Það verður að fara að smækka skammtana af piparúða og táragasi við lögregluna. Of margir í því liði halda að þessi efni séu framleidd svo að löggan geti skeytt skapi sínu á almenningi.
miðvikudagur, 31. desember 2008
Að spara piparúðann
"Catch 22" í VR-lýðræði
Til að tryggja stöðugleika í stjórn VR skal Nýársfundur, sameiginlegur fundur trúnaðarráðs og trúnaðarmanna - sem sé mötunauta Gunnars Páls formanns við jólaborðið sem hann lét VR bjóða sveinum sínum - gera tillögu um skipun í öll embætti sem í kjöri eru hverju sinni.
Þetta hlífir VR meðlimum við því að þeir sem eru á móti stjórninni þurfi að ómaka sig til að bjóða sig fram gegn henni, því að "Catch 22" í VR er að þeir sem eru á móti stjórn félagsins eru þar með vanhæfir eða óhæfir til þess að fá að bjóða sig fram á móti henni.
Með blessun og undir eftirliti Alþýðusambands Íslands hefur VR því tekist að koma á hjá sér því sem margir kalla "stöðugt lýðræði" eða jafnvel "óhagganlegt lýðræði".
Lýðræði eða lagarefjar í VR?
þriðjudagur, 30. desember 2008
Kröpp kjör í Seðló
Laun seðlabankastjóra lækkuð um 15%!!!!
laugardagur, 27. desember 2008
Líkklæði með vösum
"Einkarekin líkhús" er nýjasta snilldarhugmynd BB dómsmálagenerálsins okkar. Bæði opnar þetta skemmtilega rekstrarform möguleika á huggulegum bílskúrsiðnaði og gefur auk þess langþráða möguleika á því að einkaaðilar bjóði efnaðri viðskiptavinum sínum loksins upp á líkklæði með vösum.
Fullar kæligeymslur hafa áhrif á kreppu
Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar hélt ónefnd kona á Seltjarnarnesi fjölskylduboð á annan dag jóla. Borð svignuðu undan rausnarlegum veitingum og gera reyndar enn, því að mikill afgangur varð af veisluföngunum. Til dæmis má nefna að konan hafði búið til fjóra lítra af "jólasalati" og voru þrír þeirra afgangs þegar veislunni lauk og allir héldu mettir heim til sín að huga að sínum eigin afgöngum frá því á jóladag og aðfangadagskvöld.
föstudagur, 26. desember 2008
Elísabet með Haarde-doða?
Elísabet II Bretadrottning þótti heldur daufleg í orðum og framkomu í jólaávarpi sínu að þessu sinni. Þessi 82 ára gamla kona hefur hingað til verið prýðilega spræk, svo að menn velta því fyrir sér hvort hún sé kominn með snert af þeirri deyfð sem í vaxandi mæli er farið að gefa læknisfræðinafnið "Haarde-doðinn".
fimmtudagur, 25. desember 2008
Sameining í vændum?
Nú þarf að nota kyrrð og næði þeirra hátíðisdaga sem í hönd fara og sameina Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk. Sjallarnir hafa séð að sér í ESB-málinu og Samfylkingin í öllum hinum málunum, svo að nú ætti ekki að vera neitt sem torveldar sameiningu þessara samhentu flokka. Hinn nýi stjórnmálarisi gæti heitið Sjálfstæðisfylking eftir sameininguna eða Samstæðisflokkur. Eftir útrásarárin hefur þjóðin öðlast mikla reynslu af sameiningu fyrirtækja og samlegðaráhrifum.
miðvikudagur, 24. desember 2008
þriðjudagur, 23. desember 2008
Lúxus veikindi skattlögð
Þann lúxus að leggjast inn á hinar dýru heilbrigðisstofnanir í landinu í stað þess að taka magnyl og vatnsglas og þrauka heima hjá sér á nú að skattleggja upp á 360 milljónir til viðbótar þeim ýmsu gjöldum sem nú eru innheimt á heilbrigðisstofnunum.
Það er ekki hlaupið að því að ná fé af sa. 32 þúsund sjúklingum sem leggjast eins og greifar inn á heilbrigðisstofnanir og hefur því verið brugðið á það ráð að reyna á hugkvæmni heilbrigðisráðherra sem fær frjálsar hendur til að leggja ný gjöld á sjúklinga og hækka þau gjöld sem fyrir eru.
Til að forðast að um geðþótta-ákvarðanir verði að ræða kæmi til greina að verðleggja gjöldin eftir sjúkdómsástandi viðskiptavina: því alvarlegri sjúkdómur því hærri gjöld. Ekkert hefur þó verið endanlega ákveðið nema hvað gjöldin skulu hækka verulega svo að fólk sjái sér ekki leik á borði að skrópa frá kreppunni með leggjast í rólegheitum inn á sjúkrahús.
Mesta klúður Íslandssögunnar: Hver er "litli hálfvitinn" sem fokkaði upp Icesave-málinu?
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að sér hafi ekki verið kunnugt um að breska fjármálaeftirlitið hafi verið reiðubúið að heimila yfirfærslu Icesave-reikninga Landsbankans í breska lögsögu gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu.
Þetta var svar við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur sem spurði Geir líka hvort embættismenn eða ráðgjafar ráðherra hafi haft vitneskju um málið.
„Ekki svo ráðherra hafi verið kunnugt," svaraði Geir.
Nú fer fram örvæntingarfull leit að “litla hálfvitanum” sem klúðraði þessu kostaboði. Spurning hvort bréfið með tilboðinu hafi fyrir misskilning lent hjá íslensku jólasveinunum en ekki þeim í ríkisstjórninni.
mánudagur, 22. desember 2008
Vonir dagsins
Í dag vona ég
sunnudagur, 21. desember 2008
Nú fer að rofa til
Í dag, 21. desember er stysti dagur ársins, nóttin er lengst og birtu nýtur skemmst.
Vetrarsólstöður voru nú í hádeginu, nákvæmlega klukkan 12:04.
Hér eftir tekur daginn því að lengja. Á morgun, 22. desember, verður dagurinn 50 sekúndum lengri.
Ekki er ljóst hver tekur þessar ákvarðanir né í hvers umboði og eigum við þó að heita sjálfstæð þjóð.
Tvísýn jól - spennandi barátta góðs og ills
Nú verður æsispennandi að sjá hvort boðskapur og andi jólanna ná raunverulega að smjúga inn í sálir og hjörtu mannanna á þeirri hátíð sem nú fer í hönd; hvort hér sprettur eins og af sjálfu sér upp nýtt þjóðfélag byggt á ævafornum gildum um samábyrgð og samstöðu
laugardagur, 20. desember 2008
Jólalegt eða kreppulegt
Svakalega er jólalegt núna.
fimmtudagur, 18. desember 2008
Stjórnarskipti í Jólalandi
Nú eru farnir að tínast til byggða þeir góðu drengir sem munu skipa ríkisstjórn landsins og sitja að völdum yfir hátíðirnar frá aðfangadegi fram á þrettánda. Svo er sagt að ekki muni allir hinir lúnu og löskuðu meðlimir þeirrar ríkisstjórnar sem er á leið í jólafrí eiga afturkvæmt í embætti að loknu fríi. Rætt er um að tveir óhæfir ráðherrar sem mjög oft hafa ofboðið þjóðinni verði látnir hætta; þeir Björn Bjarnason generallissímó og Árni Mathiessen sem verið hefur pólitískt lík síðan hann gerði fyrrnefndum Birni þann greiða að skipa ákveðið stórættað ungmenni í héraðsdómaraembætti umfram marga hæfa umsækjendur.
miðvikudagur, 17. desember 2008
Ný nöfn, nýir bankar, ný einkavæðing
Enginn var fegnari en ég þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma. Hvernig staðið var að því að velja kaupendur er svo önnur saga. Ég hélt að með einkavæðingunni myndu þessar þjónustustofnanir í eigu landsmanna breytast í nútímafyrirtæki úr þeim köstulum stéttaskiptingar, pólitískrar mismununar, mútugreiðslna og annarra forneskjulegra sjúkdóma sem þjökuðu gömlu ríkisbankana.
þriðjudagur, 16. desember 2008
Siðsamleg sigling Lúðvíks
Svo virðist sem umtöluð sjóferð Lúðvíks með Thee Viking á sínum tíma hafi átt sér stað þegar mellurnar og bankastjórarnir voru á frívakt og karlkyns hásetar sigldu bátnum í nýtt bátalægi. Má því telja að greiðaskuld Lúðvíks við Baug hafi verið innan siðsamlegra marka.
mánudagur, 15. desember 2008
Óþarfi að bíða eftir evrunni
Nú er búið að ákveða að aftengja vísitölubætur á búvörusamninga. Úr því að hægt er að aftengja bændur og kvikfénað frá vísitölu getur gjaldmiðillinn okkar ekki lengur verið því til fyrirstöðu að stíga skrefið til fulls og frelsa almenning úr vísitölugapastokknum.
Ragnar og Þorvald í ráðherraembætti
Ef það stendur til að reyna að gera andlitslyftingu á ríkisstjórninni væri tilvalið að taka valinkunna fagmenn inn í fjármálaráðuneyti (Þorvaldur Gylfason) og dómsmálaráðuneyti (Ragnar Aðalsteinsson); flokkarnir gætu svo notað viðskipta- og umhverfisráðuneyti til að svala metnaði ungs alþingisfólks á uppleið.
Egglos
Eftir myndum að dæma af egginu sem Ólafur Ragnar varp í fang Hillary er ekki að sjá að mikið sé bruðlað á Bessastöðum, því að eggið lítur út fyrir að vera heimatilbúið föndur eða af vernduðum vinnustað.
sunnudagur, 14. desember 2008
Ef...
Ef framsóknarmenn bæru gæfu til þess að hlusta á það sem Eygló Harðardóttir hefur að segja um samvinnu og samvinnuhugsjónina gæti verið að flokknum yrði hleypt úr skammarkróknum sem þjóðin hefur sett hann í.
laugardagur, 13. desember 2008
Um slægð og leynd
Það er ekki skrýtið að tiltrú fólks á stjórnmálaflokkum sé í sögulegu lágmarki nú um stundir.
Að deila ábyrgð - ekki völdum
Af hverju er ég að þessu tuði? Jú, það er vegna þess að mig langar til að Ísland minna æskudrauma rætist og rísi upp úr þeim drullupolli spillingar og samtryggingar sem það hefur lengi verið að velkjast í.
föstudagur, 12. desember 2008
Alveg táknrænt fyrir Sollu og Samfó
Ingibjörg Sólrún segir að hátekjuskattur sé bara táknrænn.
Vaxtaogvísitöluskrúfstykkið og heilög Jóhanna
Það buna milljarðar í boðaföllum, tugum og hundruðum saman upp úr þeim sem tala um að bjarga efnahagslífinu, bönkunum með nauðsynlegum erlendum lántökum.
fimmtudagur, 11. desember 2008
V.R. og LIVE blóðsugurnar
Mér reikningsgleggri menn hafa áhyggjur af því að tap Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi verið ennþá hrikalegra en 14% - heldur rúm 19%!
Ástæða fyrir afskiptaleysi af glæpum og klúðri
Eitt undarlegasta lögmál sem sálfræðingar hafa fundið er sú staðreynd að því fleiri vitni sem eru að glæp þeim mun minni líkur eru á því að einhver skipti sér af framferði glæpamannsins eða glæponanna.
miðvikudagur, 10. desember 2008
Svarthol í Lúxemborg
"Risavaxið svarthol hefur fundist í miðju Vetrarbrautarinnar sem sólkerfi okkar tilheyrir. Þýskir stjarnfræðingar fundu þetta svarthol en það mun vera fjórum milljón sinnum þyngra en sólin. Þyngdarafl svarthola er það öflugt að jafnvel ljós sleppur ekki úr greipum þeirra."
þriðjudagur, 9. desember 2008
Lambsverð eða ullarreyfi?
Nefskattur heitir það töframeðal sem Þorgerður Katrín hefur fundið til að rétta af reksturinn hjá RUV, og takmarka um leið auglýsingagræðgi stofnunarinnar. Ég hef heyrt talað um átján þúsund krónur á ári fyrir einstakling og þrjátíuogsex þúsund krónur fyrir hjón. Þarna er ansi hátt reitt til höggs, eins og hjá annarri greindri konu sem notaði barefli til að rota flugu sem hafði tyllt sér á nef bónda hennar.