þriðjudagur, 27. janúar 2009

Kosningatilhlökkun!

Sá snilldarleikur hjá hinum svörnu óvinum Samfylkingu og VG að ganga í minnihlutastjórnarfóstbræðralag veldur því að Flokkurinn fær vatn í munninn þegar hann hugsar til þess að undirbúa næstu kosningar í stjórnarandstöðu. 


Í kosningunum verður Flokkurinn saklaus eins og ungabarn af kreppu, niðurskurði, okurvöxtum, verðbólgu, atvinnuleysi - og umfram allt eins og nýhreinsaður hundur með utanstjórnarsyndaflausn fyrir 17 ára óstjórn og spillingu.


Í þriggja mánaða stjórnarandstöðu mun Flokkurinn endurfæðast og taka á sig ímynd visku og sakleysis. Öllum syndum hans verður sturtað niður um vélinda Geirs Haarde og Geir sjálfur fær sinn sess í sögunni sem maðurinn sem var of mikil gunga til að vera forsætisráðherra og ekki nógu harðsnúinn til að vera formaður Flokksins - en gleypti allar syndir hans þegar hann hvarf af stóli.


Að þessu sögðu er Geir Haarde að sjálfsögðu óskað skjóts bata og sem allra lengstra lífdaga utan allra stjórna.

2 ummæli:

Kristján Pétur sagði...

Ég er ansi hræddur um að þetta verði einhvernveginn þannig að Flokkurinn mikli græði á því að láta Samfó og VG lúsahreinsa sig á mettíma. Hinn alheimski þjóðflokkur sem við tilheyrum mun fyrirgefa Flokknum allt beygja sig í duftið, kyssa vöndinn enn einu sinni með Omegaglampa í augum.
Hallelúja

pjotr sagði...

Ég óttast það að staðan sé sú að SF & VG séu að fara í rússneska rúllettu með vopni sem geymt var í neðanjarðarbyrgi Flokksins við Háaleitisbraut. Kæmi ekki á óvart að það væru amk 5 kúlur í magasíninu. Það verða spennandi tímar fyrir stjórnmálafræðinga, markaðsfræðing auglýsingasálfræðinga og áhugafólk um almennan heilaþvott að fylgjast með framgöngu hvítliðadeildar flokksins og spunameistara á næstu vikum.