laugardagur, 13. desember 2008

Að deila ábyrgð - ekki völdum

Af hverju er ég að þessu tuði? Jú, það er vegna þess að mig langar til að Ísland minna æskudrauma rætist og rísi upp úr þeim drullupolli spillingar og samtryggingar sem það hefur lengi verið að velkjast í.


Er ég bjartsýnn? Nei, ekkert sérstaklega, en ég má ekki til þess hugsa að Félagi Naópleón og félagar ríki hér til eilífðar. Félagi Napóleón í þessu sambandi er Flokkurinn og félagar hans eru ístöðulausu flokksræksnin sem hann leiðir að háborðinu hvert af öðru til að  deila með sér ábyrgð - ekki völdum.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er mjög skiljanlegt. Margt fólk hefur verið haldið miklu óþoli vegna þess að ekki hefur verið gengið nægilega hreint til verks.

Aðstaðan hefur samt verið sú á Sjálfstæðisflokkurinn - fremstur í drullumallinu - hefur haft tvo ábyrgðarmenn frá síðustu kosningum framundir þennan dag, sem voru þeir Steingrímur Jóhann og Guðni Ágústsson sem báðir lýstu yfir sérstökum stuðningi við hinn mikla og ástsæla foringja undir Svörtuloftum eftir hrunið.

Þetta er nú ein meginástæðan fyrir því hvað hægt hefur gengið tiltektin en nú er bjartari tíð í vændum og tími uppgjörsins nálgast.

Þá er áríðandi að áhugafólk um heilbrigðari sjórnarhætti springi ekki á limminu.

Nafnlaus sagði...

Sæll Þráinn og takk fyrir þetta...

Mér finnst fyndið þegar þú segir að þig:

"langi til að Ísland minna æskudrauma rætist og rísi upp úr þeim drullupolli spillingar og samtryggingar sem það hefur lengi verið að velkjast í."

Hefur Ísland einhvern tíma staðið undir þínum æskudraumum? Er ekki staðreyndin sú að þú og þín kynslóð og þær sem eldri eru hafa lifað í og við þetta ástand alla tíð og berið því mikla ábyrgð á stöðu mála sökum dugleysis ykkar við að taka á vandanum og velta honum á undan ykkur?

Ég minnist þess ekki að hafa séð neinn "tækla" flokkinn (X-D) sem nærist á ástandinu eins og það er. Og þó, ég man eftir Hallgrími Helga takast á við bláu höndina.

En flestir hafa spilað með og komið sér fyrir í einhvers konar "comfort-zone" í kerfinu. Ekki síst listamenn sem voru að reyna bjarga sér. Hvar leitaðir þú skjóls? Var það ekki í Framsókn?

Staðreyndin er sú að þjóðin öll, allur almenningur, ber ábyrgð á stöðu mála. Það er ekki þar með sagt að allir hafi stolið og logið eða beri jafna ábyrgð en þeir sem hafa þagað og litið undan og slökkt á meðvitund sinni um það sem var að gerast bera mesta ábyrgð.

Þjóðin er öll spillt og er að fá það sem hún á skilið í raun. Þetta heitir Skítakarma. Meðalið er því mjög harkalegt en ekki veitir af því að meinið er mjög dreift um þjóðarlíkamann og hefur dvalið þar lengi óáreitt.

Ég tel að Ísland æskudrauma þinna hafi aldrei verið til raunverulega (enda draumur) en það gæti orðið það ef menn nýta þetta einstaka tækifæri til þess að byggja upp nýtt og ósýkt Ísland.

Þú skalt því ekki berja á eina flokknum sem klárlega er ekki hluti af þessarri ólánssögu, Samfylkingunni, sem er að reyna brjóta þjóðinni leið úr þessum ógöngum leiðandi "flokkinn" sem kom okkur þangað.

Það er ekki auðvelt verk og slík siðbót verður ekki gerð án "flokksins" því hann er og hefur verið stærstur flokka hér á landi þó það gæti verið að breytast tímabundið.

Ábyrgð þín er mikil í sögulegu samhengi á núverandi ástandi en núna hefur þú tækifæri á því að koma þér úr skotgröfunum og bæta fyrir brot þín (og aðgerðarleysi) og láta gott af þér leiða með því að bregðast við núinu einsog það er en ekki æskudrauma þinna.

Gangi þér vel.

Friðrik

Nafnlaus sagði...

Friðrik, trú þín á Samfylkinguna er undravert. Þessi flokkur, sem ég kaus, hefur ekki gert neitt sem vit er í. Þeir eiga ekki hrós skilið. Svo er maður orðinn ansi leiður á frasanum að þetta sé allt okkur öllum að kenna.

Næstu ár verða mögur en helst vildi ég hafa þau mögur án Framsóknar, Sjálfstæðsiflokks og Samfylkingar nokkurs staðar nálægt valdastóli.

Nafnlaus sagði...

Nú berast sem eldur í sinu, vefpóstar með upplýsingum um spillingu í formi lántöku alþingismanna. Nafngreindir eru alþingismenn, sem var í hlutabréfakaupasukkinu með risa-lántökum í gegnum bankana. Þetta sé ástæðan fyrir því að þeir standa saman um lausnir núna, tímann þurfi að nota til að fela slóðir og fella niður ábyrgðir.
Davíð viti þetta og hafi á alþingismönnum hreðjartak. Þetta gæti verið ástæðan fyrir því að þeir geta ekki sparkað honum.
Trúum við þessu?

G. Pétur sagði...

Gæti ekki verið meira sammála, Þráinn. Það er það allra nauðsynlegasta núna að breytingar verði í þjóðfélaginu, svo við getum farið að láta okkur dreyma aftur. Núna er martröðin í gangi og stjórnvöld og ráðamenn gera allt til að halda okkur sofandi og í martröðinni af því að þau eiga ekki heima í nýrri skipan mála. Vekjum fólk svo það geti aftur farið að dreyma....

Þráinn sagði...

Takk fyrir góðar athugasemdir.
Friðrik, það ber vott um dapurlegt og hrokafullt hugarfar að þér skuli þykja æskudraumar mínir hlægilegir. Þegar ég var ungur sáu menn stjórnmál og stjórnmálaflokka sem verkfæri til að móta betra þjóðfélag. Ég kynntist þremur stjórnmálaflokkum náið, Sjálfstæðisflokki, Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki. Þau kynni hafa sannfært mig um að íslenskir stjórnmálaflokkar eru ekki þess umkomnir né hafa á því áhuga að efla og þroska lýðræði í landinu. Þetta eru valdamaskínur sem þjóna fyrst og fremst sínum eigin raunverulegu og ímynduðu hagsmunum. Meira að segja Samfylkingin sem þú trúir á er orðin að Framsóknarflokknum á mesta niðurlægingartíma þess flokks. Mig hefur aldrei vantað viljann til þess að bæta íslenskt þjóðfélag, né ábyrgðartilfinningu gagnvart samborgurum mínum; hins vegar hef ég ekki miklu fengið áorkað í þá átt. Enda hef ég séð betri menn en mig gefast upp í þeirri baráttu.

Nafnlaus sagði...

er þá ekki núna lag að gera hið rétta í stöðunni. Fara fram og breyta því sjálfur. Mæli með að fara að tala við fólk sem er á sama máli og þú og stofna eiginflokk með æskudrauma þína að leiðarljósi. Ef fólk er sammála mun það fylgja þér og þínum. Í versta falli þá getur þú klappað þér á öxlina og sagt að þú hafir í það minnsta reynt.

Hvet þig til framgöngu
Kveðja
Ágúst Þorvaldsson

Þráinn sagði...

Takk fyrir vinsamleg orð, Ágúst. Það er sem betur fer töluvert til af góðu fólki sem gæti látið að sér kveða í stjórnmálum - ef flokkarnir væru ekki búnir að gera það að sínu einkamáli hverjir fara á þing.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góð skrif í gegnum tíðina Þráinn. Það besta við þig er að þú ert ekki trúr neinum flokki og því treysti ég því sem þú skrifar. Það eru heiðarleg skrif. Ég er mannþekkjari og sé í mílufjarlægð ef fólk er að skrifa frá hjartanu.
María