Þrátt fyrir að hafa séð villur síns vegar og beðist afsökunar hátt og í hljóði í fjölmiðlum og á fjölmennum félagsfundi VR gat Gunnar Páll Pálsson ekki setið á strák sínum og bauð sig aftur fram til formanns VR 22. des. sl.
Mánudaginn 5. jan. verður svo borinn fram fullskipaður listi með stjórn og trúnaðarmönnum (þessum úr jólaboðinu góða á kostnað annarra félagsmanna þar sem þeir handsöluðu og skrifuðu upp á stuðning við Gunnar Pál). Í nafni lýðræðisins verða á þeim lista aðeins tryggir og trúir, innvígðir og innmúraðir stuðningsmenn formannsins á hinum siðferðilega hálu skóm, vegna þess að pakksatt trúnaðarmannaráð formannsins fer yfir öll framboð og úrskurðar að hætti Salómons hverjir séu hæfir og hverjir óhæfir.
Það er því ekki nema skiljanlegt að fáa andstæðinga formannsins sé að finna á þeim dauðhreinsaða lista, enda er handhægara að hreinsa stjórnir fyrirfram en eftir á.
Ekki er þó víst að allir hinir trúu matgæðingar formannsins né formaðurinn sjálfur sofi vært þar til sjálfkjörið verður í félaginu, því að hópur VR-félaga sem ennþá trúir á Virðingu og Réttlæti er að vinna að mótframboði, sem engum mun koma á óvart að hinir innvígðu boðsgestir formanns komi til með að reyna að úrskurða vanhæft og ógilt.
Ef reynt verður að koma í veg fyrir lýðræðislegt stjórnarkjör í VR af þaulsetuliðinu er samt ekki fokið í öll skjól.
Hægt verður að boða til nýs félagsfundar sem er æðsta vald í málefnum félagsins og lýsa vantrausti á stjórn og formann - og ef langþreyttir félagsmenn nenna ekki í frekari lagakróka við þaulsetuliðið er einnig með auknum meirihluta hægt að slíta félaginu og mun þá koma í ljós það sem marga fýsir að vita í sambandi við stjórnarathafnir að undanförnu - og einnig munu fást upplýsingar um lífeyrissjóð félagsins sem hefur nú lengi verið í herkví hinna þaulsætnu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli