Núna í vikunni var maður dæmdur í mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir stuld á skinkubréfi, raksápu og rakvél. Eflaust byggist þessi dómur á velgrundaðri og ítarlegri rannsókn á þessu sakamáli. Segja má að það sé mikið réttaröryggi að lifa í landi þar sem horfið skinkubréf leiðir til lögreglurannsóknar og dómsniðurstöðu, ef í ljós kemur hver það var sem olli hvarfi skinkubréfsins. Það er þó galli á réttarörygginu hér á landi að þær ströngu reglur sem virðast gilda um skinkubréf og raksápu eru ekki viðhafðar þegar um er að ræða stærri stuldi, svo sem að hreinsa innan úr bönkum, fjármálastofnunum og fyrirtækjum og senda sjóðina til geymslu í suðrænum skattaparadísum. Innherjaviðskipti, kúlulánaleikfimi samstarfsmanna og vildarvina og fleiri hvítflibbaglæpir þykja ekki einu sinni rannsóknarvirði, hvað þá sakfellingar. Undir markvissri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og nú síðast Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur þjóðfélag okkar verið gert siðspilt, fátækt og ærulaust. Stjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna sem nú situr kann engin ráð til að bjarga heimilunum í landinu, hvað þá að kalla á vettvang erlenda sérfræðinga og láta rannsaka efnahagshrunið sem eitt allsherjar sakamál. Til þess að þjóðin geti aftur horfst í augu við sjálfa sig þarf nýja siði, nýtt siðferði og nýtt og endurreist lýðræði í landinu - eins og tókst að minna stjórnvöld svo rækilega á með Búsáhaldabyltingunni. Byltingin heldur áfram og heitir núna Borgarahreyfingin og hyggst bjóða fram í öllum kjördæmum landsins. Til þess að rannsókn verði hafin á efnahagshruninu sem sakamáli og eigur grunaðra frystar meðan á rannsókn stendur þartu að kjósa X-O í kosningnum. Ef þér nægir að vita að skinkuþjófar fái makleg málagjöld skaltu hins vegar kjósa fjórflokkinn.
miðvikudagur, 25. mars 2009
Skinkuþjófurinn
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Maður gæti haldið að þetta væri grín... en svona er Ísland í dag.
Ég á mér ekki heitari ósk en að fá að búa hérna áfram og í réttlátu samfélagi. Ég ætla rétt að vona að kjósendur séu flestir í sömu pælingum og sjái að Borgarahreyfingin er besti kosturinn í stöðunni
kv Heiða
Tek undir þetta Þráinn.
Aldrei að vita hvort maður kjósi ykkur ekki bara í kosningunum.
En ég hef verið að hlusta á nokkur af þeim loforðum sem flokkur þinn hefur verið að setja fram.
Verða þau ekki bara svikin eins og önnur kosningaloforð hjá öðrum flokkum??
Er það ekki bara venjan?
Hér ertu kominn á rétta hillu. Þrátt fyrir að vera góður maður, þá hefði það aldrei dugað til svo ég færi að setja XB á atkvæðaseðilinn.
Skrifa ummæli