fimmtudagur, 22. janúar 2009

Saur og hland dómsmálaráðherrans


“Bæði á Austurvelli og við Lækjartorg var grjóti og götusteinum kastað í lögreglu, saur og hlandi í plastpokum, sem endurspeglar innræti þeirra, sem töldu þetta hæfa skoðunum sínum á framvindu þjóðmála, en undir þeim formerkjum var til mótmæla stofnað, sem þróuðust á þennan sorglega hátt.”

Þessi dauðadjúpa málsgrein er af bloggsíðu Björns Bjarnasonar. 

Blogg þessa dómsmálaráðherra okkur verður mér endalaus uppspretta spurninga um hugarástand ráðherrans sérstaklega og mannlega náttúru eða ónáttúru yfirleitt.

Í sambandi við þessa málsgrein sýnist mér ráðherrann vera að bölsótast út í þau “formerki” undir hverjum stofnað var til mótmælanna og vilja meina að formerki mótmælanna séu "saur og hland" sem endurspegli innræti þeirra sem tóku þátt í mótmælunum.

Mér finnst makalaust að maður af þessum "saur og hland-" kalíber skuli hafa geta tranað sér fram í ráðherraembætti.

Einnig finnst mér undarleg sú meðaumkun sem hann hefur með sinni harðsnúnu óeirðadeild, en Björn segir:

“Í dag hefði verið réttmætt, að fréttamenn vektu rækilega athygli á hinni hörmulegu framgöngu of margra gegn lögreglunni. Sjö lögreglumenn voru fluttir slasaðir af vettvangi í nótt, einn með höfuðáverka.”

Það er fautaleg framganga ófriðardeildar lögreglunnar, eiturefnahernaður og kylfubarsmíð sem hefur kallað fram ofbeldi í þeim mótmælum sem hér hafa farið fram. 

Mér er persónulega kunnugt um fleiri en sjö saklausar persónur sem lögreglan hefur barið með kylfum og misþyrmt með piparúða. Ég geri ekki ráð fyrir að það fólk kæri sig um meðaumkun dómsmálaráðherrans - enda er hún greinilega bundin við aðra og ofbeldishneigðari manntegund sem hann telur til meiri skyldleika við.

11 ummæli:

Unknown sagði...

Þú ritar vel í skemmtilegum hæðnistón en verst er að hæðnin hjá þér hittir beint í mark.
Áfram á þessari braut takk.
það er gaman að lesa þessa þistla þína

Anna P. sagði...

Ég er þér mikið sammála. Hélt að ég yrði ekki eldri þegar ég sá þessa bloggfærslu. Er alveg búin að fá nóg af þessari gerð stjórnmálamanna. Gengur um fullur af fyrirlitningu í garð venjulegs stritandi fólks. Hann sem er fæddur inn í flokkinn, einn af mörgum innan Sjálfstæðisflokksins sem hefur þótt liggja beint við að erfðu nánast þingsæti og ráðherrastóla feðra sinna. Hann er ekki í neinni tengingu við venjulegan vinnandi íslending enda sjálfur fæddur með silfurskeið í munni og hluti af ættarveldi sem kúgaði og stal áratugum saman. Hvað er hann betri en "nýju" þjófarnir...og alltaf þessi óþolandi umvöndunartónn. Það verður ekki eftirsjá af honum þegar hann fer frá og vonandi að það fari að bresta á.

Níels P Dungal sagði...

Sæll Þráinn,
mér þykir þráhyggja þín gagnvart BB undarleg.
Mér finnst það ekki athugavert að vakin sé athygli fjölmiðla á því að lögreglumenn séu grýttir af vanvitum. Ekki get ég lesið annað úr skrifum þínum en að þér finnist lögreglan hafa kallað þetta ofbeldi yfir sig þar sem hún hafi beitt kylfum, piparúða og táragasi. Allajafna er þessum tækjum beitt þegar allt annað þrýtur. Eflaust hafa einhverjir saklausir mótmælendur fengið á sig úða eða orðið fyrir kylfum en ef fólk er í fremstu víglínu mótmæla og virðir aðvaranir lögreglu að vettugi er það að bjóða hættunni heim.
Ég stórefast um að lögreglan beiti þeim tækjum sjálfum sér til skemmtunar, en lögreglumenn þekkja sjálfir best þau óþægindi sem hljótast af þessum græjum þar sem hluti af lögreglunámi er að fá á sig piparúða og táragas.

Arnar Helgi sagði...

Níels . Þú getur efast um hitt og þetta alveg eins og þú vilt . Sá efi hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar þú verður vitni að vinnubrögðum Lögreglu. Ég er sjálfur frekar pirraður, ég bar nefnilega virðingu fyrir Lögreglunni þartil svona fyrir viku síðan.

Takk fyrir skrif þín Þráinn.

Andri Valur sagði...

Verður maður sjálfkrafa gamall og bitur og með þráhyggju eða þarf maður að hafa lent í einhverju mótlæti til þess? Sem dæmi má nefna Jónas ritstjóra, eigenda þessarar síðu og BB sem hefur andstæða þráhyggju við Þráinn.

"Það er fautaleg framganga ófriðardeildar lögreglunnar, eiturefnahernaður og kylfubarsmíð sem hefur kallað fram ofbeldi í þeim mótmælum sem hér hafa farið fram."

Þetta er kolrangt stöðumat hjá þér að mínu mati. Ég fullyrði að megnið af ofbeldisliðinu (sem ég skilgreini sem annan hóp en mótmælendur) sem var mætt í gærkvöld hafði á engan hátt lent í lögreglunni. Upp til hópa voru þetta unglingar og ungt fólk, sem hafði þann eina tilgang að ögra lögreglunni og að skemma eitthvað, flestum mótmælendunum til mikils ama.

Það er ekkert eðlilegt við það, né tengt mótmælum á nokkurn hátt, að kasta fleiri kílóa grjóti í lögregluna, kasta þvagi og saur, reyna að kveikja í Alþingishúsinu, brjóta rúður í Alþingishúsinu, Stjórnarráðinu og kirkjukofanum, vera vopnaður hnúfajárnum og hnífum og svona mætti lengi telja.

Það er alveg ljóst að í einhverjum tilfellum hefur lögreglan gengið of langt í sínum aðgerðum, það verður ekki af þeim tekið. Það breytir því ekki að ástandið í gær var langt frá því að vera eðlilegt og að mínu mati ekki mönnum eins og Þráni til sóma að gefa annað í skyn.

Unknown sagði...

Skammastu þín fyrir að reyna að réttlæta framferði þessara viðbjóðslegu, illa gefnu óeirðaseggja sem eru að eyðileggja málstaðinn fyrir okkur hinum, sem höfum verið að mótmæla friðsamlega undanfarið.

Unknown sagði...

Skuggalegar myndir hérna:

http://grapevine.is/Features/ReadArticle/Pictures-From-Wednesday-Protest-That-Speak-For-Themselves

Þráinn sagði...

Kolla, hver sem þú ert, þá þarf meira en meðalheimsku til að halda að ég sé að réttlæta framferði illa gefinna óeirðaseggja. Það er misjafn sauður í mörgu fé og misjöfnu sauðirnir í ófriðardeild lögreglunnar byrjuðu ofbeldisverkin með efnavopnum og kylfubarsmíð. Sjálfsagt í þeirri trú að ofbeldið myndi hafa róandi áhrif á mannskapinn!

Unknown sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Þráinn sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Unknown sagði...

"Samkvæmt íslensku lýðræðislögmáli var mér úthlutað rithöfundastyrk af opinberu fé eins og öðrum; þó var styrkurinn reyndar tvívegis tekinn af mér aftur í refsingarskyni fyrir eitthvað sem ég hafði skrifað." (HKL, Íslendingabók, Helgafell 1967, bls. 95