laugardagur, 4. apríl 2009

Endurreisnin I

Fátt væri minna spennandi en að endurreisa hér á landinu bláa það lénskipulag peninga og valda sem þjáðist af miklum vindgangi og drapst endanlega í október á síðasta ári. 


Það þjóðfélag var fáum til gleði. Mammon er strangur og gleðisnauður guð sem leyfir engan dans nema kringum hann sjálfan og ekkert gildismat nema til jafnvirðis í gulli.


Listir og menning á eyjunni þreyðu við þröngan kost utan þau fríkuðu stertimenni sem migu utan í gullkálfinn í virðingarskyni og sleiktu silkiklæddan afturendann á auðjöfrum og peningaprinsípissum, einkum af fornum erlendum aðalsættum eins og “von und zu Sturm und Drang”. Fátækir listamenn leituðu logandi ljósi að svonefndum “sponsorum” eða kostunaraðilum og sú list var ein framleidd sem féll í kramið hjá lénsmönnum auðsins og höfðu einkum þann smekk að heita á roskin popp-goð til árs og friðar svo sem Elton John ellegar Tom Jones, en á þeim goðum höfðu mæður auðjöfranna haft mikinn átrúnað meðan þeir uxu úr grasrót.


Spilling - ef þú klórar mér í rassinum skal ég klóra þér í rassinum - var landlæg og rétt eins og í hitabeltinu þar sem menn leita í skugga til að gera viðskipti áttu öll viðskipti á Íslandi sér stað á sérstökum “gráum svæðum”, áður en ágóðanum var komið til varðveislu í þagmælskum banka á spillingareyjum eins og Tortólu og Lúxembúrg.


Megi þetta Ísland liggja sem lengst í rústum og helst gleymast þegar menn hafa skammast sín hæfilega fyrir þá heimsku og mannvonsku að byggja hér upp þjóðfélag sem leit svo á að þjóðin væri eingöngu nauðsynleg til að hægt væri að græða á henni og grilla á kvöldin.

Engin ummæli: