föstudagur, 12. desember 2008

Vaxtaogvísitöluskrúfstykkið og heilög Jóhanna

Það buna milljarðar í boðaföllum, tugum og hundruðum saman upp úr þeim sem tala um að bjarga efnahagslífinu, bönkunum með nauðsynlegum erlendum lántökum.

Hins vegar er skrúfað fyrir lekann svo að peningarnir virðast leka í dropatali til þess að verja heimilin og almenning í landinu fyrir gjaldþroti í vaxtaogvísitöluskrúfstykkinu, en í því er þorri þjóðarinnar fastur sem í greipum heljar.
Sú einfalda lausn að fresta eða frysta vísitölubætur í ákveðinn tíma fæst ekki rædd af alvöru og varla er minnst á þá lágmarkssanngirni að hámarka vísitölubætur við 4%, þ.e.a.s. efri vikmörk Seðlabanka varðandi verðbólgu sem hann á að halda í skefjum.
Það er ekki bara ósanngjarnt heldur glæpsamlegt að láta almenning súpa seyðið af því að stórbokkar í fjármálum og pólitík misstu veruleikaskynið í langvarandi græðgiskasti. 
Sá stuðningur sem stjórnvöld hafa rætt um að sýna almenningi í landinu er í besta falli táknrænn eða til málamynda. Nú er tími heilagrar Jóhönnu runninn upp. Þjóðin þarfnast þín.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Landráð - ekki flóknara en það.

Nafnlaus sagði...

Ertu alveg brjálaður ! hvernig eiga lífeyrissjóðirnir að ná upp brasktapi síðustu ára ef ekki með verðtryggingunni í niðursveiflu ?Þeir eignast líka fullt af húseignum sem má selja síðar.

Jóhanna bjargar bara þeim sem komnir eru alla leið á botninn, sem er gott, en það þarf aðra í að bjarga þeim sem stefna í hennar ágætu hendur.

Sanngjarnt er, eins og þú nefnir, að festa verðtryggingu lána við einhver skynsamleg mörk, t.d. 4% og þó það væru 5% en þá fara víst lánadrottnar að tapa og það má ekki gerast á Íslandi því að þá flýr fjármagnið landið og enginn vill lána neinum neitt nema götótt stígvél, trúi sá sem vill.

Við sem ekki erum fjármagnseigendur snúum dæminu bara okkur í vil og flýjum.

Atli.

Nafnlaus sagði...

Æi Þráinn. Ekki taka þátt í lýðskruminu um frystingu vísitölubóta.
Auðvitað þarf að hjálpa mörgum skuldugum. En þessi upphrópun um að frystinguna er óframkvæmanleg og eyðileggur umræðu um raunhæfar lausnir.
Neisti