mánudagur, 30. mars 2009

Landsfundir á Klapplandi

Halda mætti að stuðningsmenn tveggja stærstu stjórnmálaflokka okkar væru fæddir og uppaldir á Klapplandi. Drjúgur hluti nýafstaðinna landsfunda þessara flokka fór í að fundarmenn klöppuðu saman lófunum, fast og innilega og lengi, þegar gamlir og nýir leiðtogar ávörpuðu óbreytta fundarmenn.

Gott klapplið hefur notið mikils álits í stjórnmálum og má nefna að á dögum Rómarveldis var sérþjálfað klapplið flutt inn frá Alexandríu, en þar á bæ þótti sem menn hefðu náð hámarki í þeirri list að klappa saman lófunum.

Stjórnmál í hinni fornu Rómaborg þóttu frumstæð á margan hátt og var til þess tekið þegar frægur leiðtogi greip til þess ráðs á leika á strengleik sinn meðan borgin stóð í ljósum logum.

Minni sögum en af taumlausri leiðtogadýrkun og lófaklappi fer þó af endurskoðun þeirrar stefnu eða stefnuleysis sem olli hruni efnahagslífs á Íslandi, og afsökunarbeiðnir fyrir að hafa sofið á vaktinni eða siglt ranga stefnu beindust ekki til þjóðarinnar sem sýpur seyðið af mistökum flokkanna heldur báðu fráfarandi formenn flokka sína fyrst og fremst afsökunar á að hafa komið þeim í bobba.

Blind flokkshollusta, gagnrýnislaus fagnaðarlæti og sannfæring um að hópurinn skipti meira máli en aðrir hlutar heildarinnar flokkast undir hjarðhegðun, eins og hún er dapurlegust í ofsatrúarsöfnuðum, íþróttafélögum eða pólitískum öfgahópum.

Miðað við lófatak og ofsafenginn fögnuð félaga á landsfundum Flokksins og Samfylkingarinnar verður ekki annað séð en klappliðið sé hæstánægt með bæði stefnuna og flokkinn sinn - án nokkurrar tengingar við þá sorglegu arfleið sem flokkar þessir skildu eftir sig þegar þeir hrökkluðust úr síðustu ríkisstjórn.

Gefum þeim sem ekki geta lært af mistökum sínum gott klapp!!

Klapp, klapp, klapp, klapp, klapp og húrra!

Það gerir ekkert til. Borgarahreyfingin, www.xo.is, er komin á vettvang og ætlar að nota hendurnar til að taka til eftir þessa veruleikafirrtu söfnuði - ekki til að klappa þeim né klappa fyrir þeim.

6 ummæli:

Bjarni sagði...

Ég var á einum þessara funda.

Gettu hverjum.

Ég er ekkert sár í lófunum eftir klapp klapp.

Ég fór stundum ípontu til að rífa kjaft þó stundum yrðu mínar tillögur kosnar út af borðum.

Sárnar ekkert mikið en segi eins og sumir, ---þeir vita ekki hvað þeir gjöra.

Kom inn ákvæði um, að allar auðlindir yrðu undir geirnelgdum fullveldisrétti þjóðarinnar.

Mistókst að afnema flóttaleiðir og óljóst orðalag í sumum greinum.

Komst ekki upp með, að fá Fiskveiðistjórnunarkerfið undir þjóðaratkvæði, enda sé ég það nú klárlega, að það var ras í mér.

Smámál eins og ESB aðild, aðild að SÞ og svoleiðis titlingaskít mega illaupplýstir landsmenn kjósa sig sárhenta um en EKKI og ég meina ALS ekki peningalega stórhagsmuni sem Kvótabraskið --afsakið---fiskveiðistjórnunarkerfið sem allar þjóðir öfunda mann af eins og LÍjúgararnir segja.

Flórinn endurómaði ræðu mannsins í Dalalífi þá hann æfði þingmanninn í maganum sínum.

Svo endurómaði íþróttahúsið í Kópavogi, þegar þingmannsefnin þar mokuðu til og sulluðu í annarskonar mykju. Ekki eins gróðurvænni en mykju hugans samt.

með kveðju gróandans, enda konið langt að Hörpu.

Miðbæjaríhaldið

Unknown sagði...

"Þau eru súr" sagði refurinn. Þráinn varst þú á landsfundi t.d. SF. Nei auðvitað ekki. Þú ert svo sérstakur að þú getur ekki verið með öðru heiðarlegu fólki.
Auðvitað var klappað á landsfundi Sf. En það fór ekki mikill tími í það. Það var klappað fyrir nokkrum ræðum og nokkrum góðum athugasemdum sem komu fram í panel.
Annars voru menn að vinna hörðum höndum að málefnavinnu og að leita leiða til að byggja upp betra, manneskjulegra og réttlátara þjóðfélag. Í það fór tíminn.
Þér ferst, sem hvergi getur verið nema þú sért miðpunktur og nafli alheimsins, að tala niður til fólks sem leggur sig fram um að hafa áhrif á gerð og auka jöfnuð í því samfélagi semj það býr í. Ég segi einfaldlega; skammast þú þín ef þú þá kannt það.

Þráinn sagði...

Sigtryggur. Ég held ég kunni að skammast mín þegar það á við, en ég skammast mín ekki fyrir að hafa EKKI verið á landsklappfundi Samfylkingarinnar.

Bjarni sagði...

Nú er ekki hægt að segja eins og forðum

,,Stigið,--Sigtryggur vann".

Hér var Sigtryggur afgreiddur afar pent.

Mibbó

Unknown sagði...

Þráinn talar eins og við er að búast af hroka og óskammfeilni.
Hann telur sig þess umkominn að dæma samkomu þar sem hann var hvergi nærri.
Að gagnrýna það sem maður þekkir ekki, hefur ekki séð og veit ekkert um kallast fordómar. Svo einfalt er það.
Bjarni tekur undir slíkt og þykir gott. Það segir allt sem segja þarf um þá kumpána báða.

Þráinn sagði...

Sigtryggur minn. Þú verður að vera úti ef þú þarft að vera svona voðalega hortugur og dónalegur undir dulnefni. Mér finnst ekki gaman að þurrka út svör en menn verða að hegða sér þannig að þeir séu í húsum hæfir.
Það er svo hins vegar misskilningur að maður þurfi að vera viðstaddur hluti til að geta dæmt þá. Mér vitanlega hefur enginn hæstaréttardómari verið viðstaddur morð þótt hann hafi dæmt marga morðingjana.
Sem sagt þér er velkomið að kommentera hérna ef þú bara rifjar upp mannasiði.