miðvikudagur, 31. desember 2008

Að spara piparúðann

Það verður að fara að smækka skammtana af piparúða og táragasi við lögregluna. Of margir í því liði halda að þessi efni séu framleidd svo að löggan geti skeytt skapi sínu á almenningi.


Á undanförnum mánuðum hefur lögreglan beitt vaxandi ofbeldi - sem mun fara mjög alvarlega úr böndunum ef ábyrgir aðilar reyna ekki að rifja upp fyrir löggunni að hún er til að þjóna almenningi en ekki til að sprauta á hann piparúða. Jafnvel minniháttar mótmælaaðgerðir vopnlauss fólks kalla á yfirgengilega taugaspennt og ofsafengin viðbrögð, rétt eins og meirihluti lögregluliðsins hafi etið stera sér til óbóta.

"Catch 22" í VR-lýðræði

Til að tryggja stöðugleika í stjórn VR skal Nýársfundur, sameiginlegur fundur trúnaðarráðs og trúnaðarmanna - sem sé mötunauta Gunnars Páls formanns við jólaborðið sem hann lét VR bjóða sveinum sínum - gera tillögu um skipun í öll embætti sem í kjöri eru hverju sinni.

Þetta hlífir VR meðlimum við því að þeir sem eru á móti stjórninni þurfi að ómaka sig til að bjóða sig fram gegn henni, því að "Catch 22" í VR er að þeir sem eru á móti stjórn félagsins eru þar með vanhæfir eða óhæfir til þess að fá að bjóða sig fram á móti henni.

Með blessun og undir eftirliti Alþýðusambands Íslands hefur VR því tekist að koma á hjá sér því sem margir kalla "stöðugt lýðræði" eða jafnvel "óhagganlegt lýðræði".

Lýðræði eða lagarefjar í VR?

Þrátt fyrir að hafa séð villur síns vegar og beðist afsökunar hátt og í hljóði í fjölmiðlum og á fjölmennum félagsfundi VR gat Gunnar Páll Pálsson ekki setið á strák sínum og bauð sig aftur fram til formanns VR 22. des. sl.
Mánudaginn 5. jan. verður svo borinn fram fullskipaður listi með stjórn og trúnaðarmönnum (þessum úr jólaboðinu góða á kostnað annarra félagsmanna þar sem þeir handsöluðu og skrifuðu upp á stuðning við Gunnar Pál). Í nafni lýðræðisins verða á þeim lista aðeins tryggir og trúir, innvígðir og innmúraðir stuðningsmenn formannsins á hinum siðferðilega hálu skóm, vegna þess að pakksatt trúnaðarmannaráð formannsins fer yfir öll framboð og úrskurðar að hætti Salómons hverjir séu hæfir og hverjir óhæfir.
Það er því ekki nema skiljanlegt að fáa andstæðinga formannsins sé að finna á þeim dauðhreinsaða lista, enda er handhægara að hreinsa stjórnir fyrirfram en eftir á.
Ekki er þó víst að allir hinir trúu matgæðingar formannsins né formaðurinn sjálfur sofi vært þar til sjálfkjörið verður í félaginu, því að hópur VR-félaga sem ennþá trúir á Virðingu og Réttlæti er að vinna að mótframboði, sem engum mun koma á óvart að hinir innvígðu boðsgestir formanns komi til með að reyna að úrskurða vanhæft og ógilt.
Ef reynt verður að koma í veg fyrir lýðræðislegt stjórnarkjör í VR af þaulsetuliðinu er samt ekki fokið í öll skjól. 
Hægt verður að boða til nýs félagsfundar sem er æðsta vald í málefnum félagsins og lýsa vantrausti á stjórn og formann - og ef langþreyttir félagsmenn nenna ekki í frekari lagakróka við þaulsetuliðið er einnig með auknum meirihluta hægt að slíta félaginu og mun þá koma í ljós það sem marga fýsir að vita í sambandi við stjórnarathafnir að undanförnu - og einnig munu fást upplýsingar um lífeyrissjóð félagsins sem hefur nú lengi verið í herkví hinna þaulsætnu.

