Eftir næstu kosningar ætlar Framsóknar-sjálfstæðis-samfylkingar-vinstrigræni flokkurinn að stjórna landinu - eða deildir úr honum eins og Samfylking og Vinstri-grænir.
Þetta ætlar fjórflokkurinn að gera með stuðningi og á ábyrgð fastra áskrifenda sem framselja fjórflokknum atkvæði sitt í hverjum einustu kosningum án þess að flokkssálin, hið fasta atkvæði, geri nokkra pólitíska kröfu á flokkinn, nema meira af sömu stefnu eða stefnuleysi.
Þeir sem eins og lýðræðið gerir ráð fyrir bjóða fram gegn fjórflokknum mega þola glósur eins og: “Þetta er örframboð og veldur því að atkvæði sem hefðu nýst fjórflokknum geta fallið dauð.”
Borgarahreyfingin er hvorki “örframboð” né heldur munu atkvæði henni greidd “falla dauð” til jarðar.
Hvert atkvæði sem Borgarahreyfingin fær er áminning um Búsáhaldabyltinguna, kröfur hennar og hugsjónir. Lýðræði, stjórnarskrá, réttlæta kjördæmaskipan, heiðarleika, gagnsæja stjórnsýslu, faglegar embættaveitingar, þingræði en ekki ráðherraveldi og fleira og fleira sem skók þjóðfélagið okkar til grunna í janúar síðastliðnum, og gerði það kraftaverk að “lamaða Haarde-stjórnin” reis upp úr stólum sínum og gekk út af sviðinu. Davíð Kr. Oddsson seðlabankastjóri var rekinn eftir hroðalegasta embættisferil sem sést hefur í þessu landi pólitískt skipaðra undirmálsmanna (þótt ekki séu enn alveg öll kurl til grafar komin) og skipt var um stjórn í fjármálaeftirliti.
Hvert atkvæði greitt fjórflokknum er ávísun á áframhaldandi ráðleysi, spillingu, leynimakk og fellur því dautt og dragúldið til jarðar.
Hvert atkvæði greitt Borgarahreyfingunni er ávísun á ný og gagnsæ vinnubrögð, lýðræði, heiðarleika - og löngu tímabærar aðgerðir til að bjarga heimilinum í landinu úr þeim vanda sem fjórflokkurinn leiddi yfir þau. X-O!
Borgarahreyfingin - ný og löngu tímabær hreyfing í þágu ungra og aldinna. Gegn flokksræði, með lýðræði. Gegn öfgum til hægri og vinstri, með heilbrigðri skynsemi. Ekkert kynslóðabil. Ekkert kynjamisrétti. X-O! Fyrir nýtt og betra Ísland!
1 ummæli:
Það sáu allir að Þráinn var nógu auðtrúa til að kyngja því að Framsóknarflokkurinn ætlaði að bylta sjálfum sér.
Svo kom það í hlut gömlu stofnananna í flokknum að sjá um þann hlut. Sigtryggur sér kannski í gegnum Þráinn. En ég er fegnastur því að Þráinn sá í gegnum Framsóknarflokkinn.
Skrifa ummæli