laugardagur, 27. desember 2008

Fullar kæligeymslur hafa áhrif á kreppu

Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar hélt ónefnd kona á Seltjarnarnesi fjölskylduboð á annan dag jóla. Borð svignuðu undan rausnarlegum veitingum og gera reyndar enn, því að mikill afgangur varð af veisluföngunum. Til dæmis má nefna að konan hafði búið til fjóra lítra af "jólasalati" og voru þrír þeirra afgangs þegar veislunni lauk og allir héldu mettir heim til sín að huga að sínum eigin afgöngum frá því á jóladag og aðfangadagskvöld.


Talsvert mörg tonn af hálfetnum hamborgarahryggjum hafa hlaðist upp í kæligreymslum landsmanna yfir hátíðarnar, sömuleiðis fjölbreytilegir sósuafgangar, brúnaðar kartöflur, smákökur af mörgum sortum, kalt hangiket, ógrynni laufabrauðs, bæði heilar kökur og mylsna og svo mætti lengi telja. Þar sem gera má ráð fyrir að næstum annað eins af matarleifum hlaðist upp um áramóti telja margir hagfræðingar að nokkur bið verði á því að sú djúpa kreppa skelli á sem spáð hafði verið strax um áramót, uns þjóðin hefur etið leifafjallið. Að lokum er rétt að koma hér á framfæri hvítöls-viðvörun, en varasamt getur verið á geyma hvítöl á svölum stað, jafnvel svölum, um lengri tíma vegna hættu á gerjun, þannig að sé ekki aðgát höfð getur jólaöl breyst í páskabrugg. Erfitt er að meta hversu lengi ofgnótt þessi varir og hver áhrifin verða á fyrirhugaða þróun kreppunnar.

Engin ummæli: