laugardagur, 29. mars 2008

Lausn á efnahagsvandanum

Nú þegar við erum komin með 42 fullþjálfaða og vel vopnaða atvinnuhermenn er orðið fullkomlega raunhæft að ráðast inn í Færeyjar og gera þær að íslenskri nýlendu. Hugsanlega er þó betra að bíða meðan þeir 6 sem eiga að bætast við hafa lokið þjálfun sinni, áður en við látum til skarar skríða.
 
Tvö til þrjúhundruð sjálfboðaliðar/hvítliðar undir forystu sérsveitarmanna gætu hæglega náð á sitt vald öllum hernaðarlega mikilvægum stöðum í Færeyjum, og blóðsúthellingar þyrftu ekki að vera meiri en á venjulegu föstudagskvöldi í Reykjavík.
 
Ólafsvakan væri tilvalinn tími til að hernema landið, því að þá eru Færeyingar að dansa hringdans og ekki jafn varir um sig og venjulega.
 
Ef við eignuðumst þessa nýlendu og héldum henni þó ekki væri nema í aldarfjórðung eða svo myndi íslenska krónan hækka og öðlast sinn fyrri virðingarsess meðal gjaldmiðla heimsins - og þar að auki þyrftum við ekki að ganga í Evrópusambandið.
 
Einnig myndi losna mikið um virðingarstöður í nýlendunni og við gætum fundið þar vellaunaða vinnu fyrir heilan herskara af dómurum og héraðshöfðingjum sem hefðu kannski gaman af því að breyta til úr því að það er farið að harðna á dalnum hérna heima.
 
Ef sá draumur rætist að við komumst í Öryggisráðið erum við á grænni grein því að þar ríkir djúpur skilningur á nauðsyn þess að beita vopnavaldi til að tryggja stöðugleika og frið í heiminum.
 
Þátttaka Íslendinga í styrjöldum í Írak og Afganistan hefur vakið athygli á því að Íslendingar séu líklegir til að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi í þágu friðar og stöðugleika.
 
Hernám reyndist vera helsti bjargvættur íslensks efnahagslífs, og úr því að enginn hefur döngun í sér til að hernema okkur lengur eigum við að hrista af okkur slyðruorðið og hjóla í Færeyingana. Hernámið mundi verða mikil blessun fyrir efnahag beggja þjóðanna.
 
Eða eins og George W. Bush forseti Bandaríkjanna komst svo snilldarlega að orði um samskipti nágranna:

"We must all hear the universal call to like your neighbor like you like to be liked yourself."

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott að fá Þráin aftur í dægurmálin.

Nafnlaus sagði...

Einstaka færeyingar líta nú á umsvif íslendinga þar sem ákv. tegund af nýlendustefnu. ;) Við þurfum bara að eignast meira og kaupa allt upp þarna það er önnur leið.

Þráinn sagði...

Ég var nú meira að hugsa um að Sérsveitin eða herdeild Bíbís væri að minnsta kosti sjálfbær eining í stjórnkerfinu.