Einkunnarorð rógbera eru “Let the Bastard Deny It” (“látum bastarðinn bera á móti því”).
Með því að ata einhvern auri er rógberinn viss um að viðkomandi muni aldrei aftur eignast tandurhreinan skjöld þrátt fyrir að hann/hún reyni að hreinsa mannorð sitt með sjálfum sannleikanum; kannski vegna þess að vondu og óheiðarlegu fólki þykir lygin skemmtilegri lífsförunautur en sannleikurinn.
Í augnablikinu er ég skotmark rógberanna. Ástæðan fyrir því að jafn hversdagsleg persóna og ég skuli yfirleitt verða fyrir rógi er sú að einhverjum vex í augum það mikla fylgi sem Borgarahreyfingin virðist ætla að uppskera í kosningunum - það vill svo til að ég er í efsta sæti Borgarahreyfingarinnar í Reykjavík-norður, því kjördæmi þar sem fylgið er einna mest. Þess vegna þarf að koma á mig höggi og þar með Borgarahreyfinguna. Klámhöggi.
Með aurinn í andlitinu er ég ekki frýnilegur; ég lít ekki lengur út fyrir að vera venjuleg manneskja heldur spillt ófreskja sem einskis svífst.
Að sögn rógberanna tókst mér með tilstyrk Framsóknarflokksins að sölsa undir mig heiðurslaun Alþingis sem aukabónus fyrir að hafa gert kosninga-auglýsingar fyrir Framsóknarflokkinn - sem ég fékk reyndar borgaðar skilvíslega samkvæmt taxta og hef aldrei talið til skuldar hjá Framsóknarflokknum síðan.
Þessi saga dregur upp þá mynd af mér að ég sé fégírugur og samviskulaus skratti, svo valdamikill og óprúttinn að ég geti látið heilan stjórnmálaflokk ganga erinda minna að vild í eiginhagsmunaskyni. Sannleikurinn (og vonandi ég líka) lítur öðruvísi út:
Um aldamótin samþykkti fundur í Félagi kvikmyndaleikstjóra að fela formanni sínum, Friðriki Þór Friðrikssyni, að skrifa bréf til menntamálanefndar Alþingis. Efni bréfsins var vekja athygli menntamálanefndar og Alþingis á því að engin listgrein á Íslandi hefði staðið með meiri blóma en kvikmyndagerð á ofanverðri tuttugustu öld. Meðal annars þótt þess væri ekki getið í bréfinu höfðu tvær íslenskar kvikmyndir verið tilnefndar til helstu kvikmyndaverðlauna heimsins. “Börn náttúrunnar” til Oscars-verðlauna “Besta erlenda myndin” og “Magnús” til tveggja Evrópuverðlauna “Besta kvikmynd” og “Besta handrit”.
Í þessu sambandi var minnt á þá staðreynd að engum kvikmyndagerðarmanni hefðu hlotnast heiðurslaun Alþingis og sömuleiðis var minnst á nafn mitt í bréfinu ef vera kynni að það hlyti náð fyrir augum nefndarinnar.
Þetta er hinn einfaldi sannleikur - en svo heldur sannleikurinn áfram og gerist nú hálfkindarlegur á svipinn:
Á því hausti (man ekki ártalið) sem til stóð að úthluta heiðursverðlaunum spurðist það úr nefndinni að þar kæmi nafn mitt til greina. Það vakti, merkilegt nokk, athygli og vanþóknan manns sem var “nægilega valdamikill og óprúttinn til að geta látið heilan stjórnmálaflokk ganga erinda sinna”. Þetta var formaður FLokksins og þáverandi forsætisráðherra Íslands. Hann brást illa við þessari hugmynd og sagðist víst ekki kæra sig um að mér væri sómi sýndur og allrasíst af Alþingi Íslendinga.
Nú brá svo við að Sjálfstæðisflokkurinn aftók með öllu að mér yrðu veitt heiðurslaun Alþingis. Mörgum þótti merkilegt að formaður flokksins skyldi skipta sér af þessu máli sem seint verður talið til stórmála varðandi afkomu og öryggi þjóðarinnar. Einkum þótti kyndugt að ráðherrann skyldi leggja svo mikla fæð á einn listamann að þola ekki að heyra minnst á nafn hans.
Ýmsir spurðu hvað ég hefði gert manninum fyrir utan að vera ósammála honum í stjórnmálum og skrifa um hann nokkrar hortugar greinar meðan aðrir þorðu varla að anda á hann. Því gat ég ekki svarað enda var það á flestra vitorði að ekki þyrfti mikið til að vekja andúð forsætisráðherrans og hefnigirni.
Nú víkur sögunni aftur að menntamálanefnd Alþingis. Á þessum tíma átti sæti í henni Ólafur Haraldsson þingmaður Framsóknarflokksins. Ólafi blöskraði að forsætisráðherra Íslands skyldi ganga svona fram að tjaldabaki í krafti embættis síns að leggja einn listamann í einelti. Til að hamla gegn ranglætinu og ná fram einhvers konar réttlæti fékk Ólafur því framgengt að engum heiðurslaunum yrði þá úthlutað svo lengi sem einhver eða einhverjir tilteknir aðilar væru á leynilegum svörtum lista og kæmu því ekki til álita. Það skal tekið fram að þetta gerði Ólafur af sinni eigin réttlætiskennd án þess að ég bæði hann né nokkurn annan mann ásjár.
Liðu svo nokkur ár án þess að heiðurslaunum Alþingis væri úthlutað. Ástæðan fyrir þessari meltingarstíflu í kerfinu var feimnismál, því að ekki mátti tala opinberlega um geðsmuni forsætisráðherrans og þaðan af síður um að hann kynni að hafa yndi af því að nota embætti sitt til að klekkja á andstæðingum sínum. Þarna var komin upp pattstaða sem hélst óbreytt árum saman og breyttist ekki þótt skipt væri um nefndarmenn í menntamálanefnd. Kristinn H. Gunnarsson tók við af Ólafi Haraldssyni í nefndinni og reyndist vera jafnmikið á móti einelti eins og Ólafur hafði áður verið.
Út á við þótti þessi pattstaða hvorki auka virðingu forsætisráðherra né Alþingis og svo fór að lokum að skynsemin sigraði heiftina. Samkomulag varð um að veita nokkrum listamönnum heiðurslaun, þar á meðal undirrituðum, jafnvel þótt forsætisráðherranum væri það þvert um geð.
Þetta ógeðfellda þrátefli í pólitíkinni út af minni hversdagslegu persónu var að sjálfsögðu á vitorði þeirra sem gerst þekkja til í stjórnmálum en í leynum fyrir öllum þorra alþýðu enda eru önnur og viðameiri stjórnmál en þetta venjulega í brennidepli umræðunnar. Ég komst að sjálfsögðu ekki hjá því að fylgjast með þeirri snerru sem átti sér stað þarna að tjaldabaki. Þessi heift og ófyrirleitni hins freka og fordekraða forsætisráðherra kom mér ekki á óvart. Árum saman hafði ég séð afskifti hans og fingraför á öðrum stöðum, ekki síst í mínu fagi, kvikmyndagerðinni þar sem Kvikmyndasjóður hafði tekið að sér sérstaklega æskuvin forsætisráðherrans með feitum úthlutunum flest ár - til að tryggja að eitthvert fjármagn fengist yfirleitt í sjóðinn á fjárlögum og forðast vanþóknun forsætisráðherrans sem var þá valdameiri en margir sem kallaðir eru einræðisherrar í þriðja heiminum.
Þegar mér var loksins tilkynnt að menntamálanefnd og Alþingi hefði hrist af sér óttann við að ganga á móti vilja forsætisráðherrans og til stæði að veita mér þessa viðurkenningu varð ég harla glaður. Hvorttveggja var að mér þótti vænt um heiðurinn fyrir ævistarf sem stundum var býsna erfitt og að mér þótti sem í þessu tiltekna máli hefði réttlætið unnið sigur þrátt fyrir eineltistilburði formanns FLokksins. Mér fannst satt að segja að sanngirnin hefði sigrað óbilgirnina og það þýddi að skynsemin hlyti að sigra heift og illvilja. Þetta er aðalástæðan fyrir því að mér er þessi viðurkenning Alþingis á ævistarfi mínu svo kær sem raun ber vitni.
Adam - eða undirritaður - var þó ekki lengi í Paradís með heiðurslaunin sín, því að nú fór Skrímsladeild FLokksins í líki Hannesar H. Gissurarsonar á kreik til að hefna þess í héraði sem hallast hafði á Alþingi. Hannes sem af eigin reynslu þekkir pólitíska spillingu út í æsar tók sig til og fór að skrifa blaðagreinar sem lýstu mikilli vandlætingu á þeirri spillingu að með tilstyrk Framsóknarflokksins hefði mér, gjörspilltum manni, “tekist að sölsa undir mig heiðurslaun Alþingis sem aukabónus fyrir að hafa gert kosninga-auglýsingar fyrir Framsóknarflokkinn”.
Og þá er sagan komin aftur að upphafi sínu. Þannig og þarna byrjaði rógur Skrímsladeildar FLokksins og tilraun til mannorðsmorðs.
Með þessum fátæklegu orðum ætla ég mér ekki þá dul að koma í veg fyrir að einhver trúi lyginni og róginum. Það gera þeir sem það vilja og það verða alltaf einhverjir til þess að trúa hinu versta upp á náungann. Það sem mér gengur til er að gera tilraun til að hreinsa mig af þeim óhreinindum sem Skrímsladeildin telur FLokkinn hafa hagsmuni af að dælt sé yfir mig samkvæmt kjörorðinu “Let the Bastard Deny It”, “látum bastarðinn bera á móti því”.
Rétt skal nefnilega vera rétt og hér er sannleikanum til haga haldið, hvort sem ég er bastarður eða ekki. Einhverjum kann að þykja þetta ótrúleg saga, en þá er því til að svara að “Október-hrunið mikla” og “FL-Group-mútumálið” eru ekki einu ólíkindasögurnar sem gerðust í langri og dapurlegri stjórnartíð FLokksins, sem í mínum huga verður ávallt birtingarmynd siðspillingar og mannfyrirlitningar.
Allavega bið ég alla sanngjarna lesendur að leyfa mér að njóta vafans ef einhver vafi virðist leika á þeirri atburðarás sem var á bakvið þau heiðurslaun sem Alþingi veitti mér með samhljóða atkvæðum allra þingmanna úr öllum flokkum (ekki bara Framsókn!) - og umfram allt bið ég fólk að láta ekki Skrímsladeildina fæla frómar sálir frá stuðningi við Borgarahreyfinguna.
Þessi saga öll er dæmisaga um hvers vegna fólk snýr sér núna í stríðum straumi frá spillingarFLokknum og er velkomið til samstarfs með okkur í Borgarahreyfingunni.
Þjóðin á þing!