Í dag var ég þátttakandi í mótmælum sem fóru svo prúðmannlega fram að minnti helst á hátíðasamkomu í Kardímommubænum. Engum bílum var velt, engar sprengjur sprengdar, engin spellvirki unnin. Eina undantekningin frá prúðmannlegri hegðun var svonefnd "óeirðadeild" lögreglunnar sem reyndi hvað hún gat til að æsa til óeirða með ofbeldisfullri og skrílslegri hegðun, einkum við börn og unglinga sem allt kapp var lagt á að leggja í járn og hnoðast á.
Fullkomlega að ástæðulausu var fantatökum, barsmíðum og árásarúða beitt gegn mannfjölda sem stóð andspænis lögregluskrílnum með uppréttar hendur til marks um friðsemd.
Það skal tekið fram að meirihluti lögregluliðsins, sá hluti sem klæddur var venjulegum fötum en ekki herklæðum, hegðaði sér að mestu leyti skynsamlega og kurteislega, en framkoma “óeirðadeildarinnar” sýnir svo að ekki verður um villst að dulbúnir herklæðum breytast margir lögreglumenn í ófreskjur og ofbeldishneigðan skríl sem venjulegum borgurum stendur stór hætta af.
Ef Geir H. Haarde dregur ekki lærdóm af þessum mótmælum og segir af sér stefnir augljóslega í stigmögnun mótmæla sem verða sífellt harðari og verri. Ef hann og liðleskju ríkisstjórn hans streitist enn við að sitja án alls umboðs er þetta fólk bæði vitlausara og ósvífnara en jafnvel ég hélt.
Ef "óeirðadeild" lögreglunnar fær ekki rækilega áminningu hjá yfirboðurum sínum og endurhæfingu er hundrað prósent öruggt að þessi ruddaskríll á eftir að stórslasa einhvern eða drepa.
4 ummæli:
Af hverju ætti Geir svo sem að geta lesið það sem stendur skrifað á vegginn (Mene Mene Tekel Ufarsim)?
Mig langar til að benda á að samhvæmt bandarískum rannsóknum, sem ég las einhver tíma, eru þeir aðilar sem sækja í þau störf, sem sambærileg eru "óeirðasveitinni", af því sauðahúsi. Það að aðeins er spursmál hvoru megin lagana þeir fá útrás fyrir óþverrahátt sinn og mannvonsku. Þetta veit Bíbí manna best og lagði því ofurkapp á að smala þessu liði saman á einn stað. Ástandið í dag er grímulaus Fasismi sem SS flokkarnir hafa komið leynt og ljós á.
Þetta er nákvæmlega það sem ég upplifði þarna í dag, maður sá að helmingur lögreglunnar skammast sín. En þarna er líka að finna hina mestu fauta sem geta hæglega stórskaðað fólk með framgöngu sinni. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á öllum þeim meiðingum sem fólk er að verða fyrir, hvort sem um er að ræða andlegar eða líkamlegar. Þetta ástand er líka orðið hreint og klárt "coup" og óstjórnin landráð að mínu viti....Burt með þetta lið! við viljum landið okkar aftur!
Var annars að lesa bókina þína um daginn, held ég hafi lært sittlítið afhverju um sjálfan mig við lesturinn...Takk fyrir
Eru grímuklæddar löggur og grímuklæddir mótmælendur ekki bara af sama sauðahúsinu? Mér hefur sýnst sem þessir hópar stefni að sama markmiði: ofbeldi. Grímulöggunum klæjar í gasfingurinn og grímumótmælendurnir telja dagsverkinu ekki lokið fyrr en gasinu hefur verið beitt. Réttast væri að þessi tveir hópar fengju bara að slást í friði á afmörkuðu óeirðasvæði, svo gætu þeir skipt um lið í hálfleik...
Á meðan geta friðsemdarmótmælendur og friðsemdarlöggur gert sitt án truflunar á Austurvelli.
Skrifa ummæli