laugardagur, 28. mars 2009

X-O! Hástökkvari skoðanakannana!

Sígandi lukka er best. 

Í undanförnum skoðanakönnunum hefur Borgarahreyfingin byrjað á að skjóta upp kollinum og síðan ákveðið en hæversklega aukið fylgi sitt og mælist nú síðast með 3,6%.

Meðal okkar sem að framboðinu stöndum ríkir mikil bjartsýni, enda væru Íslendingar vitlausari en þeir eru ef allur þorri fólks ætlaði áfram að binda trúss sitt við gömlu fjórflokkana sem eiga sök á því hvernig komið er fyrir okkur nú um stundir.

Framboð Borgarahreyfingarinnar stendur til boða þeim sem ekki telja að gamli fjórflokkurinn eigi atkvæði þeirra skilið í næstu kosningum. Borgarahreyfingin vill tafarlausar aðgerðir til bjargar heimilunum, sömuleiðis ráðstafanir til hjálpar þeim fyrirtækjum sem enn er unnt að bjarga. Við viljum virkt lýðræði, breytt kjördæmaskipulag, burt með 5% regluna og við krefjumst þess að barist verði af krafti gegn pólitískri og efnahagslegri spillingu.

Hrun fjármálastofnana viljum við tafarlaust að verði rannsakað sem sakamál og þeirri rannsókn  stjórni erlendir sérfræðingar með innlenda starfsmenn. Eigur þeirra sem grunaðir eru um undanskot og ólöglegt athæfi verði tafarlaust frystar.

Við viljum byggja sem hraðast upp nýtt og betra Ísland, óspillt land lýðræðis, jafnræðis og góðs siðferðis. Við forðumst öfgar til hægri og vinstri og höfum tröllatrú á heilbrigðri skynsemi. X-O! Við stefnum að því að Borgarahreyfingin nái tveggja stafa prósentutölu í kosningunum!

Engin ummæli: