þriðjudagur, 24. mars 2009

X-O! Stjórnmálahugi eða blind ofsatrú?

Of langt mál væri að telja upp alla trúarsöfnuði á Íslandi sem eiga það sameiginlegt að meðlimir þeirra trúa í blindni á óskeikulleika þeirra og farsæla leiðsögn forystuhópsins allt til enda veraldar. Of langt mál væri líka að telja upp öll þau íþróttafélög sem eiga það sameiginlegt að meðlimahópar hvers þeirra um sig eru sannfærðir um ágæti eigin félags langt umfram önnur slík, án tillits til þess hvað tölulegar upplýsingar sýna um árangur á íþróttasviðinu.

Stjórnmálaflokkar á landinu sem líkjast þessum trúarsöfnuðum eða íþróttafélögum eru hins vegar aðeins fjórir að tölu: Framsóknarflokkur, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur (Flokkurinn) og Vinstri-grænir.

Allir þessir flokkar eiga það sameiginlegt að undir þeim er sami sitjandinn, það er að segja grundvöllur þeirra byggist á staðfastri trú meðlima þeirra, að hinn óskeikula pólitíska sannleika sé að finna í framgöngu flokksforystunnar. 

Þótt margir eftirláti trúfélögum að sjá fyrir andlegri velferð sinni og stjórnmálaflokkum að sjá um hina efnislegu velferð, hversu brothætt sem hvorttveggja kann að reynast, fer samt vaxandi fjöldi þeirra sem vita að ef hver manneskja hugsar ekki sjálf um hagsmuni sína munu önnur hagsmunaöfl fylla í tómarúmið.

Þeir sem hingað til hafa í mismikilli blindni trúað á að Framsóknarflokkur, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur (Flokkurinn) eða Vinstri-grænir hefðu velferð þjóðfélagsins á hreinu hljóta að verða fyrir miklum vonbrigðum með vernd og varðstöðu þessara stofnana, þegar og ef þeir opna augun fyrir því að íslenskt efnahagslíf liggur í rúst og það er kreppa í landinu; nokkurs konar nútíma Móðuharðindi - en þó af manna völdum að þessu sinni, ekki vegna náttúruhamfara.

Það sem stuðningsmenn þessara flokka hafa hugsanlega kallað stjórnmálaáhuga hlýtur að vera takmarkalaus ofsatrú ef viðbrögð þeirra við ástandinu verða ekki önnur en þau að kenna illu árferði um kreppuna. Kreppan og stórþjófnaðarfaraldurinn sem stundum var kallaður “útrás” og sópaði með sér til aflandseyja öllum verðmætum í landinu sem ekki voru amk. naglföst skrifast að sjálfsögðu á ábyrgð allmargra einstaklinga, en þó fyrst og fremst á ábyrgð “fjórflokksins”, þessara fjögurra stjórnmálaflokka sem fara með völdin í landinu.

Það er kominn tími til að vakna af þeim sæta draumi að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið með því að “fjórflokkurinn” fái ótruflaður af kjósendum að fara sínu fram sem lengst og oftast. Það er kominn tími til að þjóðin fari sjálf á þing. Það er kominn tími til að fólk axli sjálft ábyrgð á sínum hag og afturkalli það umboð sem “fjórflokkurinn” hefur haft til að byggja hér upp siðspillt, fátækt og ærulaust þjóðfélag.

  “Þjóðin á þing” er kjörorð nýs stjórnmálaafls sem heitir Borgarahreyfingin og lesa má nánar um á www.xo.is.

Við höfum látið “fjórflokkinn” draga okkur of langt og of lengi á asnaeyrunum. Nú tökum við sjálf stórnina í okkar hendur. X-O, lifandi lýðræði! Þjóðin á þing!


6 ummæli:

pjotr sagði...

Hjartanlega sammála Þráinn.
EN - erum við ekki bara að fjölga trúfélögum með því að kjósa xO ? Breytist Borgarahreyfingin ekki bara í "költ" sem hrópað verður á í þarnæstu kosningum ? Sjálfur fagna ég hverju því framboði sem stefnir að breytingum á íslensku samfélagi, einkum ef markmiðið er að klekkja á alþýðufjandsamlegum öflum (sem nóg er af). Hins vegar óttast ég að þunginn verði ekki nægur og við sitjum bara uppi með nýjan smáflokk í staðinn fyrir Frjálslyndaflokkinn - einhvers konar Smá-Borgarahreyfingu - eða þannig sko. :)

Þráinn sagði...

Sæll, Pjotr. Nei, Borgarahreyfingin mun ekki breystast í staðnað trúfélag. Í stefnuskrá er þess sérstaklega getið að hreyfingin leggi sjálfa sig niður þegar helstu markmiðum hefur verið náð - eða útséð verður um að þau náist. Þá geta aðrir tekið við keflinu.

Glumur sagði...

Er þetta alnafni þess Þráins sem ég ætlaði að kjósa hjá Framsókn?

Hér verður safnað saman sögum um Sjálfstæðisflokkinn. sagði...

Hér er talsmaður X-O að lýsa aðal-stefnumálum hreyfingarinnar.
http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/23/bankahrun_afgreitt_sem_sakamal/

Siggi Hrellir sagði...

Ég mæli með: www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/23/thor_saari_i_zetunni/

Siggi Hrellir sagði...

mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/23/thor_saari_i_zetunni/