þriðjudagur, 30. desember 2008

Kröpp kjör í Seðló

Laun seðlabankastjóra lækkuð um 15%!!!!

Er þetta óhætt? fara mennirnir ekki bara annað? það er víst svaka samskeppni um starfskrafta svona manna og peningar algert aukaatriði, sagði prófessor og sidekick Hannes Hólmsteinn til að útskýra síðustu hækkun. Það væri flott hjá þeim að fixa á lágu kaupi það sem þeir fokkuðu upp á ofurlaunum!

laugardagur, 27. desember 2008

Líkklæði með vösum

"Einkarekin líkhús" er nýjasta snilldarhugmynd BB dómsmálagenerálsins okkar. Bæði opnar þetta skemmtilega rekstrarform möguleika á huggulegum bílskúrsiðnaði og gefur auk þess langþráða möguleika á því að einkaaðilar bjóði efnaðri viðskiptavinum sínum loksins upp á líkklæði með vösum.

Fullar kæligeymslur hafa áhrif á kreppu

Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar hélt ónefnd kona á Seltjarnarnesi fjölskylduboð á annan dag jóla. Borð svignuðu undan rausnarlegum veitingum og gera reyndar enn, því að mikill afgangur varð af veisluföngunum. Til dæmis má nefna að konan hafði búið til fjóra lítra af "jólasalati" og voru þrír þeirra afgangs þegar veislunni lauk og allir héldu mettir heim til sín að huga að sínum eigin afgöngum frá því á jóladag og aðfangadagskvöld.


Talsvert mörg tonn af hálfetnum hamborgarahryggjum hafa hlaðist upp í kæligreymslum landsmanna yfir hátíðarnar, sömuleiðis fjölbreytilegir sósuafgangar, brúnaðar kartöflur, smákökur af mörgum sortum, kalt hangiket, ógrynni laufabrauðs, bæði heilar kökur og mylsna og svo mætti lengi telja. Þar sem gera má ráð fyrir að næstum annað eins af matarleifum hlaðist upp um áramóti telja margir hagfræðingar að nokkur bið verði á því að sú djúpa kreppa skelli á sem spáð hafði verið strax um áramót, uns þjóðin hefur etið leifafjallið. Að lokum er rétt að koma hér á framfæri hvítöls-viðvörun, en varasamt getur verið á geyma hvítöl á svölum stað, jafnvel svölum, um lengri tíma vegna hættu á gerjun, þannig að sé ekki aðgát höfð getur jólaöl breyst í páskabrugg. Erfitt er að meta hversu lengi ofgnótt þessi varir og hver áhrifin verða á fyrirhugaða þróun kreppunnar.

föstudagur, 26. desember 2008

Elísabet með Haarde-doða?

Elísabet II Bretadrottning þótti heldur daufleg í orðum og framkomu í jólaávarpi sínu að þessu sinni. Þessi 82 ára gamla kona hefur hingað til verið prýðilega spræk, svo að menn velta því fyrir sér hvort hún sé kominn með snert af þeirri deyfð sem í vaxandi mæli er farið að gefa læknisfræðinafnið "Haarde-doðinn".


Ekki er vitað hvernig sá sjúkdómur smitast en helsti snertiflötur milli til að mynda Geirs Harðar og Elísabetar er að þau hafa bæði þurft að eiga samskipti við Gordon Brown.

fimmtudagur, 25. desember 2008

Sameining í vændum?

Nú þarf að nota kyrrð og næði þeirra hátíðisdaga sem í hönd fara og sameina Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk. Sjallarnir hafa séð að sér í ESB-málinu og Samfylkingin í öllum hinum málunum, svo að nú ætti ekki að vera neitt sem torveldar sameiningu þessara samhentu flokka. Hinn nýi stjórnmálarisi gæti heitið Sjálfstæðisfylking eftir sameininguna eða Samstæðisflokkur. Eftir útrásarárin hefur þjóðin öðlast mikla reynslu af sameiningu fyrirtækja og samlegðaráhrifum.


Sorpflokkun og sorphirða ku ganga einstaklega vel eftir hrunið, engin mengandi skjöl hafa lekið út í þjóðfélagið. Skuldauppgjöf er í anda jólanna og lækkun bankastjóralauna úr 1950 þúsundum á mánuði í 1500 hundruð þúsund er mesta jafnréttis- og jöfnunaraðgerð í þjóðfélaginu síðan systurflokkarnir ákváðu að draga ofurlítið úr lífeyrisforréttindum yfirstéttarinnar.

Nú þarf aðeins að fjölga ofurlítið meira í löggunni og búa hana betri tækjum til að geta án eigin áhættu massað mótmælaskríl, og efla varnarmálastofnun og fjölga sendiherrum verulega til dæmis með því að loka geðdeildum víðar en á Akureyri.

miðvikudagur, 24. desember 2008

Jólaóskir

Bestu óskir 

um gleðileg jól,
frið, 
jafnrétti 
og bræðralag
sem mætti þróast 
með hækkandi sól
og fullkomnast í vor
á kosningadag.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Lúxus veikindi skattlögð

Þann lúxus að leggjast inn á hinar dýru heilbrigðisstofnanir í landinu í stað þess að taka magnyl og vatnsglas og þrauka heima hjá sér á nú að skattleggja upp á 360 milljónir til viðbótar þeim ýmsu gjöldum sem nú eru innheimt á heilbrigðisstofnunum.


Það er ekki hlaupið að því að ná fé af sa. 32 þúsund sjúklingum sem leggjast eins og greifar inn á heilbrigðisstofnanir og hefur því verið brugðið á það ráð að reyna á hugkvæmni heilbrigðisráðherra sem fær frjálsar hendur til að leggja ný gjöld á sjúklinga og hækka þau gjöld sem fyrir eru.


Til að forðast að um geðþótta-ákvarðanir verði að ræða kæmi til greina að verðleggja gjöldin eftir sjúkdómsástandi viðskiptavina: því alvarlegri sjúkdómur því hærri gjöld. Ekkert hefur þó verið endanlega ákveðið nema hvað gjöldin skulu hækka verulega svo að fólk sjái sér ekki leik á borði að skrópa frá kreppunni með leggjast í rólegheitum inn á sjúkrahús.

Mesta klúður Íslandssögunnar: Hver er "litli hálfvitinn" sem fokkaði upp Icesave-málinu?

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að sér hafi ekki verið kunnugt um að breska fjármálaeftirlitið hafi verið reiðubúið að heimila yfirfærslu Icesave-reikninga Landsbankans í breska lögsögu gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu.

Þetta var svar við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur sem spurði Geir líka hvort embættismenn eða ráðgjafar ráðherra hafi haft vitneskju um málið. 

„Ekki svo ráðherra hafi verið kunnugt," svaraði Geir.

Nú fer fram örvæntingarfull leit að “litla hálfvitanum” sem klúðraði þessu kostaboði. Spurning hvort bréfið með tilboðinu hafi fyrir misskilning lent hjá íslensku jólasveinunum en ekki þeim í ríkisstjórninni.

mánudagur, 22. desember 2008

Vonir dagsins

Í dag vona ég

1. að mér auðnist að finna jólagjöf handa konunni minni.
2. að mér takist að fá gert við rúðupissið á bílnum.
3. að ég verði ekki tekinn fyrir stöðumælabrot
4. að ég týni ekki listanum yfir það sem ég þarf að gera.
5. að mér takist að láta afgreiða mig í bankanum mínum, Kaupþingi, án þess að fá krampakast af innibyrgðri reiði.
6. að enginn spyrji hvers vegna ég hafi hætt á Fréttablaðinu (ég var rekinn).
7. að bókin mín ÉG EF MIG SKYLDI KALLA sé á besta stað í öllum bókabúðum og seljist eins og heitar lummur.
8. að mér takist að ljúka við allt sem ég þarf að klára fyrir klukkan fjögur svo
9. ég geti fengið mér smárökkurblund þegar ég kem heim úr útréttingum.
10. að mér þyki þetta allt saman skemmtilegt.

sunnudagur, 21. desember 2008

Nú fer að rofa til

Í dag, 21. desember er stysti dagur ársins, nóttin er lengst og birtu nýtur skemmst. 

Vetrarsólstöður voru nú í hádeginu, nákvæmlega klukkan 12:04. 

Hér eftir tekur daginn því að lengja. Á morgun, 22. desember, verður dagurinn 50 sekúndum lengri. 

Ekki er ljóst hver tekur þessar ákvarðanir né í hvers umboði og eigum við þó að heita sjálfstæð þjóð.

Tvísýn jól - spennandi barátta góðs og ills

Nú verður æsispennandi að sjá hvort boðskapur og andi jólanna ná raunverulega að smjúga inn í sálir og hjörtu mannanna á þeirri hátíð sem nú fer í hönd; hvort hér sprettur eins og af sjálfu sér upp nýtt þjóðfélag byggt á ævafornum gildum um samábyrgð og samstöðu


Eða hvort þetta tal um ást, náungakærleika, heiðarleika og ábyrgð fellur eins og vatn á gæs, ellegar brúnku-tan á fölan verðbréfadreng á köldum vordegi; hvort menn hrista þetta af sér og fleygja boðskapnum út með umbúðapappírnum utan af jólagjöfunum.

Spennandi að sjá hvort þessi ævaforni leikur skilar einhverjum árangri.


laugardagur, 20. desember 2008

Jólalegt eða kreppulegt

Svakalega er jólalegt núna. 


Svo skilst manni á veðurfræðingum að það sé rok og rigning á leiðinni og von á verulega kreppulegum jólum, rétt eins og góðviðrið í hinu gullna sólskini útrásarinnar reyndist skammgott og við tók það gjörningaveður sem nú varir.

fimmtudagur, 18. desember 2008

Stjórnarskipti í Jólalandi

Nú eru farnir að tínast til byggða þeir góðu drengir sem munu skipa ríkisstjórn landsins og sitja að völdum yfir hátíðirnar frá aðfangadegi fram á þrettánda. Svo er sagt að ekki muni allir hinir lúnu og löskuðu meðlimir þeirrar ríkisstjórnar sem er á leið í jólafrí eiga afturkvæmt í embætti að loknu fríi. Rætt er um að tveir óhæfir ráðherrar sem mjög oft hafa ofboðið þjóðinni verði látnir hætta; þeir Björn Bjarnason generallissímó og Árni Mathiessen sem verið hefur pólitískt lík síðan hann gerði fyrrnefndum Birni þann greiða að skipa ákveðið stórættað ungmenni í héraðsdómaraembætti umfram marga hæfa umsækjendur.


Til að vega upp þá pólitísku skekkju sem ríkisstjórn G. H. Haardes verður fyrir af því að missa tvo óhæfa ráðherra er einnig rætt um að reka tvo prýðilega hæfa ráðherra til að viðhalda pólitísku jafnvægi innan stjórnarinnar. Hinir hæfu ráðherrar sem helst kemur til greina að fórna á altari helmingaskipta eru Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra sem hefur unnið sér það til óhelgi að nenna ekki í heilt ár að heimsækja Davíð Oddsson á sjúkrastofu hans undir Svörtu loftum, og Þórunn umhverfisráðherra sem hefur þá tvo pólitísku veikleika að vera kona og umhverfisráðherra.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Ný nöfn, nýir bankar, ný einkavæðing

Enginn var fegnari en ég þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma. Hvernig staðið var að því að velja kaupendur er svo önnur saga. Ég hélt að með einkavæðingunni myndu þessar þjónustustofnanir í eigu landsmanna breytast í nútímafyrirtæki úr þeim köstulum stéttaskiptingar, pólitískrar mismununar, mútugreiðslna og annarra forneskjulegra sjúkdóma sem þjökuðu gömlu ríkisbankana.


Ég sting upp á því að næst þegar hugað verður að einkavæðingu banka verði annaðhvort valdir úr þjóðskrá þrír valinkunnir sómamenn/konur og þeim gefnir bankarnir (án listasafna) og falið að reka þá sem þjónustustofnanir við þjóðina - að viðlögðu 16 ára fangelsi. Önnur einkavæðingarlausn væri sú að gera banka með sömu skuldbindingum að lottó vinningi þrjár vikur í röð, en þannig kæmu inn einhverjir peningar. Þriðja leiðin gæti svo verið að senda hverju mannbarni í ríkinu eitt hlutabréf sem viðkomandi mannsbarn gæti svo braskað með eftir aðstæðum og innræti sínu.

Reynslan hefur leitt í ljós að handvaldir kaupendur reynast ekki vel. Notum aðrar aðferðir næst. En áður en bankarnir vera einkavæddir á ný þyrfti að velja þeim öflugri nafngiftir en nú tíðkast: Nýji Glitnir, Nýji Landsbanki og Nýja Kaupþing eru ekki beinlínis sögufræg nöfn úr fortíðinni eins og t.d. Fenrisúlfur Banki, Naglfari Banki og Miðgarðsormur Banki.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Siðsamleg sigling Lúðvíks

Svo virðist sem umtöluð sjóferð Lúðvíks með Thee Viking á sínum tíma hafi átt sér stað þegar mellurnar og bankastjórarnir voru á frívakt og karlkyns hásetar sigldu bátnum í nýtt bátalægi. Má því telja að greiðaskuld Lúðvíks við Baug hafi verið innan siðsamlegra marka.

mánudagur, 15. desember 2008

Óþarfi að bíða eftir evrunni

Nú er búið að ákveða að aftengja vísitölubætur á búvörusamninga. Úr því að hægt er að aftengja bændur og kvikfénað frá vísitölu getur gjaldmiðillinn okkar ekki lengur verið því til fyrirstöðu að stíga skrefið til fulls og frelsa almenning úr vísitölugapastokknum.


Úr því að krónan dugir sem gjaldmiðill fyrir ríkið til að hætta að borga þegnunum  vístölutryggingu hlýtur að vera óþarfi að bíða eftir því að við tökum upp evru til að losa þegnana við að borga þennan okurskatt.

Ragnar og Þorvald í ráðherraembætti

Ef það stendur til að reyna að gera andlitslyftingu á ríkisstjórninni væri tilvalið að taka valinkunna fagmenn inn í fjármálaráðuneyti (Þorvaldur Gylfason) og dómsmálaráðuneyti (Ragnar Aðalsteinsson); flokkarnir gætu svo notað viðskipta- og umhverfisráðuneyti til að svala metnaði ungs alþingisfólks á uppleið.

Egglos

Eftir myndum að dæma af egginu sem Ólafur Ragnar varp í fang Hillary er ekki að sjá að mikið sé bruðlað á Bessastöðum, því að eggið lítur út fyrir að vera heimatilbúið föndur eða af vernduðum vinnustað.


Það er ekki hægt að lá Hillary að hún skuli ekki hafa treyst sér til að setja upp þennan ófögnuð heima hjá sér, enda þekkja margir það vandamál sem hlýst af því þegar nánir ættingjar eða kærir vinir fara að velja handa manni heimilisskraut í óvenjulegum sjetteringum að sínum smekk.

Þótt nú séu samdráttartímar ætti forsetaembættið þó ekki að hika við að bjóða í eggið, allt upp að 51 dollar, og fela Sorpu að losa veröldina við þetta vandræðaegg með áfestu skjaldarmerki þjóðarinnar og innsigli forsetaembættisins. 

sunnudagur, 14. desember 2008

Ef...

Ef framsóknarmenn bæru gæfu til þess að hlusta á það sem Eygló Harðardóttir hefur að segja um samvinnu og samvinnuhugsjónina gæti verið að flokknum yrði hleypt úr skammarkróknum sem þjóðin hefur sett hann í.


Og ef framsóknarmenn hefðu bein í nefinu myndu þeir biðja Eygló að gefa kost á sér í formannskjöri og leyfa öllum litlu formannsframagosunum að sitja hjá og læra af henni um stund.

Ef... Þá gæti framsókn átt sér viðreisnar von.

laugardagur, 13. desember 2008

Um slægð og leynd

Það er ekki skrýtið að tiltrú fólks á stjórnmálaflokkum sé í sögulegu lágmarki nú um stundir. 


Nú þegar hörmungar ganga yfir vill fólk fá að vita á hreinskilinn og umbúðalausan hátt hvað það er nákvæmlega sem gerðist og er að gerast og hvað stendur til að gera okkur til varnar.

Að óska eftir hreinskilni frá stjórnmálaflokkum er svona álíka skynsamlegt og að fara fram á að töframenn á sviði útskýri töfrabrögð sín og leyfi áhorfendum að skoða upp í ermar sínar. Þau miðaldastjórnmál sem hér tíðkast byggjast að mestu leyti á slægð og leynd og misvísandi upplýsingum, sem sé undirferli og leynimakki en ekki hreinskiptni og heiðarleika. Starfsstolt og sjálfsmynd stjórnmálamanna byggist á því að geta komist í gegnum allar aðstæður án þess að segja einfaldan sannleikann og án þess að ljúga beinlínis. 

Þessar fornu leikreglur kunna að bjóða upp á skemmtilegar fléttur fyrir þátttakendur í stjórnmálaleiknum, en þolendum er flestum farið að ofbjóða hálfsannleikur, hvít lygi og smáskreytni, launung og dularfullar þagnir.

Vonandi verður sá lærdómur einhvern tímann dreginn af framkomu íslenskra stjórnmálamanna nú þegar öll spjót standa á þjóðinni að sannleikurinn sé sagna bestur - og að meðaltrúgirni og meðalgreindarvísitala kjósenda hafi verið vanmetnar stærðir í fílabeinsturni stjórnmálanna.

Að deila ábyrgð - ekki völdum

Af hverju er ég að þessu tuði? Jú, það er vegna þess að mig langar til að Ísland minna æskudrauma rætist og rísi upp úr þeim drullupolli spillingar og samtryggingar sem það hefur lengi verið að velkjast í.


Er ég bjartsýnn? Nei, ekkert sérstaklega, en ég má ekki til þess hugsa að Félagi Naópleón og félagar ríki hér til eilífðar. Félagi Napóleón í þessu sambandi er Flokkurinn og félagar hans eru ístöðulausu flokksræksnin sem hann leiðir að háborðinu hvert af öðru til að  deila með sér ábyrgð - ekki völdum.

föstudagur, 12. desember 2008

Alveg táknrænt fyrir Sollu og Samfó

Ingibjörg Sólrún segir að hátekjuskattur sé bara táknrænn. 


Ég vissi að hún þorir hvorki nú né síðar að blaka við misrétti hér á landi en hélt þó að hún vogaði sér að sýna jafnaðarvilja sinn með táknrænum hætti, enda virðist Samfylkingin einkum beita sér fyrir táknrænum velvilja til hinna vinnandi stétta.

Vaxtaogvísitöluskrúfstykkið og heilög Jóhanna

Það buna milljarðar í boðaföllum, tugum og hundruðum saman upp úr þeim sem tala um að bjarga efnahagslífinu, bönkunum með nauðsynlegum erlendum lántökum.

Hins vegar er skrúfað fyrir lekann svo að peningarnir virðast leka í dropatali til þess að verja heimilin og almenning í landinu fyrir gjaldþroti í vaxtaogvísitöluskrúfstykkinu, en í því er þorri þjóðarinnar fastur sem í greipum heljar.
Sú einfalda lausn að fresta eða frysta vísitölubætur í ákveðinn tíma fæst ekki rædd af alvöru og varla er minnst á þá lágmarkssanngirni að hámarka vísitölubætur við 4%, þ.e.a.s. efri vikmörk Seðlabanka varðandi verðbólgu sem hann á að halda í skefjum.
Það er ekki bara ósanngjarnt heldur glæpsamlegt að láta almenning súpa seyðið af því að stórbokkar í fjármálum og pólitík misstu veruleikaskynið í langvarandi græðgiskasti. 
Sá stuðningur sem stjórnvöld hafa rætt um að sýna almenningi í landinu er í besta falli táknrænn eða til málamynda. Nú er tími heilagrar Jóhönnu runninn upp. Þjóðin þarfnast þín.

fimmtudagur, 11. desember 2008

V.R. og LIVE blóðsugurnar

Mér reikningsgleggri menn  hafa áhyggjur af því að tap Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi verið ennþá hrikalegra en 14%  - heldur rúm 19%!

Það er rétt að halda því til haga að heiðursmaðurinn Gunnar Páll Pálsson situr enn sem formaður VR þrátt fyrir að hafa tekið þátt í skuldauppgjöf Kaupþingsgæðinga. Mánaðarlaun hans eru um 1700 þúsund krónur. 
Spurning er hversu lengi þessi maður á að vera blettur á verkalýðshreifingunni almennt séð og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur sérstaklega.
Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs VR heitir Þorgeir Eyjólfsson. Mánaðarlaun 2,5 milljónir. 
Spurning hvort ekki sé kominn tími til að þeir svarabræður Gunnar Páll og Þorgeir finni sér önnur störf á öðrum launatöxtum, til dæmis VR-töxtum.

Ástæða fyrir afskiptaleysi af glæpum og klúðri

Eitt undarlegasta lögmál sem sálfræðingar hafa fundið er sú staðreynd að því fleiri vitni sem eru að glæp þeim mun minni líkur eru á því að einhver skipti sér af framferði glæpamannsins eða glæponanna.

Stundum fer þó kurr um áhorfendahóp ef glæpurinn er sérlega klaufalegur, saman ber kurr þjóðarinnar og loks inngrip hins hugumstóra forseta vors í fjölmiðlafrumvarp Geðvillingsins.
Sá glæpur virkar þó í dag eins og lélegur brandari miðað við þá spillingarsúpu sem verið að sjóða handa þjóðinni í öllum eldstæðum fjármála- og framkvæmdavalds.
Helst gæti það orðið Íslendingum til huggunar að forstjóri samráðsfyrirtækisins Shell (afsakið ESSO) sem nú kallast N1 ætlar að fórna sér fyrir þjóðina og gerast ráðherra - að höfðu samráði við Valhöll að sjálfsögðu.
Ástæðan fyrir því hversu fáir sýna því áhuga að grípa inn í þá skipulögðu starfsemi glæpsamlegrar vanhæfni sem hér fer fram er sú að manni fallast hendur við það eitt að líta í kringum sig og sjá ekkert nema glæpi eða klúður í öllum áttum.

miðvikudagur, 10. desember 2008

Svarthol í Lúxemborg

"Risavaxið svarthol hefur fundist í miðju Vetrarbrautarinnar sem sólkerfi okkar tilheyrir. Þýskir stjarnfræðingar fundu þetta svarthol en það mun vera fjórum milljón sinnum þyngra en sólin. Þyngdarafl svarthola er það öflugt að jafnvel ljós sleppur ekki úr greipum þeirra."


Skilanefndir bankanna telja hið nýja svarthol fyrir utan lögsögu íslenskra skattayfirvalda líkt og dótturfélög íslenskra banka í Lúxemborg. Almenn ánægja ríkir með hversu leyndarmál í veröldinni eru mörg og órannsakanleg.

þriðjudagur, 9. desember 2008

Lambsverð eða ullarreyfi?

Nefskattur heitir það töframeðal sem Þorgerður Katrín hefur fundið til að rétta af reksturinn hjá RUV, og takmarka um leið auglýsingagræðgi stofnunarinnar. Ég hef heyrt talað um átján þúsund krónur á ári fyrir einstakling og þrjátíuogsex þúsund krónur fyrir hjón. Þarna er ansi hátt reitt til höggs, eins og hjá annarri greindri konu sem notaði barefli til að rota flugu sem hafði tyllt sér á nef bónda hennar. 

Það er ekki á allra skattgreiðenda færi að færa opinberu hlutafélagi lambsverð á ári hverju fyrir þá bragðdaufu húsbændahollustu súpu sem er dagskrá RUV. Sanngjarnara væri að fara fram á að stofnunin fengi sem svarar verðgildi eins ullarreyfis á ári frá hverjum skattþegni til að launa sanngjarnlega langdregnar lopateygingar og magnþrungið metnaðarleysi - sem á sér aðeins undantekningu í launa- og bifreiðasmekk útvarpsstjórans.