fimmtudagur, 29. janúar 2009

Hvar er þýfið niðurkomið?

Margt er torskilið í þeim fréttum berast sífellt frá blönkunum okkar sálugu að góðvinir og velunnara blankanna hafi sýknt og heilagt verið að kaupa í þeim hlutabréf. Sem blankinn lánaði þeim fyrir og jarðaði í skattaparadís - án þess að nokkur hagnaðist á þessum flóknu viðskiptum. Hafi þetta verið alvörupappírar en ekki bara I.O.U. á servíettur i hlýtur að vera hægt að nálgast þessa pappíra.


Sama gildir um fé sem var lánað að veði úr blönkunum, það hlýtur að vera hægt að hafa upp á hvernig þau veð eru til heilsunnar núna á uppgjörsdegi, rjóð og sælleg eða með uppdráttarsýki.


Í sparnaðarskyni hlýtur að vera að hægt að yfirfara þessa gjörninga með ódýrara starfsliði en endurskoðunarskrifstofum sem taka tíu milljónir fyrir að fletta gögnum í þrjá mánuði og finna aukinheldur ekki þá gjörninga sem sumum þeirra var víst uppálagt að fela á fyrri tíð.


Skilvirkari leið til að komast til botns í sukkinu væri að hneppa sukkarana í gæsluvarðhald og láta þá leiðbeina rannsóknarmönnum í svo sem átta tíma á dag og útskýra hver er von til að finna verðmæti og hvar blöff í blankasamsærinu mikla.


Í gæsluvarðhaldinu þyrftu blankablækurnar ekki annað sér til lífsviðurværis en venjulegan heimilismat, því að minnið gæti tvíelfst af kampavíns- og kavíar-bindindi, þegar einkaþotuflugþreytan er liðin úr skrokknum á þeim.


Ég veit ekki um “frystingar” á eignum, en hitt veit ég að leyfilegt er að yfirheyra fólk um hvar þýfi sé niðurkomið. Og loka það inni ef hætta er á að það spilli rannsóknarhagsmunum.

1 ummæli:

Bjarni sagði...

Svo mun, að stóð lögmanna fengi þá lausa á augabragði og að líkum kæmu ,,frjálslyndir Jafnaðrmenn" og sverustu Kommar í fjölmiðlastétt þeim aftur til hjálpar líkt og í Fjölmiðlafrumvarpinu forðum.
Mibbó