miðvikudagur, 31. desember 2008

Að spara piparúðann

Það verður að fara að smækka skammtana af piparúða og táragasi við lögregluna. Of margir í því liði halda að þessi efni séu framleidd svo að löggan geti skeytt skapi sínu á almenningi.


Á undanförnum mánuðum hefur lögreglan beitt vaxandi ofbeldi - sem mun fara mjög alvarlega úr böndunum ef ábyrgir aðilar reyna ekki að rifja upp fyrir löggunni að hún er til að þjóna almenningi en ekki til að sprauta á hann piparúða. Jafnvel minniháttar mótmælaaðgerðir vopnlauss fólks kalla á yfirgengilega taugaspennt og ofsafengin viðbrögð, rétt eins og meirihluti lögregluliðsins hafi etið stera sér til óbóta.

"Catch 22" í VR-lýðræði

Til að tryggja stöðugleika í stjórn VR skal Nýársfundur, sameiginlegur fundur trúnaðarráðs og trúnaðarmanna - sem sé mötunauta Gunnars Páls formanns við jólaborðið sem hann lét VR bjóða sveinum sínum - gera tillögu um skipun í öll embætti sem í kjöri eru hverju sinni.

Þetta hlífir VR meðlimum við því að þeir sem eru á móti stjórninni þurfi að ómaka sig til að bjóða sig fram gegn henni, því að "Catch 22" í VR er að þeir sem eru á móti stjórn félagsins eru þar með vanhæfir eða óhæfir til þess að fá að bjóða sig fram á móti henni.

Með blessun og undir eftirliti Alþýðusambands Íslands hefur VR því tekist að koma á hjá sér því sem margir kalla "stöðugt lýðræði" eða jafnvel "óhagganlegt lýðræði".

Lýðræði eða lagarefjar í VR?

Þrátt fyrir að hafa séð villur síns vegar og beðist afsökunar hátt og í hljóði í fjölmiðlum og á fjölmennum félagsfundi VR gat Gunnar Páll Pálsson ekki setið á strák sínum og bauð sig aftur fram til formanns VR 22. des. sl.
Mánudaginn 5. jan. verður svo borinn fram fullskipaður listi með stjórn og trúnaðarmönnum (þessum úr jólaboðinu góða á kostnað annarra félagsmanna þar sem þeir handsöluðu og skrifuðu upp á stuðning við Gunnar Pál). Í nafni lýðræðisins verða á þeim lista aðeins tryggir og trúir, innvígðir og innmúraðir stuðningsmenn formannsins á hinum siðferðilega hálu skóm, vegna þess að pakksatt trúnaðarmannaráð formannsins fer yfir öll framboð og úrskurðar að hætti Salómons hverjir séu hæfir og hverjir óhæfir.
Það er því ekki nema skiljanlegt að fáa andstæðinga formannsins sé að finna á þeim dauðhreinsaða lista, enda er handhægara að hreinsa stjórnir fyrirfram en eftir á.
Ekki er þó víst að allir hinir trúu matgæðingar formannsins né formaðurinn sjálfur sofi vært þar til sjálfkjörið verður í félaginu, því að hópur VR-félaga sem ennþá trúir á Virðingu og Réttlæti er að vinna að mótframboði, sem engum mun koma á óvart að hinir innvígðu boðsgestir formanns komi til með að reyna að úrskurða vanhæft og ógilt.
Ef reynt verður að koma í veg fyrir lýðræðislegt stjórnarkjör í VR af þaulsetuliðinu er samt ekki fokið í öll skjól. 
Hægt verður að boða til nýs félagsfundar sem er æðsta vald í málefnum félagsins og lýsa vantrausti á stjórn og formann - og ef langþreyttir félagsmenn nenna ekki í frekari lagakróka við þaulsetuliðið er einnig með auknum meirihluta hægt að slíta félaginu og mun þá koma í ljós það sem marga fýsir að vita í sambandi við stjórnarathafnir að undanförnu - og einnig munu fást upplýsingar um lífeyrissjóð félagsins sem hefur nú lengi verið í herkví hinna þaulsætnu.

þriðjudagur, 30. desember 2008

Kröpp kjör í Seðló

Laun seðlabankastjóra lækkuð um 15%!!!!

Er þetta óhætt? fara mennirnir ekki bara annað? það er víst svaka samskeppni um starfskrafta svona manna og peningar algert aukaatriði, sagði prófessor og sidekick Hannes Hólmsteinn til að útskýra síðustu hækkun. Það væri flott hjá þeim að fixa á lágu kaupi það sem þeir fokkuðu upp á ofurlaunum!

laugardagur, 27. desember 2008

Líkklæði með vösum

"Einkarekin líkhús" er nýjasta snilldarhugmynd BB dómsmálagenerálsins okkar. Bæði opnar þetta skemmtilega rekstrarform möguleika á huggulegum bílskúrsiðnaði og gefur auk þess langþráða möguleika á því að einkaaðilar bjóði efnaðri viðskiptavinum sínum loksins upp á líkklæði með vösum.

Fullar kæligeymslur hafa áhrif á kreppu

Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar hélt ónefnd kona á Seltjarnarnesi fjölskylduboð á annan dag jóla. Borð svignuðu undan rausnarlegum veitingum og gera reyndar enn, því að mikill afgangur varð af veisluföngunum. Til dæmis má nefna að konan hafði búið til fjóra lítra af "jólasalati" og voru þrír þeirra afgangs þegar veislunni lauk og allir héldu mettir heim til sín að huga að sínum eigin afgöngum frá því á jóladag og aðfangadagskvöld.


Talsvert mörg tonn af hálfetnum hamborgarahryggjum hafa hlaðist upp í kæligreymslum landsmanna yfir hátíðarnar, sömuleiðis fjölbreytilegir sósuafgangar, brúnaðar kartöflur, smákökur af mörgum sortum, kalt hangiket, ógrynni laufabrauðs, bæði heilar kökur og mylsna og svo mætti lengi telja. Þar sem gera má ráð fyrir að næstum annað eins af matarleifum hlaðist upp um áramóti telja margir hagfræðingar að nokkur bið verði á því að sú djúpa kreppa skelli á sem spáð hafði verið strax um áramót, uns þjóðin hefur etið leifafjallið. Að lokum er rétt að koma hér á framfæri hvítöls-viðvörun, en varasamt getur verið á geyma hvítöl á svölum stað, jafnvel svölum, um lengri tíma vegna hættu á gerjun, þannig að sé ekki aðgát höfð getur jólaöl breyst í páskabrugg. Erfitt er að meta hversu lengi ofgnótt þessi varir og hver áhrifin verða á fyrirhugaða þróun kreppunnar.

föstudagur, 26. desember 2008

Elísabet með Haarde-doða?

Elísabet II Bretadrottning þótti heldur daufleg í orðum og framkomu í jólaávarpi sínu að þessu sinni. Þessi 82 ára gamla kona hefur hingað til verið prýðilega spræk, svo að menn velta því fyrir sér hvort hún sé kominn með snert af þeirri deyfð sem í vaxandi mæli er farið að gefa læknisfræðinafnið "Haarde-doðinn".


Ekki er vitað hvernig sá sjúkdómur smitast en helsti snertiflötur milli til að mynda Geirs Harðar og Elísabetar er að þau hafa bæði þurft að eiga samskipti við Gordon Brown.

fimmtudagur, 25. desember 2008

Sameining í vændum?

Nú þarf að nota kyrrð og næði þeirra hátíðisdaga sem í hönd fara og sameina Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk. Sjallarnir hafa séð að sér í ESB-málinu og Samfylkingin í öllum hinum málunum, svo að nú ætti ekki að vera neitt sem torveldar sameiningu þessara samhentu flokka. Hinn nýi stjórnmálarisi gæti heitið Sjálfstæðisfylking eftir sameininguna eða Samstæðisflokkur. Eftir útrásarárin hefur þjóðin öðlast mikla reynslu af sameiningu fyrirtækja og samlegðaráhrifum.


Sorpflokkun og sorphirða ku ganga einstaklega vel eftir hrunið, engin mengandi skjöl hafa lekið út í þjóðfélagið. Skuldauppgjöf er í anda jólanna og lækkun bankastjóralauna úr 1950 þúsundum á mánuði í 1500 hundruð þúsund er mesta jafnréttis- og jöfnunaraðgerð í þjóðfélaginu síðan systurflokkarnir ákváðu að draga ofurlítið úr lífeyrisforréttindum yfirstéttarinnar.

Nú þarf aðeins að fjölga ofurlítið meira í löggunni og búa hana betri tækjum til að geta án eigin áhættu massað mótmælaskríl, og efla varnarmálastofnun og fjölga sendiherrum verulega til dæmis með því að loka geðdeildum víðar en á Akureyri.

miðvikudagur, 24. desember 2008

Jólaóskir

Bestu óskir 

um gleðileg jól,
frið, 
jafnrétti 
og bræðralag
sem mætti þróast 
með hækkandi sól
og fullkomnast í vor
á kosningadag.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Lúxus veikindi skattlögð

Þann lúxus að leggjast inn á hinar dýru heilbrigðisstofnanir í landinu í stað þess að taka magnyl og vatnsglas og þrauka heima hjá sér á nú að skattleggja upp á 360 milljónir til viðbótar þeim ýmsu gjöldum sem nú eru innheimt á heilbrigðisstofnunum.


Það er ekki hlaupið að því að ná fé af sa. 32 þúsund sjúklingum sem leggjast eins og greifar inn á heilbrigðisstofnanir og hefur því verið brugðið á það ráð að reyna á hugkvæmni heilbrigðisráðherra sem fær frjálsar hendur til að leggja ný gjöld á sjúklinga og hækka þau gjöld sem fyrir eru.


Til að forðast að um geðþótta-ákvarðanir verði að ræða kæmi til greina að verðleggja gjöldin eftir sjúkdómsástandi viðskiptavina: því alvarlegri sjúkdómur því hærri gjöld. Ekkert hefur þó verið endanlega ákveðið nema hvað gjöldin skulu hækka verulega svo að fólk sjái sér ekki leik á borði að skrópa frá kreppunni með leggjast í rólegheitum inn á sjúkrahús.

Mesta klúður Íslandssögunnar: Hver er "litli hálfvitinn" sem fokkaði upp Icesave-málinu?

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að sér hafi ekki verið kunnugt um að breska fjármálaeftirlitið hafi verið reiðubúið að heimila yfirfærslu Icesave-reikninga Landsbankans í breska lögsögu gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu.

Þetta var svar við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur sem spurði Geir líka hvort embættismenn eða ráðgjafar ráðherra hafi haft vitneskju um málið. 

„Ekki svo ráðherra hafi verið kunnugt," svaraði Geir.

Nú fer fram örvæntingarfull leit að “litla hálfvitanum” sem klúðraði þessu kostaboði. Spurning hvort bréfið með tilboðinu hafi fyrir misskilning lent hjá íslensku jólasveinunum en ekki þeim í ríkisstjórninni.

mánudagur, 22. desember 2008

Vonir dagsins

Í dag vona ég

1. að mér auðnist að finna jólagjöf handa konunni minni.
2. að mér takist að fá gert við rúðupissið á bílnum.
3. að ég verði ekki tekinn fyrir stöðumælabrot
4. að ég týni ekki listanum yfir það sem ég þarf að gera.
5. að mér takist að láta afgreiða mig í bankanum mínum, Kaupþingi, án þess að fá krampakast af innibyrgðri reiði.
6. að enginn spyrji hvers vegna ég hafi hætt á Fréttablaðinu (ég var rekinn).
7. að bókin mín ÉG EF MIG SKYLDI KALLA sé á besta stað í öllum bókabúðum og seljist eins og heitar lummur.
8. að mér takist að ljúka við allt sem ég þarf að klára fyrir klukkan fjögur svo
9. ég geti fengið mér smárökkurblund þegar ég kem heim úr útréttingum.
10. að mér þyki þetta allt saman skemmtilegt.

sunnudagur, 21. desember 2008

Nú fer að rofa til

Í dag, 21. desember er stysti dagur ársins, nóttin er lengst og birtu nýtur skemmst. 

Vetrarsólstöður voru nú í hádeginu, nákvæmlega klukkan 12:04. 

Hér eftir tekur daginn því að lengja. Á morgun, 22. desember, verður dagurinn 50 sekúndum lengri. 

Ekki er ljóst hver tekur þessar ákvarðanir né í hvers umboði og eigum við þó að heita sjálfstæð þjóð.

Tvísýn jól - spennandi barátta góðs og ills

Nú verður æsispennandi að sjá hvort boðskapur og andi jólanna ná raunverulega að smjúga inn í sálir og hjörtu mannanna á þeirri hátíð sem nú fer í hönd; hvort hér sprettur eins og af sjálfu sér upp nýtt þjóðfélag byggt á ævafornum gildum um samábyrgð og samstöðu


Eða hvort þetta tal um ást, náungakærleika, heiðarleika og ábyrgð fellur eins og vatn á gæs, ellegar brúnku-tan á fölan verðbréfadreng á köldum vordegi; hvort menn hrista þetta af sér og fleygja boðskapnum út með umbúðapappírnum utan af jólagjöfunum.

Spennandi að sjá hvort þessi ævaforni leikur skilar einhverjum árangri.


laugardagur, 20. desember 2008

Jólalegt eða kreppulegt

Svakalega er jólalegt núna. 


Svo skilst manni á veðurfræðingum að það sé rok og rigning á leiðinni og von á verulega kreppulegum jólum, rétt eins og góðviðrið í hinu gullna sólskini útrásarinnar reyndist skammgott og við tók það gjörningaveður sem nú varir.

fimmtudagur, 18. desember 2008

Stjórnarskipti í Jólalandi

Nú eru farnir að tínast til byggða þeir góðu drengir sem munu skipa ríkisstjórn landsins og sitja að völdum yfir hátíðirnar frá aðfangadegi fram á þrettánda. Svo er sagt að ekki muni allir hinir lúnu og löskuðu meðlimir þeirrar ríkisstjórnar sem er á leið í jólafrí eiga afturkvæmt í embætti að loknu fríi. Rætt er um að tveir óhæfir ráðherrar sem mjög oft hafa ofboðið þjóðinni verði látnir hætta; þeir Björn Bjarnason generallissímó og Árni Mathiessen sem verið hefur pólitískt lík síðan hann gerði fyrrnefndum Birni þann greiða að skipa ákveðið stórættað ungmenni í héraðsdómaraembætti umfram marga hæfa umsækjendur.


Til að vega upp þá pólitísku skekkju sem ríkisstjórn G. H. Haardes verður fyrir af því að missa tvo óhæfa ráðherra er einnig rætt um að reka tvo prýðilega hæfa ráðherra til að viðhalda pólitísku jafnvægi innan stjórnarinnar. Hinir hæfu ráðherrar sem helst kemur til greina að fórna á altari helmingaskipta eru Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra sem hefur unnið sér það til óhelgi að nenna ekki í heilt ár að heimsækja Davíð Oddsson á sjúkrastofu hans undir Svörtu loftum, og Þórunn umhverfisráðherra sem hefur þá tvo pólitísku veikleika að vera kona og umhverfisráðherra.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Ný nöfn, nýir bankar, ný einkavæðing

Enginn var fegnari en ég þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma. Hvernig staðið var að því að velja kaupendur er svo önnur saga. Ég hélt að með einkavæðingunni myndu þessar þjónustustofnanir í eigu landsmanna breytast í nútímafyrirtæki úr þeim köstulum stéttaskiptingar, pólitískrar mismununar, mútugreiðslna og annarra forneskjulegra sjúkdóma sem þjökuðu gömlu ríkisbankana.


Ég sting upp á því að næst þegar hugað verður að einkavæðingu banka verði annaðhvort valdir úr þjóðskrá þrír valinkunnir sómamenn/konur og þeim gefnir bankarnir (án listasafna) og falið að reka þá sem þjónustustofnanir við þjóðina - að viðlögðu 16 ára fangelsi. Önnur einkavæðingarlausn væri sú að gera banka með sömu skuldbindingum að lottó vinningi þrjár vikur í röð, en þannig kæmu inn einhverjir peningar. Þriðja leiðin gæti svo verið að senda hverju mannbarni í ríkinu eitt hlutabréf sem viðkomandi mannsbarn gæti svo braskað með eftir aðstæðum og innræti sínu.

Reynslan hefur leitt í ljós að handvaldir kaupendur reynast ekki vel. Notum aðrar aðferðir næst. En áður en bankarnir vera einkavæddir á ný þyrfti að velja þeim öflugri nafngiftir en nú tíðkast: Nýji Glitnir, Nýji Landsbanki og Nýja Kaupþing eru ekki beinlínis sögufræg nöfn úr fortíðinni eins og t.d. Fenrisúlfur Banki, Naglfari Banki og Miðgarðsormur Banki.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Siðsamleg sigling Lúðvíks

Svo virðist sem umtöluð sjóferð Lúðvíks með Thee Viking á sínum tíma hafi átt sér stað þegar mellurnar og bankastjórarnir voru á frívakt og karlkyns hásetar sigldu bátnum í nýtt bátalægi. Má því telja að greiðaskuld Lúðvíks við Baug hafi verið innan siðsamlegra marka.

mánudagur, 15. desember 2008

Óþarfi að bíða eftir evrunni

Nú er búið að ákveða að aftengja vísitölubætur á búvörusamninga. Úr því að hægt er að aftengja bændur og kvikfénað frá vísitölu getur gjaldmiðillinn okkar ekki lengur verið því til fyrirstöðu að stíga skrefið til fulls og frelsa almenning úr vísitölugapastokknum.


Úr því að krónan dugir sem gjaldmiðill fyrir ríkið til að hætta að borga þegnunum  vístölutryggingu hlýtur að vera óþarfi að bíða eftir því að við tökum upp evru til að losa þegnana við að borga þennan okurskatt.

Ragnar og Þorvald í ráðherraembætti

Ef það stendur til að reyna að gera andlitslyftingu á ríkisstjórninni væri tilvalið að taka valinkunna fagmenn inn í fjármálaráðuneyti (Þorvaldur Gylfason) og dómsmálaráðuneyti (Ragnar Aðalsteinsson); flokkarnir gætu svo notað viðskipta- og umhverfisráðuneyti til að svala metnaði ungs alþingisfólks á uppleið.

Egglos

Eftir myndum að dæma af egginu sem Ólafur Ragnar varp í fang Hillary er ekki að sjá að mikið sé bruðlað á Bessastöðum, því að eggið lítur út fyrir að vera heimatilbúið föndur eða af vernduðum vinnustað.


Það er ekki hægt að lá Hillary að hún skuli ekki hafa treyst sér til að setja upp þennan ófögnuð heima hjá sér, enda þekkja margir það vandamál sem hlýst af því þegar nánir ættingjar eða kærir vinir fara að velja handa manni heimilisskraut í óvenjulegum sjetteringum að sínum smekk.

Þótt nú séu samdráttartímar ætti forsetaembættið þó ekki að hika við að bjóða í eggið, allt upp að 51 dollar, og fela Sorpu að losa veröldina við þetta vandræðaegg með áfestu skjaldarmerki þjóðarinnar og innsigli forsetaembættisins. 

sunnudagur, 14. desember 2008

Ef...

Ef framsóknarmenn bæru gæfu til þess að hlusta á það sem Eygló Harðardóttir hefur að segja um samvinnu og samvinnuhugsjónina gæti verið að flokknum yrði hleypt úr skammarkróknum sem þjóðin hefur sett hann í.


Og ef framsóknarmenn hefðu bein í nefinu myndu þeir biðja Eygló að gefa kost á sér í formannskjöri og leyfa öllum litlu formannsframagosunum að sitja hjá og læra af henni um stund.

Ef... Þá gæti framsókn átt sér viðreisnar von.

laugardagur, 13. desember 2008

Um slægð og leynd

Það er ekki skrýtið að tiltrú fólks á stjórnmálaflokkum sé í sögulegu lágmarki nú um stundir. 


Nú þegar hörmungar ganga yfir vill fólk fá að vita á hreinskilinn og umbúðalausan hátt hvað það er nákvæmlega sem gerðist og er að gerast og hvað stendur til að gera okkur til varnar.

Að óska eftir hreinskilni frá stjórnmálaflokkum er svona álíka skynsamlegt og að fara fram á að töframenn á sviði útskýri töfrabrögð sín og leyfi áhorfendum að skoða upp í ermar sínar. Þau miðaldastjórnmál sem hér tíðkast byggjast að mestu leyti á slægð og leynd og misvísandi upplýsingum, sem sé undirferli og leynimakki en ekki hreinskiptni og heiðarleika. Starfsstolt og sjálfsmynd stjórnmálamanna byggist á því að geta komist í gegnum allar aðstæður án þess að segja einfaldan sannleikann og án þess að ljúga beinlínis. 

Þessar fornu leikreglur kunna að bjóða upp á skemmtilegar fléttur fyrir þátttakendur í stjórnmálaleiknum, en þolendum er flestum farið að ofbjóða hálfsannleikur, hvít lygi og smáskreytni, launung og dularfullar þagnir.

Vonandi verður sá lærdómur einhvern tímann dreginn af framkomu íslenskra stjórnmálamanna nú þegar öll spjót standa á þjóðinni að sannleikurinn sé sagna bestur - og að meðaltrúgirni og meðalgreindarvísitala kjósenda hafi verið vanmetnar stærðir í fílabeinsturni stjórnmálanna.

Að deila ábyrgð - ekki völdum

Af hverju er ég að þessu tuði? Jú, það er vegna þess að mig langar til að Ísland minna æskudrauma rætist og rísi upp úr þeim drullupolli spillingar og samtryggingar sem það hefur lengi verið að velkjast í.


Er ég bjartsýnn? Nei, ekkert sérstaklega, en ég má ekki til þess hugsa að Félagi Naópleón og félagar ríki hér til eilífðar. Félagi Napóleón í þessu sambandi er Flokkurinn og félagar hans eru ístöðulausu flokksræksnin sem hann leiðir að háborðinu hvert af öðru til að  deila með sér ábyrgð - ekki völdum.

föstudagur, 12. desember 2008

Alveg táknrænt fyrir Sollu og Samfó

Ingibjörg Sólrún segir að hátekjuskattur sé bara táknrænn. 


Ég vissi að hún þorir hvorki nú né síðar að blaka við misrétti hér á landi en hélt þó að hún vogaði sér að sýna jafnaðarvilja sinn með táknrænum hætti, enda virðist Samfylkingin einkum beita sér fyrir táknrænum velvilja til hinna vinnandi stétta.

Vaxtaogvísitöluskrúfstykkið og heilög Jóhanna

Það buna milljarðar í boðaföllum, tugum og hundruðum saman upp úr þeim sem tala um að bjarga efnahagslífinu, bönkunum með nauðsynlegum erlendum lántökum.

Hins vegar er skrúfað fyrir lekann svo að peningarnir virðast leka í dropatali til þess að verja heimilin og almenning í landinu fyrir gjaldþroti í vaxtaogvísitöluskrúfstykkinu, en í því er þorri þjóðarinnar fastur sem í greipum heljar.
Sú einfalda lausn að fresta eða frysta vísitölubætur í ákveðinn tíma fæst ekki rædd af alvöru og varla er minnst á þá lágmarkssanngirni að hámarka vísitölubætur við 4%, þ.e.a.s. efri vikmörk Seðlabanka varðandi verðbólgu sem hann á að halda í skefjum.
Það er ekki bara ósanngjarnt heldur glæpsamlegt að láta almenning súpa seyðið af því að stórbokkar í fjármálum og pólitík misstu veruleikaskynið í langvarandi græðgiskasti. 
Sá stuðningur sem stjórnvöld hafa rætt um að sýna almenningi í landinu er í besta falli táknrænn eða til málamynda. Nú er tími heilagrar Jóhönnu runninn upp. Þjóðin þarfnast þín.

fimmtudagur, 11. desember 2008

V.R. og LIVE blóðsugurnar

Mér reikningsgleggri menn  hafa áhyggjur af því að tap Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi verið ennþá hrikalegra en 14%  - heldur rúm 19%!

Það er rétt að halda því til haga að heiðursmaðurinn Gunnar Páll Pálsson situr enn sem formaður VR þrátt fyrir að hafa tekið þátt í skuldauppgjöf Kaupþingsgæðinga. Mánaðarlaun hans eru um 1700 þúsund krónur. 
Spurning er hversu lengi þessi maður á að vera blettur á verkalýðshreifingunni almennt séð og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur sérstaklega.
Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs VR heitir Þorgeir Eyjólfsson. Mánaðarlaun 2,5 milljónir. 
Spurning hvort ekki sé kominn tími til að þeir svarabræður Gunnar Páll og Þorgeir finni sér önnur störf á öðrum launatöxtum, til dæmis VR-töxtum.

Ástæða fyrir afskiptaleysi af glæpum og klúðri

Eitt undarlegasta lögmál sem sálfræðingar hafa fundið er sú staðreynd að því fleiri vitni sem eru að glæp þeim mun minni líkur eru á því að einhver skipti sér af framferði glæpamannsins eða glæponanna.

Stundum fer þó kurr um áhorfendahóp ef glæpurinn er sérlega klaufalegur, saman ber kurr þjóðarinnar og loks inngrip hins hugumstóra forseta vors í fjölmiðlafrumvarp Geðvillingsins.
Sá glæpur virkar þó í dag eins og lélegur brandari miðað við þá spillingarsúpu sem verið að sjóða handa þjóðinni í öllum eldstæðum fjármála- og framkvæmdavalds.
Helst gæti það orðið Íslendingum til huggunar að forstjóri samráðsfyrirtækisins Shell (afsakið ESSO) sem nú kallast N1 ætlar að fórna sér fyrir þjóðina og gerast ráðherra - að höfðu samráði við Valhöll að sjálfsögðu.
Ástæðan fyrir því hversu fáir sýna því áhuga að grípa inn í þá skipulögðu starfsemi glæpsamlegrar vanhæfni sem hér fer fram er sú að manni fallast hendur við það eitt að líta í kringum sig og sjá ekkert nema glæpi eða klúður í öllum áttum.

miðvikudagur, 10. desember 2008

Svarthol í Lúxemborg

"Risavaxið svarthol hefur fundist í miðju Vetrarbrautarinnar sem sólkerfi okkar tilheyrir. Þýskir stjarnfræðingar fundu þetta svarthol en það mun vera fjórum milljón sinnum þyngra en sólin. Þyngdarafl svarthola er það öflugt að jafnvel ljós sleppur ekki úr greipum þeirra."


Skilanefndir bankanna telja hið nýja svarthol fyrir utan lögsögu íslenskra skattayfirvalda líkt og dótturfélög íslenskra banka í Lúxemborg. Almenn ánægja ríkir með hversu leyndarmál í veröldinni eru mörg og órannsakanleg.

þriðjudagur, 9. desember 2008

Lambsverð eða ullarreyfi?

Nefskattur heitir það töframeðal sem Þorgerður Katrín hefur fundið til að rétta af reksturinn hjá RUV, og takmarka um leið auglýsingagræðgi stofnunarinnar. Ég hef heyrt talað um átján þúsund krónur á ári fyrir einstakling og þrjátíuogsex þúsund krónur fyrir hjón. Þarna er ansi hátt reitt til höggs, eins og hjá annarri greindri konu sem notaði barefli til að rota flugu sem hafði tyllt sér á nef bónda hennar. 

Það er ekki á allra skattgreiðenda færi að færa opinberu hlutafélagi lambsverð á ári hverju fyrir þá bragðdaufu húsbændahollustu súpu sem er dagskrá RUV. Sanngjarnara væri að fara fram á að stofnunin fengi sem svarar verðgildi eins ullarreyfis á ári frá hverjum skattþegni til að launa sanngjarnlega langdregnar lopateygingar og magnþrungið metnaðarleysi - sem á sér aðeins undantekningu í launa- og bifreiðasmekk útvarpsstjórans.

laugardagur, 5. júlí 2008

Skuggi Skuggason í Skuggasundi. Opið bréf til ríkisstjórnar Íslands

Ég hélt að sá tími myndi aldrei koma að ég þyrfti að fara á mótmælafund til að biðja íslensk stjórnvöld að stilla sig um að ata hendur sínar saklausu blóði. En það átti fyrir mér að liggja að fara í mótmælastöðu upp í Skuggasund, þar sem dómsmálaráðherra hefur skrifstofu. Ég er ekki að spauga. Dómsmálaráðuneyti Íslands stendur við Skuggasund!


Sá úrskurður að flytja úr landi - frá eiginkonu og nýfæddu barni - saklausan mann sem á yfir höfði sér að verða drepinn í heimalandi sínu er ógnvænlegur. Ekki síst vegna þess að huggun mín og margra annarra síðustu hálfa öld hefur verið sú, að þótt Flokkurinn sem mótað hefur íslenskt þjóðfélag víli ekki fyrir sér að tortryggja, uppnefna, njósna um, hefta eða eyðileggja starfsframa þeirra sem þora að andmæla vilja hans séu menn samt ekki í beinni lífshættu. Með orðinu "uppnefna" á ég við það meiðyrði að kalla andstæðinga sína "kommúnista". Aðferð sem reyndist árangursrík í skammvinnu galdrafári McCarthys í Bandaríkjunum.

Nú er svo komið að Flokkurinn virðist ekki lengur víla fyrir sér að senda saklaust fólk í böðulshendur. Úr því að "Lebensraum" er orðið svona takmarkað á Íslandi vil ég gera stjórnvöldum það tilboð að flytja mig til Ítalíu og bjóða mig fram sem gísl í staðinn fyrir Paul Ramses; að hann geti fengið að sjá litla barnið sitt aftur, en ég víki í staðinn úr skugga hinnar helbláu handar.

Nýjasta hugsjón Flokksins er að leynileg lögregla fái "framvirkar rannsóknarheimildir". Sem sé heimildir til að rannsaka manneskjur eftir geðþótta - án þess að grunur liggi fyrir um að þær hafi gerst brotlegar við lög eða hafi lögbrot í hyggju! Ég veit ekki af hverju fólk kaus Flokkinn, en það var ekki til þess arna sem þjóðin veitti Samfylkingunni það tímabundna umboð sem hún hefur.

Ég mótmæli mannhatri og miskunnarleysi í nafni þeirra kynslóða sem að mér standa. Kynslóða sem hafa lifað og dáið frá landnámstíð í trú á frelsi og framtíð þessa lands og allra heimsins barna. Allar komu þær kynslóðir naktar í heiminn og enginn krafði þær um vegabréf til að fá að lifa. Farðu burt, Skuggi Skuggason í Skuggasundi. Farðu burt, helbláa hönd!

Virðingarfyllst,
Þráinn Bertelsson

Þetta bréf verður einnig birt sem bakþanki á baksíðu Fréttablaðsins mánudaginn 7. júlí.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Að hika er sama og tapa

Nú eru daprir dagar hjá Samfylkingunni. Allir sjá að eina glóran upp á framtíðina að gera væri að slíta stjórnarsamstarfinu við Flokkinn - áður en vinstri sinnaðir stuðningsmenn og Evrópusinnar missa þolinmæðina endanlega.


En þar sem formaður Samfylkingarinnar baðar sig í sólinni í Sjarm-el-Sjeik er sú hugsun ógeðfelld að hrekjast af fyrsta farrými utanríkisráðuneytisins aftur í almenning stjórnarandstöðu. Því mun þessi stjórn lafa þar til sósíaldemókratar í Fylkingunni hafa náð völdunum af þessum formanni - sem getur ekki hugsað sér að slíta notalegu stjórnarsamstarfi við Flokkinn og áhugaverðum samtölum við Al-Assad bara til að Steingrímur verði utanríkisráðherra - eða jafnvel Guðni.

Stjórnarslit þýða ekki endilega að boðað verði til nýrra kosninga, heldur aðeins að Flokkurinn myndi nýja ríkisstjórn með lysthafendum og það er nóg framboð á mannskap í ráðherraembætti.

Flokkapólitík snýst ekki um hvað sé þjóðinni fyrir bestu. Í næstu kosningum gæti Samfylkingin unnið stærsta kosningasigur Íslandssögunnar. En kjarkinn vantar til að bíða færis. 

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Einn smokkur á mann!

Í lækningaskyni við fársjúkan fasteignamarkað fá kaupendur niðurfelld stimpilgjöld af sinni fyrstu íbúð frá og með í dag.


Þetta er jafn gáfuleg og árangursrík aðferð og að ráðast gegn útbreiðslu kynsjúkdóma með því að afhenda öllum einn smokk ókeypis.

Sem sagt táknræn aðgerð.

föstudagur, 27. júní 2008

Skrapp frá

Biðst afsökunar á að hafa skotist á bloggið úr sumarfríinu. Sá að það var ekki tímabært. Guðmundur Gunnarsson er ekki orðinn forseti A.S.Í. svo að það er ekki um annað að ræða en skreppa frá aftur.

Óviðkunnanleg orðnotkun: "okur" og "spilling"

Það hefur viljað bera við á Eyjunni að undanförnu að íslensk málhefð sé rofin og fólk slái um sig með erlendum nýyrðum eða nýyrðum af erlendum uppruna sem gefa kolranga ímynd af stöðugu og stöðnuðu þjóðfélagi okkar.

Dæmi:
Á Eyjunni er nú farið að fjalla um svonefnda "spillingu" með dæmum og skýringarmyndum.
Fyrir utan hversu særandi þetta er fyrir þá sem málinu tengjast er óþarfi að nota orðið "spilling" yfir gamlar íslenskar siðvenjur sem löngum hafa verið stundaðar með góðum árangri hér á landi undir öðrum nöfnum, svo sem "tengslanet", "fjölskyldufyrirtæki", "samvinna" o.s.frv.
Annað dæmi:
Hið gildishlaðna orð "okur" virðist vera farið að ryðja sér rúms í máli okkar og getur svo óvarleg orðnotkun vakið misklíð og deilur sem helst ætti að varast til að viðhalda stöðugleika þjóðfélagsins. Hingað til hefur orðið "verðlag" og orð eins og "eðlileg verðmyndum" verið notuð til að lýsa þeim mikla kostnaði sem kaupmenn þurfa að standa skil á til að geta falboðið vörur sínar á íslenskum markaði.
Hin nýja orðnotkun hefur vakið óró og ugg í samfélaginu um að ekki sé allt með felldu alstaðar og meira að segja hafa verið send út dreifibréf til þjóðarinnar og skorað á hana að neyða gömul og gróin olíufélög út í verðsamkeppni - sem á endanum hlýtur að leiða til þess að neytendur verði látnir bera kostnaðinn af tiltækinu.
Í þjóðfélagi þar sem allir eru vinir og jafnvel einkavinir hefur mikið að segja að landslýður og þá fyrst og fremst blaðamenn vandi orðnotkun sína hér eftir sem hingað til.
Annars kynni eitthvað að breytast.

laugardagur, 14. júní 2008

Fjarri daglegu bloggi

Ágætu lesendur. 


Nú er ég að fara í nokkurs konar sumarfrí. Ferðinni er heitið inn í sjálfan mig á stað sem er all langt fjarri daglegu bloggi.

Ég veit ekki hvað ég verð lengi í burt en ég vona að Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins verði orðinn forseti A.S.Í. þegar ég kem aftur.

Svo vona ég að bankarnir hafi tekið 500 milljarða lán erlendis og stofnað varasjóð til að geta hjálpað viðskiptavinum sínum til að borga af hærri lánum en bankarnir hefðu átt að plata þá til að taka. Einnig að ríkisstjórnin fari jafnsparlega með peningana mína og ég ætlaði að gera sjálfur áður en hún tók þá af mér.

Birtan gæti ykkar.

föstudagur, 13. júní 2008

Ruglast á dóna, söngvara, forsætisráðherra og fréttamanni

"Geir segir fréttamann dóna, vill ekki veita dónum óundirbúin viðtöl"


Þegar ég sá þessa fyrirsögn datt mér ekki annað í hug en að blaðamenn væru að fara offari við Geir Ólafsson Sinatra-söngvara sem þeir hafa stundum leikið grátt að undanförnu. Við lestur greinarinnar kom þó í ljós að það var Geir Haarde forsætisráðherra sem var að væla undan "dónum" í hópi fréttamanna sem vilja að hann svari óundirbúnum spurningum - um efnahagsmál þjóðarinnar - ekki sitt eigið einkalíf.

Stjórnmálamenn sem skeyta skapi sínu á fréttamönnum þegar þeir hafa ekkert til málanna að leggja ættu að hugleiða að skipta um starf til að geta forðast dóna af því tagi sem venjulegt fólk kallar fréttamenn. 

Geir geðstirði þyrfti ekki að hafa áhyggjur af ásókn fréttamanna ef hann hefði ekki álpast til þess að klifra hæst upp í sleipa staurinn.

Back to basics

Öllu fer fram. Stundum með því að fara  oufrlítið aftur.  Nú eru heljarmenni úr ofbeldis- og átakagreinum sest við sjúkrabeð geðsjúklinga og þurrka þeim um þvalt ennið og reka vatnsrör inn í munnvik þeirra geðveiku svo að þeir ofþorni ekki.

Þetta er gaman að heyra. Sérsveitin fer þá væntanlega drepa tímann með því að fara í reiðtúra með fötluð börn, færa öldruðum matarbox og svo framvegis í stað þess að sprauta gasi á fólk.

Dómarar kveða upp salómonsdóma um skilorðsbundið fangelsi yfir Baugsmönnum, bara til að áminna þá um að enginn sé hafinn yfir lög og rétt í landinu, og eftir sjö ára rannsókn og ofsóknir er ekki hægt annað en segja að þetta sé hófsamur dómur. Hvort hann er réttur veit ég hins vegar ekki. Dómar eru sjaldnast alveg réttir.

Þessi milda þróun aftur til þess tíma þegar hugsað var um hagsmuni fólks en ekki fyrirtækja mun sennilega halda áfram og úr því að ríkisstjórnin er úrræðalaus fara stór fyrirtæki eins og bankar að stunda súpugjafir handa almenningi sem ekki getur staðið í skilum með afborganir af húsnæðislánum.

Lág laun í Seðlabankanum virðast við því fjötur um fót að hægt verði að ráða almennilega sérfræðinga að bankanum. Þangað til væri gott að láta brjóstvitið ráða og hvíla hagfræðina.
Og lyfsalar eiga vonandi eitthvað gott í fórum sínum til að hressa upp á flóttalegan ólundarsvip ríkisstjórnarinnar.

Það tekur soldinn tíma að koma á mannúðarstefnu í þjóðfélagi sem skipti út mannúðarstefnu fyrir peninga. Það er svo skratti gaman að dansa kringum gullkálfinn.

Kreppa er verkefni sem þarf að leysa. Að fá lánaða peninga til að dansa kringum gullkálfinn er grímuball sem skilur eftir sig heilmikla timburmenn.

Dómskerfi sem þarf að endurreisa

Það vildi ég óska að ég deildi þeirri bjartsýni með Össuri Skarphéðinssyni að sjá afgreiðslu dómskerfisins á Baugsmálinu sem sönnun þess að dómskerfið virki - og að við eigum engan Henry II til að hvísla að framagjörnum riddurum sínum að mikið væri gott ef þeir hjóluðu í einhvern sem fer í taugarnar á valdinu.


Munurinn á Baugsmálinu og Beckett felst í því að Baugsmenn tóku til varna af öllum mætti, en það gerði Beckett ekki, og það kostaði hann lífið.

Hinrik II var líka nógu mikill maður til að viðurkenna að hann hefði gert rangan hlut þegar hann tautaði "Who will rid me of this turbulent priest" í fylleríi.

Það munu ekki þeir gera sem spönuðu lögregluyfirvöld á Íslandi upp í að leggja af stað í hefndarleiðangur. 

Hvað dómskerfið áhrærir þá mun ég taka það sem sönnun þess fyrir því að það langi til að þjóna réttlætinu þegar dómsmorðið sem kallað var "Geirfinns- og Guðmundarmál" verður tekið upp á nýjan leik og reynt að bæta þeim sem fengu að kenna á virðingarleysi dómskerfisins fyrir mannréttindum það sem þeir hafa orðið að líða. Helst meðan þetta fólk er enn á lífi.

Ennfremur þegar farið verður að skipa dómara eftir hæfni, ekki eftir tengslum við spillta stjórnmálamenn.

sunnudagur, 8. júní 2008

Til hamingju, Hanna Birna - ef...



Miðað við frammistöðu þeirra kvenna sem gegndu síðast embætti borgarstjóra er líklegt að Hanna Birna geti staðið sig betur.

Miðað við frammistöðu þeirra karla sem gengdu síðast embætti borgarstjóra er líklegt að Hanna Birna geti staðið sig betur.

Hanna Birna er greind og dugleg þarf bara að muna að hún er þjónn fólksins sem býr í Reykjavík, en aðeins félagi í Flokki fyrirtækjanna.


Það getur verið - og gæti jafnvelt verið líklegt að Hanna Birna verði vinsæll Borgarstjóri. 

Hitt er þó enn líklegra að Flokkurinn bíði þess seint bætur að hafa gleymt sínum eigin kosningareglum við að losna við Villa etir 28 starfsár. Villi var lýðislega kjörinn til að leiða borgarstjórnarlista íhaldsins allt þetta kjörtímabil - ekki bara þangað til tækist að losna við hann. Svoleiðis er lýðræðið nefnilega.

laugardagur, 7. júní 2008

Pollýönnu-gaspur eða alvara?

Formaður Samfylkingarinnar telur "óhjákvæmilegt að íslensk stjórnvöld dragi lærdóma af niðurstöðu Baugsmálsins. Dómur Hæstaréttar bendi til þess að umfang rannsóknarinnar og ákæranna hafi alls ekki verið í samræmi við tilefnið."


Það er fallegt af stjórnmálamanni að vera námfús og vilja læra af mistökum, ekki síst mistökum annarra, en væri ekki upplagt að slá athugun á því hver ber ábyrgð á þessum fáránlega málarekstri saman við námið í að læra af mistökum?

Á sem sagt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að svonalagað endurtaki sig? 

Eða er þetta bara almennt Pollýönnu-gaspur sem þýðir að þegar eitthvað  gerist séu allir amk. reynslunni ríkari?

föstudagur, 6. júní 2008

Baugsmálið ***** fimm stjörnur

Sú atburðarás sem hefur verið nefnd Stóra Baugsmálið hefur nú runnið gegnum Hæstarétt. 


Eins og í góðri og dramatískri Íslendingasögu standa nú öll járn á hinum sakfelldu. Eftir sex ára samfelldar ofsóknir dómsmálayfirvalda er hefur aðeins tekist að festa gula stjörnu í jakkaboðung þeirra sem ætlunin var að ryðja úr vegi.

Dómstólaorustu Baugsmála er því lokið og nú tekur við lokakaflinn í þessu mikla drama. Samkvæmt reglum Aristótelesar um dramatíska frásögn ætti lokakaflinn að taka um tvö ár og verða æsispennandi, þar sem saklausir fá uppreisn æru og hinir seku fá makleg málagjöld.

En í svona stóru og nýstárlegu raunveruleikaverki er ómögulegt að segja hvað lokaþátturinn verður langur.

Sem íslenskt réttardrama fær Stóra Baugsmálið fimm stjörnur af fimm mögulegum.

Og við bíðum spennt eftir sjöundu seríunni sem vonandi færir okkur hægt og bítandi að lokaniðurstöðu þessa máls.

mánudagur, 2. júní 2008

Klökkir Moggamenn kveðja Kalda stríðið

Í allmarga áratugi hefur Morgunblaðið verið samkvæmt þeirri skoðun sinni að íslenskt þjóðfélag væri því betur komið sem það frétti minna af andstæðingum Sjálfstæðisflokksins eins og vesaling mínum og mörgum fleirum sem kunna ekki að bugta sig fyrir hátign Flokksins.


Þar í móti kemur hef ég líka lengi verið þeirrar skoðunar að íslenskt þjóðfélag væri mun betur komið án Moggans.

Í dag lætur Styrmir Gunnarsson af ritstjórastarfi á Mogganum og við tekur Ólafur Stephensen.
Styrmir lét þess getið í kveðjuræðu sinni að Kalda stríðinu væri nú lokið og nú rynnu upp "aðrir vinsamlegri tímar."

Tíminn leiðir í ljós hvaða sannleika þessi orð innihalda.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði orðið mun skárri flokkur ef Styrmir Gunnarsson hefði verið formaður hans en ekki ritstjóri Moggans. 

Mig langar að senda Styrmi mínar bestu framtíðaróskir.

Sömuleiðis Ólafi Stephensen hinum nýja ritstjóra í þeirri von að hann geri orðið "sjálfstæði" að einkunnarorði blaðsins.

föstudagur, 30. maí 2008

HOLLVINAFÉLAG EINKABANKANNA

Jæja, þá er Alþingi búið að sameina alla íslensku þjóðina í HOLLVINAFÉLAG EINKABANKANNA með því að samþykkja að kaupa 500 milljarða líftryggingu handa þeim sem viðskiptavinirnir borga.

Ég er nú ekki tiltakanlega félagslyndur maður og finnst orðið nóg um, því að fyrir var ég í HOLLVINAFÉLAGI BÆNDA, HOLLVINAFÉLAGI ÚTGERÐARMANNA og HOLLVINAFÉLAGI ALDRAÐRA RÁÐHERRA OG ALÞINGISMANNA.
Einhvern veginn hafði ég ímyndað mér að félagshyggja gæti verið öðruvísi.

fimmtudagur, 29. maí 2008

Maðksmogin stjórnsýsla



“Forsætisráðherra ætti að hreinsa þann blett sem hefur fallið á íslenska stjórnsýslu og réttarfar, og biðjast afsökunar á hlerunum stjórnvalda á öldinni sem leið. Þetta er álit Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna...” Þessa frétt getur að líta á ruv.is.

 

“Dómstólar veittu heimild til að hlera síma á 32 heimilum á árunum 1949-1968, í flestum tilvikum að beiðni Bjarna Benediktssonar, þáverandi dómsmálaráðherra. Kjartan Ólafsson, einn þeirra sem hlerað var hjá, hefur lagt til að stjórnvöld biðjist afsökunar á hlerununum, en Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra - og sonur Bjarna Benediktssonar, vísar því á bug.”

 

“Fram kom í máli Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, á Alþingi í kvöld að óþekkt væri að beðist væri afsökunar á úrskurðum dómara og það væri dæmalaus óvirðing við þá dómara sem hlut áttu að máli að láta líta svo út sem þeir hefðu verið viljalaus verkfæri dómsmálaráðherra hvers tíma.”

 

Að hlera síma alþingismanns er stjórnarskrárbrot og að hlera síma almennra borgara án sannfærandi rökstuðnings er lögbrot.

Dómarar áttu á þessum tíma og eiga enn embætti sín undir geðþótta stjórnmálamanna, rétt eins og þeir dómarar í Sovétríkjunum sem kváðu upp þá dóma sem stjórnvöld og Stalín vildu heyra. Það hefur gerst í fleiri löndum en á Íslandi að manneskjur, jafnvel dómarar, láti undan þrýstingi.

Þetta veit Björn Bjarnason jafnvel og allir aðrir og hann veit líka að ábyrgð stjórnmálamannanna er mest. Engu að síður skýtur hann dómurum eins og skildi framfyrir stjórnmálamennina.

Það er maðkur í íslenska eplinu. Þetta er maðksmogin stjórnsýsla. 

Danir buðu okkur maðkað mjöl. Sjálfstæðisflokkurinn þröngvar upp á okkur maðkaðri stjórnsýslu.



þriðjudagur, 27. maí 2008

Vanhæft epli!


Varðandi hleranamálið og eplið sem fellur ekki langt frá eikinni hlýtur sú spurning að vakna hvort eplið sé ekki vanhæft til að fjalla um hleranamálið vegna náins skyldleika við eikina?


Til að forðast gáfulegar ábendingar um að epli vaxi ekki á eikum skal það tekið fram að í orðatiltækinu "eplið fellur sjaldan langt frá eikinni" merkir "eik" að sjálfsögðu "eplatré".

Svona er nú íslensk tunga óvísindaleg stundum. Skyldi siðferðisvitundin samt vera í lagi?


Eplið biðst ekki afsökunar á eikinni



"Non, je ne regrette rien" (Nei, ég iðrast einskis) þennan frægasta afneitunarsöng heimsins söng Edith Piaf á sínum tíma og nú tekur Bíbí okkar hressilega undir viðlagið:

B B dómsmálaráðherra telur ekki að íslenska ríkið þurfi að biðjast afsökunar vegna símahlerana á árabilinu 1949–1968. Hann er þeirrar skoðunar að telji einstaklingar, að ríkið hafi á sér brotið, skuli þeir höfða mál gegn ríkinu (en Flokkurinn hefur skipað alla dómara í Hæstarétt svo lengi sem elstu menn muna).

Kjartan Ólafsson, fyrrvrerandi ritstjóri og alþingismaður, skrifar í miðopnugrein í Morgunblaðinu í morgun að stjórnarskárvarinn réttur til friðhelgi einkalífs hafi verið brotinn á grófasta hátt þegar símar á samtals 32 heimilum hér á landi voru hleraðir vegna óska frá stjórnvöldum, í samtals sex hlerunarlotum á umræddu árabili.

Fer Kjartan þess meðal annars á leit í grein sinni að núverandi dómsmálaráðherra biðji alla þá sem brotið var á með þessum hætti afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Og svar hins núverandi dómsmálaráðherra við því að biðjast afsökunar á glæpastarfsemi fyrirrennara sín í embætti dómsmálaráðherra er einfaldlega NEI.

Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni.

Ætli öll ríkisstjórnin sé af sama meiði?

 

 

Nokkur óhjákvæmileg bannorð til að koma í veg fyrir "hneyksli og "einelti"


“Einelti” og “hneyksli” voru orðin sem forsætisráðherra notaði í þættinum “Ísland í dag” um það nýmæli sem Stöð 2 hefur tekið upp í fréttamennsku á Íslandi, sem sé að minna stjórnmálamenn og flokka á kosningaloforð þeirra eins og að afnema EFTIRLAUNAÓSÓMANN og spyrja um efndir. (Þátturinn "Ísland í dag" verður héðan í frá að sjálfsögðu sendur út undir nafninu "Ísland 1984").

Ef þessu “hneyksli” fer ekki að ljúka og “eineltið” heldur áfram má gera ráð fyrir því að lög verði sett sem banni fjölmiðlum og almenningi að taka sér í munn orð eins og EFTIRLAUNAÓSÓMI, KOSNINGALOFORÐ, HVENÆR, AF HVERJU og ekki verði leyft að fjalla um stjórnmálamenn yfirleitt og Ingibjörgu Sólrúnu sérstaklega nema í jákvæðu samhengi. Einnig verður bannað að taka sér í munn orðin SEÐLABANKI, ÓHÆFUR og 500 MILLJARÐA NEYÐARLÁN TIL AÐ BJARGA RASSGATINU Á BÖNKUNUM OG DAVÍÐ ODDSSYNI.

Áfram verður þó heimilt að strá blómum fyrir fætur formanns Samfylkingarinnar og skrifa lofgreinar í Blaðið um formann Flokksins. Sömuleiðis verða drottningarviðtöl leyfð við þessa aðila.

Að öðru leyti verður tjáningarfrelsi ekki skert – að sinni.

P.S. Í athugun er einnig að banna að minnast á Árna Mathiesen, Grímseyjarferju, Keflavíkurflugvöll, Steina litla Davíðs, hvalveiðar og Vestfjarðaviðundrið Einar sjávarlandbúnaðarráðherra.

sunnudagur, 25. maí 2008

Til BBs og annarra áhugamanna um rafvætt ofbeldi

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fjallar enn um raflost-byssuna taser á bloggi sínu í dag, og nefnir til tvo neikvæða menn, Jónas Kristjánsson og Þráin Bertelsson, sem andstæðinga þess að venjulegir lögreglumenn fái þetta þarfaþing sem drepið hefur fleiri hundruð manns - sem annars væru á lífi í dag - til þess að draga úr hættum á starfsvettvangi sínu.

“Taser” stendur fyrir: "Thomas A. Swift Electric Rifle", Thomas A. Swift er uppdiktuð unghetja úr vísindaskáldsögum um Tom Swift eftir ýmsa höfunda.

Svo að skoðun mín megi vera sem skýrust á þessu fyrirbæri þá tel ég af og frá að vopna hina venjulegu eftirlitslögreglu með þessu vopni. Ef kylfur og liðsauki duga ekki við almennt eftirlit er heimilt að vopna lögregluna með alvöruskotvopnum, svo sem Glock-skammbyssum sem eru ljómandi góð áhöld.

Ef lögreglunni verður heimilað að bæta taser í hið almenna vopnabúr sitt mun koma að því fyrr en síðar að umdeilt verður hvort notkun í einstöku tilfelli hafi verið réttlætanleg, ekki síst ef sá sem fyrir handtökunni og raflostinu verður lifir handtökuna ekki af.

Hvert nýtt vopn sem bætist í vopnabúr hinnar almennu lögreglu leiðir til þess – þótt það sé ekki sanngjarnt – að aðilar sem telja sig vera á öndverðum meiði við löggæsluna munu líka bæta við vopnabúr sín. Taser-raflostbyssur er hægt að kaupa eftirlitslaust víða um lönd, og ef lögreglan segir að þessi tæki séu hættulaus er erfitt að rökstyðja að almenningur megi ekki eiga og bera þetta meinlausa áhald sér til skemmtunar.

Varðandi alþjóðavæðingu íslenskrar glæpastarfsemi skiptir taser engu máli. Engum dettur í hug að senda lögregluna óvopnaða gegn þungvopnuðum glæpalýð. Til þess að taka á slíkum glæpaklíkum höfum við sérsveitina sem við getum kallað á vettvang og hún er sem betur fer betur útbúin en svo að hún þurfi á taser að halda til að geta sinnt skyldustörfum sínum.

Andstaða mín gegn taser byggist á að ég til heimskulegt að bæta umdeildum vopnum í vopnabúr hinnar almennu lögreglu. Taser er vopn og meinlaust vopn er rökleysa. Það er sjálfsagt að lögreglan grípi til þeirra vopna sem duga til að kveðja niður glæpastarfsemi á landinu, en aukinn vopnaburður lögreglu á Íslandi mundi eins og alls staðar annars staðar leiða til aukins vopnaburðar meðal þeirra sem telja sig eiga í útistöðum við lögregluna.

Eftir því sem ég þekki til meðal íslensku lögreglunnar hefur hún á að skipa fjölmörgum skynsömum og mannúðlegum starfskröftum. Að mínu áliti er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gróflega undirmönnuð og að hluta til skrifast það á reikning hins mislukkaða embættis Ríkislögreglustjóra sem hefur blásið út engum til gagns frekar en púkinn á fjósbitanum forðum. Hvaða öflum sá aðili þjónaði á sínum tíma kom ekki löggæslu við heldur átökum milli grundvallargildanna ills og góðs, eins og á okkar tímum.

Íslenskum löggæslumönnum sendi ég kveðju Guðs og mín og bendi á að hlutverk lögreglunnar er að draga úr ofbeldi en ekki að auka það.

laugardagur, 24. maí 2008

Enn er jarmað um taserinn



„Aukin harka einkennir heim afbrota hér á landi. Jafnframt er ljóst að starf lögreglu er nú mun hættulegra en áður var," segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri um stöðu þessara mála hér á landi í Fréttablaðinu.

Predikun aðstoðarríkislögreglustjóra virðist vera að hræða fólk með því að erlendar glæpamafíur séu að koma sér upp aðstöðu hér á landi og sendifulltrúum, eins og er siður allra kapítalískra samfélaga sem trúa á alþjóðavæðingu og markaðssókn. 

Lögregla víða um heim hefur komist að þeirri niðurstöðu að taser (þótt þetta sé sniðugt áhald) dugir ekki til að fækka alþjóðlegum glæpasamtökum.

Verið óhrædd


Verið óhrædd þrátt fyrir alla ógnina sem sögð er stafa af útlendingum sem dvelja hér á landi.


5 ára gömul sonardóttir mín eyðir 7 til 8 tímum í fjölmenningarlegu samfélagi 5 daga í viku. Hún er nemandi í leikskólanum Njálsborg.

Kennarar hennar eru af 5 mismunandi þjóðernum og nemendurnir eru af 21 þjóðerni.

Skólastarfið gengur einstaklega vel fyrir sig. Kennararnir eru góðir og þolinmóðir við börnin, og börnin mæta glöð og full tilhlökkunar á hverjum degi.

Þegar sonardóttir mín lýkur námi sínu á Njálsborg og heldur á vit næsta verkefnis sem veröldin ætlar henni mun hún ekki vera hrædd við útlendinga. Reynsla hennar af þeim er í stuttu máli sú að þeir séu alveg eins og Íslendingar sem eru stundum geðvondir á morgnana og vilja ekki borða grautinn sinn, en það kemur sjaldan fyrir.

Ef enginn stríðir neinum þá eru dagarnir skemmtilegir á Njálsborg, enda eru allir sem þar starfa og læra ósköp venjulegir Reykvíkingar á því herrans árið 2008.

P.S. Blóðið í öllum er rautt og við þurfum öll plástur þegar við meiðum okkur.

föstudagur, 23. maí 2008

Pappírsbrúðkaup hjá Ingu og Geira


Ár er nú liðið síðan Geir Haarde fór heim með sætustu stelpunni sem hann fann á stjórnarmyndunarballinu og halda þau nú upp á pappírsbrúðkaup Flokksins og Samfylkingarinnar.


Þetta er rólegt hjónaband. Bæði hjónin hafa lag á því að fara út að skemmta sér sitt í hvoru lagi.
Ingibjörg Sólrún til að finna nýjar lausnir á deilum fyrir botni Miðjarðarhafs, agítera fyrir Íslandi í Öryggisráð Sameinuðu þjóða og útskýra fyrir útlendingum þörf Íslendinga til að drepa hvali til að svala blóðþorsta sínum. Auk þess stýrir hún vinnuhópi sem á að hanna virka ímynd Íslands í augum útlendinga.

Geir hefur aðallega gert sem allra minnst, minnugur þess að sá sem ekkert gerir gerir ekkert vitlaust. Til að spara tíma til að geta einbeitt sér að því að gera sem allra minnst hefur hann þó leigt sér einkaþotur. Einnig hefur hann hitt forystumenn Evrópusambandsins einn af öðrum til að útskýra fyrir þeim augliti til auglitis að hann vilji alls ekki ræða um Evrópusambandsaðild Íslands.

Ekki hefur gefist tími til að afnema eftirlaunaósómann, en tekist hefur að finna ýmiss ljón í veginum fyrir því að það verði nokkurn tímann hægt. Af varkárni sinni telja Geir og Inga að stjórnarskráin banni þeim að taka það aftur frá fólki sem það á sínum tíma misnotaði aðstöðu sína til að stela úr ríkissjóði.

Bæði eru þau hjónin mjög trúuð og leiða fram líf sitt í þeirri björtu sannfæringu að allt muni batna einhvern tímann og það af sjálfu sér, ef Lúðvík Bergvinsson verður til friðs og Árni Mathieson stillir sig um að gera fleiri stórskandala og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann haldi sig við lundaveiðar í sumar.  Gamall ættingi Geirs úr Flokknum, BÍBÍ dómsmálaráðherra hefur fengið að búa inni á ungu hjónunum í heilt ár með einkennisbúningasafn sitt og pöntunarlista yfir hergögn. Standa vonir til þess að hægt verði að koma honum í daggæslu einhvern tímann á næstunni í einhverri af þeim dagvistunarstofnunum sem utanríkisráðuneytið rekur í mörgum þjóðlöndum.

"Þú ert bara asni, Lúðvík"

Formaður þingflokks Samfylkingarinnar Lúðvík Bergvinsson vill báknið burt og stingur upp á að leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra og efla þess í stað hin ýmsu lögregluembætti á landinu.

BB dómsmálaráðherra er ekki hrifinn af þessu fikti í bákninu sem hann byggði og segir: 

„Mér finnst afstaða hans illa ígrunduð og frekar einkennast af fordómum en rökum og hið sama á almennt við um afstöðu hans til lögreglumála.“ 

Afstaða BÍBÍs hlýtur að byggjast á rökum, þótt þau komi hvergi fram; meðan afstaða Lúðvíks er illa ígrunduð og einkennist frekar af fordómum en rökum.

Snilldarsvar hjá hinum djúpvitra dómsmálaráðherra og hljóðar svo á mannamáli: "Þú ert bara asni Lúðvík."

Hugsanleg málamiðlun í þessu máli gæti verið sú að embætti Ríkislögreglustjóra yrði lagt niður en hann fengi að halda búningnum.

Að draga vitlausan lærdóm af augljósum hlut

Síðan það var dregið fram í dagsljósið að Breiðavík var hryllingsstaður, rekinn af vondu og óhæfu fólki hefur uppeldisheimilum fyrir börn og unglinga fækkað dag frá degi.


Ef svo fer sem horfir mun rekstur allra slíka heimila á landinu leggjast af, og þá sitja barnaverndarstarfsmenn uppi með fáa valkosti um vistun skjólstæðinga sem svo sannarlega þurfa á því að halda að einhver geti gert þeim lífið bærilegt um stund, að minnsta kosti.

Lærdómurinn sem á að draga af Breiðavík er að það þurfi að vanda til vals á því fólki sem starfar á slíkum heimilum, og að slík heimili eiga að vera fyrir börn og unglinga sem ekki hafa í önnur hús að venda vegna heimilisaðstæðna.

Það er órökrétt og vitlaus ákvörðun að leggja af rekstur "barna- og unglingaheimila" vegna Breiðavíkurmálsins. Rétta ákvörðunin hefði verið að rannsaka þau mistök og glæpi sem þar áttu sér stað, og nýta reynsluna til að hefja slíka starfsemi á hærra plan.

Dómsmálaráðuneyti verndar Geira í Goldfinger!


“Dómsmálaráðuneytið telur ósannað að fullyrðingar lögreglustjóra LRH þess efnis, að nektardansmeyjar séu oftast þolendur misneytingar, mansals og glæpa, eigi við um starfsemi Goldfinger. Hefur ráðuneytið því fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að synja Baltik ehf. um heimild í rekstrarleyfi til þess að fram fari nektardans í atvinnuskyni á Goldfinger.”

Þetta stendur á mbl.is í dag og auk þess er haft eftir Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni og talsmanni Geira í Goldfinger “að ekki hafi verið ætlun löggjafans að leggja í hendur einstakra umsagnaraðila að meta hvort nektardans sé „góður eða vondur“ eða hvar mannúðin eða almannahagsmunir liggi í málum sem þessum.

Hvað er það þá sem sem löggan á að meta? Hún ætti að þekkja mun á góðu og illu frá starfi sínu nætur og daga. Ef umsögn lögreglu verður ógild við að vera gildishlaðin þá er dómsmálaráðuneytið að vaða reyk í baráttu sinni fyrir því að súlustaðir njóti sömu velvildar og safnaðarheimili.

Ef dómsmálaráðuneyti Íslands heldur því fram enn þann dag í dag að nektardansmeyjar séu ekki “oftast þolendur misneytingar, mansals og glæpa” ættu þeir sem þar starfa að taka sosum einn dag í að afla sér upplýsinga um þessi mál erlendis frá – áður en ráðuneytið úrskurðar að Geiri í Goldfinger sé undantekningin sem sannar regluna. Það kemur sér örugglega vel fyrir Geira að eiga hauk í horni þar sem BÍBÍ í dómsmálaráðuneytinu er. 

Húrra fyrir lögreglustjóra LRH og starfsmönnum hans! Það getur verið að BÍBÍ og dómsmálaráðuneytið vilji vernda Geira en LRH vill vernda stúlkurnar og okkur fyrir aðfluttri skipulagðri glæpastarfsemi.

fimmtudagur, 22. maí 2008

Varnarmálastofnun gegn raunverulegum óvinum?


Tuttugu börn misstu mæður sínar af völdum eiturlyfja á síðasta ári, samkvæmt fréttum í Fréttablaðinu sem vitna í Barnavernd Reykjavíkur.

Á síðasta ári var 228 börnum komið í fóstur, 118 í varanlegt en 110 í tímabundið fóstur. Forsjársviftingu er þó einungis beitt í algjörum neyðartilvikum.

Ég hef engar tölur séð um hversu mörg börn misstu feður sína af völdum eiturlyfja á þessum tíma. 

Ef mæður hefðu dáið frá tuttugu börnum af völdum fuglaflensu hefði þjóðfélagið án efa brugðist við af öllum kröftum og gripið til varnaraðgerða.

Varnir gegn “terrorisma” verið stórefldar á undanförnum árum þótt hryðjuverk hafi ekki verið framin á Íslandi síðan árið 1615 þegar Ari lögreglustjóri í Ögri og sérsveit hans drápu hóp af baskneskum skipbrotsmönnum á Vestfjörðum.

Sömuleiðis hefur verið sett á laggirnar Varnarmálastofnun sem kostar milljarða þótt ekki sé beinlínis líklegt að Norðmenn eða Danir reyni að leggja Ísland undir sig á nýjan leik.

Hvar eru varnirnar gegn hinum raunverulega “terror”, þeirri plágu sem drepur fleiri ungmenni og skilur eftir sig fleiri munaðarlaus börn en nokkur plága sem hefur herjað á mannkynið síðan á tímum Svartadauða? Væri ekki ráðlegra að berjast gegn raunverulegum "óvinum" en ímynduðum? 

miðvikudagur, 21. maí 2008

Furðulegt sakamál


 “Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Jónas Gunnarsson í fimm mánaða fangelsi fyrir tvö þjófnaðarbrot. Annars vegar gerðist hann sekur um að hafa stolið súpu að verðmælti 250 krónur í verslun 10-11 í Austurstræti 22. febrúar síðastliðinn, en hann neytti hennar inni í versluninni án þess að borga fyrir hana. Tveimur dögum síðar var hann aftur á ferð í verslun Hagkaupa í Kringlunni þar sem hann stal Chef Marina Conac að veðmæti 769 krónur. Maðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsið árið 2005 og með brotum sínum rauf hann skilorð þess dóms.

            Þessa frétt las ég á dv.is.

            Ég þekki ekki téðan Jónas Gunnarsson en ég er reiðubúinn að veðja að þessi vesalings maður er sjúklingur fremur en glæpamaður. Fyrir sosum tvöhundruð árum hefði hann örugglega verið dæmdur til að hýðast 3x27 vandarhöggum – en 27 vandarhögg voru einhver magísk tala sem dómsmálayfirvöld til forna höfðu mikla trú á.

            Að dómstólar okkar árið 2008 skuli sóa tíma sínum í að dæma sjúklinga til fangelsisvistar er ofvaxið mínum skilningi. Ég hélt að það heyrði undir heilbrigðisráðuneytið að sjá sjúklingum fyrir aðhlynningu annars staðar en í fangelsum landsins.

            1.

            Ef ég hef á röngu að standa og Jónas Gunnarsson er forhertur glæpamaður og heill heilsu til líkama og sálar þá er hann örugglega lélegasti glæpamaður veraldar – að lenda í fimm mánaða fangelsi fyrir að stela súpu og súkkulaði að verðmæti 1019 krónur. Og þá væri þjóðþrifaverk að gera gamansama kvikmynd um svo fákænan glæpamann.

            2.

            Ef hann er hins vegar sjúklingur en ekki glæpamaður væri þjóðþrifaverk að gera alþjóðlega kvikmynd um land sem býr við dómskerfi sem fangelsar sjúklinga í stað þess að beina þeim þangað sem reynt er að líkna þeim.

            3.

            Ef vandamálið er fátækt en hvorki sjúkdómur né glæpahneigð hvar erum við þá á vegi stödd?

Tvö andlit íslenskra utanríkismála


Það er töluvert mikið í lagt hjá ekki stærra ríki en Íslandi að vera með tvær utanríkisstefnur í einu. Aðra í boði forseta Íslands og hina á vegum utanríkisráðuneytisins og í boði Flokksins.

            Persónulega líst mér heldur skár á utanríkisstefnu forsetans um samstarf smáríkja en mikilmennskudrauma utanríkisráðuneytisins og Flokksins um Öryggisráð, virka ímyndarhönnun og réttlætingu á hvaladrápi.

            Hins vegar er ég ekki sannfærður um ágæti þess að hafa tvær utanríkisstefnur og efast um að það sé fjárhagslega hagkvæmt að hafa tvær stofnanir í fullu starfi við að framfylgja þeim.

            Ef utanríkisráðherrann okkar tæki upp það nýmæli að hafa aðeins eina skoðun á hverju máli gæti vel farið svo að hægt væri að samræma stefnur utanríkisráðuneytisins og forsetaembættisins og fylgja færri stefnum eftir af tvöföldum krafti fyrir hálft verð.

Einnig mundi það gera útlendingum auðveldara að átta sig á Íslendingum ef við tækjum upp á því að segja oinberlega aðeins það sem við meinum og þjóðin vill.

þriðjudagur, 20. maí 2008

Vill gerast Ironmaster?

Sjávarútvegsráðherra: Hvalveiðiákvörðun skerpir ástir í stjórnarsamstarfinu

Í stað þess að láta sér duga hlutverk þorpsfíflsins í ríkisstjórninni virðist sjávarútvegsráðherra nú þyrsta í að taka að sér hlutverk “Ironmaster” í hinum einkennilega BSDM-leik Flokksins við Samfylkinguna.

mánudagur, 19. maí 2008

Ekki bara hvali heldur þjóðina líka...


Úr því að Samfylkingin er í friðunarhugleiðingum og vill forða 40 hrefnum frá grandi, væri þá ekki tilvalið í leiðinni að friða Íbúðalánasjóð og 300 þúsund Íslendinga fyrir bankagræðginni?

sunnudagur, 18. maí 2008

Greiningardeildir og Lottóið


"Enginn var með allar lottótölur réttar og verður fyrsti vinningur, sem var rúmar 13,6 milljónir króna, því fimmfaldur næst. Einn var með fjórar tölur réttar auk bónustölu og fær 226 þúsund krónur. Lottótölurnar voru 11, 15, 18, 26 og 27 og bónustalan var 3. Jókertölurnar voru 9 - 5 - 3 - 9 - 3."


Merkilegt að greiningardeildir bankanna skuli ekki spreyta sig í Lottóinu, svo talnaglöggar sem þær eru.

laugardagur, 17. maí 2008

Málefnaleg stjórnmálaumræða


Ég er svona heldur sammála Geiri forsætisráðherra um að það sé lítið varið í gagnrýni nema hún sé verulega góð - en þar tala ég náttúrlega sem rithöfundur en ekki sérfræðingur í efnahagsmálum og einn af leiðtogum þjóðarinnar.


Hvað gagnrýni í efnahagsmálum viðkemur er Geir miklu hortugri en ég gagnvart bókmenntafræðingum því að hann segir að "þeir sem gagnrýni aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum aðhyllist gamaldags hugsunarhátt."

Þetta er það hæsta sem alvarleg stjórnmálaumræða á Íslandi hefur náð að rísa á undanförnum mánuðum, og það langmálefnalegasta sem frá ríkisstjórninni hefur komið í langan tíma.


Kynlífssjálfboðaliða vantar á Listahátíð


Kynlífsgjörningur í uppnámi


Eitt af athyglisverðari atriðum Listahátíðar Reykjavíkur í ár er sambræðingur kynlífsráðgjafans Dr. Ruth og „ömmu gjörningalistarinnar“ Marinu Abramovic frá fyrrverandi Júgóslavíu. Gjörningur þeirra er hluti af Tilraunamaraþoni hátíðarinnar og fer fram á sunnudag í Listasafninu. Eitthvað hefur þeim gengið illa að ná saman um hvernig verkið eigi að vera og á föstudag var gjörningurinn í uppnámi og þær höfðu náð litlu sem engu samkomulagi.

Þetta stendur í Mogganum. Verst að Guðmundur í Byrginu skuli vera illa fjarri staddur góðu gamni, en áhugafólk um kynlíf ömmunnar dr. Ruth sem var á Bessastöðum í gær og Marínu Abramovic frá fyrrverandi Júgóslavíu lætur sig örugglega ekki vanta. 

Vonandi verða sjálfboðaliðar í hópnum svo að þessi merki viðburður falli ekki niður. Ekki er vitað hvort um listmaraþon er að ræða í kynlífisgjörningnum en betra er örugglega fyrir sjálfboðaliðana að vera í sæmilegri þjálfun.

Bjartsýni ríkjandi í lok hveitibrauðsdaga


Samhent stjórnvöld láta nú ermar lafa fram fyrir hendur. Hveitibrauðsdögum er lokið

DO vill losna við Íbúðasjóð en Jóhanna er staðráðinn í standa vörð um sjóðinn. Ingibjörg Sólrún vill jafna samkeppnisaðstæður á húsnæðismarkaði og nota íbúðalánasjóð sem snuð upp í grátandi bankadrengi.

Þorgerður Katrín vill þjóðaratkvæði um Efnahagsbandalagsviðræðu. BB vill ekki þjóðaratkvæði. Slíkt fyrirkomulag hefur reynst illa í Simbabe og sett leiðtoga landsins í nokkra klípu en Mugabe hefur ráðið Simbabve nokkurn veginn jafnlengi og Flokkurinn hefur ráðið Íslandi.

Lúðvík Bergvinsson vill láta leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra. BB vill taser-byssu handa hverjum lögreglumanna og stofna varalið. Steingrímur vill nærgæslu lögreglu en ekki sérsveitir og varaherlið.

Búið er að betla út aðgang að gjaldeyri í Seðlabönkum Norðurlanda okkur til bjargar þótt mörgum finnist að þessu norræna samstarfi þurfi að slíta sem fyrst. Árni Mathiesen gefur fyrirtækjum og hlutabréfaeigendum 60 milljarða undanþágu frá skatti.
Ingibjörg Sólrún telur það Davíð að kenna að við komumst ekki í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Valgerður Bjarnadóttir vill leggja niður EFTIRLAUNAÓSÓMANN en flestir aðrir vilja draga lappirnar í því máli og hafa áhyggjur af að stjórnarskráin heimili ekki Alþingi að afnema lög sem Alþingi setti.

Verðbólgan er um 12%. Og gengið sveiflast til eins og pilsfaldur peysufatakonu í fjörugum skottís.

Tími borgarstjórnar Reykjavíkur fer í að rífast um hvort Kobbi megi opna munninn um pólitík meðan hann starfar hjá borginni.

Að öðru leyti gengur allt vel hjá ríkisstjórninni og fjölmörg afbragðsgóð mál eru í pípunum.
Kínverjar eru öskuvondir út í Birgi Ármannsson fyrir að ætla til Tævan e stórhrifnir af Þorgerði Katínu sem ætlar að heiðra einræðisstjórnina með heimsókn á Olympíuleikana sem meirihluti Íslendinga vill að stjórnmálamenn sniðgangi.
Dylgjur ganga um að Ólafur F. sé klikkaður og Villi Þ. elliær, en lambhrútarnir og gimbrarnar úr Heimdalli við fulla andlega heilsu.
Magnús Hafsteinsson er búinn að afhjúpa Frjálslynda flokkinn sem höfuðvígi útlendingahaturs.

Að öðru leiti er allt í skínandi góðu lagi. Verst bara hvað Lárus Welding þarf að reka marga bankastarfsmenn fyrir mánaðamót svo að hann þurfi ekki að missa úr máltíð.

Allt eru þetta frekar lítil vandamál og ef menn gefa sér nógan tíma til að ræða þau er vel líklegt að þau leysist af sjálfum sér. 

Minniháttar græðgi

"Vísir, 16. maí. 2008 08:20

Risastórar kyrkislöngur ógna nú lífríki Flórída

mynd

Risastórar kyrkislöngur ógna nú lífríki Flórída. Þær geta gleypt hund í heilu lagi og fregnir hafa borist af einni slöngu sem reyndi að gleypa krókudíl."

Þetta er nú ekki mikil græðgi miðað við ákveðin fyrirbæri á Íslandi.

föstudagur, 16. maí 2008

"Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt..."


Á visir.is er ljómandi skemmtilegt viðtal við sjónvarpsþulu. Þar segir meðal annars:


"En sem betur fer hefur þetta verið frekar áreynslulaust enda brosir maður bara og heldur sínu striki ef eitthvað fer úrskeiðis. Þetta byggir jú allt á því að láta ekki á neinu bera," segir Anna Rún."

Þessi stúlka hefur alla burði til að verða bæði ráðherra og seðlabankastjóri ef hún fær ekki munnherkjur.

Rangur misskilningur með tilgang lögreglustarfa


 

Það er ánægjulegt að Lúðvík Bergvinsson skuli hafa bent Alþingi á að “löggæslan er fyrir fólkið í landinu” og það sé orðið tímabært að leggja niður hið útblásna embætti Ríkislögreglustjóra.

Löggæsla í lýðræðisríkjum er yfirleitt hugsuð til að vernda borgara í landinu og sjá til þess að þeir fari að lögum og reglum.

Í tíð núverandi dómsmálaráðherra og Ríkislögreglustjóra hefur sá misskilningur orðið augljósari með hverjum degi að þeir líta á tilgang með löggæslu að vernda yfirvöld fyrir fólkinu í landinu eins og tíðkast í einræðisríkjum.

 

Þennan misskilning þarf að lagfæra ef við ætlum að halda áfram að fikra okkur í lýðræðisátt.