þriðjudagur, 6. janúar 2009

Betri er hálfur skaði en enginn!

Millurnar 370 sem Glitnis-Bjarni segist vera búinn að skila eru væntanlega ætlaðar til að kaupa gott veður fyrir hann og familíuna á Íslandi ef einhverjum fer að leiðast í Noregi.


Gildismatið er enn óbreytt. Það skal allt vera falt fyrir peninga, líka æra og vinsældir. Og fólk hlýtur að trúa því að betri sé hálfur skaði en enginn!

Best væri nú að Bjarni ynni ekki fleiri kærleiksverk á næstunni heldur notaði aurana sína - hvernig svo sem þeir eru fengnir - til að stofna klaustur í Ódáðahrauni og settist í helgan stein. 

Bjarni gæti verið príór í klaustrinu og smámsaman laðað þangað og innmúrað þá 29 leikbræður sína sem búnir eru að setja Ísland á hausinn. Útrásarmógúlarnir hafa nú lagt einkaþotum í bili og þurfa að fá fiðraða vængstúfa í staðinn til að flögra um í snjóhvítum kyrtlum.

Trappista-klaustur í Ódáðahrauni fyrir 30 siðblinda þjófa og landráðamenn á mjóum batavegi gæti orðið alheimsundur og alþjóðlegur helgireitur og lokkað til sín ferðamenn frá öllum heimshornum og skapað þjóðinni atvinnu og gjaldeyristekjur en klausturmunkunum endurfædda sjálfsvirðingu og sálarró til dauðadags.

2 ummæli:

egillhardar sagði...

Hefði Bjarni dælt þessum peningum inn í heilbrigðiskerfið væri æra hanns kannski uppreyst...að hálfu.

Benedikt Sigurðar sagði...

Endilega ekki fara að senda þá í Ódáðahraun. Æi nei; - þar hafa bara gengið um heiðarlegir útileguþjófar og bændur til sauða sinna . . . Þetta klaustur mundi sökkva í þunnri skel hraunsins