verið nefnd Stóra Baugsmálið hefur nú runnið gegnum Hæstarétt. 


Eins og í góðri og dramatískri Íslendingasögu standa nú öll járn á hinum sakfelldu. Eftir sex ára samfelldar ofsóknir dómsmálayfirvalda er hefur aðeins tekist að festa gula stjörnu í jakkaboðung þeirra sem ætlunin var að ryðja úr vegi.

Dómstólaorustu Baugsmála er því lokið og nú tekur við lokakaflinn í þessu mikla drama. Samkvæmt reglum Aristótelesar um dramatíska frásögn ætti lokakaflinn að taka um tvö ár og verða æsispennandi, þar sem saklausir fá uppreisn æru og hinir seku fá makleg málagjöld.

En í svona stóru og nýstárlegu raunveruleikaverki er ómögulegt að segja hvað lokaþátturinn verður langur.

Sem íslenskt réttardrama fær Stóra Baugsmálið fimm stjörnur af fimm mögulegum.

Og við bíðum spennt eftir sjöundu seríunni sem vonandi færir okkur hægt og bítandi að lokaniðurstöðu þessa máls.

mánudagur, 2. júní 2008

Klökkir Moggamenn kveðja Kalda stríðið

Í allmarga áratugi hefur Morgunblaðið verið samkvæmt þeirri skoðun sinni að íslenskt þjóðfélag væri því betur komið sem það frétti minna af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins eins og vesaling mínum og mörgum fleirum sem kunna ekki að bugta sig fyrir hátign Flokksins.


Þar í móti kemur hef ég líka lengi verið þeirrar skoðunar að íslenskt þjóðfélag væri mun betur komið án Moggans.

Í dag lætur Styrmir Gunnarsson af ritstjórastarfi á Mogganum og við tekur Ólafur Stephensen.
Styrmir lét þess getið í kveðjuræðu sinni að Kalda stríðinu væri nú lokið og nú rynnu upp "aðrir vinsamlegri tímar."

Tíminn leiðir í ljós hvaða sannleika þessi orð innihalda.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði orðið mun skárri flokkur ef Styrmir Gunnarsson hefði verið formaður hans en ekki ritstjóri Moggans. 

Mig langar að senda Styrmi mínar bestu framtíðaróskir.

Sömuleiðis Ólafi Stephensen hinum nýja ritstjóra í þeirri von að hann geri orðið "sjálfstæði" að einkunnarorði blaðsins.