Ennþá hefur ekki nokkur maður verið handtekinn vegna grunsemda um glæpsamlegt atferli í bankarekstri eða viðskiptum þeim sem ollu hruni fjármálakerfisins hér á landi. Það bendir því að viðkomandi lögregluyfirvöld þjáist af verulegum valkvíða, því að af stórum hópi grunaðra sakamanna er að taka. Enginn vafi leikur á að risavöxnum upphæðum hefur verið skotið undan til skattaparadísa eða aflandseyja. Enginn vafi leikur á því að illa fengnar eignir s.s. leikföng hinna nýríku, lúxusbílar o.s.frv. eru hér á aðgengilegum stöðum.
Engin skýring fæst á þessum seinagangi, nema ef vera kynni að ekki er verið að rannsaka þá atburðarás sem leiddi til smánar fyrir þjóðina sem sakamál.
Það er ekki of seint að taka af skarið. Ráða erlendan saksóknara og erlenda stjórnendur til að stýra innlendu starfsliði við sakamálarannsóknar á peninga- og eignahvarfinu. Harðsnúið lið efnahagsbrotadeildar lögreglumanna sem tilkynnir rannsóknarefnum sínum að þeir hafi “stöðu grunaðs manns” og eignir þeirra hérlendis og erlendis verði frystar uns mál þeirra hafa komið fyrir dómstóla til sýknu eða sakfellingar.
Hér duga engin vettlingatök. Allra síst duga silkihanskar sem við skulum taka af okkur og snúa okkur af alvöru í að rannsaka þjóðfélagshrunið sem risavaxið sakamál.
Vegna hagsmunatengsla, vensla, vináttu, kunningsskapar og hefðar og jafnvel samsektar einhverra stjórnmálamanna mun fjórflokkurinn ekki hafa döngun í sér til að koma upp svona alvörurannsókn.
Borgarahreyfingin á engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að hið sanna komi fram og hinir seku fái makleg málagjöld.
X-O! Kjósum Borgarahreyfinguna - þjóðin á þing - glæpamennirnir í tugthúsið.
1 ummæli:
Heyr heyr!
Skrifa ummæli