föstudagur, 30. janúar 2009

Brúarsmíð Jóhönnu


Skammtímastjórninni sem nú er að fara að taka við völdum bíða tveir möguleikar:

A) Annaðhvort tekst henni að öðlast tiltrú fólks. 

B) Eða henni mislukkast.


Vinnuaðstaðan, það er tímaskortur og miklar væntingar, minnir helst á verkefni kamikaze-flugmanns. Tíminn er naumur. Verkefnið erfitt. Og sáralitlar vonir á því að snúa aftur sem hetja lýðsins.


Hins vegar er ekki útilokað að verkefnið takist. Stjórnin öðlist traust almennings, fyrir kjark, hreinskilni og góðan vilja. Engin ætlast nefnilega til þess að skammtímastjórnin vinni fullnaðarsigur á kreppunni innan þriggja mánaða.


Það sem fólk vill sjá er aðgerðaáætlun sem fylgt er út í æsar, Það vill sjá þá rassa fjúka sem sitja nú í mjúkum hægindum en eiga sök á því hvernig komið er fyrir okkur. 


Þessi stjórn markar líka brú milli gamla spillta lýðveldis eigingirni, hroka, stéttaskiptingar og vensla- og vinatengsla og hins nýja lýðveldis sem við sjáum fyrir okkur í hillingum á hinum bakkanum. Vinalegt þorp þar sem hver hjálpar öðrum, dugmikið og metnaðarfullt samfélag samvinnu og samstöðu án fátæklinga og stórmennskubrjálaðra ofurtökusjúklinga,


Þarna hinum megin stendur myndarlegt lýðveldi, samfélag fólks sem skortir ekkert. Lýðræði ríkir í sinni fegurstu mynd. Og Sjálfgræðis-frjálshyggju-græðum-á-daginn-og-grillum-á-kvöldin-fokkurinn hefur verið í vonlausri stjórnarandstöðu lengur en elstu menn muna, alveg frá því að hann setti Fyrsta íslenska lýðveldið á hausinn.

Engin ummæli: