föstudagur, 2. janúar 2009

Úreltir viðskiptahættir

19. aldar lýðræði á 21. öld!

Stjórnmálaflokkar eru gömul og gamaldags fyrirbæri. Þeir hafa nú frá stofnun lýðveldis (og lengur) boðið Íslendingum upp á hugmyndafræðilegar pakkaferðir sem taka fjögur ár. Fyrir mína parta tel ég þetta vera úreltan ferðamáta og úrelta viðskiptahætti. 

Kíkjum aðeins á þetta. Á fjögurra ára fresti bjóða stjórnmálaflokkar okkur upp á að slást í för með sér í pakkaferð þar sem þeir bjóðast til að hugsa fyrir öllum þörfum okkar næstu fjögur ár. Þessir aðilar sem kalla sig stjórnmálaflokka eru í rauninni ferðaskrifstofur inn í framtíðina. Þeir bjóða fram hugmyndafræðilega pakka og reyna að bregða upp myndum af framtíð sem gæti fallið þér í geð að sem flestu leyti.

Fyrir utan hversu fáránlegt og áhættusamt það er að fela einhverjum aðila forsjá sína næstu fjögur ár og afsala sér um leið rétti til breytinga þá ríkir fákeppni á hinum pólitíska ferðamarkaði, fyrir utan krosstengsl, sameiginleg hagsmunatengsl, ætta- og fjölskyldutengsl og önnur vensl milli þessara úrkynjuðu og innræktuðu stjórnmálaflokka.

Tilboðið hljóðar upp á allt eða ekkert: Þú ferðast með okkur og aðeins okkur næstu fjögur ár án tillits til hvernig þér líst á blikuna eftir að ferðin er hafin. Þú getur ekki skipt um skoðun fyrr en eftir fjögur ár og þaðan af síður getur þú gert hlé á ferðalaginu. Á þessum tíma er farið með þig í þá átt sem ferðaskrifstofan hefur lofað - að svo miklu leyti sem hún hefur tök á að standa við auglýsinguna. Efndirnar byggjast á því að ferðaskrifstofan-stjórnmálaflokkurinn nái stólum í svonefndri ríkisstjórn sem endanlega úthlutar ferðafrelsinu og þar með einhverjum réttindum til að standa við loforð sín þrátt fyrir að þurfa að stytta ferðina og gera hana ódýrari til að kaupa sér stóla í ríkisstjórn.

Á markaðstorgi atvinnunnar þekkist ekki fjögurra ára uppsagnarfrestur. Maður ræður ekki starfskraft í fjögur ár samfleytt. Maður ræður fólk til reynslu og síðan hafa starfsmenn nokkurra mánaða uppsagnarfrest.  

Stjórnmálaflokkarnir hins vegar vilja helst gera þig að lífstíðaráskrifanda að pakkaferðalagi á vegum flokksins frá vöggu til grafar.

Í nútímanum eru stjórnmálaflokkar samtímans álíka úreltir og grútarlampar eða sauðskinnsskór. Ég vil fá að neyta lýðræðislegs réttar míns til að hafa skoðun á fleiri málum en skrúðmælginni í stefnuskrám stjórnmálaflokka og oftar en á fjögurra ára fresti. Ég vil geta ráðið mannskap til starfa til að byggja upp þjóðfélagið okkar og valið úr stærra úrvali en því sem kemur úr þjálfunarbúðum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka. Ég vil ekki vera eingöngu neyddur til að velja milli sjálfstæðismanna, samfylkingarmanna og framsóknarmanna o.s.frv. Það sem skiptir mig máli er að geta valið milli HÆFRA manna.

Þetta fornaldarfyrirkomulag á lýðræðinu okkar er grafalvarlegt mál. Gífurlegur atgervisbrestur herjar á stjórnmálaflokkana. Það eru ekki margir þingmenn sem ég mundi treysta fyrir barni yfir læk. Og þar fyrir utan er sú hugsun beinlínis ógnvekjandi að menn geri það að ævistarfi sínu að fara með “völd” sem þeir fá fólk til að framsala sér með loforðum sem þeir hafa takmarkaða getu til að standa við.

Sá tími er liðinn að atkvæðagreiðslur um mál séu stórkostlegt vandamál. Það þarf ekki lengur að ferja atkvæðakassa á hestum yfir jökulár. 

Forneskjulegast af öllu í sambandi við stjórnmálaflokka eru hinir “hugmyndafræðilegu pakkar” sem þeir standa fyrir og sú hugmynd að vitlausasti félaginn í mínum flokki hljóti að hafa heilbrigðari skoðanir en skynsamasti félaginn í þínum flokki. 

Ég er einstaklingur. Ég hugsa oftar en á fjögurra ára fresti. Og mig langar til að upplifa veröldina frjáls ferða minna - ekki í hugmyndafræðilegri pakkaferð undir stjórn valdasjúkra atvinnumanna. Frelsi og lýðræði eru lifandi orð og hugtök - ekki safngripir á fornminjagröfum stjórnmálaflokka. Tími krambúða er liðinn, kjörbúðir og stórmarkaðir með óendanlegu úrvali hafa tekið við. 

Á 21. öld eigum við ekki að sætta okkur við 19. aldar lýðræði. Við höfum frelsi til að hugsa sjálf. Notum það!

(Þessar hugleiðingar birtust í desemberblaði VR)

1 ummæli:

pjotr sagði...

19. aldar lýðræði á 21. öld!
Í byrjun síðustu aldar var þetta orðað einhvernvegin svona;
Borgaralegt lýðræði er það að einstaklingar fái á fjögurra ára fresti að kjósa sér böðla sína og kúgara. "Ferðaskrifstofurnar" (og /eða íþróttafélögin (sem fólkið heldur með)), sem fólkið í landinu hefur treyst fyrir framtíð sinni, eru að stórum hluta rúnar öllu trausti.