Geir Haarde hefur tímasett burtreið sína úr stjórnmálum við kosningar 9. maí og afsögn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þá er það vandamál leyst.
Ingibjörg Sólrún hyggst spyrna gegn broddunum og sækjast áfram eftir forystu í Samfylkingunni. Sem sé óleyst og dapurlegt vandamál.
Björgvin G. Sigurðsson hefur sagt af sér embætti viðskiptaráðherra og tekið til í fjármálaeftirlitinu. Þá er það vandamál leyst.
Óleyst er vandamálið með stjórn Seðlabankans og súperstjórans Davíðs, sömuleiðis með innherjabrask Baldurs ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu.
Óleyst er líka vandamálið með hvernig taka beri á hinum dularfullu fjárflutningum og samningum sem gerðir voru þegar bankahrunið var yfirvofandi. Óleyst er vandamálið sem snýr að íslenskum bankamönnum og auðmönnum sem rökuðu að sér fé og settu þjóðina og bankana á hausinn.
Óleyst er vandamálið með Árna Matthísen fjármálaráðherra og settan dómsmálaráðherra til að skipa lítinn pilt í lítið embætti úti á landi, og afskipti hans af sparisjóðum og bróðursölu Keflavíkurflugvallar.
Óleyst er vandamálið um það hvers konar framgöngu óeirðasveitir Björns Bjarnasonar sýndu gagnvart friðsömum mótmælendum. Afsökunarbeiðni færi langa leið með að leysa þetta auk þess yfirlýsing um að spara efnavopin og minnast ekki framar á teiser.
Það er að mörgu að hyggja á stóru heimili. En þessi vandamál gæti stjórnin leyst áður en hún hundskast frá ef henni er annt um eftirmæli sín. Og þetta tæki ekki nema klukkutíma. Það er bara kurteisi að reyna að taka til eftir jafnvel hin dauflegustu samkvæmi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli