Það verður að fara að smækka skammtana af piparúða og táragasi við lögregluna. Of margir í því liði halda að þessi efni séu framleidd svo að löggan geti skeytt skapi sínu á almenningi.
miðvikudagur, 31. desember 2008
Að spara piparúðann
"Catch 22" í VR-lýðræði
Til að tryggja stöðugleika í stjórn VR skal Nýársfundur, sameiginlegur fundur trúnaðarráðs og trúnaðarmanna - sem sé mötunauta Gunnars Páls formanns við jólaborðið sem hann lét VR bjóða sveinum sínum - gera tillögu um skipun í öll embætti sem í kjöri eru hverju sinni.
Þetta hlífir VR meðlimum við því að þeir sem eru á móti stjórninni þurfi að ómaka sig til að bjóða sig fram gegn henni, því að "Catch 22" í VR er að þeir sem eru á móti stjórn félagsins eru þar með vanhæfir eða óhæfir til þess að fá að bjóða sig fram á móti henni.
Með blessun og undir eftirliti Alþýðusambands Íslands hefur VR því tekist að koma á hjá sér því sem margir kalla "stöðugt lýðræði" eða jafnvel "óhagganlegt lýðræði".
Lýðræði eða lagarefjar í VR?
þriðjudagur, 30. desember 2008
Kröpp kjör í Seðló
Laun seðlabankastjóra lækkuð um 15%!!!!
laugardagur, 27. desember 2008
Líkklæði með vösum
"Einkarekin líkhús" er nýjasta snilldarhugmynd BB dómsmálagenerálsins okkar. Bæði opnar þetta skemmtilega rekstrarform möguleika á huggulegum bílskúrsiðnaði og gefur auk þess langþráða möguleika á því að einkaaðilar bjóði efnaðri viðskiptavinum sínum loksins upp á líkklæði með vösum.
Fullar kæligeymslur hafa áhrif á kreppu
Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar hélt ónefnd kona á Seltjarnarnesi fjölskylduboð á annan dag jóla. Borð svignuðu undan rausnarlegum veitingum og gera reyndar enn, því að mikill afgangur varð af veisluföngunum. Til dæmis má nefna að konan hafði búið til fjóra lítra af "jólasalati" og voru þrír þeirra afgangs þegar veislunni lauk og allir héldu mettir heim til sín að huga að sínum eigin afgöngum frá því á jóladag og aðfangadagskvöld.
föstudagur, 26. desember 2008
Elísabet með Haarde-doða?
Elísabet II Bretadrottning þótti heldur daufleg í orðum og framkomu í jólaávarpi sínu að þessu sinni. Þessi 82 ára gamla kona hefur hingað til verið prýðilega spræk, svo að menn velta því fyrir sér hvort hún sé kominn með snert af þeirri deyfð sem í vaxandi mæli er farið að gefa læknisfræðinafnið "Haarde-doðinn".
fimmtudagur, 25. desember 2008
Sameining í vændum?
Nú þarf að nota kyrrð og næði þeirra hátíðisdaga sem í hönd fara og sameina Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk. Sjallarnir hafa séð að sér í ESB-málinu og Samfylkingin í öllum hinum málunum, svo að nú ætti ekki að vera neitt sem torveldar sameiningu þessara samhentu flokka. Hinn nýi stjórnmálarisi gæti heitið Sjálfstæðisfylking eftir sameininguna eða Samstæðisflokkur. Eftir útrásarárin hefur þjóðin öðlast mikla reynslu af sameiningu fyrirtækja og samlegðaráhrifum.
miðvikudagur, 24. desember 2008
þriðjudagur, 23. desember 2008
Lúxus veikindi skattlögð
Þann lúxus að leggjast inn á hinar dýru heilbrigðisstofnanir í landinu í stað þess að taka magnyl og vatnsglas og þrauka heima hjá sér á nú að skattleggja upp á 360 milljónir til viðbótar þeim ýmsu gjöldum sem nú eru innheimt á heilbrigðisstofnunum.
Það er ekki hlaupið að því að ná fé af sa. 32 þúsund sjúklingum sem leggjast eins og greifar inn á heilbrigðisstofnanir og hefur því verið brugðið á það ráð að reyna á hugkvæmni heilbrigðisráðherra sem fær frjálsar hendur til að leggja ný gjöld á sjúklinga og hækka þau gjöld sem fyrir eru.
Til að forðast að um geðþótta-ákvarðanir verði að ræða kæmi til greina að verðleggja gjöldin eftir sjúkdómsástandi viðskiptavina: því alvarlegri sjúkdómur því hærri gjöld. Ekkert hefur þó verið endanlega ákveðið nema hvað gjöldin skulu hækka verulega svo að fólk sjái sér ekki leik á borði að skrópa frá kreppunni með leggjast í rólegheitum inn á sjúkrahús.
Mesta klúður Íslandssögunnar: Hver er "litli hálfvitinn" sem fokkaði upp Icesave-málinu?
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að sér hafi ekki verið kunnugt um að breska fjármálaeftirlitið hafi verið reiðubúið að heimila yfirfærslu Icesave-reikninga Landsbankans í breska lögsögu gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu.
Þetta var svar við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur sem spurði Geir líka hvort embættismenn eða ráðgjafar ráðherra hafi haft vitneskju um málið.
„Ekki svo ráðherra hafi verið kunnugt," svaraði Geir.
Nú fer fram örvæntingarfull leit að “litla hálfvitanum” sem klúðraði þessu kostaboði. Spurning hvort bréfið með tilboðinu hafi fyrir misskilning lent hjá íslensku jólasveinunum en ekki þeim í ríkisstjórninni.
mánudagur, 22. desember 2008
Vonir dagsins
Í dag vona ég
sunnudagur, 21. desember 2008
Nú fer að rofa til
Í dag, 21. desember er stysti dagur ársins, nóttin er lengst og birtu nýtur skemmst.
Vetrarsólstöður voru nú í hádeginu, nákvæmlega klukkan 12:04.
Hér eftir tekur daginn því að lengja. Á morgun, 22. desember, verður dagurinn 50 sekúndum lengri.
Ekki er ljóst hver tekur þessar ákvarðanir né í hvers umboði og eigum við þó að heita sjálfstæð þjóð.
Tvísýn jól - spennandi barátta góðs og ills
Nú verður æsispennandi að sjá hvort boðskapur og andi jólanna ná raunverulega að smjúga inn í sálir og hjörtu mannanna á þeirri hátíð sem nú fer í hönd; hvort hér sprettur eins og af sjálfu sér upp nýtt þjóðfélag byggt á ævafornum gildum um samábyrgð og samstöðu
laugardagur, 20. desember 2008
Jólalegt eða kreppulegt
Svakalega er jólalegt núna.
fimmtudagur, 18. desember 2008
Stjórnarskipti í Jólalandi
Nú eru farnir að tínast til byggða þeir góðu drengir sem munu skipa ríkisstjórn landsins og sitja að völdum yfir hátíðirnar frá aðfangadegi fram á þrettánda. Svo er sagt að ekki muni allir hinir lúnu og löskuðu meðlimir þeirrar ríkisstjórnar sem er á leið í jólafrí eiga afturkvæmt í embætti að loknu fríi. Rætt er um að tveir óhæfir ráðherrar sem mjög oft hafa ofboðið þjóðinni verði látnir hætta; þeir Björn Bjarnason generallissímó og Árni Mathiessen sem verið hefur pólitískt lík síðan hann gerði fyrrnefndum Birni þann greiða að skipa ákveðið stórættað ungmenni í héraðsdómaraembætti umfram marga hæfa umsækjendur.
miðvikudagur, 17. desember 2008
Ný nöfn, nýir bankar, ný einkavæðing
Enginn var fegnari en ég þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma. Hvernig staðið var að því að velja kaupendur er svo önnur saga. Ég hélt að með einkavæðingunni myndu þessar þjónustustofnanir í eigu landsmanna breytast í nútímafyrirtæki úr þeim köstulum stéttaskiptingar, pólitískrar mismununar, mútugreiðslna og annarra forneskjulegra sjúkdóma sem þjökuðu gömlu ríkisbankana.
þriðjudagur, 16. desember 2008
Siðsamleg sigling Lúðvíks
Svo virðist sem umtöluð sjóferð Lúðvíks með Thee Viking á sínum tíma hafi átt sér stað þegar mellurnar og bankastjórarnir voru á frívakt og karlkyns hásetar sigldu bátnum í nýtt bátalægi. Má því telja að greiðaskuld Lúðvíks við Baug hafi verið innan siðsamlegra marka.
mánudagur, 15. desember 2008
Óþarfi að bíða eftir evrunni
Nú er búið að ákveða að aftengja vísitölubætur á búvörusamninga. Úr því að hægt er að aftengja bændur og kvikfénað frá vísitölu getur gjaldmiðillinn okkar ekki lengur verið því til fyrirstöðu að stíga skrefið til fulls og frelsa almenning úr vísitölugapastokknum.
Ragnar og Þorvald í ráðherraembætti
Ef það stendur til að reyna að gera andlitslyftingu á ríkisstjórninni væri tilvalið að taka valinkunna fagmenn inn í fjármálaráðuneyti (Þorvaldur Gylfason) og dómsmálaráðuneyti (Ragnar Aðalsteinsson); flokkarnir gætu svo notað viðskipta- og umhverfisráðuneyti til að svala metnaði ungs alþingisfólks á uppleið.
Egglos
Eftir myndum að dæma af egginu sem Ólafur Ragnar varp í fang Hillary er ekki að sjá að mikið sé bruðlað á Bessastöðum, því að eggið lítur út fyrir að vera heimatilbúið föndur eða af vernduðum vinnustað.
sunnudagur, 14. desember 2008
Ef...
Ef framsóknarmenn bæru gæfu til þess að hlusta á það sem Eygló Harðardóttir hefur að segja um samvinnu og samvinnuhugsjónina gæti verið að flokknum yrði hleypt úr skammarkróknum sem þjóðin hefur sett hann í.
laugardagur, 13. desember 2008
Um slægð og leynd
Það er ekki skrýtið að tiltrú fólks á stjórnmálaflokkum sé í sögulegu lágmarki nú um stundir.
Að deila ábyrgð - ekki völdum
Af hverju er ég að þessu tuði? Jú, það er vegna þess að mig langar til að Ísland minna æskudrauma rætist og rísi upp úr þeim drullupolli spillingar og samtryggingar sem það hefur lengi verið að velkjast í.
föstudagur, 12. desember 2008
Alveg táknrænt fyrir Sollu og Samfó
Ingibjörg Sólrún segir að hátekjuskattur sé bara táknrænn.
Vaxtaogvísitöluskrúfstykkið og heilög Jóhanna
Það buna milljarðar í boðaföllum, tugum og hundruðum saman upp úr þeim sem tala um að bjarga efnahagslífinu, bönkunum með nauðsynlegum erlendum lántökum.
fimmtudagur, 11. desember 2008
V.R. og LIVE blóðsugurnar
Mér reikningsgleggri menn hafa áhyggjur af því að tap Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi verið ennþá hrikalegra en 14% - heldur rúm 19%!
Ástæða fyrir afskiptaleysi af glæpum og klúðri
Eitt undarlegasta lögmál sem sálfræðingar hafa fundið er sú staðreynd að því fleiri vitni sem eru að glæp þeim mun minni líkur eru á því að einhver skipti sér af framferði glæpamannsins eða glæponanna.
miðvikudagur, 10. desember 2008
Svarthol í Lúxemborg
"Risavaxið svarthol hefur fundist í miðju Vetrarbrautarinnar sem sólkerfi okkar tilheyrir. Þýskir stjarnfræðingar fundu þetta svarthol en það mun vera fjórum milljón sinnum þyngra en sólin. Þyngdarafl svarthola er það öflugt að jafnvel ljós sleppur ekki úr greipum þeirra."
þriðjudagur, 9. desember 2008
Lambsverð eða ullarreyfi?
Nefskattur heitir það töframeðal sem Þorgerður Katrín hefur fundið til að rétta af reksturinn hjá RUV, og takmarka um leið auglýsingagræðgi stofnunarinnar. Ég hef heyrt talað um átján þúsund krónur á ári fyrir einstakling og þrjátíuogsex þúsund krónur fyrir hjón. Þarna er ansi hátt reitt til höggs, eins og hjá annarri greindri konu sem notaði barefli til að rota flugu sem hafði tyllt sér á nef bónda hennar.
laugardagur, 5. júlí 2008
Skuggi Skuggason í Skuggasundi. Opið bréf til ríkisstjórnar Íslands
Ég hélt að sá tími myndi aldrei koma að ég þyrfti að fara á mótmælafund til að biðja íslensk stjórnvöld að stilla sig um að ata hendur sínar saklausu blóði. En það átti fyrir mér að liggja að fara í mótmælastöðu upp í Skuggasund, þar sem dómsmálaráðherra hefur skrifstofu. Ég er ekki að spauga. Dómsmálaráðuneyti Íslands stendur við Skuggasund!
miðvikudagur, 2. júlí 2008
Að hika er sama og tapa
Nú eru daprir dagar hjá Samfylkingunni. Allir sjá að eina glóran upp á framtíðina að gera væri að slíta stjórnarsamstarfinu við Flokkinn - áður en vinstri sinnaðir stuðningsmenn og Evrópusinnar missa þolinmæðina endanlega.
þriðjudagur, 1. júlí 2008
Einn smokkur á mann!
Í lækningaskyni við fársjúkan fasteignamarkað fá kaupendur niðurfelld stimpilgjöld af sinni fyrstu íbúð frá og með í dag.
föstudagur, 27. júní 2008
Skrapp frá
Biðst afsökunar á að hafa skotist á bloggið úr sumarfríinu. Sá að það var ekki tímabært. Guðmundur Gunnarsson er ekki orðinn forseti A.S.Í. svo að það er ekki um annað að ræða en skreppa frá aftur.
Óviðkunnanleg orðnotkun: "okur" og "spilling"
Það hefur viljað bera við á Eyjunni að undanförnu að íslensk málhefð sé rofin og fólk slái um sig með erlendum nýyrðum eða nýyrðum af erlendum uppruna sem gefa kolranga ímynd af stöðugu og stöðnuðu þjóðfélagi okkar.
laugardagur, 14. júní 2008
Fjarri daglegu bloggi
Ágætu lesendur.
föstudagur, 13. júní 2008
Ruglast á dóna, söngvara, forsætisráðherra og fréttamanni
"Geir segir fréttamann dóna, vill ekki veita dónum óundirbúin viðtöl"
Back to basics
Öllu fer fram. Stundum með því að fara oufrlítið aftur. Nú eru heljarmenni úr ofbeldis- og átakagreinum sest við sjúkrabeð geðsjúklinga og þurrka þeim um þvalt ennið og reka vatnsrör inn í munnvik þeirra geðveiku svo að þeir ofþorni ekki.
Dómskerfi sem þarf að endurreisa
Það vildi ég óska að ég deildi þeirri bjartsýni með Össuri Skarphéðinssyni að sjá afgreiðslu dómskerfisins á Baugsmálinu sem sönnun þess að dómskerfið virki - og að við eigum engan Henry II til að hvísla að framagjörnum riddurum sínum að mikið væri gott ef þeir hjóluðu í einhvern sem fer í taugarnar á valdinu.
sunnudagur, 8. júní 2008
Til hamingju, Hanna Birna - ef...
Miðað við frammistöðu þeirra kvenna sem gegndu síðast embætti borgarstjóra er líklegt að Hanna Birna geti staðið sig betur.
Miðað við frammistöðu þeirra karla sem gengdu síðast embætti borgarstjóra er líklegt að Hanna Birna geti staðið sig betur.
Hanna Birna er greind og dugleg þarf bara að muna að hún er þjónn fólksins sem býr í Reykjavík, en aðeins félagi í Flokki fyrirtækjanna.
laugardagur, 7. júní 2008
Pollýönnu-gaspur eða alvara?
Formaður Samfylkingarinnar telur "óhjákvæmilegt að íslensk stjórnvöld dragi lærdóma af niðurstöðu Baugsmálsins. Dómur Hæstaréttar bendi til þess að umfang rannsóknarinnar og ákæranna hafi alls ekki verið í samræmi við tilefnið."
föstudagur, 6. júní 2008
Baugsmálið ***** fimm stjörnur
Sú atburðarás sem hefur verið nefnd Stóra Baugsmálið hefur nú runnið gegnum Hæstarétt.
mánudagur, 2. júní 2008
Klökkir Moggamenn kveðja Kalda stríðið
Í allmarga áratugi hefur Morgunblaðið verið samkvæmt þeirri skoðun sinni að íslenskt þjóðfélag væri því betur komið sem það frétti minna af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins eins og vesaling mínum og mörgum fleirum sem kunna ekki að bugta sig fyrir hátign Flokksins.
föstudagur, 30. maí 2008
HOLLVINAFÉLAG EINKABANKANNA
Jæja, þá er Alþingi búið að sameina alla íslensku þjóðina í HOLLVINAFÉLAG EINKABANKANNA með því að samþykkja að kaupa 500 milljarða líftryggingu handa þeim sem viðskiptavinirnir borga.
fimmtudagur, 29. maí 2008
Maðksmogin stjórnsýsla
“Forsætisráðherra ætti að hreinsa þann blett sem hefur fallið á íslenska stjórnsýslu og réttarfar, og biðjast afsökunar á hlerunum stjórnvalda á öldinni sem leið. Þetta er álit Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna...” Þessa frétt getur að líta á ruv.is.
“Dómstólar veittu heimild til að hlera síma á 32 heimilum á árunum 1949-1968, í flestum tilvikum að beiðni Bjarna Benediktssonar, þáverandi dómsmálaráðherra. Kjartan Ólafsson, einn þeirra sem hlerað var hjá, hefur lagt til að stjórnvöld biðjist afsökunar á hlerununum, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra - og sonur Bjarna Benediktssonar, vísar því á bug.”
“Fram kom í máli Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, á Alþingi í kvöld að óþekkt væri að beðist væri afsökunar á úrskurðum dómara og það væri dæmalaus óvirðing við þá dómara sem hlut áttu að máli að láta líta svo út sem þeir hefðu verið viljalaus verkfæri dómsmálaráðherra hvers tíma.”
Að hlera síma alþingismanns er stjórnarskrárbrot og að hlera síma almennra borgara án sannfærandi rökstuðnings er lögbrot.
Dómarar áttu á þessum tíma og eiga enn embætti sín undir geðþótta stjórnmálamanna, rétt eins og þeir dómarar í Sovétríkjunum sem kváðu upp þá dóma sem stjórnvöld og Stalín vildu heyra. Það hefur gerst í fleiri löndum en á Íslandi að manneskjur, jafnvel dómarar, láti undan þrýstingi.
Þetta veit Björn Bjarnason jafnvel og allir aðrir og hann veit líka að ábyrgð stjórnmálamannanna er mest. Engu að síður skýtur hann dómurum eins og skildi framfyrir stjórnmálamennina.
Það er maðkur í íslenska eplinu. Þetta er maðksmogin stjórnsýsla.
Danir buðu okkur maðkað mjöl. Sjálfstæðisflokkurinn þröngvar upp á okkur maðkaðri stjórnsýslu.
þriðjudagur, 27. maí 2008
Vanhæft epli!
Varðandi hleranamálið og eplið sem fellur ekki langt frá eikinni hlýtur sú spurning að vakna hvort eplið sé ekki vanhæft til að fjalla um hleranamálið vegna náins skyldleika við eikina?
Eplið biðst ekki afsökunar á eikinni
"Non, je ne regrette rien" (Nei, ég iðrast einskis) þennan frægasta afneitunarsöng heimsins söng Edith Piaf á sínum tíma og nú tekur Bíbí okkar hressilega undir viðlagið:
B B dómsmálaráðherra telur ekki að íslenska ríkið þurfi að biðjast afsökunar vegna símahlerana á árabilinu 1949–1968. Hann er þeirrar skoðunar að telji einstaklingar, að ríkið hafi á sér brotið, skuli þeir höfða mál gegn ríkinu (en Flokkurinn hefur skipað alla dómara í Hæstarétt svo lengi sem elstu menn muna).
Kjartan Ólafsson, fyrrvrerandi ritstjóri og alþingismaður, skrifar í miðopnugrein í Morgunblaðinu í morgun að stjórnarskárvarinn réttur til friðhelgi einkalífs hafi verið brotinn á grófasta hátt þegar símar á samtals 32 heimilum hér á landi voru hleraðir vegna óska frá stjórnvöldum, í samtals sex hlerunarlotum á umræddu árabili.
Fer Kjartan þess meðal annars á leit í grein sinni að núverandi dómsmálaráðherra biðji alla þá sem brotið var á með þessum hætti afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.
Og svar hins núverandi dómsmálaráðherra við því að biðjast afsökunar á glæpastarfsemi fyrirrennara sín í embætti dómsmálaráðherra er einfaldlega NEI.
Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni.
Ætli öll ríkisstjórnin sé af sama meiði?
Nokkur óhjákvæmileg bannorð til að koma í veg fyrir "hneyksli og "einelti"
“Einelti” og “hneyksli” voru orðin sem forsætisráðherra notaði í þættinum “Ísland í dag” um það nýmæli sem Stöð 2 hefur tekið upp í fréttamennsku á Íslandi, sem sé að minna stjórnmálamenn og flokka á kosningaloforð þeirra eins og að afnema EFTIRLAUNAÓSÓMANN og spyrja um efndir. (Þátturinn "Ísland í dag" verður héðan í frá að sjálfsögðu sendur út undir nafninu "Ísland 1984").
Ef þessu “hneyksli” fer ekki að ljúka og “eineltið” heldur áfram má gera ráð fyrir því að lög verði sett sem banni fjölmiðlum og almenningi að taka sér í munn orð eins og EFTIRLAUNAÓSÓMI, KOSNINGALOFORÐ, HVENÆR, AF HVERJU og ekki verði leyft að fjalla um stjórnmálamenn yfirleitt og Ingibjörgu Sólrúnu sérstaklega nema í jákvæðu samhengi. Einnig verður bannað að taka sér í munn orðin SEÐLABANKI, ÓHÆFUR og 500 MILLJARÐA NEYÐARLÁN TIL AÐ BJARGA RASSGATINU Á BÖNKUNUM OG DAVÍÐ ODDSSYNI.
Áfram verður þó heimilt að strá blómum fyrir fætur formanns Samfylkingarinnar og skrifa lofgreinar í Blaðið um formann Flokksins. Sömuleiðis verða drottningarviðtöl leyfð við þessa aðila.
Að öðru leyti verður tjáningarfrelsi ekki skert – að sinni.
P.S. Í athugun er einnig að banna að minnast á Árna Mathiesen, Grímseyjarferju, Keflavíkurflugvöll, Steina litla Davíðs, hvalveiðar og Vestfjarðaviðundrið Einar sjávarlandbúnaðarráðherra.
sunnudagur, 25. maí 2008
Til BBs og annarra áhugamanna um rafvætt ofbeldi
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fjallar enn um raflost-byssuna taser á bloggi sínu í dag, og nefnir til tvo neikvæða menn, Jónas Kristjánsson og Þráin Bertelsson, sem andstæðinga þess að venjulegir lögreglumenn fái þetta þarfaþing sem drepið hefur fleiri hundruð manns - sem annars væru á lífi í dag - til þess að draga úr hættum á starfsvettvangi sínu.
“Taser” stendur fyrir: "Thomas A. Swift Electric Rifle", Thomas A. Swift er uppdiktuð unghetja úr vísindaskáldsögum um Tom Swift eftir ýmsa höfunda.
Svo að skoðun mín megi vera sem skýrust á þessu fyrirbæri þá tel ég af og frá að vopna hina venjulegu eftirlitslögreglu með þessu vopni. Ef kylfur og liðsauki duga ekki við almennt eftirlit er heimilt að vopna lögregluna með alvöruskotvopnum, svo sem Glock-skammbyssum sem eru ljómandi góð áhöld.
Ef lögreglunni verður heimilað að bæta taser í hið almenna vopnabúr sitt mun koma að því fyrr en síðar að umdeilt verður hvort notkun í einstöku tilfelli hafi verið réttlætanleg, ekki síst ef sá sem fyrir handtökunni og raflostinu verður lifir handtökuna ekki af.
Hvert nýtt vopn sem bætist í vopnabúr hinnar almennu lögreglu leiðir til þess – þótt það sé ekki sanngjarnt – að aðilar sem telja sig vera á öndverðum meiði við löggæsluna munu líka bæta við vopnabúr sín. Taser-raflostbyssur er hægt að kaupa eftirlitslaust víða um lönd, og ef lögreglan segir að þessi tæki séu hættulaus er erfitt að rökstyðja að almenningur megi ekki eiga og bera þetta meinlausa áhald sér til skemmtunar.
Varðandi alþjóðavæðingu íslenskrar glæpastarfsemi skiptir taser engu máli. Engum dettur í hug að senda lögregluna óvopnaða gegn þungvopnuðum glæpalýð. Til þess að taka á slíkum glæpaklíkum höfum við sérsveitina sem við getum kallað á vettvang og hún er sem betur fer betur útbúin en svo að hún þurfi á taser að halda til að geta sinnt skyldustörfum sínum.
Andstaða mín gegn taser byggist á að ég til heimskulegt að bæta umdeildum vopnum í vopnabúr hinnar almennu lögreglu. Taser er vopn og meinlaust vopn er rökleysa. Það er sjálfsagt að lögreglan grípi til þeirra vopna sem duga til að kveðja niður glæpastarfsemi á landinu, en aukinn vopnaburður lögreglu á Íslandi mundi eins og alls staðar annars staðar leiða til aukins vopnaburðar meðal þeirra sem telja sig eiga í útistöðum við lögregluna.
Eftir því sem ég þekki til meðal íslensku lögreglunnar hefur hún á að skipa fjölmörgum skynsömum og mannúðlegum starfskröftum. Að mínu áliti er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gróflega undirmönnuð og að hluta til skrifast það á reikning hins mislukkaða embættis Ríkislögreglustjóra sem hefur blásið út engum til gagns frekar en púkinn á fjósbitanum forðum. Hvaða öflum sá aðili þjónaði á sínum tíma kom ekki löggæslu við heldur átökum milli grundvallargildanna ills og góðs, eins og á okkar tímum.
Íslenskum löggæslumönnum sendi ég kveðju Guðs og mín og bendi á að hlutverk lögreglunnar er að draga úr ofbeldi en ekki að auka það.
laugardagur, 24. maí 2008
Enn er jarmað um taserinn
„Aukin harka einkennir heim afbrota hér á landi. Jafnframt er ljóst að starf lögreglu er nú mun hættulegra en áður var," segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri um stöðu þessara mála hér á landi í Fréttablaðinu.
Predikun aðstoðarríkislögreglustjóra virðist vera að hræða fólk með því að erlendar glæpamafíur séu að koma sér upp aðstöðu hér á landi og sendifulltrúum, eins og er siður allra kapítalískra samfélaga sem trúa á alþjóðavæðingu og markaðssókn.
Lögregla víða um heim hefur komist að þeirri niðurstöðu að taser (þótt þetta sé sniðugt áhald) dugir ekki til að fækka alþjóðlegum glæpasamtökum.
Verið óhrædd
Verið óhrædd þrátt fyrir alla ógnina sem sögð er stafa af útlendingum sem dvelja hér á landi.
föstudagur, 23. maí 2008
Pappírsbrúðkaup hjá Ingu og Geira
Ár er nú liðið síðan Geir Haarde fór heim með sætustu stelpunni sem hann fann á stjórnarmyndunarballinu og halda þau nú upp á pappírsbrúðkaup Flokksins og Samfylkingarinnar.
"Þú ert bara asni, Lúðvík"
Formaður þingflokks Samfylkingarinnar Lúðvík Bergvinsson vill báknið burt og stingur upp á að leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra og efla þess í stað hin ýmsu lögregluembætti á landinu.
Að draga vitlausan lærdóm af augljósum hlut
Síðan það var dregið fram í dagsljósið að Breiðavík var hryllingsstaður, rekinn af vondu og óhæfu fólki hefur uppeldisheimilum fyrir börn og unglinga fækkað dag frá degi.
Dómsmálaráðuneyti verndar Geira í Goldfinger!
“Dómsmálaráðuneytið telur ósannað að fullyrðingar lögreglustjóra LRH þess efnis, að nektardansmeyjar séu oftast þolendur misneytingar, mansals og glæpa, eigi við um starfsemi Goldfinger. Hefur ráðuneytið því fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að synja Baltik ehf. um heimild í rekstrarleyfi til þess að fram fari nektardans í atvinnuskyni á Goldfinger.”
Þetta stendur á mbl.is í dag og auk þess er haft eftir Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni og talsmanni Geira í Goldfinger “að ekki hafi verið ætlun löggjafans að leggja í hendur einstakra umsagnaraðila að meta hvort nektardans sé „góður eða vondur“ eða hvar mannúðin eða almannahagsmunir liggi í málum sem þessum.”
Hvað er það þá sem sem löggan á að meta? Hún ætti að þekkja mun á góðu og illu frá starfi sínu nætur og daga. Ef umsögn lögreglu verður ógild við að vera gildishlaðin þá er dómsmálaráðuneytið að vaða reyk í baráttu sinni fyrir því að súlustaðir njóti sömu velvildar og safnaðarheimili.
Ef dómsmálaráðuneyti Íslands heldur því fram enn þann dag í dag að nektardansmeyjar séu ekki “oftast þolendur misneytingar, mansals og glæpa” ættu þeir sem þar starfa að taka sosum einn dag í að afla sér upplýsinga um þessi mál erlendis frá – áður en ráðuneytið úrskurðar að Geiri í Goldfinger sé undantekningin sem sannar regluna. Það kemur sér örugglega vel fyrir Geira að eiga hauk í horni þar sem BÍBÍ í dómsmálaráðuneytinu er.
Húrra fyrir lögreglustjóra LRH og starfsmönnum hans! Það getur verið að BÍBÍ og dómsmálaráðuneytið vilji vernda Geira en LRH vill vernda stúlkurnar og okkur fyrir aðfluttri skipulagðri glæpastarfsemi.
fimmtudagur, 22. maí 2008
Varnarmálastofnun gegn raunverulegum óvinum?
Tuttugu börn misstu mæður sínar af völdum eiturlyfja á síðasta ári, samkvæmt fréttum í Fréttablaðinu sem vitna í Barnavernd Reykjavíkur.
Á síðasta ári var 228 börnum komið í fóstur, 118 í varanlegt en 110 í tímabundið fóstur. Forsjársviftingu er þó einungis beitt í algjörum neyðartilvikum.
Ég hef engar tölur séð um hversu mörg börn misstu feður sína af völdum eiturlyfja á þessum tíma.
Ef mæður hefðu dáið frá tuttugu börnum af völdum fuglaflensu hefði þjóðfélagið án efa brugðist við af öllum kröftum og gripið til varnaraðgerða.
Varnir gegn “terrorisma” verið stórefldar á undanförnum árum þótt hryðjuverk hafi ekki verið framin á Íslandi síðan árið 1615 þegar Ari lögreglustjóri í Ögri og sérsveit hans drápu hóp af baskneskum skipbrotsmönnum á Vestfjörðum.
Sömuleiðis hefur verið sett á laggirnar Varnarmálastofnun sem kostar milljarða þótt ekki sé beinlínis líklegt að Norðmenn eða Danir reyni að leggja Ísland undir sig á nýjan leik.
Hvar eru varnirnar gegn hinum raunverulega “terror”, þeirri plágu sem drepur fleiri ungmenni og skilur eftir sig fleiri munaðarlaus börn en nokkur plága sem hefur herjað á mannkynið síðan á tímum Svartadauða? Væri ekki ráðlegra að berjast gegn raunverulegum "óvinum" en ímynduðum?
miðvikudagur, 21. maí 2008
Furðulegt sakamál
“Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Jónas Gunnarsson í fimm mánaða fangelsi fyrir tvö þjófnaðarbrot. Annars vegar gerðist hann sekur um að hafa stolið súpu að verðmælti 250 krónur í verslun 10-11 í Austurstræti 22. febrúar síðastliðinn, en hann neytti hennar inni í versluninni án þess að borga fyrir hana. Tveimur dögum síðar var hann aftur á ferð í verslun Hagkaupa í Kringlunni þar sem hann stal Chef Marina Conac að veðmæti 769 krónur. Maðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsið árið 2005 og með brotum sínum rauf hann skilorð þess dóms.”
Þessa frétt las ég á dv.is.
Ég þekki ekki téðan Jónas Gunnarsson en ég er reiðubúinn að veðja að þessi vesalings maður er sjúklingur fremur en glæpamaður. Fyrir sosum tvöhundruð árum hefði hann örugglega verið dæmdur til að hýðast 3x27 vandarhöggum – en 27 vandarhögg voru einhver magísk tala sem dómsmálayfirvöld til forna höfðu mikla trú á.
