mánudagur, 30. mars 2009

Hugrakkir frambjóðendur!

Það verður óborganlega skemmtilegt að bjóða sig fram í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir Borgarahreyfinguna. 

Þar hittir maður á fleti fyrir ýmsa athyglisverða og reynda stjórnmálamenn úr öðrum stjórnmálasamtökum. 

Tökum Flokkinn fyrst. 

Þar fer fyrir listanum Illugi Gunnarsson, alþingismaður, “Sjóður 9” sællar minningar og fyrrum aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar. 

Í öðru sæti kemur svo hinn féglöggi Pétur Blöndal, alþingismaður, “fé án hirðis” sem tók snúninginn á sparisjóðunum.

Í þriðja sæti er baráttumaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, sem aldrei lætur neinn bilbug á sér finna í því hugsjónamáli sínu “að koma brennivíni í búðirnar”.

Og númer fjögur er svar Flokksins við Florence Nightingale sjálf Ásta Möller, alþingismaður, “einkavæðum sjúkdóma og elli”.

Mér finnst það á vissan hátt aðdáunarvert hugrekki hjá þessu fólki að gefa kost á sér til þingsetu á nýjan leik eftir það sem á undan er gengið - og öll þjóðin þekkir og finnur fyrir undir byrðum sínum. Það er mikil bjartsýni að halda að þjóðin sé strax búin að gleyma þeim hörmungum sem Flokkurinn hefur leitt yfir hana.

Kosturinn við þetta framboð er að nú er tækifæri fyrir kjósendur að þakka þessu fólki leiðsögn og liðveislu og beina atkvæðum sínum til Borgarahreyfingarinnar sem hefur hvorki svikið né féflett, einn né neinn og hafði engin afskipti af “Sjóði 9” og hvað þá heldur því “fé án hirðis” sem Pétur Blöndal hafði áhyggjur af að yrði úti í blindhríð frjálshyggjubrjálseminnar.

“Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá,” sögðu Silli & Valdi í gamla daga en það mun koma á daginn að töluvert er farið að slá í þessa ávexti Flokksins. 

Þeir ávextir sem eitt sinn voru lokkandi eru ekki lystugir lengur! Sjóður 9, fé án hirðis, brennivín í búðirnar!

3 ummæli:

pjotr sagði...

Hárrétt athugað hjá þér Þráinn. Miðað við stemninguna í dag held ég að meginn markhópur Borgarahreyfingarinar ætti að vera kjósendur xD, xF og xB Ég dreg í efa að kjósendur VG og Samfylkingarinnar taki sénsinn á að verja atkvæði sínu í xO (með fullri virðingu) af ótta við að það kæmi til með að koma xD og xB aftur til valda. Persónulega óska ég ykkur alls hins besta og þá einkum þér persónulega, en viðurkenni fúslega að vera of ragur til að taka nokkra áhættu að svo komnu máli.

Glumur sagði...

Nú, þegar 75% virðast ætla að kjósa Hrunflokkinn enn á ný, má skilja hvers vegna Danir hikuðu við að afhenda þessari þjóð sjálfsforræði.

Þráinn sagði...

Já, Glúmur. Annaðhvort fór þjóðin of snemma að heiman - eða of seint. :=)