laugardagur, 17. maí 2008

Bjartsýni ríkjandi í lok hveitibrauðsdaga


Samhent stjórnvöld láta nú ermar lafa fram fyrir hendur. Hveitibrauðsdögum er lokið

DO vill losna við Íbúðasjóð en Jóhanna er staðráðinn í standa vörð um sjóðinn. Ingibjörg Sólrún vill jafna samkeppnisaðstæður á húsnæðismarkaði og nota íbúðalánasjóð sem snuð upp í grátandi bankadrengi.

Þorgerður Katrín vill þjóðaratkvæði um Efnahagsbandalagsviðræðu. BB vill ekki þjóðaratkvæði. Slíkt fyrirkomulag hefur reynst illa í Simbabe og sett leiðtoga landsins í nokkra klípu en Mugabe hefur ráðið Simbabve nokkurn veginn jafnlengi og Flokkurinn hefur ráðið Íslandi.

Lúðvík Bergvinsson vill láta leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra. BB vill taser-byssu handa hverjum lögreglumanna og stofna varalið. Steingrímur vill nærgæslu lögreglu en ekki sérsveitir og varaherlið.

Búið er að betla út aðgang að gjaldeyri í Seðlabönkum Norðurlanda okkur til bjargar þótt mörgum finnist að þessu norræna samstarfi þurfi að slíta sem fyrst. Árni Mathiesen gefur fyrirtækjum og hlutabréfaeigendum 60 milljarða undanþágu frá skatti.
Ingibjörg Sólrún telur það Davíð að kenna að við komumst ekki í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Valgerður Bjarnadóttir vill leggja niður EFTIRLAUNAÓSÓMANN en flestir aðrir vilja draga lappirnar í því máli og hafa áhyggjur af að stjórnarskráin heimili ekki Alþingi að afnema lög sem Alþingi setti.

Verðbólgan er um 12%. Og gengið sveiflast til eins og pilsfaldur peysufatakonu í fjörugum skottís.

Tími borgarstjórnar Reykjavíkur fer í að rífast um hvort Kobbi megi opna munninn um pólitík meðan hann starfar hjá borginni.

Að öðru leyti gengur allt vel hjá ríkisstjórninni og fjölmörg afbragðsgóð mál eru í pípunum.
Kínverjar eru öskuvondir út í Birgi Ármannsson fyrir að ætla til Tævan e stórhrifnir af Þorgerði Katínu sem ætlar að heiðra einræðisstjórnina með heimsókn á Olympíuleikana sem meirihluti Íslendinga vill að stjórnmálamenn sniðgangi.
Dylgjur ganga um að Ólafur F. sé klikkaður og Villi Þ. elliær, en lambhrútarnir og gimbrarnar úr Heimdalli við fulla andlega heilsu.
Magnús Hafsteinsson er búinn að afhjúpa Frjálslynda flokkinn sem höfuðvígi útlendingahaturs.

Að öðru leiti er allt í skínandi góðu lagi. Verst bara hvað Lárus Welding þarf að reka marga bankastarfsmenn fyrir mánaðamót svo að hann þurfi ekki að missa úr máltíð.

Allt eru þetta frekar lítil vandamál og ef menn gefa sér nógan tíma til að ræða þau er vel líklegt að þau leysist af sjálfum sér. 

Engin ummæli: