fimmtudagur, 15. janúar 2009

Venjulegur meðalmaður

Eftir þá mánuði sem liðnir eru síðan bankarnir fóru í þrot og kreppan hélt innreið sína hef ég engar upplýsingar fengið sem ég get byggt framtíðaráætlanir á. 


Ég veit ekki hver heildarskuldin er mikil. Tvö þúsund milljarðar? Þrjú þúsund milljarðar.

Ég veit ekki hvort þarna koma einhverjar seljanlegar eignir á móti. Og hvað er það á hvert mannsbarn?

Ekkert hefur verið blakað við þeim sem sváfu á verðinum. FME, Seðlabanki t.d.

Stjórn sem var kosin til að "viðhalda stöðugleikanum" húkir í ráðherrastólum og segist hafa umboð til fjögurra ára - burtséð frá því á hvaða forsendum umboð til stjórnarstarfa var fengið.

Ég hef ekki séð neina aðgerðaáæltun fyrir þjóðfélag í kreppu, hvorki fyrirmæli til almennings eða elítu um kreppuhegðun. Alþingismenn geta sér launauppbót á þann einfalda hátt að skjótast til útlanda og fá fimmtíuþúsund kall launauppbót á dag í ferðum sem eru borgaðar af þinginu. Almenningur fær enga dagpeninga og getur ekki bætt fjárhag sinn með ferðalögum.

Engin áhersluatriði hafa verið lögð fram. Engin skýr fyrirmæli um hvernig bregðast skuli við óbærilegri skuldastöðu alls þorra almennings.

Ég er ekki að minnast á þetta viku eftir að kreppan skall á heldur nokkrum mánuðum síðar.
Það eina sem ég veit eftir þessa mánuða er að sukkið var geðveikara og skuldirnar margfaldar miðað við það sem haldið var í fyrstu.

Foringjar sem eru ráðalausir í þrjá mánuði eru ekki líklegir til þess að töfra góðar lausnir upp úr hatti eftir t.d. sex mánuði, ekki síst þar sem engin lausn á okkar vanda önnur en sú að vinna sig kerfisbundið út úr honum.

Ég kom ekki þessari kreppu af stað með ábyrgðarlausri notkun á peningum. Ég er fórnarlamb og leiksoppur. Mig langar til að lámarka þau óþægindi sem í vændum eru en engin aðgerðaáætlun er til í þá veru. Ég reyni að verða ekki þunglyndur og svartsýnn út af þessu. Ég reyni að festa ekki hugsunina við óskilgreind og óviss vandamál á næstunni.

En ég er kominn að því að missa móðinn. Forustan er engin forusta heldur froðusnakkar, óskipulagðir og ráðþrota og silalegir í hugsun, nema utanríkisráðherra sem er fjarverandi í heilaaðgerð.

Ég er kvíðinn, langþreyttur, áhyggjufullur. Ég varaði við þessum peningaleik strax í upphafi. Nú hef ég fengið nóg. Hvað á ég að gera? Fá mér lambúshettu og gerast athafnasinni? Sitja heima og finna svartsýnina vaxa hvern dag án aðgerða. ÉG ER REIÐUR OG LEIÐUR OG ÞOLI ÞETTA HEILADAUÐA ÁSTAND EKKI MIKIÐ LENGUR!

5 ummæli:

JIJ sagði...

Þú ert ekki einn um að þessa líðan.

Unknown sagði...

Sæll Þráinn.
Er þér hjartanlega sammála (fer að versla lambúshettu á morgun)

Hjalti sagði...

Sæll Þráinn

Sammála,er grínlaust að spá í að hætta að láta Austurvöll duga.

Skrýtið að sækjast eftir forsætisráðuneyti en þjást um leið af ákvörðunarfælni. Ekki góð blanda það.

Unknown sagði...

,,Ég er reiður og leiður og þoli þetta heiladauða ástand ekki mikið lengur!"
Þetta heilalausa ástand hefur fullkomnlega blómstrað hér síðustu árin.
Ég er svo sammála þér. Bendi þér á færslu mína á blogsíðu á mbl.is - helgafell en þar er erindi sem heitir ,,Fyrirlitning er hættulegt ástand".

Við deilum tilfinningum og líðan þessa dagana.
Okkar elskulegi Iðnaðarráðherra er að ég hygg mjög hættulegur maður. Hann hefur stóran hluta náttúruauðlinda okkar á sinni könnu - og ætti að hunskast frá völdum í stað þess að vera að þvælast með vafasömu fólki í heimsóknum vítt og breitt um heiminn, þar á meðal í Katar-Dubai og víðar.
Ég þarf ekki lambhúshettu - það mega allir sjá að ég er mjög óánægð með þetta ástand.
Alma Guðmundsdóttir

Nafnlaus sagði...

Menn spyrja ekki lengur hverjir aðra, hvenær og hvert eigi að skella sér í sumarfrí,þegar þeir hittast á förnum vegi.

Nú er spurt hvenær fólk sjái fram á að verða gjaldþrota.

Fólk sem hefur engu að tapa er líklegt til að grípa til örþrifaráða - hvernig svo sem það er búið til höfuðsins.