þriðjudagur, 28. apríl 2009

Beiskur ertu, Drottinn minn!

Ýmsir, þar á meðal Kúlulánadrottning Íslands og fyrrum menntamálaráðherra, hafa orðið til þess að hneykslast á því að að maður sem Alþingi samþykkti einum rómi að sæma heiðurslaunum listamanna skuli síðan hafa gerst svo ósvífinn að berjast fyrir og vinna þingsæti í stað þess að sitja steinþegjandi og sjúga dúsuna sína til dauðadags.

Að mati þessara aðila er vítavert að maðurinn skuli ekki segja sig frá þeirri viðurkenningu sem hann hefur hlotið fyrir list sína nú þegar fyrirsjáanlegt er að hann muni fá greitt þingfararkaup fyrir væntanlegt starf sitt sem alþingismaður.

Í nafni jafnræðis er þar til máls að taka að löng hefð er fyrir því að þingmenn þiggi fleiri greiðslur en þingfararkaup eitt saman, jafnvel frá hinu opinbera - þótt kúlulán séu nýmæli og undantekning sem betur fer. 

Fyrsta og gleggsta dæmið eru ráðherrar sem þiggja ráðherralaun ofan á óskert þingfararkaup þótt öllum megi ljóst vera að ráðherra vinnur ekki þingmannsstarfið af sömu natni og sá sem ekki þarf að gegna ráðherraembætti. 

Annað dæmi eru sveitarstjórnarmenn sem sitja á þingi og þiggja laun eða skert laun úr heimasveit.

Löng reynsla er fyrir því að þingmenn sem tengjast atvinnulífinu haldi áfram að þiggja tekjur fyrir stjórnarsetur í stofnunum og fyrirtækjum eða bændur á þingi tekjur af búum sínum enda eru engar reglur sem banna þingmönnum að þiggja aðrar greiðslur en þingfararkaup fyrir unnin eða óunnin störf.

Jafnframt er það regla fremur en undantekning að heiðurslaunaþegar þiggi laun eða eftirlaun fyrir önnur störf, enda væru heiðurslaun ekki annað fátæktargildra ef ekki væri heimilt að afla tekna umfram þau.

Það er illt til þess að vita að heiðurslaun mín sem nema eitthundrað og fimmtíu þúsund krónum á mánuði fyrir skatta - og hafa ekkert með starfslaun listamanna að gera - skuli hafa valdið svona mikilli fjölmiðlaathygli og vandlætingu. 

Góðviljaðir aðilar hafa ráðlagt mér að kaupa mig undan þessari athygli með því að gefa andvirði heiðurslauna til einhvers líknarfélags en þeirri lausn hafna ég, enda þarf ég ekki að kaupa mér siðferðilega aflausn hafandi ekkert af mér brotið - annað en þiggja án umsóknar æðstu viðurkenningu sem íslenska þjóðin kann að veita listamönnum sínum. 

Það sem miður góðviljaðir aðilar hafa rætt og ritað um þetta sýnir aðeins þeirra innræti en ekki mitt og er þar af leiðandi þeirra vandamál en ekki mitt.

Ég saup á því sem að mér var rétt og vissi ekki að svona mikið gall væri í kaleik þjóðarinnar og segi því eins og kerlingin forðum: 

Beiskur ertu, Drottinn minn.

34 ummæli:

Carlos sagði...

Vel orðað, Þráinn. Leyfi mér að leggja það til að háttvirtir þingmenn skili öllum heiðursviðvikum frá ríkinu, þar meðtöldum doktorsnafnbótum ríkisskóla og fálkaorðum meðan þeir sitja á þingi. Það sér náttúrlega sérhver heilvita maður, að þetta tvennt fer ekki saman, að vera þing- og heiðursmaður ...

Unknown sagði...

Fórstu ekki á þing til að breyta hinum ömurlegu og spilltu hefðum alþingis...

Hr Reykás...

Þráinn sagði...

Halló Reykás. Kúlulán eru spilling? Sérðu ekki mun á þeim og heiðurslaunum?

my life as an Icelander sagði...

Þetta er vel útskýrt hjá þér Þráinn,

Kveðja Steinar Sörensson
meðbróðir í Borgarahreyfingunni

Ace sagði...

Mér er nú ekkert farið að lítast á blikuna ef þú ert farinn að miða þig við hefðir í launagreiðslum hjá alþingi.

Maðurinn sem ætlaði sko að breyta hlutunum og siðferðisvæða alþingi upp á nýtt.

Ég held að þú ættir nú að endurskoða þessa ákvörðun þína ... þegar meira að segja flokksbræður þínir og systur eru farin að ráðlegga þér þetta.

Öryrkjar og atvinnulausir fá 140 þúsund á mánuði. Þú bregst við með offorsi og ræðst á alla í kringum þig ... þegar þeir benda þér á að þingmanni Borgarahreifingarinnar (sem ætlar að hrista upp í hlutunum og breyta þessari peningagræðgis-spillingarpólitík) er ekki sæmandi að taka við tveimur launaumslögum frá skattborgurum Íslands. Tala nú ekki um þegar öll þjóðin er að taka á sig launaskerðingar að einhverju tagi.

Í guðanna bænum Þráinn, komdu niður á jörðina til okkar hinna.

Stefán Benediktsson sagði...

Þingmenn birta upplýsingar um skuldbindingar sínar svo menn geti myndað sér skoðun á af hvaða hvötum þeir greiða atkvæði í einstöku málum á þingi. Heiðurslaun rithöfunda eru engin skuldbinding ekki einu sin.ni til að skrifa

Unknown sagði...

Ég minntist nú ekkert á frú kúludrottningu...og já kúlulán=spilling.. .sammála...

Enda vil ég lítið með hana hafa og er þetta tvennt ólíkt... sammála...

En ég hins vegar hélt að þú værir þarna inni til að breyta venjum ekki halda í hefðir?...

þ.e.a.s. ef þú hefur lesið fyrri athugasemdina mína...

En plumar þig vel í hefðum og útúrsnúningum...

Virðing...

Nafnlaus sagði...

Vel orðað, Þráinn.

Unknown sagði...

Ef þú ætlast til að fólk hlusti á þig þá er ekki nóg að vera lýrískur og sniðugur; þú verður að hafa eitthvað að segja.

Allar pillur munu verða notaðar gegn þér. Ef þú notar þessa kúlulánabaun í samhengi við spillingu án þess að geta þess í hverju spillingin felst þá mun það allt verða tætt í sundur og notað gegn þér. Þín eigin orð munu þannig vera notuð til þess að fella dóm yfir einhverju öðru sem þú segir. Því meir sem þú spriklar því ómarktækari ertu og þá skiptir engu máli hvort þú "hafir rétt fyrir þér" eða ekki, hvort gjörðir þínar eru verjandi eða ekki; þú ert kosinn til að breyta Íslandi og þér er ekki stætt á því að vera með svona múður.

Eða eins og góður maður sagði: Ef þú þarft að réttlæta eitthvað þá hefur þú rangt fyrir þér.

styrkur sagði...

Bertelsson bragðast börnin vel? Byltingin boðaði nýja tíma ekki skúnka sem bæta böl með því að benda á eitthvað annað. Við trúðum á skapandi sýn á framtíðina ekki afsakandi fortíð.

Unknown sagði...

Góð skrif. Íslendingar eru orðnir svo vanir spillingu að þeir gera sér kannski ekki grein fyrir hvað er hvað í þeim efnum. Heiðurslaun þín eru örugglega ekki þar á meðal.

runar sagði...

ef þú ert hissa á því að þjóðin sé orðin beisk varðandi þá fyrirgreiðslu og spillingu sem hefur verið viðtekin innan stjórnkerfisins íslenska hefur þú algerlega gefið kost á þér til setu á alþingi á röngum forsendum.

að setja hlutina upp sem svo að ef þú ert ekki fylgjandi mér þá ertu ekki þjóðin eða jafnvel hryðjuverkamaður

er stórlega vanhugsað svar hjá þér því jú sjáðu til það er hægt að vera á móti tvöföldum launagreiðslum til alþingismanna og einnig kúlulánum.

en kúlulána útspilið eða ef þú ert á móti listamannalaunum (sem var ekki einu sinni til umræðu) þá ertu fylgjandi kúlulánum má túlka sem fullkomnun á svokallaðri rökræðuaðferð sem kallast “Let the Bastard Deny It” hefurðu heyrt um hana...

fyrirgefðu að ég leyfi mér að gera ráð fyrir að drottinn sé myndlíking fyrir þjóðina í pistli þínum.

annars til hamingju með stórkostlegan árangur í kosningunum X-O þjóðin á þing

kv.
rúnar logi

jon sagði...

"heiðurslaun"

Þú ert ekki mikill heiðursmaður að mínu mati ef þú þyggur þetta í þessari stöðu af virðingarlausu alþingi. Þetta snýst því ekki um hvort þú hafir unnið fyrir þessu eða ekki, þetta snýst um peninginn hjá þér.
Maður kannast við að bent sé á að aðrir gera samskonarhluti eða verr, það bætir ekki þinn "heiður".

Ég kaus O og taldi að ég væri að kjósa breytingar, ég sé eftir því.

bjarkigud sagði...

Ég get nú ekki orða bundist yfir þessu máli. Hvernig væri að fólk myndi aðeins líta raunsætt á málið áður en farið er að básuna um át á byltingarbörnum og hræsni. Heiðurslaun eru veitt til þeirra sem hafa með mikilli elju og vinnusemi lagt sitt af mörkum til menningararfs þjóðarinnar.

Alveg eins og mér fyndist sjálfsagt að heiðurslistamaður sem líka er öryrki fengi bæði öryrkjabæturnar sínar sem og heiðurslaun þá finnst mér ekkert að því að Þráinn Bertelsson þyggi áfram heiðurslaun þrátt fyrir að vera kominn á þing.

Þráinn hefur svo sannarlega unnið fyrir þessum heiðri með mikilli vinnu og líklega mikilli skuldsetningu þar sem allir vita að það verður enginn mjög ríkur af því að gera kvikmyndir og skrifa bækur á Íslandi. (vinsamlegast leiðréttu mig Þráinn ef þetta er rangt hjá mér).

Hefur fólk í alvöru ekkert betra að gera í miðjum brunarústum græðginnar og svikana en að agnúast út í menn sem hafa þó í alvöru unnið fyrir því sem þeir eru með. Hvernig væri að spyrja Steingrím og Ögmund hvort að þeir hafi þegið bæði ráðherralaun og þingmannalaun síðustu 80 daga?

Unknown sagði...

Ögmundur hefur ekki þegið ráðherralaun (veit ekki með Steingrím) en það kemur málinu EKKERT við.

Nú er kominn tími fyrir festu, heiðarleika og skjót viðbrögð. Múður eins og Þráinn skrifar hér að ofan er honum ekki gott veganesti í þá tiltekt sem hann segist standa fyrir.

Ace sagði...

Athyglisvert Bjarki.

Heldur þú að ef öryrki á bótum fengi vinnu þar sem mánaðarlaunin eru hálf milljón, fengi að halda bótunum sínum????

Finnst þér það líklegt.

Þetta er líka spurning um að Borgarahreifingin ætlaði að breyta hlutunum ... koma siðspillingunni og peningagræðginni sem viðgengst hefur hér lengi .. burt af alþingi.

Eða á það bara við aðra??

Nafnlaus sagði...

Hvað er málið?

Hvað koma þessi heiðurslaun þingsetu Þráins við?
Kúlulán, milljarðatugalán án trygginga o.s.frv.-auk alls annars.Eyðum nú púðrinu frekar í það heldur en þetta raus.
Hættið þessu sjálfbirgingslega tuði og skoðið ykkur sjálf áður en þið farið að djöflast í fólki-ekki fóruð þið fram í þetta óþverrastarf sem hann Þráinn bauð sig fram í.

Hann er á þessum heiðurslaunum og þarf ekki að afsaka sig né afsala sér þeim. Ef svo færi þá væri lag fyrir ykkur að nota kraftana og gera aðsúg að bóndanum á Bessastöðum og biðja hann um að endurkalla titilinn af Jóni litla geislaBaugi sem hann fékk hérna um árið...vituð þér enn eða hvat?

Látið nú kyrrt liggja. Af nógu öðru er að taka.
Góðar stundir
Guðrún Garðarsdóttir

Nafnlaus sagði...

Hefur það farið framhjá þér Þráinn að ríkissjóður er nánast gjaldþrota og fyrirséð að ríkið verði ekki fært um að sinna grunnþjónustu eins og menntun unga fólksins og heilbrigðisþjónustu nema með að skuldsetja ófæddar kynslóðir?

Finnst þér réttlætanlegt að þiggja þessi laun í því ljósi, þó vissulega séu þau ekki há?

Sérðu ekkert ósamræmi milli þess að þiggja þessa dúsu og þeirrar áherslu sem frambjóðendur flokksins þíns hafa sett á bætt siðferði í stjórnsýslu, þar á meðal tilhneigingu alltof margra stjórnmálamanna að hugsa frekar um að skara eld að eigin köku, en að vinna að þjóðarhag og setja gott fordæmi.

Það er sorglegt fyrir þetta nýja framboð sem lofaði svo góðu og var fullt af eldmóð ef liðsmenn þess ætla að sökkva sér í sömu eiginhagsmunahyggjuna og þeir voru að gagnrýna.

Slæmt er ef þú sérð ekki sóma þinn í því að afsala þér þessum launum og það þurfi að kreista þau undan blóðugum nöglunum á þér.

Sturla sagði...

Það neyddi hann enginn til þess eyða lífi sínu í skriftir og kvikmyndagerðir, og gjaldþrota land á ekki að vera sóa peningum í svona vitleysu.

Þó það sé hefð fyrir einhverju þá getur það engu síður verið siðlaust.

Man ekki betur en að drullusokkarnir í bönkunum sem settu heimsbyggðina á hausinn hafi líka haldið því fram að þeir hafi unnið fyrir bónusunum sínum.

En það er satt sem þeir segja varðandi þessar kosningar. Ný andlit, sami skíturinn.

jon sagði...

Hef unnið baki brotnu allt mitt líf, fæ hvorki stefgjöld né "heiðurslaun" fyrir og get ekki rukkað aftur fyrir sömu vinnuna.
Ég ber enga virðingu fyrir alþingi og því get ég ekki túlkað verðlaunir þaðan sem "heiður".
Ég borga hins vegar STEF gjöld af tómum geisladiskum.

Næst geri ég eins og konan sem hélt að kjörklefinn væri náðhús.

mm sagði...

Værirðu þá ekki til í að deila því með okkur skattgreiðendum hvað við munum greiða þér ca. í mánaðarlaun á þessu kjörtímabili?

Ingimundur Einar sagði...

Þurfa bændur á þingi þá að skila beingreiðslunum ?

Unknown sagði...

Illa upplýstir fáráðlingar, sem öfunda þann sem betur getur.
Þannig er landinn.
Útrásarvíkingarnir komu landinu í gjaldþrot og skuldirnar eru svo háar að fáráðlingarnir geta ekki lesið úr tölunum, nema þá kannski
Þorgeður, ef hún notar kúluspil og
vandar sig og þá er best að gleyma þeim.
En smá heiðurlaun fyrir vel unnin störf : Nei sveiattan.
ÞRÁINN, STATTU Á ÞÍNUM RÉTTI GAGNVART ÞESSU HELSJÚKA ÖFUNDSÝKISPAKKI SEM BÝR Í ÞESSU LANDI.

Unknown sagði...

Lítilla sanda, lítilla sæva, lítil eru geð guma þeirra, sem hella óhroða úr súrum sálarkirnum sínum yfir heiðursmanninn Þráin Bertelsson. Ekki kaus ég Borgarahreyfinguna, en vissulega hefði hún verið næsti valkostur.
Þráinn er fyllilega verður launa sinna og ég hlakka til að heyra hans mál úr ræðustóli Alþingis.
Ósköp leggjast þeir lágt sem sjá ofsjónum yfir þessum heiðurslaunum hans, sem eru fyrst og fremst táknræn viðurkenning fyrir áratuga framlag hans til íslenskrar menningar í rit- og myndmáli.

Unknown sagði...

eru þetta bestu rökin að benda á "kúlulánadrottninguna" eins ósmekklegt og það er. Ekki ertu sestur á þing en þegar kominn ofan í skotgrafir lágkúrunnar í stjórnmálum. Hefði vonast eftir uppbyggilegri, gagnlegri gagnrýni sem rökræða má og heitir jafnvel vitræn. Ekki þetta skítkast. Þú talaðir um að þekkja ekki þjóð þína í þætti á sunnudag. Meðal annarra er þjóð þín það fólk sem kaus XD. Þú er ekki sammála því en er ekki hægt að bera almenna virðingu fyrir því eins og öðru fólki eða er X-O hin nýja elíta sem aumur almúginn ber að bera sig við. Reyndu að kynnast þjóð þinni og þá öllum, annars í ljósi kynna okkar við þig á komandi kjörtímabili munu halda þér frá Alþingi og máttu þá vel ylja þér á heiðurslaunum.

Unknown sagði...

Hvað ertu búinn að vera á þessum launum lengi? 2.5 mills sirka á ári í hvað 10 ár 25 milljónir! er það ekki bara nóg fyrir nokkrar íslenskar myndir sem þú tapaðir nú örugglega ekki bara á er það nokkuð?
Er það ekki bara meira en budget fyrir 4. líf myndina? hlakka til að horfa.
gg

Salmon Simms sagði...

Beiskur ertu drottinn okkar allra, frekja Þráinns að halda að þú sért ekki okkar allra er 30 maríubæna dæmi.

Ég er búinn að reyna að setja hér inn skoðun mína og því miður tínist allt sem ég set inn. Amma mín kenndi mér að biðjast fyrirgefningar og iðrast þegar það á við, sorglegt að þú skyldir hafa farið á mis við slíkt uppeldi. Hvernig dettur þér í hug að bjóða þjóðinni uppá þetta rugl! Þessi styrkur er hærri en atvinnuleysisbætur og er eftirágreiddur!

Þetta er skortur á skynsemi og almennri kurteisi. Ég er ekki viðkkæm sál, ég fagna þeim sem gengur vel og hjálpa þeim sem illa gengur. HVAÐ ERTU AÐ HUGSA - ef þú ert að hugsa!

Eyddu deginum í að lesa bullið eftir sjálfan þig og hristu hausinn í smá stund, ef það dugar ekki farðu þá í kalda sturtu.

Mér er ofboðið.

esspe sagði...

„Sextíu og þrír þingmenn ásamt hjörð varaþingmanna troðast nú um í ræðupúlti Alþingis og hvetja þjóðina til samstöðu í stað þess að segja upp í sparnaðarskyni þeim þrjátíu og fjórum pólitísku aðstoðarmönnum sem þeir notuðu tækifærið til að ráða sér meðan gróðavíman var áfengust, að ég tali nú ekki um jafnsjálfsagðan hlut og að afnema á næsta þingfundi hið gjörspillta og gráðuga eftirlaunafrumvarp sem skammtar þeim og tryggir kjör þeirra og fáeinna útvalinna langt umfram kjör þjóðarinnar sem þeir eiga að þjóna.“

Sá sem svo skrifar hefur nú verðskuldað uppskorið umboð kjósenda sinna til að setjast á þing það er hann lýsir svo. Árangur sinn má hann, og hreyfing hans Borgarahreyfingin, líklega að stórum hluta þakka ofangreindri afstöðu sinni til siðferðisins eða skorts á slíku, á þinginu og þannig öðlast umboð þjóðarinnar til að taka þar til hendinni í nafni siðbótar og sparnaðar á þessum krepputímum. Meðan fimmtungur þjóðarinnar er á strípuðum atvinnuleysisbótum og aðrir taka á sig skerðingu launa sinna og leitað er allra leiða á þinginu til að spara útgjöld ríkisins, er gott til þess að vita að menn eins og hann hafi nú tekið sæti á Alþingi Íslendinga. Til hamingju Þráinn Bertelsson.

GodZilla sagði...

Það er hlálegt að sjá þig kalla Alþingi "þjóðina" núna þegar þér hentar það eftir að hafa slegið um þig með slagorðinu "Þjóðin á þing". Miðað við slagorðið var þjóðin ekki á þingi fyrr en Borgarahreyfingin komst þangað inn...og þar af leiðandi var þjóðin ekki á þingi þegar þú fékkst dúsuna þína. Svona bull boðar ekki gott fyrir þjóðina sem kaus þig á þing.

Einar sagði...

Þráinn,

ég sé, að þú ert undir nokkru ámæli, fyrir sakir sem vart geta talist stórar. Þessi upphæð er smá, tiltölulega. Á sama tíma, er hefð fyrir því, að þingmenn þiggji greiðslur af margvíslegu tagi, fyrir utan sjálft þingfarakaupið. Reyndar, í svo miklum mæli að fáir, eru á þingfarakaupinu einu saman.

Í ljósi þeirrar viðkvæmni sem nú ríkir, í samfélaginu, er þetta upphlaup ekki endilega út úr korti, þó sjálfsagt sé sanngirni þess, ekki alveg 100%.

Margir þingmenn, munu vera með mun meiri og hærri greiðslur en þessar, fyrir utan þingfarakaup, þegar þú tekur sætið þitt á Alþingi, er það tekur næst til starfa.

Ef til vill, væri rétt að leiða umræðuna út í að vera um AUKASPORSLUR ALMENNT. ÞAÐ VÆRI ÞÖRF UMRÆÐA. Þú gætir ef til vill gert það, í næsta svari, með því að birta nokkur góð dæmi, um hvað aðrir munu vera að veita viðtöku, fyrir utan þingfararkaup.

ÞAÐ ER OFT ÞANNIG, AÐ MARGIR FREISTAST TIL AÐ KASTA STEINUM ÚR GLERHÚSI.

Ég ætla, að láta þetta nægja um þetta deilumál, en get þannig þó bent þér á, að þú nýtur alla vegna samúðar, eins úr Framsóknarflokknum.

----------------------
Eins og þú, gekk ég úr honum, í tíð Halldórs Ásgrímssonar. Ég er svo nýverið genginn í flokkinn á ný. Á síðasta kjörtímabili, var ég fylgismaður Íslands hreifingarinnar. Var ekki til í að ganga í Samfylkingu.

Þú ákvaðst fyrir þína parta að fara aðra leið, og til hamingju með gott gengi :)

---------------------

Það sem ég er að velta fyrir mér, er sú staðreynd, þ.e. ég tel það vera staðreynd, að annað hrun er í vændum. Hrun fjölmargra fyrirtækja, og stóraukið atvinnuleysi.

Þetta, finnst mér að sjálfsögðu, vera miklu mun markverðara umræðuefni. Það er í þessu samhengi, sem ég kasta hugmynd minni fram.

Mér finnst ljóst, að gott fólk í okkar samfélagi, þurfi að bindast samtökum, þvert á flokka, til að aðstoða samlanda okkar, sem margir hverjir munu eiga um sárt að binda.
------------

ég er í sambandi við hóp sem þú kannast við, sem kallast Höndin.

Það sem ég er einmitt að velta fyrir mér, er það þjóðfélagsvandamál, að fátækt vex hröðum skrefum, vegna hraðrar aukningar atvinnuleysis. Ekkert, bendir til annars, en að sú aukning muni halda áfram, að lágmarki út þetta ár. Að auki, að mikil sprenging, ofan á þá sem þegar er orðin, muni sennilega verða.

Spurningin er eftirfarandi:
Heldur þú, að það kæmi til greina, að safna saman hóp einstaklinga, sem geta fundið einhvern tíma aukreitis, til að veita fólki í þessum vandræðum stuðning?

Ég er að velta því fyrir mér, þ.s. þinn flokkur, Borgarahreyfingin, hefur allmarga áhugasama einstaklinga innan sinna raða, og minn flokkur, Framsóknarflokkurinn, á að minnsta kosti enn nokkurn fjölda þeirra, hvort mætti skipuleggja stuðnings-hóp í sameiningu.

Ég tek fram, að ég hef fram að þessu, einungis rætt þetta við þá einstaklinga, sem einnig eru meðlimir í Höndinni. Þar, sem þú hefur komið við sögu, verið sérstakur verndari Handarinna, skilst mér, á tímabili. Datt, mér í hug, að athuga hvort þér þætti þessi hugmynd, verð frekari skoðunar.

Ég fer fram með þessari varfærni, þ.s. ég veit að nokkurrar tortryggni gætir, og vil fyrir alla muni ekki skapa þá hugmynd, að það sé nokkuð annað að baki, en það að skoða hvort, beita megi þeim samtaka mætti sem má finna til staðar, innan þessara 2. flokka, til góðra verka.

Ég útiloka, alls ekki, að fara í samstarf við fleiri aðila, ef hlutirnir verkast þannig.

Sendu mér línu á: einarbb@gmail.com ef þér finnst hugmyndin þess leg, að vinna megi með hana frekar.

Ps: hittumst á Borgarafundinum á Naza, þ.s. þú klappaðir á öxl mína, og þakkaðir mér fyrir fundinn. Má, kalla það e.t.v. táknræna snertingu :)

Vinsamleg kveðja, Einar Björn Bjarnason

einarbb@gmail.com

Drilli sagði...

Svo skal böl bæta, að benda á annað verra. Þú dettur í þessa sígildu gryfju, því miður. Það er nú líka subbulegt þegar þingmenn sem tóku að sér tímabundin verk aukalega sem ráðherrar,þiggja nú biðlaun sem ráðherrar efir að þeirri aukavinnu lauk,samt ennþá í fullu starfi sem þingmenn. Afhverju talar enginn um það ?

ggauti sagði...

Minn maður Þráinn. Svarar þessu öfundar- og smjörklípuliði fullum hálsi. Gangi þér allt í haginn.

Unknown sagði...

Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir þau skáldverk sem þú smíðað, þau hafa í það minnsta stytt mínar stundir. Mér finnst þú vel kominn að heiðurslaunum listamanna en að því sögðu þá komu eftirfarandi orð þín mér á óvart:

"... enda þarf ég ekki að kaupa mér siðferðilega aflausn hafandi ekkert af mér brotið..."

Er það ekki siðferði að standa við uppgefnar yfirlýsingar og skoðanir þegar á hólminn er komið?

Án þess þó að vita það þá grunar mig að mánaðrtekjur þínar eigi eftir að aukast þrátt fyrir að þú myndir gefa heiðurslaun þín til góðgerðarmála þessi ár sem þú situr á þingi.

Borgarahreyfingin hefur sagt að alþingisstarfið sé 100% vinna og alþingismenn eigi að beita sér alfarið að því starfi. Verandi laun fyrir listsköpun þína er það þá ekki borðliggjandi að þú hafir ekki tíma til að vinna fyrir þeim meðan á þingsetu þinni stendur?

Því get ég ekki séð hví þú setur fyrir þig að styrkja eitthvað gott málefni nú þegar kjörið tækifæri gefst. Ég er alveg viss um að hjartalag þitt hafi það í sér.

Kveðja,
Baldur Guðni Helgason

Hrafnkell sagði...

Ég er alveg hættur að botna í íslensku þjóðinni. Hún veit orðið ekkert í sinn haus.