þriðjudagur, 31. mars 2009

Sjálfstæðismenn og Sjálfstæðisflokksmenn

Eitt þeirra ljóna sem stendur í vegi nýrra stjórnmálahreyfinga er “5% reglan” sem svo er nefnd því að hún kveður á um að til að fá sæti á Alþingi þurfi viðkomandi listi að ná að minnsta kosti 5% atkvæða.

 

Þessi regla er sjálfsagt upphaflega rökstudd með því að einhvern þröskuld þurfi til að skillítið fólk og hreinir vitleysingar geti ekki komist fyrirhafnarlítið á þing til að halda fram sérvisku sinni. Raunverulega ástæðan fyrir reglunni er hins vegar sú að fjórflokkurinn lítur utanaðkomandi samkeppni óhýru auga og gerir allt sem í hans valdi stendur til að minnka samkeppni um að bjóða upp á lýðræði í landinu.


Það hefur lengi verið samráð meðal fjórflokksins um að halda lýðræðismarkaðnum í fjórþættum fjötrum fjórflokksins og innbyrðis skilningur milli flokkanna á því að leyfa svonefndu lausafylgi, kannski um 20% af heildarfjölda kjósenda, að rása milli flokka í kosningum.


Ósiðlegt og sennilega líka ólöglegt markaðssamráð hefur líka verið meðal fjórflokksins um að skammta sér skotsilfur úr ríkissjóði, nú á fjórða hundrað milljónir á ári samtals.


Eftirlaunalögin sællar minningar voru enn einn vitnisburðurinn um nána samvinnu flokkanna og samráð í þágu eigin hagsmuna og flokksgæðinga.


Við í Borgarahreyfingunni erum orðinn langþreytt á því flokksræði sem fylgir þessu flokkakerfi.


Við erum valkostur fyrir þá sem hugsa sjálfstætt og vita að stjórnmálaflokkar svíkja, vanrækja, aftúlka og snúa út úr kosningaloforðum strax að kosningum loknum, og hver þeirra um sig tekur eiginn hag framyfir hag þjóðarheildarinnar.


Þessu ætlum við að breyta. Til þess að það megi takast þarf fólk að vita af þessari tilraun okkar, því að nóg er um kjósendur sem þreyst hafa á að hafa sama stjórnmálaflokkinn fyrir áskrifanda að atkvæði sínu ár eftir ár.


Við teljum að þrátt fyrir að við höfum ekki fjármagn til að auglýsa stefnumál okkar muni það spyrjast út að við erum nýr og ferskur valkostur; framhald Búsáhaldabyltingarinnar og þeirra hugsjóna sem þar fengu útrás.


Við álítum að um leið og fólki verður ljóst að við munum komast yfir 5% múrinn muni fylgisstraumurinn til okkar margfaldast. 


Kosningastefnuskrá okkar er á netinu, www.xo.is, kosningaskrifstofa er á Laugavegi 40 - og félagar í hreyfingunni skipta orðið þúsundum svo að vel gengur að setja saman framboðslista í öllum kjördæmum landsins. Allt þetta fyrir enga peninga, sem sýnir að hugsjónir eru ennþá til á Íslandi.


Við heitum á alla sjálfstæða menn og konur á Íslandi að kjósa okkur. Sjálfstæðir eru þeir sem hugsa sjálfstætt og eru ekki í sauðahjörð einhvers fjórflokksins.


Við vonum að allir sjálfstæðismenn, konur og karlar, kjósi okkur og lýðræðið - og reyndar vonum við að Sjálfstæðisflokksmenn sjái að sér í vaxandi mæli og gerist sjálfstæðismenn og greiði okkur atkvæði.


Borgarahreyfingin. X-O. Við eigum okkur sjálf! Stjórnmálaflokkarnir geta átt sig! Hvílum þá um stund! Þjóðin á þing!

3 ummæli:

Unknown sagði...

"Við í Borgarahreyfingunni erum orðinn langþreytt á því flokksræði sem fylgir þessu flokkakerfi." - Þetta var skrýtið. Ert þú ekki nýbúinn að bjóða þig fram í prófkjöri fyrir einn hinna fjögurra flokka?

Þráinn sagði...

Nei, Tómas minn. Ekki gerði ég það. Ég var að vona að ákveðinn stjórnmálaflokkur væri að feta sig í lýðræðisátt, svo var ekki, og þar lauk samskiptunum í mesta bróðerni hjá flokknum í fortíðinni og mér í nútímanum.

Unknown sagði...

Við álítum að um leið og fólki verður ljóst að við munum komast yfir 5% múrinn muni fylgisstraumurinn til okkar margfaldast.

Mikið er ég sammála! Ég vil kjósa x-O, en finn samt hik við það að atkvæðið "týnist" í undir 5%. Og hvernig er það með kjördæmin? Er miðað við 5% í hverju kjördæmi eða samtals 5% á landsvísu?

KV María