þriðjudagur, 31. mars 2009

Leiðtogar á brókinni

Það er dáldið óhugnanleg tilfinning að tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins skuli hafa smalað saman á þriðja þúsund manns um helgina og látið allan þennan fjölda klappa, stappa, hlæja, æpa og góla í takt við murrið í flokksmaskínunni.


Meira að segja hin gallbeiska vanstillingar- og hatursræða Davíðs Kr. Oddssonar fékk jafndásamlegar undirtektir og ef Milton Friedman hefði mætt á fundinn og breytt fimm dollurum í fimm milljónir dollara og mettað alla fundarmann á staðnum. 


Og Samfylkingarhópurinn upplifði greinilega sjálfan sig í fylkingarbrjósti sósjaldemókratískrar byltingar undir rauðum fánum róttækni og réttlætis og hefði að sögn Ingibjargar Sólrúnar bægt allri vá frá Íslandsströndum ef ekki hefði verið fyrir sinnuleysi íhaldsins um hina stritandi alþýðu.


Landsfundur Vinstri-grænna viku áður einkenndist af gríðarlegri samstöðu um kyrrstöðu og hugmyndaleysi og óbilandi trausti í garð leiðtoga flokksins til tíu ára, Steingríms J. Sigfússonar.


Samnefnari allra þessara funda var leiðtogadýrkun og flokkshollusta. Fyrir utankomandi var eins og þessar samkomur væru til að votta leiðtogum þakkir og tryggð fyrir að leiða þjóðina öllum háska frá til öryggis, réttlætis og stöðugleika sem ekki ætti sér líka á byggðu bóli. Það var ekki eins og þessar skrautsýningar og væmnu ástarjátningar í garð flokkanna og guðdómslegra forystumanna þeirra kæmu fram á tímum þegar íslenska þjóðin berst örvæntingarfull fyrir efnahagslífi sínu og afkomu heimilanna. Það var ekki að merkja að átján þúsund Íslendingar eru án atvinnu á stund þessarar miklu þakkargjörðarhátíðar í þágu flokka og foringja.


Toppurinn og samnefnarinn fyrir sjálfsánægju og sjálfsupphafningu hinna hugmyndasnauðu flokksþinga var svo ræða fyrrnefnds Davíðs Kr. Oddssonar um að hyski og illþýði negli ennþá mannkynslausnara á krossa og muni iðrast þess, enda sé í rauninni allt öðrum að kenna en þeim sem er um að kenna eins og hægt sé að sjá ef maður gúglar nöfnum þeirra!


Þessi hópgeðveiki lagði fjölmiðla undir sig alla helgina og eins og til stóð sáu fjölmiðlar aðeins leiktjöldin, tildrið og prjálið og heyrðu aðeins hin innantómu slagorð. Enginn hafði orð á því að keisararnir væru í hæsta máta fáklæddir og þeir berorðustu augljóslega bullandi manískir ofan í kaupið og ófúsir að taka lyfin sín.


Gegn þessum hópdáleiðslu- og ógeðfelldu ímyndarsmíðaverksmiðjum beinir Borgarahreyfingin spjótum sínum. Við erum hreyfing hugsandi fólks en ekki dáleidd hjarðdýr. Við viljum lýðræði en ekki flokksræði. Við viljum sannleika og heiðarleika. Ekki lúðrablástur, skrum og beiskar pillur. X-O!


Engin ummæli: