miðvikudagur, 21. janúar 2009

Skynsemi eða vitfirring?

Skyldi Samfylkingin þekkja sinn vitjunartíma á flokksfundinum í kvöld? 


Ef þessi flokkur ætlar að halda áfram í pólitík er hver síðastur að slíta stjórnarsamstarfinu og boða til nýrra kosninga. Sá kostur er í boði fyrir Samfylkinguna í augnablikinu að mynda stjórn með VG sem Framsókn mundi verja vantrausti - og hefði fyrir sitt fyrsta verk að hreinsa út úr Seðlabanka og fjármálaeftirliti.


Ennfremur verður athyglisvert að sjá hvort Samfylkingarfólkið skilur að fáir eða enginn af núverandi þingmönnum flokksins njóta trausts til að vera aftur í framboði - og örugglega enginn úr ráðherraliðinu. 


Hinn valkosturinn er sá að velja óbreytt ástand og treysta á þá gæfulegu hugmynd Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra að stórefla lögregluna af mannskap og tækjum til að takast á við áframhaldandi mótmæli - til eilífðar.


Heilbrigð skynsemi - eða vitfirring?

2 ummæli:

Jón Einarsson sagði...

Mér finnast kosningar nú óráð og get ekki annað en tekið undir með Nirði P. Njarðvík um starfstjórn. Ef við eigum að kjósa eftir núverandi fyrirkomulagi fáum við bara sama settið, blandað dálítið breyttum hlutföllum.

Hvað er gert þegar fyrirtæki er illa rekið? Hluthafarnir hafa úrræði um að velja sína menn í stjórn, sem svo aftur velja frkstj félagsins. Þau lög sem gilda um kosningu stjórnar hlutafélagsins Íslands hf eru meingölluð. Ísland er nefnilega ekkert stærra en mörg alþjóðleg fyrirtæki. Mjög lítill hluti eigenda getur tekið sig saman og stofnað flokk, flokkurinn heldur svo prófkjör þar sem hrossakaup eru gerð um röðun á lista og virðist sem svo að þau hagsmunabandalög sem koma að því vali geti haldið áratugum saman með þeim afleiðingum að menn eru annaðhvort orðnir ærðir af langri setu og spillingu eða elli þegar þeir loks stíga niður.

Að öðru leyti er ég hjartanlega sama Þránni um traust manna.

Carlos sagði...

Samfylkingin í Reykjavík vill slíta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og kosningar í vor. Erfitt fyrir flokkinn í heild sinni að hlusta ekki á það og hlýta því. En - allt getur enn gerst.