mánudagur, 20. apríl 2009

Skel og kjaftur

Það má kannski flokka það undir gikkshátt að nenna ekki að lesa blað sem er svo merkilegt að það var niðurgreitt af þjóðinni um þrjá milljarða til að Óskar Magnússon og félagar hans hefðu efni á að gera blaðið að sínu málgagni. Já, ég á við Morgunblaðið sem mér finnst ævin vera of stutt til að lesa, ekki síst vegna þess að svo margt sem er bæði satt og skynsamlegt fer framhjá manni ólesið á hverjum degi.


Nú er það svo að þegar hamast er við að hræra saman óhreinindum berast sletturnar víða: Ég hef sannspurt að Agnes Bragadóttir sem því miður hefur starfsheitið blaðakona muni hafa skrifað grein í Morgunblaðið, 18.-19. ap., til þess að gera lítið úr Ástþóri Magnússyni og síra Karli Matthíassyni og haft vesaling minn undir í leiðinni. Ekki ætla ég að móðga þá Ástþór og síra Karl með því að mótmæla Agnesi Bragadóttur fyrir þeirra hönd né sannleikans, því að allir eru þessir aðilar fullkomlega færir um svara fyrir sig sjálfir, líka sannleikurinn.


Í fljótu bragði skilst mér að tilgangur Agnesar með skrifum sínum hafi verið sá að gera lítið úr Frjálslynda flokknum, Lýðræðishreyfingunni og Borgarahreyfingunni með því að herma ávirðingar sannar eða lognar og aulahátt upp á okkur þrjá fyrrnefnda talsmenn þessara hreyfinga og afskræma málflutning okkar til að gera okkur og þær hugsjónir eða skoðanir sem við höfum í senn fráhrindandi og bjánalegar.


Agnesi kann að þykja það góð latína að láta tilganginn helga meðalið þegar hún lætur dæluna ganga yfir andstæðinga FLokksins og Blaðsins. Sérlega virðist henni vera lagið að komast hjá því að sannleiksmolar stífli flæðið. Til að mynda hefur hún þetta eftir mér: “Þráinn... sagði að ef fólki liði ekki óbærilega, þá myndi atvinnuástandið á Íslandi lagast af sjálfu sér!”.


Ég get verið sammála blaðakonunni um að hvað ég sagði í raun og veru kemur málinu lítið við. Allrasíst í umfjöllun sem hefur fyrst og fremst þann tilgang að sýna fram á að ég þekki ekki mun á réttu og röngu. 


Í sannleikans nafni er þó rétt að það fái að koma fram að mitt tal gekk út á að til þess að heilbrigt atvinnulíf geti blómstrað þurfi heilbrigðar ytri aðstæður og í heilbrigðum þjóðfélögum þurfi ríkisstjórnir/einræðisherrar ekki að grípa til atvinnuskapandi örþrifaráða. Ég viðurkenni að þetta er torskildari hugmyndafræði en “álver er sama sem áttaþúsund störf” sem er sú mantra sem Illugi Gunnarsson fulltrúi Flokksins þuldi í þessu samhengi, enda fórst það fyrir hjá Agnesi að benda á að sú fullyrðing er hvorttveggja í senn, ósönn og óskammfeilin. 


Ég viðurkenni líka að minn tilgangur var ekki að gera hosur mínar grænar fyrir Agnesi, Blaðinu né öðrum pólitískum áróðursmaskínum. Minn tilgangur var að tala við fólk eins og fullþroska vitibornar verur og jafningja mína í stað þess að kaffæra það með pólitísku froðusnakki sem hugsanlega hljómar eins og ættjarðarljóð í eyrum Agnesar en hefur enga merkingu í eyrum þess sem er vanur því að heyra hanagal pólitískrar umræðu eins og hún gerist frumstæðust og dapurlegust í litlu landi.


Fleira var það nú ekki í bili nema hvað ég ætla að nota tækifærið úr því að ég er að skrifa á þessum nótum á annað borð og og óska Agnesi til hamingju með Morgunblaðið með þriggja milljarða afslætti og Morgunblaðinu til hamingju með Agnesi án afsláttar. Þar hæfir skel kjafti.



3 ummæli:

bjarkigud sagði...

Ég tek undir þetta með þér að lifið er allt of stutt til að lesa Morgunblaðið og því sorpi sem menn kalla blaðamennsku á þeim bæ. Ég er feginn að það eru loksins komnir fram einstaklingar (Borgarahreyfingin) sem talar við fólkið í landinu án hroka og lítilsvirðingu og viðurkennir að þeir viti ekki allt best. Þið komist á þing það er ekki spurning! X-O!

Helgi Bergmann sagði...

Ég tel að sjaldan hafi nokkrum fjölmiðlamanni verið jafmikið rústað og Agnesi í þessari færslu.

Þráinn sannar að þó að penninn sé kannski ekki alltaf beittari en sverðið, þá er penninn hans allavega beittari en penninn hennar Agnesar.

Útför sjálfsmyndar Agnesar Bragadóttur verður auglýst síðar. Skráðir Sjálfstæðisflokksmenn eru beðnir um að mæta.

Arinol sagði...

já þráinn, ég held svei mér þá að þú hafir gerst sekur af því að ýgja að þeim blákalda raunveruleika með þessum orðum þínum að e.t.v eru stjórnmálamenn óþarfir í það minsta óþarfari en þeir vilja vera láta. Agnes Braga getur náturulega ekki mögulega lifað í slíkum heimi þar sem hún þrífst á því að velta sér upp úr drullunni sem veltu upp úr þessu fólki. Hhún hefur þessvegna í tilvistarkreppu sinni gert talið sig tilneidda til að ráðast að ykkur með allri sinni heift.

Mér hefur nú gjarnan fundist þú vera orðheppinn og sannur maður samanber marga bakþanka þína í fréttablaðinu en Persónulega tel ég að þú gætir hafa orðað þetta heppilegra, þó ekki nema til þess að komast hjá þessari leiðinda umfjöllum.