fimmtudagur, 22. janúar 2009

Ekki mótmæli - bylting!

Þegar eldar brenna getur orðið þrautin þyngri að hefta útbreiðslu þeirra. Sama máli gegnir um mótmæli.


Mótmæli undanfarinna daga hafa nú þróast þannig að þau standa fram á nótt og reiði mótmælenda magnast eftir því sem á líður. Ofbeldi brýst út. Upphaf ofbeldis má rekja til hervæddrar ófriðardeildar lögreglunnar sem mætir dulbúin með ógnandi fasi og beitir eiturvopnum og bareflum agalaust eftir geðþótta einstakra villidýra í þessum hópi.


Vonandi bera mótmælendur gæfu til þess að láta ekki storka sér til að slasa andstæðinga sína, þrátt fyrir að hafa þurft að þola harðræði af hálfu ófriðardeildarinnar. Vonandi tekst þeim lögregluliðum sem eru með fullu viti og hafa sýnt skynsamlega og hófstillta framkomu að hafa hemil á ofbeldishneigðum félögum sínum.


Full ástæða er til að vara bæði lögreglu og mótmælendur við því að kveikja stærri elda en þessir aðilar ráða við að slökkva. 


Ástandið er alvarlegt. Það eru ekki mótmæli sem liggja í loftinu heldur stjórnarbylting.

Engin ummæli: