föstudagur, 3. apríl 2009

Örlagadagur í sögu þjóðar

Í landi þar sem lýðræðið grætur eins og barn sem enginn hirðir um að sinna vaða uppi fjórir fyrirferðarmiklir stórbokkar og vilja öllu ráða og öllu skipa eftir sínu höfði. Þessir stórbokkar eru stjórnmálaflokkarnir fjórir Samfylking, Sjálfstæðisflokkur (líka nefndur Flokkurinn), Framsóknarflokkur og Vinstri-grænir. Það er ófriður á heimilinu og í vöggunni grætur lýðræðið.


Það eina sem enn hefur ekki náðst að stela frá nema 60%  þjóðinnar er ofsatrúin á fjórflokkana sem með yfirgangi, græðgi, valdníðslu, götóttu réttarfari, ónógri aðgæslu og almennum slarkarahætti komu henni á vonarvöl.


Þá eru eftir 40% af þjóðinni sem ekki vita ennþá á hvort skynsamlegra sé að kyssa á fjórvöndinn á stóra vandakyssingardaginn, 25. apríl, hjá einhverjum af fjórflokkunum eða fá útrás fyrir vonbrigði sín og reiði með stjórnmálaflokkana og kjósa nýtt stjórnmála-afl Borgarahreyfinguna til að - gera að minnsta kosti eitthvað öðruvísi...


Þeir sem þora að neita að kyssa enn einu sinni á vöndinn og kjósa þess í stað X-O! munu aldrei gleyma kjördeginum 25. apríl 2009 þegar atkvæði þeirra dugðu til að koma á legg stjórnmálahreyfingu sem hefur ekki önnur slík sést á Íslandi í manna minnum. 


Stjórnmálahreyfing sem er sprottinn upp úr þjóðarsálinni. Stjórnmálahreyfing venjulegs fólks með venjulega réttlætiskennd sem hefur heitið því að sjá til að endurreisa hér nýtt lýðveldi, Nýtt Ísland, sem við getum ÖLL verið stolt af. Friðsamt, hógvægt  smáríki byggt á heiðarleika og gegnsæi. Lýðveldi sem byggir á nýrri stjórnarskrá sem þjóðin setur sér sjálf - án forskriftar frá alþingi fjórflokkanna. Lýðveldi þar sem þegnarnir vinna brosandi á daginn, og skemmta sér á kvöldin óhræddir um að fjármálaséní steli og smygli aleigu þeirra úr landi í einkaþotum sínum í skjóli nætur.


Nýtt lýðveldi, Nýtt Ísland, þar sem þjóðin framleiðir allsnægtir á daginn og gengur örugg til náða á kvöldin, óhrædd við grillvarga græðginnar sem þá verða að sætta sig við að háma í sig SS-pulsur á kvöldin í staðinn fyrir glóðarsteikt eignarhaldsfélög og banka í barbekjú-sósu.


Og þegar þjóðin hefur tekið gleði sína aftur mun lýðræðið hætta að gráta og fara að þroskast eins og börn eiga að gera sem fá gott atlæti. 25. apríl nk. getur orðið mesti örlagadagurinn í sögu þjóðarinnar. Eigðu þátt í því! Svaraðu með atkvæði þínu. Svarið er X-O!

1 ummæli:

Heiða sagði...

Ef ég væri trúuð kona þá væri ég hendandi mér á skeljarnar daginn út og inn biðjandi um að þjóðin átti sig á því að Borgarahreyfingin er nauðsynlegt mótvægi við þursunum inni á alþingi

Fólkið sem ekki er búið að ákveða hvað það ætlar að kjósa er von þessa lands um betra samfélag. Vonandi bregst það okkur ekki