þriðjudagur, 9. desember 2008

Lambsverð eða ullarreyfi?

Nefskattur heitir það töframeðal sem Þorgerður Katrín hefur fundið til að rétta af reksturinn hjá RUV, og takmarka um leið auglýsingagræðgi stofnunarinnar. Ég hef heyrt talað um átján þúsund krónur á ári fyrir einstakling og þrjátíuogsex þúsund krónur fyrir hjón. Þarna er ansi hátt reitt til höggs, eins og hjá annarri greindri konu sem notaði barefli til að rota flugu sem hafði tyllt sér á nef bónda hennar. 

Það er ekki á allra skattgreiðenda færi að færa opinberu hlutafélagi lambsverð á ári hverju fyrir þá bragðdaufu húsbændahollustu súpu sem er dagskrá RUV. Sanngjarnara væri að fara fram á að stofnunin fengi sem svarar verðgildi eins ullarreyfis á ári frá hverjum skattþegni til að launa sanngjarnlega langdregnar lopateygingar og magnþrungið metnaðarleysi - sem á sér aðeins undantekningu í launa- og bifreiðasmekk útvarpsstjórans.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vasa hét eitt herskip, sænskt. Það var einkar hátimbrað og skrúðleg en grunnsiglt var það og skorti ballest. Vasa hvolfdi og það sökk.

Lík er smíðin á RÚV en nú verða sett helvíti mikil flotholt á síðurnar svo það fljóti. Ekki mjög glæst tilsýndar og spurning hvort ekki hefði þurft að umsmíða fleyið og laga það að skilgreindu hlutverki sínu.

Nafnlaus sagði...

Afar ánægjulegt að Þráinn skuli vera farinn að blogga aftur. Gott að útkoma bókarinnar hefur þessi aukaáhrif, fyrir nú utan við hvað bókin er mikið fyrirtak.

Nafnlaus sagði...

Sæll og þakka þér fyrir öll skrifin þín sem ég hefi lesið með mikilli ánægju og sjaldan verið ósammála.
Mér þykir þú setja lambsverðið hátt - ég held að bóndinn fái varla meira en 6000 kr fyrir það, sem sagt 6 lambsverð á svona stórfjölskyldur eins og hjón. Mér finnst hæfilegt að borga svolítið fyrir RUV Rás 1 en hitt draslið má fylgja Stöð2, ég vil ekki borga fyrir það. Þetta er ræningjabæli - eins og reyndar allt þjóðfélagið virðist vera orðið.
Ragnar Eiríksson

Nafnlaus sagði...

Velkominn aftur. Já, bókin þín er aldeilis frábær.
Þegar ég fletti "feed-inu" mínu þá stendur alltaf við nafnið þitt:
Skuggi Skuggason í Skuggasundi. Opið bréf til ríkisstjórnar Íslands. Og það var alltaf svo gott að sjá það. En nú ertu kominn aftur og það er enn betra.

Það hafðist sigur í baráttumálinu í sumar og ég held að nú séu að vinnast sigrar vegna samtakamáttar almennings:

1. Niðurlagning svæðisútvarpsins var niðurlögð (lægð)
2. Endurskoðendur hættu við að skoða bankann endur og sinnum

Þingmenn eru óttaslegnir við hávaða frá áhorfendapöllum. Og þessu lýstu þingmenn úr stjórnarandstöðu! Hvernig ætli stjórnarsinnum og ríkisstjórninni líði?

Nafnlaus sagði...

Vertu velkominn.

Nafnlaus sagði...

Afnotagjaldið verður 3 lambsverð
á mann. Sláturleyfishafar borguðu
6500kr fyrir meðaldilk í haust.
kveðja, Sauðfjárbóndi.

Nafnlaus sagði...

Ég lít svo til,--enda lítt gefin, - að þetta sé offur á altari Baugsmiðla og síbyljuveitu að nafni Skjárinn.

Úlfar þeir sem fyrir þeim stöðvum fara, þótt flestir hafi varpað yfir sig sauðagærum til skjóls, -líklega,- hesthúsa nú meira en nokkrum lömbum ár hvert.

Einn Alfa - Úlfurinn át nokkrar Ömmur og Rauðhettur, svona í forrétt, hér í haust. Þá setti hann inn tilboð í bixið, langt undir kosnaðarverði bnakans sem hefði átt að eiga dótið og fékk við enn lægra verði.

Mismunurinn, sem var afrakstur sláturfjár okkar til langs langs tíma, fór sína leið í hítins, sem við og afkomendur okkar koma til með að borga fyrir forrétt, aðalrétt og desert þessara Úlfa, sem notið hafa verndar góðra manna svosem eins og Emerítusa lögfræðiprófessora, forkonu Samfylkingar og þingmanna allra.

ÞAð er því ekki ofætlan að við greiðum ögn meir, svona árlega, til að RUV nái enn um sinn að hljóma í fjósum landsmanna við morgun og kvöldmjaltir.

Velkominn aftur á velli pikksins hér í ethernum.

Nafnlausi Bjarni

nefndur Miðbæjaríhald

Nafnlaus sagði...

Já þetta er ansi skrýtin lagasetning svo ekki sé meira sagt. Eins og þetta lítur út fyrir mér er í raun og veru verið að gera okkur fólkið í landinu óbeina rekstraraðila Skjás Eins!? Og í leiðinni að veikja Rúv. Þetta er mjög snúið. Væri ekki alveg eins hægt að gera Skjá Einn hluta af Rúv, breyta nafninu í Skjár Tveir?
Fletja svolítið meira út.

Hvað varðar dagskrárgerð á Rúv finnst mér nokkrir mjög öflugir liðir þar, nægir þar að nefna t.d. Víðsjá og Spegillinn. Hinsvegar er Fréttastofa Sjónvarpsins engan veginn að valda hlutverki sínu, og hún er jú einna mest áberandi hluti Rúv. Þar er oft furðuleg ritstjórn og afbökun hlutanna t.d. mótmælanna undanfarnar vikur er herfileg á köflum.

Nafnlaus sagði...

Hvers vegna er Þorgerði svona umhugað um að tryggja Jóni Ásgeiri og einkafyrirtæki hans 365 yfirburðastöðu á auglýsingamarkaði?
Eru þetta nýir bandamenn í gegnum ESB og samfylkingartengslin?
Hvað fær varaformann sjálfstæðisflokksins til að leggja slíka skatta á almenning? Og það til að reka þeta ömur lega fyrirtæki.

Nafnlaus sagði...

Þorgerður sagðist í raun hafa komið í veg fyrir að allar auglýsinga yrðu teknar af RUV. (og fengnar JÁJ).
Hverjir ætli það séu nú í ríkisstjórninni sem eru svona í vasa JÁJ?