föstudagur, 27. júní 2008

Óviðkunnanleg orðnotkun: "okur" og "spilling"

Það hefur viljað bera við á Eyjunni að undanförnu að íslensk málhefð sé rofin og fólk slái um sig með erlendum nýyrðum eða nýyrðum af erlendum uppruna sem gefa kolranga ímynd af stöðugu og stöðnuðu þjóðfélagi okkar.

Dæmi:
Á Eyjunni er nú farið að fjalla um svonefnda "spillingu" með dæmum og skýringarmyndum.
Fyrir utan hversu særandi þetta er fyrir þá sem málinu tengjast er óþarfi að nota orðið "spilling" yfir gamlar íslenskar siðvenjur sem löngum hafa verið stundaðar með góðum árangri hér á landi undir öðrum nöfnum, svo sem "tengslanet", "fjölskyldufyrirtæki", "samvinna" o.s.frv.
Annað dæmi:
Hið gildishlaðna orð "okur" virðist vera farið að ryðja sér rúms í máli okkar og getur svo óvarleg orðnotkun vakið misklíð og deilur sem helst ætti að varast til að viðhalda stöðugleika þjóðfélagsins. Hingað til hefur orðið "verðlag" og orð eins og "eðlileg verðmyndum" verið notuð til að lýsa þeim mikla kostnaði sem kaupmenn þurfa að standa skil á til að geta falboðið vörur sínar á íslenskum markaði.
Hin nýja orðnotkun hefur vakið óró og ugg í samfélaginu um að ekki sé allt með felldu alstaðar og meira að segja hafa verið send út dreifibréf til þjóðarinnar og skorað á hana að neyða gömul og gróin olíufélög út í verðsamkeppni - sem á endanum hlýtur að leiða til þess að neytendur verði látnir bera kostnaðinn af tiltækinu.
Í þjóðfélagi þar sem allir eru vinir og jafnvel einkavinir hefur mikið að segja að landslýður og þá fyrst og fremst blaðamenn vandi orðnotkun sína hér eftir sem hingað til.
Annars kynni eitthvað að breytast.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hárrétt Þráinn. Tími til kominn að sprorna gegn þessu klúra orðalagi. Okkur fer aftur.

Tökum til dæmis Steingrím J. Sigfússon okkur til fyrirmyndar. Hann sagði um eftirlaunalögin frá árinu 2003 að þar hefðu átt sér stað "ákveðin mistök". Ekki "tæknileg" - orðalag sem einnig hefði komið til greina - heldur "ákveðin".

Lögin færðu formanni VG perónulega nokkra tugi milljóna og óvandað fólk hefði sennilega kallað það "spillingu", "sjálftöku" eða eitthvað þaðan af verra. En Ekki Steingrímur jafnréttisforkólfur Sigfússon. Hann hélt ró sinni og segir stillilega "ákveðin mistök."

Rómverji

Þráinn sagði...

Sæll, Rómverji. Já, það er þetta vandaða og yfirvegaða málfar sem á svo ríkan þátt í að gera þjóðina eins og hún er - fátæka og óvandaða en búandi við mikinn stöðugleika.

Nafnlaus sagði...

Þegar ég var í hýsi mínu við Hróárslæk um síðustu helgi, vildi ég koma mér upp skortstöðu, mena auðvitað skotstöðu á Kjóana, sem eltu mófuglsungana og reyndu að ná þeim á undan veiðibjöllunni, sem er þarna langt uppi í landi, hrakin af sárri svengd.

ÞArna er auðvitað komin skýring á þessari orðnotkun skortstöðu, hræfuglar og vargfuglar, eru hraktir áfram af skorti og svngd í bráðina, sem er auðvitað við hin, brauðstritararnir, sem sagt er, að einhver hafið í fyrndinni sagt við, að við ÆTTUM að vinna mat okkar í sveita okkar andlitis. Við vorum bara búin að steingleyma þessu á meðan enn var Öl á könnu.

Sé nefnilega í anda, ungan mann í útfarastjóragalla standandi við glugga í stórhýsi banka eða lögfræðistofu og horfa á bráðina ganga um fyrir neðan. Svo kemur myndin af Mávinum (Hitckoc brúkaði máva í mynd sína þegar sýna átti svegd og kalda græðgi) sem situr á hæð eða vomir yfir ungum Tjaldsins eða Spóans.

Hvurn andskotan erum við að væla, þetta átti bara að vera svona, svo er í það minnsata sagt í Gamla Testamenntinu.

Við erum bráð í skortstöðu gírugra fugla í mannsmynd.

Til hvurs er verið að kenna siðmennt? þegar Höfuðsyndirnar eru í hávegum hafðar en svona sveitó gildi eins og heiðarleiki og sannsögli er ekki einu sinni til sparibrúks.

Vonandi hefur bloggleysið ekki farið illa með þína viðkvæmu sál.

ÞAkka fyrir að fá að líta inn til þín svona óforvarendis en í formi nafleysingja og flennu.

Nafnlausi Bjarni
alias
Miðbæjaríhaldið

Þráinn sagði...

Kæri Bjarni, komdu ævinlega fagnandi - en ekki reyna að tala við mig um skortstöðu; ég hélt að þetta væri euphemismi yfir menn sem eru lítt vaxnir niður, en nú skilst mér að þetta sé úr viðskiptamáli.