Að dómstólar okkar árið 2008 skuli sóa tíma sínum í að dæma sjúklinga til fangelsisvistar er ofvaxið mínum skilningi. Ég hélt að það heyrði undir heilbrigðisráðuneytið að sjá sjúklingum fyrir aðhlynningu annars staðar en í fangelsum landsins.
1.
Ef ég hef á röngu að standa og Jónas Gunnarsson er forhertur glæpamaður og heill heilsu til líkama og sálar þá er hann örugglega lélegasti glæpamaður veraldar – að lenda í fimm mánaða fangelsi fyrir að stela súpu og súkkulaði að verðmæti 1019 krónur. Og þá væri þjóðþrifaverk að gera gamansama kvikmynd um svo fákænan glæpamann.
2.
Ef hann er hins vegar sjúklingur en ekki glæpamaður væri þjóðþrifaverk að gera alþjóðlega kvikmynd um land sem býr við dómskerfi sem fangelsar sjúklinga í stað þess að beina þeim þangað sem reynt er að líkna þeim.
3.
Ef vandamálið er fátækt en hvorki sjúkdómur né glæpahneigð hvar erum við þá á vegi stödd?
Tvö andlit íslenskra utanríkismála
Það er töluvert mikið í lagt hjá ekki stærra ríki en Íslandi að vera með tvær utanríkisstefnur í einu. Aðra í boði forseta Íslands og hina á vegum utanríkisráðuneytisins og í boði Flokksins.
Persónulega líst mér heldur skár á utanríkisstefnu forsetans um samstarf smáríkja en mikilmennskudrauma utanríkisráðuneytisins og Flokksins um Öryggisráð, virka ímyndarhönnun og réttlætingu á hvaladrápi.
Hins vegar er ég ekki sannfærður um ágæti þess að hafa tvær utanríkisstefnur og efast um að það sé fjárhagslega hagkvæmt að hafa tvær stofnanir í fullu starfi við að framfylgja þeim.
Ef utanríkisráðherrann okkar tæki upp það nýmæli að hafa aðeins eina skoðun á hverju máli gæti vel farið svo að hægt væri að samræma stefnur utanríkisráðuneytisins og forsetaembættisins og fylgja færri stefnum eftir af tvöföldum krafti fyrir hálft verð.
Einnig mundi það gera útlendingum auðveldara að átta sig á Íslendingum ef við tækjum upp á því að segja oinberlega aðeins það sem við meinum og þjóðin vill.
þriðjudagur, 20. maí 2008
Vill gerast Ironmaster?
Sjávarútvegsráðherra: Hvalveiðiákvörðun skerpir ástir í stjórnarsamstarfinu
Í stað þess að láta sér duga hlutverk þorpsfíflsins í ríkisstjórninni virðist sjávarútvegsráðherra nú þyrsta í að taka að sér hlutverk “Ironmaster” í hinum einkennilega BSDM-leik Flokksins við Samfylkinguna.
mánudagur, 19. maí 2008
Ekki bara hvali heldur þjóðina líka...
sunnudagur, 18. maí 2008
Greiningardeildir og Lottóið
"Enginn var með allar lottótölur réttar og verður fyrsti vinningur, sem var rúmar 13,6 milljónir króna, því fimmfaldur næst. Einn var með fjórar tölur réttar auk bónustölu og fær 226 þúsund krónur. Lottótölurnar voru 11, 15, 18, 26 og 27 og bónustalan var 3. Jókertölurnar voru 9 - 5 - 3 - 9 - 3."
laugardagur, 17. maí 2008
Málefnaleg stjórnmálaumræða
Ég er svona heldur sammála Geiri forsætisráðherra um að það sé lítið varið í gagnrýni nema hún sé verulega góð - en þar tala ég náttúrlega sem rithöfundur en ekki sérfræðingur í efnahagsmálum og einn af leiðtogum þjóðarinnar.
Kynlífssjálfboðaliða vantar á Listahátíð
Bjartsýni ríkjandi í lok hveitibrauðsdaga
Samhent stjórnvöld láta nú ermar lafa fram fyrir hendur. Hveitibrauðsdögum er lokið
Minniháttar græðgi
"Vísir, 16. maí. 2008 08:20 Risastórar kyrkislöngur ógna nú lífríki Flórída. Þær geta gleypt hund í heilu lagi og fregnir hafa borist af einni slöngu sem reyndi að gleypa krókudíl." Þetta er nú ekki mikil græðgi miðað við ákveðin fyrirbæri á Íslandi.Risastórar kyrkislöngur ógna nú lífríki Flórída
föstudagur, 16. maí 2008
"Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt..."
Á visir.is er ljómandi skemmtilegt viðtal við sjónvarpsþulu. Þar segir meðal annars: