laugardagur, 13. desember 2008

Um slægð og leynd

Það er ekki skrýtið að tiltrú fólks á stjórnmálaflokkum sé í sögulegu lágmarki nú um stundir. 


Nú þegar hörmungar ganga yfir vill fólk fá að vita á hreinskilinn og umbúðalausan hátt hvað það er nákvæmlega sem gerðist og er að gerast og hvað stendur til að gera okkur til varnar.

Að óska eftir hreinskilni frá stjórnmálaflokkum er svona álíka skynsamlegt og að fara fram á að töframenn á sviði útskýri töfrabrögð sín og leyfi áhorfendum að skoða upp í ermar sínar. Þau miðaldastjórnmál sem hér tíðkast byggjast að mestu leyti á slægð og leynd og misvísandi upplýsingum, sem sé undirferli og leynimakki en ekki hreinskiptni og heiðarleika. Starfsstolt og sjálfsmynd stjórnmálamanna byggist á því að geta komist í gegnum allar aðstæður án þess að segja einfaldan sannleikann og án þess að ljúga beinlínis. 

Þessar fornu leikreglur kunna að bjóða upp á skemmtilegar fléttur fyrir þátttakendur í stjórnmálaleiknum, en þolendum er flestum farið að ofbjóða hálfsannleikur, hvít lygi og smáskreytni, launung og dularfullar þagnir.

Vonandi verður sá lærdómur einhvern tímann dreginn af framkomu íslenskra stjórnmálamanna nú þegar öll spjót standa á þjóðinni að sannleikurinn sé sagna bestur - og að meðaltrúgirni og meðalgreindarvísitala kjósenda hafi verið vanmetnar stærðir í fílabeinsturni stjórnmálanna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er meðalgreind það sama og vera meðalvitlaus?

EES samningurinn hefur fært okkur ónýtt regluverk, sem kom okkur á gengdarlaust peningafyllerí með tilheyrandi spillingu. Núna vill þjóðin fá aðeins meira af þessu regluverki til að verða eins og evrópubúar aftur.

Innan ESB munu skuldir okkar hverfa í algeymi nýrrar vímu.

Ég held að hæfileiki stjórnmálamannsins byggi á að túlka meðalgreindina. Þess vegna vilja núna allir flokkar fara í umræður um ESB.

En það vantar stefnumörkun fyrir efnahagsstjórn þangað til við förum inn í esb. Það er ekki rætt. Eigum við að búa við of hátt gengi áfram og drepa iðnaðinn eða halda genginu lágu og drepa innflutninginn? Eigum við að fara að vinna fyrir skuldum eða halda áfram að skulda? Eigum við að reyna að verða meðalspillt evrópuþjóð?

Eru til einhverjar pillur sem get stabiliserað veika sál eins og mig í meðalgreindinni svo ég geti lifað góðu lífi í staðfastri og staðlaðri meðalspillingu?

Smali sagði...

Starfsstolt og sjálfsmynd stjórnmálamanna byggist á því að geta komist í gegnum allar aðstæður án þess að segja nokkurn skapaðan hlut eða með lygi. Er það ekki nærri lagi?