sunnudagur, 19. apríl 2009

Afneitun og heilbrigð skynsemi

Stundum er fólk að spyrja mig hvort ég sé ekki alveg hissa á því hvað Borgarahreyfingunni gengur rosalega vel í skoðanakönnunum og er alveg við að ná inn að minnsta kosti þremur þingmönnum.  


Nei, ég er ekki hissa á því að öfgalaus hreyfing hugsandi hugsjónafólks skuli núna loksins knýja á dyr Alþingis. Hins vegar er ég öldungis hlessa á því að milli fjórði og fimmti hver kjósandi á landinu skuli segjast ætla að kjósa SjálfstæðisFLokkinn - eftir þau 18 ár sem á undan eru gengin og miðað við þá stöðu sem við erum í núna.


Í huga mínum reyni ég að finna einhverja skýringu á því furðulega félagslega fyrirbæri að vilja fela brennuvörgunum slökkvi- og uppbyggingarstarfið - og það áður en reykinn er hætt að leggja upp af rústunum. 

Hluti af skýringunni er sennilega afneitun. "SjálfstæðisFLokkurinn er minn flokkur sem ég trúi á eins og Guð og Man Utd og hefur ævinlega á réttu að standa hvað svo sem skilningarvit mín, annað fólk og fjölmiðlar kunna að segja". Allir alkóhólistar og aðstandendur þeirra vita að afneitun getur verið svo sterk að heilbrigð skynsemi verði að gjalti. Það er að vísu nokkuð hátt afneitunarstig að horfa yfir þjóðfélagið okkar, rifja upp Útrásarvíkinginga, Elton John, West Ham, Nyhedsavisen, stórmennskubrjálæði, spillingu, vanhæfi og heimsku, Októberhrunið og Sjallastyrkina og panta blákalt annan umgang af því sama. 


Íslensk afneitun á sama stigi og þrjóska sauðkindarinnar.

Hvað sem þessu líður og hvort sem skýringin á því að SjálfstæðisFLokkurinn skuli hafa tveggjatölustafafylgi er afneitun eða umburðarlyndi hins langpínda þá skiptir það mestu máli að fólk taki afstöðu í kosningunum og kjósi í stað þess að sitja heima eða skila auðu.

Autt atkvæði eða ógreitt er atkvæði greitt hinum neikvæðu öflum tilverunnar. 


Það kann að vera að atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum sé til marks um afneitun á ástandinu eins og það er en autt atkvæði eða ógreitt er afneitun á því að samfélag okkar skipti viðkomandi nokkru einasta máli. Það er skortur á virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Fullkomin katatónísk afneitun. Þá finnst mér meira að segja mennskara að kjósa Sjallann, ef menn vilja afneita því að notfæra sér heilbrigða skynsemi.


2 ummæli:

Glumur sagði...

Hjörtu mannanna eru eins, -
á Sikliey og á Íslandi

Unknown sagði...

Í þrjósku sauðkindarinnar er yfirleitt fólgin skynsemi, ást á sjálfstæði og góðu grasi. Það þekkja þeir sem hafa elt rollur. Sú afneitun sem þú ræðir um - og nefnir íslenska afneitun - hefur ekkert með skynsemi að gera. Skynsamari hluti sjálfstæðismanna mun ekki kjósa XD í þessum kosningum. Þeir sitja heima eða róa á önnur mið. Ég bendi ungu vísindafólki á að rannsaka þá sem munu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Mér segir svo hugur að útkoman verði á forsíðum allra helstu blaða veraldar. /ask